Fréttir

Álit á notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis – Leiðbeiningar og tillögur

6.3.2020

Persónuvernd hefur rannsakað notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis 2016 og 2017. Í áliti af því tilefni er meðal annars fjallað um vinnslu stjórnmálasamtakanna á persónuupplýsingum til þess að afmarka markhópa og beina markaðssetningu að þeim. Álitið tekur til þeirra átta stjórnmálasamtaka sem sæti eiga á Alþingi.

Fyrir liggur að öll stjórnmálasamtökin notuðu persónuupplýsingar til að ná til skilgreindra hópa á samfélagsmiðlum á umræddu tímabili. Öll stjórnmálasamtökin notuðu Facebook, og flest einnig aðra samfélagsmiðla, svo sem Instagram og YouTube. Þá keyptu einhver stjórnmálasamtakanna auglýsingar á auglýsingaveitunni Google.ads.

Í tilvikum tvennra stjórnmálasamtaka voru einungis notaðar upplýsingar um aldur fólks og staðsetningu. Hjá öðrum stjórnmálasamtökum voru hópar skilgreindir með nákvæmari hætti út frá áhugasviði þeirra á samfélagsmiðlum. Áhugasviðin voru ýmist skráð af notendum sjálfum eða ákveðin af samfélagsmiðlinum út frá virkni notenda á miðlinum, svo sem því sem hann hafði líkað við, deilt eða sýnt áhuga á. Þannig beindu sum stjórnmálasamtök sérsniðnum skilaboðum til tiltekinna hópa kjósenda sem í ljósi persónusniða voru ýmist taldir líklegir til að kjósa þau eða vera óákveðnir (e. swing voters).

Fyrir liggur að sumar af þeim breytum sem stjórnmálasamtökin notuðu fólu í sér nokkuð nærgöngula rýni. Ekki verður séð að félagsmenn stjórnmálasamtakanna og kjósendur almennt hafi fengið nema takmarkaða fræðslu um það hvernig staðið væri að vinnslunni.

Þá liggur fyrir að netföng félagsmanna í tveimur stjórnmálasamtökum voru sett upp í viðmóti hjá Facebook. Í því fólst að netföngin voru tengd fyrirliggjandi upplýsingum þar og auglýsingar frá samtökunum sendar félagsmönnum á grundvelli þeirrar tengingar. Af upplýsingum á vef Facebook verður ráðið að gögnin séu dulkóðuð á vafra auglýsandans og að Facebook sjái því aldrei þessar upplýsingar.

Í áliti Persónuverndar er að finna meginniðurstöður um hvernig sú vinnsla sem hér um ræðir horfði við ákvæðum eldri laga um persónuvernd sem giltu í aðdraganda kosninga 2016 og 2017. Einnig setur Persónuvernd fram leiðbeiningar og tillögur um notkun persónuupplýsinga á samfélagsmiðlum í tengslum við kosningar til að tryggja að farið sé að lögum. Þá er m.a. fjallað um hnapp sem birtist sumum Facebook-notendum á Íslandi með áminningu um að kjósa í alþingiskosningunum 2017.

Lögð er á það áhersla í áliti Persónuverndar að vinnsla stjórnmálasamtaka á viðkvæmum persónuupplýsingum félagsmanna og kjósenda, svo sem um stjórnmálaskoðanir, verður að byggjast á afdráttarlausu samþykki einstaklinga fyrir vinnslunni. Þá er jafnframt gerð rík krafa um gagnsæi og fræðslu til hinna skráðu. 

Álit Persónuverndar má nálgast hér.

An english summary of the Opinion can be read here.



Var efnið hjálplegt? Nei