Birting áminningar um kosningar á Facebook
Persónuvernd hefur verið í samskiptum við Facebook í tengslum við birtingu áminningar á samfélagsmiðlinum um kosningadag á Íslandi (e. Facebook Election Day Reminder). Á síðasta ári leiðbeindi írska persónuverndarstofnunin Facebook um að gera ýmsar lagfæringar á framsetningu áminningarinnar í tengslum við kosningar þar í landi. Þá hefur Persónuvernd áður fjallað um aðkomu fyrirtækisins að kosningum á Íslandi í áliti sínu frá 5. mars 2020 um notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar.
Áminningin mun birtast þeim sem hafa aldur til að kjósa og eru staðsettir á Íslandi á kosningadag. Þar mun koma fram áminning um að kosningadagur sé í dag og tengill á vefsvæðið www.kosning.is.
Eftir leiðbeiningar frá írsku persónuverndarstofnuninni breytti Facebook framsetningu áminningarinnar. Persónuvernd hefur fengið staðfest frá Facebook að eingöngu sé unnið með upplýsingar á borð við tímastimplun og aðrar tæknilegar upplýsingar svo að áminningin birtist á viðeigandi hátt auk lýðfræðilegra upplýsinga. Þá hefur komið fram hjá Facebook að áminningin birtist eingöngu þeim sem staðsettir eru á Íslandi og hafa aldur til að kjósa. Loks hefur fyrirtækið staðfest að engar upplýsingar verði notaðar í markaðssetningartilgangi í tengslum við virkni áminningarinnar.
Persónuvernd vekur auk þess athygli á að hægt er að fjarlægja áminninguna með auðveldum hætti með því að ýta á „x-merkingu“ í einu horni áminningarinnar.