Fréttir

WhatsApp sektað um 225 milljónir evra

3.9.2021

Írska persónuverndarstofnunin tilkynnti í gær um niðurstöðu rannsóknar sinnar á samskiptaforritinu WhatsApp Ireland Ltd. Rannsóknin hófst hinn 10. desember 2018 og snéri að því hvort WhatsApp uppfyllti skyldur sínar skv. almennu persónuverndarreglugerðinni (e. GDPR) um gagnsæi WhatsApp á vinnslu persónuupplýsinga til notenda forritsins. Laut rannsóknin fyrst og fremst að miðlun persónuupplýsinga á milli WhatsApp og annarra fyrirtækja í eigu Facebook og hvernig fyrirtækið tryggði gagnsæi gagnvart notendum, þar með talið hvaða fræðslu þeir fengju við notkun á þjónustunni.

Í desember 2020 lagði írska persónuverndarstofnunin fram drög að sektarákvörðun varðandi framangreint mál. Eftir andmæli átta annarra persónuverndarstofnana tók Evrópska persónuverndarráðið (e. EDPB) ákvörðun þar sem lagt var fyrir írsku stofnunina að endurskoða ákvörðun sína. Ákvörðuninni fylgdu fyrirmæli um að hækka sektina í samræmi við fjölda ákvæða persónuverndarreglugerðarinnar sem fyrirtækið hafði gerst brotlegt gegn. Til viðbótar við álagningu stjórnvaldssektar hefur írska persónuverndarstofnunin einnig áminnt fyrirtækið og fyrirskipað því grípa til úrbótaaðgerða til að fullnægja gagnsæiskröfu persónuverndarreglugerðarinnar, m.a. hvað varðar fræðslu til þeirra einstaklinga sem nýta sér þjónustu Whatsapp. 

Fréttatilkynning írsku persónuverndarstofnunarinnar.



Var efnið hjálplegt? Nei