Fundur EDPB 12. september 2022
69. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) var haldinn
12. september síðastliðinn.
Á fundinum samþykkti EDPB yfirlýsingu vegna tillögu framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins um reglur um lögreglusamvinnu innan Evrópusambandsins. Tillagan miðar að því að efla löggæslusamstarf milli aðildarríkja, einkum upplýsingasamskipti milli lögbærra yfirvalda. Reglurnar eru byggðar á tillögum: Tillaga að Prüm II reglugerðinni, tillaga að tilskipun um upplýsingaskipti lögreglu og tillögu að tilmælum ráðsins um rekstrarhæft lögreglusamstarf.
Í yfirlýsingunni leggur EDPB til að kveðið verði á um þær tegundir og alvarleika glæpa sem gætu réttlætt sjálfvirka leit í gagnagrunnum aðildarríkja og að gerður verði skýr greinarmunur á persónuupplýsingum skráðra einstaklinga eftir mismunandi hópum, s.s. dæmda glæpamanna, grunaðra, fórnarlamba eða vitna skv. 6. grein löggæsluskipunarinnar. EDPB lýsir yfir áhyggjum af fyrirhugaðri sjálfvirkri leit og skiptum á lögreglugögnum með innleiðingu evrópska lögregluskrárkerfisins (EPRIS) en einnig á sjálfgefni miðlun persónuupplýsinga til Europol í gegnum SIENA-kerfið.
EDPB tók einnig ákvörðun um næsta umfjöllunarefni í samræmdum aðgerðum persónuverndarstofanna á Evrópska efnahagssvæðinu (e. coordinated enforcement framework) en það verðar tilnefningu og stöðu persónuverndarfulltrúa. Á næstu mánuðum mun fara fram vinna að tilgreina nákvæmlega umfang og efni athugunarinnar. Samræmdu aðgerðirnar fela í sér að meðlimir EDPB setja ákveðið viðfangsefni í forgang sem persónuverndarstofnanir í hverju landi vinna að – í samráði og samvinnu við systurstofnanir sínar. Niðurstöðum verður síðan safnað saman og þær greindar auk þess sem þeim verður fylgt eftir markvisst, bæði á landsvísu og á vettvangi Evrópusambandsins. Á síðasta ári hófst fyrsta samræmda aðgerðin innan EDPB en hún laut að notkun hins opinbera á skýjaþjónustum. Skýrsla um niðurstöður samræmdra aðgerða fyrir árið 2022 verður samþykkt fyrir árslok.