Fréttir

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fellt dóm varðandi varðveislu breskra stjórnvalda á fingraförum, lífsýnum og arfgerðarupplýsingum.

9.1.2009

1.

Málsatvik

Hinn 4. desember 2008 felldi Mannréttindadómstóll Evrópu dóm í máli S. og Marpers gegn Bretlandi (mál nr. 30562/04 og 30566/04). Bresk stjórnvöld höfðu varðveitt fingraför þeirra, lífsýni úr þeim og upplýsingar um arfgerð þeirra, sem aflað var í tengslum við rannsókn sakamáls, þrátt fyrir að þeir hefðu ekki verið sakfelldir. S., fæddur 1989, var handtekinn í janúar 2001 vegna gruns um ránstilraun en var sýknaður í júní s.á. Marper, fæddur 1963, var handtekinn í mars 2001 vegna gruns um áreitni við sambýliskonu sína, en mál á hendur honum var fellt niður í júlí s.á. S. og Marper fóru þess báðir á leit að fingraförum þeirra, lífsýnum og arfgerðarupplýsingum yrði eytt, en því var hafnað. Breskir dómstólar staðfestu þá niðurstöðu og höfðuðu þeir þá mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Héldu þeir því fram að bresk lög, sem heimila varðveislu fingrafara, lífsýna og arfgerðarupplýsinga úr mönnum, sem ekki hafa verið sakfelldir fyrir refsiverðan verknað, brytu gegn m.a. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt lögunum er varðveislan heimil ef fingraför og lífsýni hafa verið tekin við rannsókn sakamáls þrátt fyrir að rannsóknin hafi ekki leitt til sakfellingar. Fram kemur í dóminum að Bretland er eina aðildarríki Evrópuráðsins sem heimilar varðveislu við þær aðstæður (47. mgr.).

2.

Skerðing á friðhelgi einkalífs

Mannréttindadómstóllinn fjallaði sérstaklega um það hvernig varðveisla umræddra upplýsinga gæti falið í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs. Greindi hann þar á milli varðveislu lífsýna og arfgerðarupplýsinga annars vegar og varðveislu fingrafara hins vegar.

Um varðveislu lífsýna er vísað (70. mgr.) til dóms Mannréttindadómstólsins í máli Van der Velden gegn Hollandi (mál nr. 29514/05, ECHR 2006), en þar komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að kerfisbundin varðveisla lífsýna fæli í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs í ljósi þeirra nota sem hafa mætti af lífsýnum í framtíðinni. Taldi dómstóllinn ekki ástæðu til að hverfa frá þessari afstöðu og vísaði í því sambandi til hraðrar þróunar erfða- og upplýsingatækni (71. mgr.). Einnig vísaði dómstóllinn til þess að nú þegar hafa lífsýni að geyma margs konar viðkvæmar persónuupplýsingar um einstaklinga, þ. á m. um heilsu þeirra, sem gætu einnig snert ættingja þeirra. Varðveisla lífsýna fæli því sem slík í sér íhlutun í friðhelgi einkalífs (72. og 73. mgr.). Um arfgerðarupplýsingar sagði dómstóllinn að þær mætti hafa til fleiri nota en þess eins að auðkenna einstaklinga (en breska ríkisstjórnin sagði það vera tilganginn með varðveislu þeirra). Einnig mætti m.a. nota þær til að finna skyldleika milli einstaklinga og komast að því hver þjóðernisuppruni þeirra væri (74. til 76. mgr.). Taldi dómstóllinn því að bæði varðveisla lífsýna og arfgerðarupplýsinga fæli í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs (77. mgr.).

Um fingraför segir að þau hafi ekki að geyma jafnmiklar upplýsingar og lífsýni og arfgerðarupplýsingar (78. mgr.). Rakin eru dæmi úr dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins þar sem fjallað var um fingrafaraupplýsingar, sem og ljósmyndir af fólki, og komist að þeirri niðurstöðu að varðveisla þeirra fæli ekki í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs (79., 80. og 82. mgr.). Í einu málinu (82. mgr.) virtist sú niðurstaða þó byggjast á því að ekki hafði verið gripið til neinna ráðstafana til að auðkenna fólk á myndunum (sem teknar voru af mótmælaaðgerð) með vélrænni vinnslu persónuupplýsinga. Þá hefur mannréttindadómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að hljóðupptaka af rödd manns hafi falið í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs þar sem hún var notuð til að bera kennsl á hann (83. mgr.). Með vísan til þessara tveggja niðurstaðna, þess að nota má fingraför til að auðkenna einstakling við margs konar aðstæður, sem og þess að fingraförin voru varðveitt í miðlægum gagnagrunni til nota við rannsókn sakamála, taldi dómstóllinn að varðveisla þeirra fæli í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs þó svo að sú skerðing væri minni en þegar um ræddi varðveislu lífsýna og arfgerðarupplýsinga (84.-86. mgr.).

3.

Niðurstaða dómstólsins

Eins og rakið er í dómi Mannréttindadómstólsins frá 4. desember 2008 verður eftirfarandi þremur skilyrðum að vera fullnægt, samkvæmt 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans svo að heimilt sé að skerða friðhelgi einkalífs: (a) Lög mæli fyrir um skerðinguna; (b) hún hafi lögmætt markmið, þ.e. þjóni þjóðaröryggi, almannaheillum, efnalegri farsæld þjóðarinnar, því að firra glundroða eða glæpum, því að vernda heilsu manna eða siðgæði eða réttindi og frelsi annarra; og (c) skerðingin sé nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Mannréttindadómstóllinn taldi álitaefni varðandi það að lög skulu mæla fyrir um skerðingu vera mjög nátengd matinu á nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi. Því gerðist þess ekki þörf að fjalla sérstaklega um það hvort nægilega væri mælt fyrir um varðveislu umræddra upplýsinga í breskum lögum (99. mgr.). Dómstóllinn tók hins vegar efnislega afstöðu til þess hvort varðveislan þjónaði lögmætu markmiði. Taldi hann svo vera, en það að koma upp um og fyrirbyggja glæpi væri slíkt markmið (100. mgr.).

Að svo búnu vék dómstóllinn að því hvort varðveisla upplýsinganna væri nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Hann taldi það hafið yfir vafa að baráttan gegn glæpum, einkum skipulögðum glæpum og hryðjuverkum, væri að miklu leyti háð beitingu nútímatækni við rannsóknir og auðkenningu. Þá rifjaði dómstóllinn upp tilmæli, sem Evrópuráðið gaf út 1992, þ.e. tilmæli R(92)1, þess efnis að erfðavísindin komi að gagni í dóms- og refsivörslukerfinu (105. mgr.). Dómstóllinn benti hins vegar á að hann hefði, í því máli sem fyrir lægi, ekki þetta atriði til úrlausnar heldur hvort réttlættanlegt hefði verið að varðveita fingrafara- og erfðaefnisupplýsingar um stefnendur sem einstaklinga sem höfðu legið undir grun um refsivert brot en ekki verið sakfelldir (106. mgr.).

Dómstóllinn leit til þess hvernig framkvæmd og lögum væri háttað í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Hann minnti á meginreglur Evrópuráðsamnings um vernd persónuupplýsinga frá 28. janúar 1981 (nr. 108/1981), tilmæla Evrópuráðsins nr. R(87)15 um vernd persónuupplýsinga hjá lögreglu og áðurnefndra tilmæla þess nr. R(92)1 þess efnis að söfnun persónuupplýsinga skal þjóna málefnalegum tilgangi og að takmörk skulu vera við varðveislutíma slíkra upplýsinga (107., sbr. 41.-44. mgr.). Þá benti dómstóllinn á að flest aðildarríki gera það að skilyrði fyrir öflun lífsýna að um sé að ræða brot sem ekki teljast minniháttar og að eyða beri upplýsingum að tilteknum tíma liðnum frá sýknu eða niðurfellingu máls. Svo virtist sem aðeins í Englandi, Wales og á Norður-Írlandi (ekki í Skotlandi þar sem væru mun þrengri heimildir) væri heimiluð frambúðarvarðveisla fingrafara og erfðaefnisupplýsinga einstaklinga sem grunaðir hefðu verið um brot óháð aldri viðkomandi og því að hvaða broti grunurinn hefði beinst. Ekki yrði fram hjá því litið við úrlausn málsins að önnur aðildarríki en Bretland hefðu sett takmörk við varðveislu og notum slíkra upplýsinga sem hér um ræðir til að gætt yrði jafnvægis milli andstæðra hagsmuna (108.-112. mgr.).

Vísað var til þess í dóminum að Bretland hefði haldið því fram í málinu að varðveisla fingrafara, lífsýna og arfgerðarupplýsinga einstaklinga, sem ekki hafa gerst sekir um refsiverð brot, hefði reynst vera ómetanleg í baráttunni gegn glæpum eins og birtist í því að slík gögn hefðu verið notuð til að tengja bletti á glæpavettvangi við einstaka gerendur. Einnig var hins vegar vísað til þess sem haldið var fram af hálfu stefnenda að ekki hefði komið í ljós í hve mörgum tilvikum varðveislan hefði leitt sakfellingar, hvort umræddar upplýsingar hefðu verið forsenda þess að mál hefðu verið upplýst og hvort tenging bletta á glæpavettvangi við gerendur hefði því aðeins verið möguleg að varðveittar væru upplýsingar um arfgerð. Dómstóllinn tók undir þetta en taldi þó ljóst að varðveisla upplýsinganna hefði gagnast í baráttunni gegn glæpum. Til úrlausnar væri hins vegar hvort varðveislan samrýmdist meðalhófssjónarmiðum og væri nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi (115.-118. mgr.).

Í því sambandi gat dómstóllinn þess að hann væri sleginn (e. struck) yfir því hversu opin og ótakmörkuð lög um varðveislu fingrafara, lífsýna og arfgerðarupplýsinga væru í Englandi og Wales. Eðli ætlaðs brots og alvarleiki skipti ekki máli, né heldur aldur viðkomandi. Upplýsingar væru varðveittar um alla framtíð óháð eðli eða alvarleika ætlaðs brots og möguleikinn á að fá upplýsingum eytt væri mjög takmarkaður (119. mgr.). Bretland hefði haldið því fram að varðveislan hefði engin bein og veruleg áhrif á stefnendur nema því aðeins að í ljós kæmu tengsl þeirra við tiltekin brot. Dómstóllinn var ósammála því og sagði varðveislu upplýsinganna eina og sér hafa bein áhrif á einkalífshagsmuni þeirra hvað sem liði hugsanlegum notum sem höfð yrðu af upplýsingunum (121. mgr.). Sérstaklega leit dómstóllinn til hættunnar á því að einstaklingar í stöðu stefnenda hlytu sömu meðferð og sakfelldir einstaklingar. Hann minnti á regluna um að hver skal teljast saklaus uns sekt er sönnuð, en hún fæli m.a. í sér að ekki mætti fella grun á menn eftir að þeir hefðu verið sýknaðir. Þó svo að varðveisla upplýsinga fæli ekki í sér slíkt yrði að líta til þess að hún ýtti undir þann skilning stefnenda að þeir hlytu ekki meðferð sem saklausir menn (122. mgr.).

Dómstóllinn vísaði til þess að Bretland hefði haldið því fram að öflun fingrafara og lífsýna stefnenda tengdist því ekki að þeir voru grunaðir um refsiverð brot heldur væri ætlunin aðeins sú að stækka gagnagrunn með fingrafara- og arfgerðarupplýsingum svo að auðveldara yrði að bera kennsl á afbrotamenn. Þessi rök taldi dómstóllinn örðugt að fallast á þar sem fingraförum og lífsýnum sjálfboðaliða, sem veita þau að eigin vilja, væri eytt óskuðu þeir þess (123. mgr.). Þá fór dómstóllinn yfir sjónarmið varðandi varðveislu upplýsinga um einstaklinga sem væru ósjálfráða fyrir æsku sakir, en S. var það þegar atvik málsins urðu. Í því sambandi nefndi dómstóllinn 40. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem skyldar aðildarríki til að taka tillit til sérstakrar stöðu barna við meðferð sakamála, þ. á m. með því að gæta að friðhelgi einkalífs þeirra (124. mgr.).

Með vísan til framangreinds taldi dómstóllinn að við varðveislu breskra stjórnvalda á fingraförum, lífsýnum og arfgerðarupplýsingum stefnenda væri ekki gætt jafnvægis milli hinna andstæðu almannahagsmuna og einkahagsmuna og að farið hefði verið út fyrir það svigrúm sem er til skerðingar á réttinum til friðhelgi einkalífs samkvæmt 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því hefði verið brotið gegn því ákvæði sáttmálans (125. og 126. mgr.).





Var efnið hjálplegt? Nei