Fréttir

16. fundur Evrópska persónuverndarráðsins í Brussel 2.-3. desember 2019

5.12.2019

Dagana 2.-3. desember 2019 fór fram 16. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) en hann sitja fulltrúar allra persónuverndarstofnana innan EES og evrópsku persónuverndarstofnunarinnar (EDPS).

Á fundinum voru að venju fjölmörg atriði til umræðu en þau helstu voru:

Álit á skilyrðum fyrir vottun eftirlitsaðila með hátternisreglum í Bretlandi

EDPB samþykkti álit sitt í kjölfar þess að breska persónuverndarstofnunin (ICO) lagði fram drög að ákvörðun um skilyrði fyrir vottun eftirlitsaðila með hátternisreglum. Álitinu er ætlað að tryggja samræmingu og rétta beitingu þessara skilyrða hjá persónuverndarstofnunum innan EES. Í álitinu leggur EDPB til nokkrar breytingar á skilyrðunum í þeim tilgangi að tryggja samræmda beitingu á reglunum um vottun eftirlitsaðila.

Svar vegna endurskoðunar leiðbeininga um reglur um nethlutleysi (e. net neutrality)

EDPB samþykkti svar til evrópsks hóps eftirlitsaðila á sviði rafrænna fjarskipta (BEREC), sem óskað hafði eftir leiðbeiningum í tengslum við evrópsku persónuverndarlöggjöfina. Í svari EDPB er lýst yfir áhyggjum varðandi vinnslu upplýsinga um lén (e. domain name) og vefföng (e. URL) í þeim tilgangi að stýra netumferð og í þágu reikningagerðar (ómælt niðurhal, e. zero-rating offers).

Í svarinu eru netþjónustuveitendur (e. IAS) og BEREC, eftir því sem við á, hvattir til að skilgreina og sammælast um staðlaðar aðferðir til að stjórna netumferð sem ganga skemur, virka saman milli ólíkra netþjónustuveitanda og byggja ekki á notkun veffanga og léna.

Leiðbeiningar um mælikvarða fyrir réttinn til að gleymast í málum sem varða leitarvélar (1. hluti)

EDPB samþykkti drög að leiðbeiningum um mælikvarða fyrir réttinn til að gleymast í málum sem varða leitarvélar. Leiðbeiningarnar innihalda upplýsingar um túlkun á 17. gr. persónuverndarreglugerðarinnar hvað varðar heimildir og undantekningar vegna beiðna um aftengingu leitarniðurstaðna á leitarvélum. Hér er um að ræða uppfærslu á eldri leiðbeiningum frá 2014 frá 29. gr. vinnuhópnum (forvera EDPB) í tengslum við dóm Evrópudómstólsins um réttinn til að gleymast. Leiðbeiningarnar munu fara í samráðsferli en rétt er að taka fram að von er á öðrum leiðbeiningum um hvernig skuli meðhöndla kvartanir yfir því þegar beiðni um aftengingu leitarniðurstaðna er hafnað. 



Var efnið hjálplegt? Nei