Fréttir

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um öflun fjárhagsupplýsinga einstaklings

21.9.2015

Hinn 7. júlí 2015 felldi Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) dóm um öflun yfirvalda í San Marínó á fjárhagsupplýsingum einstaklings í þágu rannsóknar sakamáls, en viðkomandi hafði ekki stöðu sakbornings í málinu. Þar sem hann átti ekki kost á réttarúrræði til að kæra upplýsingaöflunina var talið brotið gegn grunnreglunni um friðhelgi einkalífs.
Hinn 7. júlí 2015 felldi Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) dóm í máli M.N. o.fl. gegn San Marínó. Stefnendur voru alls fjórir ítalskir ríkisborgarar, en málinu var vísað frá varðandi þrjá þeirra þar sem þeir höfðu ekki höfðað mál innan tilskilins frests (sjá 47. efnisgrein dómsins). Eftir stóð þá málshöfðun M.D. sem var álitin komin fram með réttum hætti og var því leyst úr máli hans (sjá 56. efnisgrein dómsins). Tilefni málshöfðunarinnar var öflun gagna um fjármál M.N. í tengslum við ítalska lögreglurannsókn á meintum efnahagsbrotum sem öll voru rakin til tiltekins fyrirtækis, skráðs í San Marínó. Vegna þeirrar rannsóknar sendu ítölsk yfirvöld beiðni til yfirvalda í San Marínó um gögn sem varpað gætu ljósi á málið. Ákvað þarlendur dómstóll að samþykkja þá beiðni. Nánar tiltekið ákvað hann að fram færi rannsókn sem næði til allra þarlendra fjármálastofnana og hefði það að markmiði að afla upplýsinga og gagna, óháð því hvar þau væri að finna, varðandi tiltekna bankareikninga, sem og aðra bankareikninga sem unnt væri að tengja við áðurnefnt fyrirtæki beint eða óbeint eða tilteknum einstaklingum, tilgreindum í ákvörðuninni. Með vísan til framangreinds var upplýsingum safnað um alls 1.452 einstaklinga sem allir fengu tilkynningu þar að lútandi, þ. á m. M.N. (sjá 7.-12. efnisgrein dómsins). Hann kærði öflun upplýsinga um sig til dómara í kærumálum á sviði sakamálaréttarfars, m.a. á þeim grundvelli að hann hefði enga aðkomu átt að umræddum efnahagsbrotum. Niðurstaðan varð sú hjá fyrrgreindum dómara, sem og á tveimur kærustigum, að M.N. hefði ekki aðild (e. juridical interest) og var kæru hans því vísað frá (sjá 12.-16. efnisgrein dómsins). Í kjölfar þess stefndi M.N. San Marínó fyrir MDE fyrir brot gegn tilteknum ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), þ. á m. 8. gr. sáttmálans um friðhelgi einkalífs og bréfaskipta.

MDE taldi upplýsingar um fjármál M.N. vera persónuupplýsingar um hann, óháð því hvort þær teldust viðkvæmar eða ekki. Það að þær vörðuðu starf hans eða viðskipti (e. of a professional or business nature) breytti því ekki. Taldi MDE  því að M.N. hefði orðið fyrir skerðingu á friðhelgi einkalífs síns og bréfaskipta. Þá taldi MDE að dómstóllinn væri til þess bær að skera úr um það hvort þessi einkalífsskerðing samrýmdist MSE (sjá 51.-56. efnisgrein dómsins). Við mat á því fór dómstóllinn yfir kröfur 2. mgr. 8. gr. sáttmálans þar sem fram kemur (1) að mælt þarf að vera fyrir um skerðingu í lögum, (2) að skerðingin þarf að byggjast á lögmætum hagsmunum, sbr. upptalningu aftast í ákvæðinu, og (3) að skerðingin þarf að vera nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. MDE taldi fyrsta skilyrðinu vera fullnægt, þ.e. í ljósi ákvæðis um undanþágu frá þagnarskyldu fjármálastofnana vegna rannsóknar sakamála í tillteknum milliríkjasamningi San Marínó og Ítalíu, sem og tiltekinnar löggjafar í San Marínó. Þá taldi MDE öðru skilyrðinu vera fullnægt, þ.e. þar sem umræddri upplýsingaöflun hefði verið ætlað að firra glæpum, vernda frelsi og réttindi annarra og stuðla að efnalegri farsæld þjóðarinnar, en allt eru þetta atriði sem tilgreind eru í 2. mgr. 8. gr. MSE. Hvað þriðja skilyrðið varðar leit dómstóllinn til þess að svo að skerðing teldist nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi yrðu menn að eiga kost á réttarúrræðum til úrlausnar um hvort skerðingin teldist lögmæt, en með slíkum réttarúrræðum mætti afmarka skerðingar þannig að þær gengju ekki lengra en nauðsyn krefði (sjá sérstaklega um þetta atriði 83. efnisgrein dómsins). Slíkt úrræði hefði staðið ákærðum í umræddu sakamáli til boða, sem og viðkomandi fjármálastofnunum, en ekki öðrum sem sæta þurftu öflun upplýsinga um sig, þ. á m. M.D. Þá hefði það ekki getað tryggt hagsmuni M.D. að höfða einkamál þar sem ríkisstjórn San Marínó hefði ekki sýnt fram á að úrlausn í slíku máli hefði fengist innan hæfilegra tímamarka, né heldur að dómari í einkamáli hefði getað ógilt ákvörðun um umrædda gagnaöflun eða girt fyrir afleiðingar hennar. Umræddu skilyrði hefði því ekki verið fullnægt hvað M.D. varðaði og þar með brotið gegn réttindum hans samkvæmt 8. gr. MSE (sjá 74.-85. efnisgrein dómsins). Voru M.D. því dæmdar bætur á grundvelli 41. gr. MSE (sjá 99.-108. efnisgrein dómsins). 

Einnig var óskað úrlausnar MDE um hvort farið hefði verið að 1. og 3. mgr. 6. gr. MSE, en eins og nánar er rökstutt í dómnum taldi dómstóllinn ekki ástæðu til að taka efnislega afstöðu til umkvörtunarefna tengdra þeim ákvæðum (sjá 86.-88. gr. dómsins).


Dóminn má sjá hér.


Var efnið hjálplegt? Nei