Erlent samstarf

Fundur EDPB 12. október

21.10.2022

70. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) var haldinn 12. október síðastliðinn.

Á fundinum samþykkti EDPB lista yfir þau atriði í innlendum stjórnsýslulögum sem ráðið telur þurfa að samræma á milli persónuverndarstofnana í þeim tilgangi að auðvelda eftirfylgni við persónuverndarlöggjöfina. Er þessi „óskalisti“ hluti af þeim lykilaðgerðum sem settar voru fram í Vínaryfirlýsingu EDPB um frekari samvinnu í apríl 2022. Listinn hefur verið sendur framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins til skoðunar.

Listinn fjallar meðal annars um stöðu og réttindi aðila stjórnsýslumáls, frestun á málsmeðferð, kröfur um aðild og frávísun kvörtunar, rannsóknarheimildir persónuverndarstofnana og framkvæmd samstarfsins.

EDPB samþykkti einnig álit um vottunarviðmið fyrir Europrivacy, sem persónuverndarstofnunin í Lúxemborg lagði fram. Þetta er í fyrsta skipti sem EDPB samþykkir evrópskt persónuverndarinnsigli samkvæmt 42. gr. persónuverndarreglugerðarinnar. Samþykki EDPB er enn eitt skrefið í átt að auknu samræmi löggjafarinnar á Evrópska efnahagssvæðinu. Persónuverndarinnsiglið mun gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Að lokum samþykkti EDPB yfirlýsingu um stafræna evru. Í yfirlýsingunni ítrekar EDPB mikilvægi þess að tryggja innbyggða og sjálfgefna persónuvernd. EDPB varar sérstaklega við notkun kerfisbundinnar staðfestingar og rakningar allra viðskiptavina og mælir með því að stafræna evran verði gerð aðgengileg bæði á netinu og utan þess, þannig að ekki verði hægt að rekja dagleg viðskipti sem og að leyfa fulla nafnleynd. Að lokum skorar EDPB á Seðlabanka Evrópu og framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins að efla opinbera umræðu um stafræna evrukerfið til að tryggja að það uppfylli ströngustu kröfur um persónuvernd.

Tengill á frétt EDPB



Var efnið hjálplegt? Nei