Fréttir

Tilkynningagátt fyrir öryggisbresti opnuð í dag

14.5.2020

Ný tilkynningagátt um öryggisatvik – oryggisatvik.island.is – hefur verið opnuð en gáttin auðveldar stofnunum og fyrirtækjum að tilkynna um öryggisatvik sem upp kunna að koma í rekstri þeirra. Gáttin er samvinnuverkefni Persónuverndar, Póst- og fjarskiptastofnunar/CERT-IS og Lögreglunnar undir forystu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. 

Öryggisatvikin geta verið netatvik, tengd netárásum eða netglæpum, en geta einnig orðið með öðrum hætti hvað varðar vernd persónuupplýsinga.

Í tilkynningagáttinni er á einum stað og með samræmdum hætti hægt að tilkynna um öll öryggisatvik og öryggisbresti. Það er mikils hagræðis fyrir fyrirtæki og stofnanir, sem t.d. kunna að þurfa að tilkynna að stór netinnrás sé hafin, að þurfa ekki að margskrá sömu upplýsingar í mismunandi kerfi.

Tilkynningagáttinni er ætlað að bæta þjónustu við þá aðila sem er skylt að tilkynna öryggisatvik samkvæmt lögum hvort sem þau heyra undir Persónuvernd eða netöryggissveitina CERT-IS sem Póst- og fjarskiptastofnun rekur. Einnig er hægt að tilkynna atvikin til Lögreglunnar. Gáttin er samvinnuverkefni Persónuverndar, Póst- og fjarskiptastofnunar/CERT-IS og Lögreglunnar undir forystu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Samkvæmt persónuverndarlögum frá 2018 ber fyrirtækjum og stofnunum að tilkynna öryggisbresti við vinnslu persónuupplýsinga innan 72 klukkustunda. Frá og með 1. september nk. ber rekstraraðilum mikilvægra innviða einnig að tilkynna alvarleg öryggisatvik, sem ógna rekstri til CERT-IS, netöryggissveitar Póst og fjarskiptastofnunar. Með tilkynningagáttinni er þessum aðilum gert auðveldara að tilkynna atvik, sem oft ber að tilkynna til beggja stjórnvalda. Einnig fæst betri yfirsýn yfir öryggistilvik og viðbrögð stjórnvalda verða samræmdari.

Opnun-tilkynningagattar_1589471291030

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, opnaði gáttina með formlegum hætti í dag. Auk hans fluttu Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar, Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri ávörp af þessu tilefni.

Opnun-tilkynningagattar_HTh_1589471288536


Tilkynningagáttin var smíðuð af fyrirtækinu Advania með stuðningi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins en gáttin er rekin sameiginlega af Póst- og fjarskiptastofnun og Persónuvernd. Öryggisúttekt fór fram á gáttinni áður en hún var tekin í notkun – og var hún einnig prófuð af hópi hagsmunaaðila. Gáttin er vistuð á Ísland.is – https://oryggisatvik.island.is – og nota þarf rafræn skilríki til að skrá sig inn.



Var efnið hjálplegt? Nei