Ætluð notkun einkaskilaboða á samfélagsmiðli af hálfu vinnuveitanda
Mál nr. 2020010597
Persónuvernd barst kvörtun yfir því að vinnuveitandi kvartanda hafi notað einkaskilaboð, sem hún hafði sent öðrum einstaklingi í gegnum samfélagsmiðil, í þeim tilgangi að segja henni upp störfum. Vinnuveitandinn andmælti því að hafa unnið með persónupplýsingar kvartanda á umræddan hátt. Persónuvernd taldi orð standa gegn orði um það hvort sú vinnsla persónuupplýsinga sem kvartað var yfir hefði farið fram og því hefði stofnunin ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort unnið hefði verið með persónuupplýsingar á þann hátt sem greindi í kvörtun. Því taldi Persónuvernd ekki unnt að fullyrða að brotið hefði verið gegn rétti kvartanda samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Úrskurður
Hinn 5. maí 2020 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2020010597
(áður 2019030534):
I.
Málsmeðferð
1.
Kvörtun og málsmeðferð
Hinn 3. mars 2019 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefnd kvartandi) yfir vinnslu persónuupplýsinga hennar af hálfu [X].
Með bréfi, dags. 12. apríl s.á, var [X] tilkynnt um framangreinda kvörtun og veittur kostur á að tjá sig um hana. Svarað var af hálfu [X] með bréfi, dags. 23. apríl s.á. Með bréfi, dags. 20. maí s.á., var kvartanda boðið að tjá sig um svarbréf [X]. Kvartandi svaraði með bréfi, dags. 11. júní s.á.
2.
Sjónarmið kvartanda
Kvartandi byggir á því að skilaboð sem hún sendi öðrum einstaklingi í gegnum [samfélagsmiðil] hafi verið skoðuð og mynduð af ótilgreindum starfsmanni [X]. Tekur kvörtunin nánar tiltekið til þess að [X] hafi tekið við skjáskotum af umræddum skilaboðum, þrátt fyrir að þau hafi verið illa fengin, og notað þau til að segja kvartanda […] upp störfum. Umrædd skilaboð hafi varðað aðra starfsmenn [X] og verið aðgengileg í ólæstri tölvu [á starfsstöð X] en um gömul skilaboð hafi verið að ræða og því sé ljóst að samtalið, þar sem skilaboðin voru geymd, hafi verið skoðað vandlega og að skilaboðin hafi ekki blasað við þeim starfsmönnum sem aðgang höfðu að [starfsstöðinni].
[Stjórnandi X] hafi lesið skilaboðin orðrétt af síma sínum á fundi með [einstaklingnum] sem fékk skilaboðin send frá kvartanda, en sá fundur hafi farið fram […] eftir að skilaboðin voru send. Af þessu megi ráða að [stjórnandi X] hafi annað hvort tekið skjáskot af skilaboðunum eða tekið við afriti frá öðrum, sem hafi þá verið varðveitt í einhverja mánuði. […] Þá hafi skilaboðin verið notuð gegn kvartanda ríflega ári síðar, með þeim afleiðingum að henni hafi […] verið sagt upp störfum.
3.
Sjónarmið [X]
Af hálfu [X] er á því byggt að kvartandi hafi notað tölvu [X] til að senda öðrum [einstaklingi einkaskilaboð í gegnum samfélagsmiðil]. Tölvan sé á opnu svæði þar sem talsverður umgangur starfsmanna sé. Kvartandi hafi skilið tölvuna eftir ólæsta og skilaboðin hafi því verið sýnileg þeim sem leið áttu um svæðið. Aðrir starfsmenn [X] hafi kvartað til yfirmanna sinna vegna skilaboðanna, sem hafi fjallað á ofbeldisfullan og meiðandi hátt um tiltekna starfsmenn [X]. [X] hafi brugðist við kvörtununum með því að boða [einstaklinginn sem fékk skilaboðin til fundar. Þar hafi hann verið spurður] hvort rétt væri eftir haft og hafi hann játað því.
[X] hafi ekki tekið, átt, varðveitt eða fengið afrit af umræddum skilaboðum og engin önnur gögn séu til um málið en frásögn móttakanda skilaboðanna og fyrrgreindar kvartanir starfsmanna.
II.
Forsendur og niðurstaða
Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.
Kvartandi
telur að [X] hafi móttekið og unnið með skjáskot af einkaskilaboðum kvartanda
til annars [einstaklings]. [X] hefur hafnað því að hafa tekið, átt, varðveitt
eða fengið afrit af umræddum skilaboðum. Samkvæmt þessu stendur orð gegn orði
um það hvort sú vinnsla persónuupplýsinga sem kvartað er yfir hafi farið fram. Með
vísan til þessa hefur Persónuvernd ekki forsendur til að taka afstöðu til þess
hvort [X] hafi unnið með umræddar persónuupplýsingar kvartanda á þann hátt sem
greinir í kvörtun. Ekki er því unnt að fullyrða að brotið hafi verið gegn rétti
kvartanda samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu
persónuupplýsinga.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ekki liggur fyrir að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um [A] hjá [X] sem braut gegn rétti hennar samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Í
Persónuvernd, 5. maí 2020
Helga Þórisdóttir Helga Sigríður Þórhallsdóttir