Fréttir

Birting upplýsinga um hlutabréfaeign einstaklinga

30.3.2009

Persónuvernd hefur svarað fyrirspurn um það hvaða reglur gildi um birtingu upplýsinga um hlutabréfaeign einstaklinga og því hvort safna megi slíkum upplýsingum og birta á opinberum vettvangi. Einnig svaraði Persónuvernd því hvort munur væri á birtingu upplýsinga um eign einstaklinga í almennum hlutafélögum sem eru í Kauphöll Íslands og þeirra eigna sem eru í öðrum einkahlutafélögum.

 

Persónuvernd hefur svarað fyrirspurn um það hvaða reglur gildi um birtingu upplýsinga um hlutabréfaeign einstaklinga og því hvort safna megi slíkum upplýsingum og birta á opinberum vettvangi. Einnig svaraði Persónuvernd því hvort munur væri á birtingu upplýsinga um eign einstaklinga í almennum hlutafélögum sem eru í Kauphöll Íslands og þeirra eigna sem eru í öðrum einkahlutafélögum.

 

Svar Persónuverndar:

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Persónuvernd starfar eftir og framfylgir lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 37. gr. þeirra laga. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna gilda þau um rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. Vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. sömu greinar.

Birting upplýsinga um hlutabréfaeigin einstaklinga myndi fela í sér vinnslu persónuupplýsinga sem félli undir lög nr. 77/2000. Svo að vinnsla slíkra upplýsinga sé heimil samkvæmt þeim lögum verður hún að falla undir einhverja af heimildum 8. gr. laganna (sbr. þó ákvæði 5. gr. laganna sem fjallað verður um í 3. kafla svars þessa).

2.

Skylda til birtingar upplýsinga um hlutabréfaeign

Á meðal framangreindra heimilda 8. gr. laga nr. 77/2000 til vinnslu persónuupplýsinga er að hún sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, sbr. 2. tölul. 1. mgr.

Um skyldu til birtingar upplýsinga um hlutabréfaeign er fjallað í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þar segir að birta eigi opinberlega upplýsingar um m.a. hlutabréfaeign meðlima í nefnd þeirri sem hafa á með höndum umrædda rannsókn. Nánar tiltekið er um að ræða hlutabréf í þeim fjármálafyrirtækum sem aðgerðir stjórnvalda samkvæmt lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. taka til. Þá kemur fram að um er að ræða upplýsingar um hlutabréfaeign á síðustu fimm árum og upphæðir sem nema yfir fimm milljónum króna. Sé um að ræða eignarhlut umfram þá fjárhæð í fyrirtæki, sem átt hefur hluti í umræddum fjármálafyrirtækjum, ber einnig að upplýsa um hann.

Í 3. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara, sem rannsakar grun um refsiverða háttsemi í tengslum við fall bankanna, er að finna sams konar ákvæði og í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 142/2008. Gildir það m.a. um það tímabil, sem upplýsingar taka til, og þær upphæðir sem hlutabréfaeign nemur.

Í X. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sem hefur að geyma reglur um svonefnda yfirtökuskyldu, er að finna ákvæði sem hafa í för með sér að birta verður opinberlega upplýsingar um hlutafjáreign einstaklinga.

Yfirtökuskylda hvílir á þeim, annaðhvort einum aðila eða aðilum í samstarfi, sem ná ná yfirráðum í hlutafélagi. Hún felur í sér að þeir skulu þá gera öðrum hluthöfum tilboð um kaup á hlutum þeirra í félaginu. Mælt er fyrir um þetta í 1. mgr. 100. gr. laganna, en þar kemur fram að yfirtökuskyldan stofnast þegar viðkomandi aðili eða aðilar eignast samanlagt a.m.k. 40% atkvæðisréttar í félaginu, hafa á grundvelli samnings við aðra hluthafa rétt til að ráða yfir sem nemur a.m.k. 40% atkvæða í félaginu eða hafa öðlast rétt til þess að tilnefna eða setja af meiri hluta stjórnar félagsins.

Samkvæmt 102. gr. laga nr. 108/2007 skal sá sem yfirtökuskyldan hvílir á tilkynna viðkomandi, skipulegum verðbréfamarkaði (kauphöll) ákvörðun um tilboð án tafar, en verðbréfamarkaðurinn skal birta tilkynninguna opinberlega. Í því felst um leið að skylt er að gera það opinbert hver gerði tilboðið, en það merkir að upplýsingar um hlutafjáreign hans eru gerðar opinberar almenningi. Gildir það um einstaklinga jafnt sem lögaðila.

Þegar skylt er að birta upplýsingar um hlutafjáreign samkvæmt framangreindu fellur birting upplýsinganna jafnframt undir áðurnefnt ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Heimild til vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt því ákvæði er aðeins til handa þeim sem þurfa að fullnægja tiltekinni lagaskyldu. Þeir sem lagaskyldan hvílir ekki á gætu hins vegar birt slíkar opinberar upplýsingar um hlutafjáreign, sem hér um ræðir, með stoð í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. þar sem segir að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra. Með öðrum orðum, þá ætti hver sem vill að geta birt umræddar upplýsingar, t.d. á vefsíðu sinni.

Ofannefndar reglur um tilkynningar um tilboð vegna yfirtökuskyldu gilda aðeins þegar um ræðir félag skráð í kauphöll, sbr. 99. gr. laga nr. 108/2007. Að öðru leyti verður ekki séð að við beitingu framangreindra reglna beri að gera greinarmun á því hvort um sé að ræða eign í félögum sem skráð eru í Kauphöll Íslands eður ei.

3.

Ákvæði um þagnarskyldu

Heimild til birtingar upplýsinga um hlutabréfaeign

Þó svo að lög kveði ekki á um heimild til birtingar upplýsinga um hlutafjáreign er ekki þar með sagt að hún sé óheimil. Hún getur þó verið það, s.s. ef hún felur í sér brot gegn þagnarskyldu. Í því sambandi má nefna 4. gr. fyrrnefndra laga nr. 142/2008. Í 3. mgr. 4. gr. þeirra laga er mælt fyrir um þagnarskyldu þeirra sem sitja í rannsóknarnefnd samkvæmt ákvæðum laganna og þeim sem vinna á vegum hennar að rannsókn á aðdraganda og orsökum falls bankanna. Frá þessari þagnarskyldu eru undantekningar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Þar segir að rannsóknarnefndin geti birt upplýsingar sem annars væru háðar þagnarskyldu ef nefndin telur slíkt nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður sínar. Henni skuli þó því aðeins vera heimilt að birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þ.m.t. fjármál þeirra, að verulegir almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á. Ef birting upplýsinga um hlutafjáreign fellur ekki undir þessa undanþágu frá þagnarskyldu er nefndinni birting upplýsinganna óheimil.

Kauphallir og þeir sem taka að sér verk í þágu þeirra mega heldur ekki birta upplýsingar um hlutafjáreign ef með því er brotin þagnarskylda samkvæmt 13. gr. laga nr. 110/2007 um kauphallir. Þá eru allir þeir sem starfa fyrir aðila, sem falla undir lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, s.s. banka og sparisjóði, bundnir þagnarskyldu um viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna sinna, sbr. 1. mgr. 58. gr. laganna. Sá sem tekur við upplýsingum um slík málefni viðskiptamanna er bundinn sömu þagnarskyldu og skal áminntur um hana af þeim sem veitir upplýsingarnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Ef þagnarskylda samkvæmt framangreindu hamlar ekki birtingu upplýsinga um hlutafjáreign er hún heimil að því gefnu að hún falli undir einhverja af heimildum 8. gr. laga nr. 77/2000. Ætla má að fyrrnefnt ákvæði 7. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar um heimild til vinnslu á grundvelli lögmætra hagsmuna, sem vega þyngra en hagsmunir hins skráða, eigi þar oftast við. Það ákvæði ætti ávallt við ef upplýsingarnar hefðu þegar verið birtar á grundvelli áðurnefndar undanþágu frá þagnarskyldu rannsóknarnefndar samkvæmt lögum nr. 142/2008. Öðrum væri því birtinga upplýsinganna heimil, t.d. á vefsínu sinni.

Eftir því sem við á verður við túlkun á ákvæðum 8. gr. laga nr. 77/2000, sem og annarra ákvæða sömu laga, að líta til 5. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði má, að því marki sem þáð er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar, að víkja frá ákvæðum þeirra í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta.

Tekið er fram í 5. gr. laga nr. 77/2000 að þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gilda aðeins tiltekin ákvæði laganna. Ákvæði 8. gr. eru ekki þar á meðal og þarf því ekki að líta til þeirra þeirra þegar svo háttar til.

Að líkindum myndi það ekki samrýmast lögum að birta upplýsingar um hlutabréfaeign allra landsmanna, t.d. í skrá sem birt væri á vefsíðu. Skoða verður hverju sinni, í ljósi fyrrgreindra ákvæða, hvort birting slíkra upplýsinga sé heimil í einstökum tilvikum.

Ekki verður séð að við beitingu framangreindra reglna beri að gera greinarmun á því hvort um sé að ræða eign í félögum sem skráð eru í Kauphöll Íslands eður ei, sbr. þó að áðurnefndar reglur laga nr. 110/2007 gilda ekki þegar um ræðir hluti í félögum sem ekki eru skráð í kauphöll.

4.

Samantekt

Af framanröktu verður ráðið að öllum sé frjálst að birta upplýsingar um hlutabréfaeign einstaklinga þegar þær hafa verið gerðar opinberar að boði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, 3. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara og 102. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Hið sama á við þegar rannsóknarnefnd samkvæmt lögum nr. 142/2007 hefur gert upplýsingar opinberar með vísan til 2. mgr. 4. gr. laganna um undanþágu frá þagnarskyldu nefndarinnar. Þegar þagnarskylduregla 1. mgr. 4. gr. sömu greinar á við, sem og sambærileg ákvæði annarra laga, s.s. 13. gr. laga nr. 110/2007 og 1. mgr. 58. gr. laga nr. 110/2007, er þeim sem þagnarskyldan hvílir á óheimilt að birta upplýsingar um hlutabréfaeign einstaklinga.

Að öðru leyti verður að líta til almennra ákvæða um vinnslu persónuupplýsinga og heimilda til hennar í lögum nr. 77/2000. Birting upplýsinga um hlutabréfaeign einstaklinga gæti, eftir atvikum, verið heimil með stoð í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. þeirra laga um heimild til vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli lögmætra hagsmuna sem vega þyngra en hagsmunir hins skráða. Eftir því sem við á verður að túlka það ákvæði með hliðsjón af 5. gr. laganna sem rýmkar rétt til að vinna með persónuupplýsingar þegar sérstök sjónarmið um tjáningarfrelsi eiga við. Eins og fram kemur í 5. gr. rýmka heimildir til birtingar mjög þegar eingöngu er unnið með persónuupplýsingar í þágu m.a. fréttamennsku.

Ekki verður séð að við beitingu framangreindra reglna skipti máli hvort um ræðir félög skráð í kauphöll eður ei, sbr. þó að áðurnefndar reglur laga nr. 108/2007 og 110/2007 eiga aðeins við þegar um ræðir hluti í félögum sem þannig eru skráð.

Að lokum skal áréttað að ekki verður séð að lög heimili birtingu upplýsinga um hlutabréfaeign allra landsmanna, t.d. á vefsíðu, heldur verður að meta það í hverju, einstöku tilviki hvort birting slíkra upplýsinga sé heimil.




Var efnið hjálplegt? Nei