Fréttir

Meta sektað um 251 milljón evra fyrir öryggisbrest

19.12.2024

Írska persónuverndarstofnunin (DPC) birti þann 17. desember sl. úrskurð sinn í kjölfar tveggja rannsókna á Meta Platforms Ireland Limited (MPIL). Rannsóknirnar hófust árið 2018 í kjölfar öryggisbrests sem hafði áhrif á um 29 milljónir Facebook-notenda, þar af þrjár milljónir notenda í Evrópu.

Bresturinn laut að ólögmætri notkun þriðja aðila á notendaauðkennum (e. user tokens) sem veittu þeim aðgang að persónuupplýsingum á borð við nöfn, netföng, símanúmer, fæðingardag, staðsetningargögn, veggfærslur og trúarskoðanir.

DPC sektaði Meta um samtals 251 milljón evra fyrir brot á reglum almennu persónuverndarreglugerðarinnar.

Þessi úrskurður undirstrikar ábyrgð fyrirtækja á að tryggja öryggi persónuupplýsinga þar á meðal með innbyggðri- og sjálfgefinni persónuvernd í hönnun kerfa sinna.

Fréttatilkynning DPC (á ensku).



Var efnið hjálplegt? Nei