Fréttir

EDPB tekur fyrstu ákvörðunina á grundvelli 65. gr. pvrg.

9.12.2020

Á 41. fundi sínum þann 9. nóvember síðastliðinn tók Evrópska persónuverndarráðið (EDPB) sína fyrstu ákvörðun á grundvelli 65. gr. persónuverndarreglugerðarinnar (úrlausn deilumála). Ákvörðunin, sem er bindandi, lýtur að úrlausn deilumáls í kjölfar þess að lögð voru fram drög að ákvörðun írsku persónuverndarstofnunarinnar (DPC), sem forystustjórnvalds, í máli sem varðar Twitter International Company (TIC). DPC bárust andmæli hlutaðeigandi persónuverndarstofnana gegn drögunum sem hún taldi að ekki væri þörf á að bregðast við og fór málið því til ráðsins.

DPC gaf út drögin að ákvörðuninni í kjölfar frumkvæðisathugunar og rannsóknar á TIC, vegna tilkynningar um öryggisbrest sem barst stofnuninni þann 8. janúar 2019. Drögunum var deilt með hlutaðeigandi persónuverndarstofnunum í maí 2020 í samræmi við 3. mgr. 60. gr. persónuverndarreglugerðarinnar. Hlutaðeigandi stofnanir höfðu fjórar vikur til að leggja fram sín andmæli. Andmælin lutu m.a. að umfangi rannsóknarinnar, stöðu TIC sem ábyrgðaraðila og fjárhæð sektar.

DPC hafnaði andmælum hlutaðeigandi persónuverndarstofnananna með vísan til þess að þau væru ekki viðeigandi og rökstudd. Málinu var því vísað til úrlausnar Evrópska persónuverndarráðsins samkvæmt 65. gr. persónuverndarreglugerðarinnar. Hefur DPC verið tilkynnt formlega um niðurstöðuna. Ber DPC að taka endanlega ákvörðun á grundvelli ákvörðunar ráðsins án tafar og í síðasta lagi innan mánaðar. Þegar forystustjórnvaldið, hér DPC, hefur tekið sína ákvörðun skal ráðið upplýst um það. Í kjölfar þess verður ákvörðun ráðsins birt á vef þess.

Fréttatilkynning ráðsins

Frekari upplýsingar um málsmeðferð ráðsins skv. 65. gr. pvrg. 



Var efnið hjálplegt? Nei