Erlent samstarf

EDPB stefnir að nánara samstarfi við úrlausn stefnumarkandi mála

14.7.2022

Fundur EDPB 12. júlí 2022

Á fundi EDPB þann 12. júlí síðastliðinn samþykkti EDPB viðmið sem ætlað er að meta hvort mál sem varða vinnslu persónuupplýsinga yfir landamæri teljist vera stefnumarkandi fyrir samvinnu milli landa. Ráðið samþykkti einnig viðmið sem útlista nánar málsmeðferð slíkra mála. Að auki valdi EDPB fyrstu tilraunamálin sem verða notuð til að prófa þetta verkefni.

Mál sem hafa stefnumarkandi þýðingu eru fyrst og fremst mál er varða vinnslu persónuupplýsinga yfir landamæri innan EES og eru líkleg til að hafa í för með sér mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi skráðra einstaklinga í mörgum aðildarríkjum EES. Til að bera kennsl á stefnumarkandi mál ætti að taka tillit til eins eða fleiri eftirfarandi viðmiða:

  • · kerfislæg eða endurtekin vandamál í aðildarríkjum, sérstaklega mál sem varða almenn ákvæði löggjafarinnar, túlkun, beitingar og framfylgd þeirra;
  • · um er að ræða mál sem varðar skörun persónuverndarlöggjafar og annarrar löggjafar;
  • · mál sem hefur áhrif á fjölda skráðra einstaklinga í nokkrum aðildarríkjum;
  • · mál sem tekur til fjölda kvartana í nokkrum aðildarríkjum;
  • · mál sem varða grundvallaratriði sem falla undir stefnu EDPB;
  • · mál þar sem ákvæði persónuverndarlöggjafarinnar gefa til kynna að gera megi ráð fyrir mikilli áhættu, svo sem:
  •           vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga;
  •           vinnsla persónuupplýsinga um viðkvæma hópa, svo sem börn;
  •           aðstæður þar sem krafist er mats á áhrifum á persónuvernd (MÁP).

Innan ramma EDPB geta persónuverndarstofnanir lagt fram mál sem uppfyllir að minnsta eitt af þessum skilyrðum fyrir aðrar persónuverndarstofnanir. EDPB tekur lokaákvörðun um hvaða mál fara í þennan farveg.

Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin, verður samvinna milli stofnana sett í forgang og studd af EDPB. Þátttaka er frjáls og öllum persónuverndarstofnunum er heimilt að leggja fram tillögur. Sérstaklega verður lögð áhersla á að stofnanir skiptist á upplýsingum og vinni náið saman í upphafi. Meðferð þessara mála mun einnig fara fram í samræmi við málsmeðferðarreglurnar um samvinnu og samræmi, sbr. VII. kafla persónuverndarreglugerðarinnar. Með hliðsjón af ofangreindum viðmiðum samþykkti EDPB loks þrjú tilraunamál til að koma verkefninu af stað.

Fréttatilkynning EDPB



Var efnið hjálplegt? Nei