Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um forritið TikTok
Samfélagsmiðillinn TikTok hefur sætt gagnrýni fyrir umfangsmikla söfnun og vinnslu persónuupplýsinga um notendur sína. Evrópska persónuverndarráðið (European Data Protection Board) hefur af því tilefni sett á laggirnar átakshóp til að öðlast betri yfirsýn yfir starfsemi fyrirtækisins og samræma mögulegar aðgerðir aðildarríkjanna. Persónuvernd hvetur foreldra og forráðamenn til að fræða börn sín um samfélagsmiðla og þá áhættu sem getur falist í því að deila persónuupplýsingum á slíkum miðlum.
Töluvert hefur verið fjallað um samfélagsmiðillinn TikTok í fjölmiðlum á undanförnum misserum og þá sérstaklega á síðustu dögum, meðal annars í Morgunútvarpi Rásar 2. Forritið gerir notendum kleift að deila stuttum myndbrotum með öðrum notendum þess og nýtur vinsælda um heim allan, þar með talið á Íslandi. Notendur þess eru um 800 milljónir talsins á heimsvísu og er áætlað að 40% þeirra séu á aldrinum 16-24 ára. Forritið hefur sætt gagnrýni fyrir umfangsmikla söfnun persónuupplýsinga um notendur en nýverið hafa birst fréttir þess efnis að hún sé jafnvel enn viðameiri en áður hefur verið talið. TikTok er að stofni til kínverskt en heldur úti skrifstofum víða um heim, þ.m.t. í Evrópu.
Meðal þeirra aðila sem hafa látið málefni TikTok sig varða er Evrópska persónuverndarráðið (European Data Protection Board), en Persónuvernd tekur þátt í starfi þess fyrir Íslands hönd. Á 31. fundi þess þann 9. júní 2020 setti ráðið á fót sérstakan átakshóp (e. task force) sem ætlað er að samræma mögulegar aðgerðir aðildarríkja vegna TikTok og að öðlast betri yfirsýn yfir þá vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer gegnum forritið innan Evrópska efnahagssvæðisins. Eftir því sem starfi hópsins vindur fram mun Persónuvernd birta frekari upplýsingar þar að lútandi á vefsíðu sinni. Fleiri ríki hafa hafið rannsókn á starfsemi TikTok en þess má geta að í febrúar 2019 sektaði Alríkisviðskiptastofnun Bandaríkjanna (Federal Trade Commission) fyrirtækið fyrir brot á þarlendum lögum um persónuvernd barna.
Persónuvernd ítrekar að rétt er að gæta fyllstu varúðar við notkun samfélagsmiðla, ekki síst þegar um er að ræða ólögráða einstaklinga, en persónuupplýsingar þeirra njóta sérstakrar verndar samkvæmt persónuverndarlögum. Flestir samfélagsmiðlar vinna með gríðarlegt magn persónuupplýsinga um notendur sína og eru flestir því marki brenndir að notandinn missir að einhverju marki stjórn á eigin persónuupplýsingum þegar þeim er deilt með miðlinum. Hvetur Persónuvernd foreldra og forráðamenn því til að fræða börn sín um samfélagsmiðla og þá áhættu sem felst í notkun þeirra, meðal annars í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga. Stofnunin hefur gefið út fræðsluefni um persónuvernd en þar á meðal eru bæklingar sem eru ætlaðir yngri kynslóðinni og geta því nýst við fræðslu af þessu tagi. Sérstaklega má benda á bæklinginn „Spurðu áður en þú sendir!“ sem ætlaður er börnum á aldrinum 8-12 ára en í honum er fjallað um mikilvægi þess að gæta þess hvaða efni er deilt með öðrum á Netinu og að ávallt skuli fá leyfi áður en sendar eru upplýsingar um aðra, t.d. ljósmyndir.