Fréttir

Notkun dróna og persónuvernd

28.11.2014

Drónar hafa verið áberandi í umræðunni um persónuvernd í Evrópu síðastliðnar vikur og mánuði. Í auknum mæli hefur þessi tækni staðið einstaklingum til boða sem nota þá t.d. til myndatöku á stöðum sem myndavélar ná yfirleitt ekki til. Að gefnu tilefni minnir Persónunvernd á að við vinnslu myndefnis sem tekið er með aðstoð dróna er mikilvægt, sem endranær, að huga að sjónarmiðum tengdum persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Drónar (flygildi) hafa verið áberandi í umræðunni um persónuvernd í Evrópu síðastliðnar vikur og mánuði. Drónar eru ómannaðar flugvélar eða þyrlur sem stýrt er af einstaklingi. Í auknum mæli hefur þessi tækni staðið einstaklingum til boða sem nota þá t.d. til myndatöku á stöðum sem myndavélar ná yfirleitt ekki til. Að gefnu tilefni minnir Persónunvernd á að við vinnslu myndefnis sem tekið er með aðstoð dróna er mikilvægt, sem endranær, að huga að sjónarmiðum tengdum persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Eðli málsins samkvæmt geta drónar tekið myndir eða myndbönd á stöðum sem ljósmyndari gæti ekki haft aðgang að og þarf því að gæta friðhelgi einkalífs þeirra einstaklinga sem gætu komið fyrir á myndefninu.

Þegar myndefni er tekið upp með dróna á almannafæri ber að gæta ýmissa atriða. Æskilegt væri að afla samþykkis þeirra einstaklinga sem koma fyrir á myndefninu og á það sérstaklega við ef andlit einstaklinganna eða aðrar persónugreinanlegar upplýsingar koma fyrir á myndefninu. Þá er mikilvægt að taka tillit til þess umhverfis sem myndefnið er tekið upp í. Ef taka á myndir af almannafæri þar sem einstaklingar telja sig eiga að njóta friðhelgi einkalífs ber að taka tillit til þess. Ef birta á myndefnið, t.d. á Internetinu, gilda um það sérstök sjónarmið sem mikilvægt er að kynna sér. Þá ber að gæta öryggi upplýsinganna, t.d. hvort myndefnið sé læst á einhvern hátt eða geymt á öruggum stað.

Í frétt á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB kemur fram að til stendur að setja reglur um notkun dróna, þar sem gerðar verða strangar kröfur um öryggi og ábyrgð við notkun dróna á almannafæri. Framkvæmdastjórn ESB hefur hafið greiningu á þeim álitamálum sem snúa að notkun dróna og mun tillaga til lagasetningar vera borin undir aðildarríki og framkvæmdastjórnina en stefnt er að því að niðurstöður þessarar vinnu liggi fyrir árið 2016.

Þá vill Persónuvernd benda á að í einhverjum tilfellum getur myndataka fallið undir reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafæna vöktun. Rafræn vöktun telst vera vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum sem fram fer með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði. Ef myndataka fer fram með dróna og er viðvarandi eða endurtekin reglulega getur hún fallið undir reglur nr. 837/2006. Þá ber að tilkynna myndatökuna til Persónuverndar nema ef hún fer fram í öryggis- eða eignavörslutilgangi. Í frétt á heimasíðu Flugmálastjórnar Íslands kemur fram að Samgöngustofu berast í auknum mæli fyrirspurnir um starfrækslu ómannaðra loftfara. Af því tilefni vinni stofnunin nú að ritun sértækra reglna um ómönnuð loftför. Þá segir að um ómönnuð loftför gildi almennt sömu reglur og um mönnuð loftför, þ.m.t. lög nr. 60/1998, um loftferðir, og reglugerð nr. 770/2010, um flugreglur. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Flugmálastjórnar Íslands.



Var efnið hjálplegt? Nei