Álit á notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis 2021 – Áminning vegna komandi kosninga
Persónuvernd hefur rannsakað notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis 2021. Í áliti af því tilefni er fjallað um vinnslu persónuupplýsinga til þess að afmarka markhópa og beina markaðssetningu að þeim. Álitið tekur til þeirra átta stjórnmálasamtaka sem fengu þingmenn kjörna í kosningunum og er markmið þess að kanna hvort stjórnmálasamtök hafi farið að fyrra áliti Persónuverndar um umrætt efni frá 5. mars 2020, þ.e. í tengslum við þingkosningar 2016 og 2017. Var athugun Persónuverndar varðandi kosningarnar 2021 afmörkuð við sjónarmið um annars vegar gagnsæi og hins vegar meðalhóf.
Almennt notuðust stjórnmálasamtök eingöngu við breytur mjög almenns eðlis, þ.e. aldursbil og grófa staðsetningu. Einn flokkur, þ.e. Samfylkingin, skar sig þó úr, einkum með víðtækri notkun persónusniða á grundvelli skráningar Facebook á áhugamálum notenda en einnig með notkun annars konar nethegðunarupplýsinga. Þá notaðist Viðreisn að nokkru við slíkar upplýsingar.
Ekki voru gerðar sérstakar athugasemdir við fræðslu sem stjórnmálasamtökin veittu, en almennt birtu þau persónuverndarstefnu á vefsíðu sinni og veittu auk þess upplýsingar samhliða auglýsingum. Hvað snerti notkun nethegðunarupplýsinga var talið að samþykki notenda þyrfti að liggja fyrir og að ábyrgð á upplýsingagjöf í tengslum við það lægi ekki aðeins hjá viðkomandi samfélagsmiðlum heldur einnig hjá þeim stjórnmálasamtökum sjálfum sem nýttu sér slíkar upplýsingar, þ.e. áðurnefndum tveimur flokkum.
Ekki var talið unnt að byggja á að samþykki skráðra einstaklinga hefði legið fyrir hjá þessum tveimur flokkum í samræmi við gagnsæiskröfur, en einnig var talið að líta yrði til nærgönguls eðlis umræddrar vinnslu. Að því virtu, svo og kröfu um að notkun persónusniða samrýmdist lýðræðislegum gildum, reyndi jafnframt á hvort meðalhófs hefði verið gætt.
Í ljósi þess að á samevrópskum vettvangi er enn beðið úrlausnar, sem skipta mun máli í þessu samhengi, tók Persónuvernd hins vegar fram að ekki gæfist tilefni til beitingar valdheimilda stofnunarinnar í þessu sambandi en minnti á mikilvægi þess að farið yrði að þeim sjónarmiðum sem lýst er í álitinu, óháð því hvaða samfélagsmiðlar væru notaðir hverju sinni.
Álit Persónuverndar má nálgast hér.
Fyrra álit Persónuverndar (frá 5. mars 2020) má nálgast hér.