Úrlausnir

Ákvörðun um gagnaöflun vegna hljóðupptöku á veitingastaðnum Klaustri

Mál nr. 2018/1741

30.4.2019

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun, dags. 29. apríl 2019, um hvort aflað skuli tiltekinna gagna vegna leynilegrar hljóðupptöku á samræðum á veitingastaðnum Klaustri. Lögmaður þeirra sem sættu upptökunni hafði farið fram á öflun tiltekins myndefnis úr eftirlitsmyndavélum, upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og smáskilaboð tiltekna daga til og frá einstaklingi, sem lýst hefur því yfir að hafa tekið samræðurnar upp, auk upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning sama einstaklings á tilteknu tímabili. Persónuvernd taldi sýnt að í tengslum við vöktunarefni yrði vitnaleiðslna þörf, en slíkt væri aðeins á færi dómstóla. Þá taldi stofnunin sig ekki hafa heimildir að lögum til öflunar fyrrnefndra upplýsinga frá fjarskipta- og fjármálafyrirtækjum. Beiðni um öflun umræddra gagna var því synjað, en jafnframt var tekið fram að málsatvik væru talin nægilega leidd í ljós til að unnt væri að taka málið til efnislegrar úrlausnar, enda yrði ekki fallist á fyrirliggjandi kröfu um frávísun.

Efni: Ákvörðun um gagnaöflun vegna óskar um rannsókn á leynilegri hljóðupptöku á samræðum á veitingastaðnum Klaustri

Vísað er til fyrri samskipta í tilefni af erindi [A] hrl. hjá Lögmönnum Lækjargötu, dags. 5. desember 2018, vegna leynilegrar hljóðupptöku þriðjudagskvöldið 20. nóvember 2018 á samræðum á veitingastaðnum Klaustri á Kvosinni Downtown Hotel. Fyrir liggur beiðni lögmannsins, dags. 1. apríl 2019, um öflun tiltekinna gagna vegna málsins, en sú beiðni var rædd á fundi stjórnar Persónuverndar í dag og jafnframt tekin sú ákvörðun sem hér birtist.

1.

Bréfaskipti

Um sama leyti og framangreint bréf Lögmanna Lækjargötu frá 5. desember 2018 barst Persónuvernd rak lögmannsstofan mál fyrir dómstólum þar sem krafist var sönnunarfærslu fyrir dómi vegna málsins, þ. á m. með öflun upptakna úr öryggismyndavélum. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 19. desember 2018 var þeirri kröfu synjað, m.a. á þeirri forsendu að þar sem ekki hefðu verið nýtt úrræði samkvæmt persónuverndarlöggjöf til að nálgast myndefni væru ekki forsendur fyrir umræddri sönnunarfærslu. Í framhaldi af því tilkynnti Persónuvernd Klaustri og Kvosinni Downtown Hotel, með bréfi, dags. 21. desember 2018, að ráðgert væri að afla myndefnis úr eftirlitsmyndavélum frá Klaustri. Sú gagnaöflun biði hins vegar þess að Landsréttur tæki afstöðu til kæru til réttarins á framangreindum úrskurði. Kom sú afstaða fram í úrskurði hans hinn 16. janúar 2019 þar sem synjun Héraðsdóms Reykjavíkur var staðfest.

Í tölvupósti hinn 25. janúar 2019 óskaði Persónuvernd þess af [A] hrl. að hann upplýsti hvort ráðgert væri að kæra framangreinda niðurstöðu til Hæstaréttar. Svarað var með bréfi, dags. 1. febrúar 2019, þar sem tekið er fram að úrskurður Landsréttar sæti ekki kæru til Hæstaréttar samkvæmt lögum. Þá er meðal annars vísað til tiltekinna ljósmynda og því haldið fram að [B], sem hefur sagst hafa hljóðritað áðurnefndar samræður, virðist hafa tekið þessar myndir. Segir að þær sýni að fámennt hafi verið á Klaustri þegar upptakan átti sér stað og einnig að hún hafi sest eins fjarri umbjóðendum lögmannsins og unnt hafi verið. Það eitt og sér sýni að hún hafi viljað forðast að eftir aðgerðum hennar yrði tekið og að hún virðist hafa viljað viðhalda og styrkja þær væntingar umbjóðenda lögmannsins að þau ræddu saman í einrúmi. Auk þess hafi upptakan staðið yfir í um það bil fjórar klukkustundir sem bendi til þess að tekinn hafi verið tími til hennar á kostnað annarra hluta. Gefi þetta sterklega til kynna að einhver skipulagning hafi búið að baki. Tekið er fram í því sambandi að fjarlægðin á milli [B] og umbjóðenda lögmannsins hafi verið slík að henni hefði átt að reynast erfitt að greina orðaskil eins og hún hafi viðurkennt í viðtölum við fréttamenn. Að því hafi einnig verið vikið af hálfu fjölmiðla sem unnið hafi með upptökuna, þ. á m. í frétt á vefsíðu DV, dv.is, hinn 28. nóvember 2018, þar sem fram hafi komið að umtalsverða vinnu hafi þurft til að laga hljóðið. Þá er vísað til þess að samkvæmt [B] hafi hún þóst vera erlendur ferðamaður og tekið fram að sérstaka eftirtekt veki tilvist ljósmyndar sem tekin hafi verið af umbjóðendum lögmannsins inn um glugga Klausturs að því er virðist snemma um kvöldið. Hafi B] neitað að hafa tekið myndina og látið þess getið að annar en hún hafi sent myndina til fjölmiðilsins Stundarinnar. Þessu taki umbjóðendur lögmannsins með fyrirvara, en ljóst sé að hafi hún tekið myndina staðfesti það ásetning hennar frá upphafi. Jafnframt sé ljóst að hafi einhver annar tekið myndina gefi það sterklega til kynna að hann hafi vitað um aðgerð hennar og átt þátt í henni. Með vísan til framangreinds er tekið fram að mikilvægt sé að afla allra mögulegra gagna til að leiða í ljós hver atvik málsins hafi verið.

Að fengnu framangreindu bréfi [A] hrl. hóf Persónuvernd gagnaöflun vegna málsins. Með bréfi, dags. 5. febrúar 2019, til [C] hdl. hjá Rétti – Aðalsteinsson & Partners, sem fram kemur fyrir hönd [B] í málinu, óskaði Persónuvernd eftir umræddri hljóðupptöku. Hafði stofnunin áður óskað eftir upptökunni með bréfi til lögmannsstofunnar hinn 21. desember 2018 en fallist á frest til afhendingar í ljósi fyrrnefndrar dómsmeðferðar í tölvupósti hinn 9. janúar 2019. Að lokinni dómsmeðferðinni barst stofnuninni hins vegar hljóðupptakan, þ.e. hinn 14. febrúar s.á. Að auki óskaði Persónuvernd eftir upptökum úr eftirlitsmyndavélum með bréfi til Klausturs og Kvosarinnar Downtown Hotel, dags. 5. febrúar 2019, og bárust upptökur hinn 15. s.m. Með bréfi til lögmanna málsaðila, dags. 14. mars 2019, var þeim gefinn kostur á að skoða myndefnið, en Persónuvernd hafði þá yfirfarið það. Var það skoðað af hálfu málsaðila hvorra um sig hinn 18. mars 2019. Daginn eftir fór [A] hrl. fram á það við Persónuvernd í tölvupósti að aflað yrði frekari upptakna úr eftirlitsmyndavélum, en aðeins höfðu borist upptökur þar sem sjá má [B]. Með bréfi, dags. 22. mars 2019, til lögmanna Þórsgarðs ehf., sem rekur veitingastaðinn Klaustur og Kvosina Downtown Hotel, óskaði Persónuvernd eftir upptökum sem fylltu þar í eyðurnar, þ.e. frá því um það leyti sem [B] sást koma á staðinn samkvæmt fyrirliggjandi upptökum og þar til hún fór, en þar var um að ræða upptökur, yfirleitt um 24 mínútna langar hver um sig, frá tímabilinu frá um kl. 19:30 til um kl. 24:00 þriðjudagskvöldið 20. nóvember 2018. Þá var óskað eftir myndefni úr eftirlitsmyndavél á Kvosinni Downtown Hotel sem til varð á sama tímabili, en [A] hrl. hafði vakið athygli Persónuverndar á því hinn 20. desember 2018 að þar væri myndvöktunarkerfi. Með vísan til þess hafði Persónuvernd óskað þess í fyrrnefndu bréfi til Klausturs og hótelsins, dags. 5. febrúar 2019, að upplýst yrði hvort til væri myndefni úr því kerfi frá umræddu kvöldi. Staðfesti [D] hdl. fyrir hönd Þórsgarðs ehf. í tölvupósti hinn 13. s.m. að svo væri.

Hinn 28. mars 2019 barst Persónuvernd myndefni frá Þórsgarði ehf. í samræmi við framangreinda ósk, þó án þess að myndefni frá hótelinu væri þar á meðal. Sama dag barst ósk um að fá að skoða myndefnið af hálfu umbjóðenda Lögmanna Lækjargötu frá [A] hrl., en Persónuvernd féllst á þá ósk í tölvupósti hinn 2. apríl 2019 og fór skoðunin fram daginn eftir. Daginn áður hafði myndefnið verið skoðað af hálfu gagnaðila í samræmi við ósk sem fram kom og samþykkt var í tölvupóstsamskiptum hinn 1. apríl 2019. Í umræddum tilvikum var aðeins veittur aðgangur að því myndefni sem borist hafði hinn 15. febrúar s.á., en Persónuvernd taldi þörf á yfirferð viðbótarmyndefnis til að komast að því hvort þar væri eitthvað sem ekki skyldi sýnt í ljósi friðhelgi einkalífs annarra en málsaðila. Að lokinni yfirferð taldi Persónuvernd svo ekki vera og veitti kost á skoðun á hinu síðara myndefni í tölvupósti hinn 5. apríl 2019. Af hálfu Réttar – Aðalsteinsson & Partners var myndefnið skoðað hinn 8. s.m. Þá var myndefnið skoðað af hálfu gagnaðila hinn 12. s.m., sem og hinn 24. s.m.

Áðurnefnd ósk [A] hrl. um öflun frekara myndefnis hinn 19. mars 2019 tók ekki aðeins til þess tímabils sem [B] var stödd á veitingastaðnum Klaustri hinn 20. nóvember 2018 miðað við upptökur heldur til tímabilsins frá kl. 18:30 það kvöld til kl. 01:00 aðfaranótt 21. s.m., þ.e. frá því um rúmum klukkutíma áður en myndefni sýndi hana koma inn á Klaustur þar til rúmur klukkutími var liðinn frá því hún sást fara þaðan út. Í bréfi til Lögmanna Lækjargötu, dags. 22. mars 2019, var greint frá því að í ljósi meðalhófssjónarmiða teldi Persónuvernd, með vísan til meðalhófsreglu 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, ekki unnt að svo stöddu að afla myndefnis sem varð til utan tímabilsins frá um kl. 19:30 til um kl. 24:00 umrætt kvöld. Var Lögmönnum Lækjargötu veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum og frekari rökstuðningi fyrir því að afla þyrfti myndefnis umfram það.

Svör um framangreint bárust Persónuvernd í bréfi frá [A] hrl., dags. 1. apríl 2019. Þar segir meðal annars að samkvæmt fyrirliggjandi myndefni hafi [B] setið í bifreið sinni fyrir utan Klaustur í tólf mínútur og virt fyrir sér aðstæður áður en hún fór inn á staðinn. Hugsanlega hafi hún gert það lengur, en ekki hafi verið aflað myndefnis sem skorið geti úr um það. Þegar hún hafi stigið út úr bifreiðinni, kl. 19:41, virðist hún hafa tekið tiltekna ljósmynd sem birst hafi á vefmiðlum og eyði samanburður myndefnisins og myndarinnar öllum skynsamlegum vafa um það. Í framhaldinu hafi átt sér stað atburðarás þar sem hún hafi, eftir að hafa sest niður um kl. 19:49, meðal annars sett svart stykki við hlið handtösku sinnar, lagt hvítan handfrjálsan búnað ofan á handtösku sína sem við hafi loðað svört snúra sem stungið hafi verið í var á bak við töskuna þegar hann hafi komið í ljós. Að auki hafi meðal annars sést tveir svartir hlutir og snúrur undir töskunni. Á meðan á þessu hafi staðið hafi hún gjarnan haldið á síma sínum, horft á skjá hans, dregið fingur yfir hann og virst vinna með hann, auk þess sem hún hafi haft handfrjálsa búnaðinn á eyrum sér. Eftir þetta hafi hún horfið úr myndsviði eftirlitsmyndavélar í því rými sem hér um ræði, þ.e. því sem í bréfi lögmannsins er nefnt innra rými staðarins, en birst af og til í myndsviði annarrar, staðsettrar í því sem í bréfinu er nefnt ytra rýmið, þar sem hún hafi meðal annars sést sækja í tvígang ferðabæklinga. Síðast hafi hún birst þegar hún hafi yfirgefið staðinn kl. 23:39. Nemi tímalengd hljóðupptakna tæpum þremur klukkustundum og 43 mínútum, en dvöl hennar á Klaustri, eftir að hún settist niður, hafi aðeins verið um sex mínútum lengri. Um ræði sjö upptökur, sundurlausar hver frá annarri, og verði að álykta að þær örfáu mínútur frá dvöl hennar, sem ekki hafi verið teknar upp, hafi tapast af og til um kvöldið fremur en í upphafi. Verði því að teljast hafið yfir vafa að hún hafi hafið upptöku nánast um leið og hún settist niður. Að vísu verði að gera fyrirvara um áreiðanleika hljóðupptaknanna í ljósi þess að samkvæmt upplýsingum í þeim rafskjölum, þar sem þær séu varðveittar, hafi tveimur þeirra verið breytt hinn 21. nóvember 2019 og fimm þeirra svo seint sem 13. febrúar 2019.

Tekið er fram í bréfi lögmannsins að samkvæmt fyrirliggjandi myndefni hafi verið fámennt í innra rými Klausturs umrætt kvöld. Þegar myndefnið hefjist kl. 19:29 hafi engir verið í rýminu nema sá hópur þingmanna sem umbjóðendur hans tilheyrðu. Par hafi verið í rýminu frá kl. 19:38 til kl. 20:15, auk karls og konu sem þar hafi verið frá kl. 23:36. Að undanskildum umræddum þingmönnum og [B] sjáist ekki fleiri fara þar inn frá því að myndefnið hefjist kl. 19:29 og þar til því ljúki kl. 23:52. Að auki hafi [B] setið eins langt frá umbjóðendum lögmannsins bróðurpart kvöldsins og hægt hafi verið og sótt sér ferðamannabæklinga til að hafa á borði sínu. Hafi aðstæður samkvæmt þessu verið svo að umbjóðendur lögmannsins hafi með réttu mátt vænta þess að enginn hlustaði á samtal þeirra, sem verið hafi einkasamtal, og enn síður að það væri hljóðritað. Þá liggi fyrir að [B] hafi viðhaft ósannindi í frásögnum sínum af atvikum máls. Alvarlegust sé sú ranga fullyrðing, sem birst hafi í greinargerð af hálfu hennar til Landsréttar hinn 7. janúar 2019, að hún hafi ekki tekið fyrrnefnda ljósmynd. Sé þar um að ræða ranga staðhæfingu til dómara sem sýnilega sé ætlað að hafa áhrif á niðurstöðu máls. Þá séu frásagnir [B] um málið í fjölmiðlum um margt samhengislausar. Hún hafi kvaðst hafa farið á Klaustur umrætt kvöld fyrir tilviljun og haft meðferðis ferðamannabæklinga þar sem hún hafi verið að koma af fundi með erlendum vinum. Á Klaustri hafi umbjóðendur lögmannsins verið fyrir og viðhaft háreysti, en því hafi hún ekki komist hjá að heyra samtal þeirra sem henni hafi ofboðið og því ákveðið að taka það upp. Þessi frásögn standist enga skoðun, en vandséð sé að aðgerðir hennar hafi helgast af tilviljun þar sem hún hafi tekið mynd af aðstæðum áður en hún hafi getað heyrt nokkur orðaskil í samtalinu. Þá hafi hún hafið upptökur um leið og hún settist niður og verið með handfrjálsan búnað í eyrunum frá upphafi og því átt talsvert erfitt með að heyra það sem fram fór í rýminu, auk þess sem hún hafi ekki haft neina ferðamannabæklinga meðferðis heldur sótt þá á staðnum. Standist það enga skoðun að manneskja stödd þar fyrir tilviljun hefði dvalið við umrætt verk í jafnlangan tíma og raun beri vitni.

Lögmaðurinn bendir á í þessu sambandi að samkvæmt greinargerð af hálfu [B] til Landsréttar hafi áðurnefnd ljósmynd, sem hafið sé yfir vafa að tekin hafi verið kl. 19:41, borist frá öðrum aðila. Veki það sérstaka eftirtekt þar sem það bendi til þess að einhvers konar samstarf kunni að hafa verið á milli [B] og blaðamanna um að halda hinum raunverulegu atvikum máls leyndum. Þá hafi hún haldið því fram í viðtali á Stöð 2 hinn 7. desember 2018 að umbjóðendur lögmannsins hafi verið nýkomnir inn þegar hún hóf upptöku og farnir að setjast niður. Veki það sérstaka eftirtekt og bendi til þess að fylgst hafi verið með ferðum þeirra áður en þeir settust til borðs, enda hefði vart með öðrum hætti verið unnt að vita að þeir hefðu verið nýkomnir inn.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur lögmaðurinn óræka sönnun liggja fyrir um að [B] hafi undirbúið aðgerð sína vel. Hún hafi virt aðstæður fyrir sér kirfilega í bifreið sinni fyrir utan Klaustur, tekið af umbjóðendum lögmannsins mynd þegar hún steig út úr bifreiðinni og sest niður í sama rými og þau og jafnskjótt hafið upptöku. Hún virðist hafa gert sér far um að halda búnaði sínum fyrir utan sjónsvið viðstaddra með því að varðveita hann undir tösku sinni og haft á sér handfrjálsan búnað til þess að gefa öðrum í innra rými Klausturs öryggi um að með þeim væri ekki fylgst. Auk þess áréttar lögmaðurinn að umrædd upptaka hafi staðið lengi yfir og tekur fram að ómældur tími hafi farið í skipulagningu og aðgerðir til úrvinnslu efnis í kjölfarið. Segir að til þessara aðgerða hafi verið gengið með skipulögðum og einbeittum hætti og að sú frásögn sé fjarstæðukennd að þær hafi verið ákveðnar í einhvers konar fljótfærni. Auk þess staðfesti myndefni að [B] hafi ítrekað viðhaft ósannindi um gerðir sínar. Séu þær þess eðlis að fleiri en einn hafi þurft til þar sem fylgjast hafi þurft með ferðum manna, afla sér búnaðar, læra á hann og útfæra og æfa aðgerðir. Slíkt sé tæpast á færi einnar manneskju og bendi því allt til þess að um samverknað hafi verið að ræða.

Með vísan til framangreinds kemur fram í bréfi lögmannsins að til að upplýsa atvik málsins nánar sé tiltekinna gagna þörf. Áréttuð er ósk hans um að aflað verði frekara vöktunarefnis, þ.e. myndefnis úr öryggismyndavélum Klausturs og Kvosarinnar Downtown Hotel frá kl. 18:30 hinn 20. nóvember 2018 til kl. 01:00 aðfaranótt 21. s.m. Þá er farið fram á að upplýsinga verði aflað frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og smáskilaboð til og frá [B] dagana 20. og 21. nóvember sl., auk upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning hennar á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember sl. Geti gögn þessi varpað ljósi á undirbúning og skipulag aðgerða hennar og samskipti við mögulega samverkamenn.

Í kjölfar viðtöku á framangreindu bréfi frá Lögmönnum Lækjargötu fór fram frekari skoðun á myndefni af hálfu umbjóðenda lögmannsstofunnar eins og fyrr greinir, þ.e. hinn 12. apríl 2019, og var henni í framhaldi af því veitt færi á frekari athugasemdum með bréfi Persónuverndar, dags. 15. s.m. Svarað var með bréfi, dags. 16. s.m., en þar er meðal annars tekið fram að á tilteknum tíma hafi óþekkt kona komið inn á Klaustur og gengið ákveðið inn í innra rýma staðarins og rakleitt, að því er virðist, til [B]. Um það bil 20 sekúndum síðar gangi hún rösklega út af staðnum með einhvern smáhlut í vinstri hendi. Auk þess leiði samanburður myndefnis og hljóðefnis í ljós að [B] handfjatli iðulega símtæki sitt án þess að nokkrir skruðningar heyrist á hljóðupptökunni, en það staðfesti enn frekar að hún hafi notast við sérstakan búnað í aðgerðum, sem og að þær hafi verið skipulagðar rækilega í samstarfi við aðra. Þyki því brýnt að aflað verði allra þeirra gagna sem óskað hafi verið eftir. Þá sé vert að nefna að ekki hafi enn verið aflað eða verið veittur aðgangur að myndefni úr myndavélum Kvosarinnar Downtown Hotel sem sýni aðstæður á götunni utan staðarins. Mikilvægt sé að þessa myndefnis verði aflað þar sem sýnt þyki að atburðarásin teygi sig út á götuna, t.d. með myndatöku, auk þess sem það geti varpað nánara ljósi á ferðir samverkamanna fyrir, á meðan og eftir að aðgerðir fóru fram. Loks þurfi vart að taka fram mikilvægi þess að brugðist sé við aðgerðum af þeim toga sem hér um ræði. Meðferð máls vegna slíkra aðgerða í miðborg Reykjavíkur geti ekki lokið án þess að allt sé gert sem unnt sé til að leiða í ljós hverjir hafi staðið að þeim og mæla þeim lögmælt viðurlög. Frásagnir [B] um að hún hafi verið ein að verki séu með öllu ótrúverðugar.

Aftur fór fram frekari skoðun á myndefni af hálfu umbjóðenda Lögmanna Lækjargötu hinn 24. apríl 2019 eins og fyrr greinir. Í tölvupóstsamskiptum sama dag tók lögmannsstofan fram að frá því að [B] yfirgaf Klaustur hafi liðið tæplega fjórar mínútur þar til hún aflæsti bifreið sinni eins og blikkljós hennar sýni, en leiða megi líkum að því að þessar mínútur hafi hún notað til skrafs og ráðagerða við samverkamenn sína utan staðarins. Þá er vikið að því sem einnig hafði verið fjallað um í áðurnefndu bréfi Lögmanna Lækjargötu, dags. 16. apríl 2019, að á tilteknum tíma sjáist óþekkt kona ganga fram hjá Klaustri. Hún hafi í hægri hendi ljósan mun, mögulega möppu, tölvu eða spjaldtölvu. Rétt á eftir sjáist konan koma inn á staðinn en hafi þá sýnilega fært ljósa muninn úr hægri hendi í þá vinstri, líklega til að geta notað hægri hönd til að opna útidyr staðarins. Vinstri höndin virðist bogin um olnboga og þótt ljósi munurinn sjáist ekki verði að álykta að hún haldi honum að sér með þeirri hendi. Að auki sjáist hvernig konan eigi erindi við [B] inni á staðnum, gangi síðan út en hafi ljósa muninn ekki lengur með sér. Virðist hún því hafa afhent hann [B]. Þá haldi konan vinstri hnefa krepptum og virðist mögulega halda þar á einhverjum smágerðum hlut sem [B] virðist hafa fengið henni.

Þau bréf Lögmanna Lækjargötu sem rakin eru hér að framan hafa verið send Rétti –Aðalsteinsson & Partners til andmæla fyrir hönd [B]. Var framangreint bréf Lögmanna Lækjargötu, dags. 5. desember 2018, sent Rétti – Aðalsteinsson & Partners með bréfi Persónuverndar, dags. 21. s.m., og svaraði lögmannsstofan með bréfi, dags. 7. janúar 2019. Einnig var fyrrnefnt bréf, dags. 1. febrúar 2019, sent með bréfi stofnunarinnar, dags. 5. s.m., og var svarað með bréfi, dags. 20. s.m. Þá var áðurgreint bréf, dags. 1. apríl 2019, sent með bréfi stofnunarinnar, dags. s.d., sem svarað var með bréfi, dags. 9. s.m., og loks var framangreint bréf, dags. 16. apríl 2019 sent með bréfi stofnunarinnar, dags. s.d., og var svarað í tölvupósti hinn 24. s.m. Meðal þess sem fram kemur í svörum Réttar – Aðalsteinsson & Partners, nánar tiltekið í bréfinu frá 20. febrúar 2019, eru mótmæli við því að einhver hafi fengið [B] til þess að taka upp umræddar samræður. Auk þess er í bréfinu frá 9. apríl 2019 notað orðalagið „ýmsar dylgjur“ um það sem fram kemur í bréfi Lögmanna Lækjargötu frá 1. s.m. Þá er þess krafist í öllum umræddum bréfum Réttar – Aðalsteinsson & Partners að málinu verði vísað frá Persónuvernd þar sem kjarni þess lúti að mörkunum milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs sem fremur falli undir dómstóla en stofnunina að skera úr um. Í áðurnefndu svari frá 24. apríl 2019 er ekki aukið við fyrri svör heldur vísað til þess sem þegar hafði komið fram af hálfu lögmannsstofunnar. Að auki kom fram í tölvupóstsamskiptum hinn 26. apríl 2019 að ekki væru gerðar athugasemdir af tilefni þess sem fram hafði komið af hálfu Lögmanna Lækjargötu tveimur dögum fyrr og sem áður er lýst heldur einnig vísað til fyrri svara.

2.

Niðurstaða

Eins og rakið hefur verið fer [A] hrl. hjá Lögmönnum Lækjargötu, f.h. umbjóðenda sinna sem áttu samræður á veitingastaðnum Klaustri á Kvosinni Downtown Hotel hinn 20. nóvember 2018, fram á að Persónuvernd afli tiltekinna gagna til að upplýsa hvernig staðið hafi verið að hljóðupptöku á samræðunum. Nánar tiltekið er þess óskað í bréfi frá lögmanninum, dags. 1. apríl 2019, að aflað verði myndefnis úr öryggismyndavélum Klausturs og hótelsins, frá kl. 18:30 hinn 20. nóvember 2018 til kl. 01:00 aðfaranótt 21. s.m. Þá er farið fram á öflun upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og smáskilaboð dagana 20. og 21. nóvember sl. til og frá [B], sem lýst hefur því yfir að hún hafi tekið upp umræddar samræður, auk upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning hennar á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember sl.

Þegar hafði verið farið fram á að Persónuvernd aflaði gagna úr öryggismyndavélum vegna umrædds máls, þ.e. í bréfi áðurnefnds lögmanns, dags. 5. desember 2018, eins og fyrr er rakið. Um sama leyti rak hann mál fyrir dómstólum þar sem krafist var sönnunarfærslu fyrir dómi vegna málsins, þ. á m. með öflun slíkra upptakna. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 19. desember 2018 var þeirri kröfu synjað, m.a. á þeirri forsendu að þar sem ekki hefðu verið nýtt úrræði samkvæmt persónuverndarlöggjöf til að nálgast myndefni væru ekki forsendur fyrir umræddri sönnunarfærslu. Persónuvernd taldi verða að líta til þessarar tilvísunar dómstólsins til persónuverndarlöggjafar, en auk þess vísast meðal annars til heimildar stofnunarinnar til að taka ákvörðun um afhendingu vöktunarefnis, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun og vinnslu persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, sbr. nú 2. tölul. 3. mgr. og 5. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá leit stofnunin til þess að upptaka eins og hér um ræðir án vitundar þeirra sem í hlut eiga verður að teljast óvenjuleg íhlutun í friðhelgi einkalífs og réttinn til verndar persónuupplýsinga, en fyrir lá að upptakan hafði staðið yfir svo klukkustundum skipti. Taldi stofnunin ljóst að vöktunarefni gæti verið til þess fallið að varpa ljósi á atvik máls, þ.e. hvernig staðið hefði verið að upptökunni. Með bréfi, dags. 21. desember 2018, tilkynnti því Persónuvernd Klaustri og Kvosinni Downtown Hotel að ráðgert væri að afla upplýsinga úr eftirlitsmyndavélum frá Klaustri. Sú gagnaöflun biði hins vegar þess að Landsréttur tæki afstöðu til kæru til réttarins á framangreindum úrskurði. Kom sú afstaða fram í úrskurði hans hinn 16. janúar 2019 þar sem synjun Héraðsdóms Reykjavíkur var staðfest, auk þess sem einnig var vísað til úrræða samkvæmt persónuverndarlöggjöf eins og í úrskurði héraðsdóms.

Eins og fyrr er lýst aflaði Persónuvernd í framhaldi af framangreindu upptakna úr eftirlitsmyndavélum á Klaustri frá tímabilinu frá um kl. 19:30 til um kl. 24:00 þriðjudagskvöldið 20. nóvember 2018, þ.e. með bréfi til Klausturs og Kvosarinnar Downtown Hotel, dags. 5. febrúar 2019, og með bréfi, dags. 22. mars s.á., til lögmanna Þórsgarðs ehf., sem rekur Klaustur og hótelið. Upptökurnar leiða í ljós að [B] var á Klaustri umrætt kvöld þann tíma sem til þurfti til að taka upp umræddar samræður. Þá er ljóst að hún var með snjallsíma sem í er hljóðupptökubúnaður, að hún var því í aðstöðu til að taka samræðurnar upp, sem og að hún hefur lýst því yfir að upptakan sé á ábyrgð hennar. Verður að telja málsatvik að þessu leyti hafa verið leidd í ljós. Að því gefnu að ekki verði fallist á kröfu um frávísun sem fram kemur í bréfum Réttar – Aðalsteinsson & Partners fyrir hönd [B], dags. 7. janúar, 20. febrúar og 9. apríl 2019, verða skilyrði því talin vera til þess að Persónuvernd taki til efnislegrar úrlausnar hvort upptakan hafi samrýmst þeirri löggjöf sem stofnunin framfylgir og starfar eftir, þ.e. lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og persónuverndarreglugerðinni, (ESB) 2016/679, sem innleidd var með þeim lögum.

Við mat á því hvort tilefni verði talið til öflunar frekari gagna en þegar hafa borist Persónuvernd verður að líta til þess hvers konar sönnunarfærsla væri nauðsynleg við túlkun þess sem fram kæmi í slíkum gögnum. Í því sambandi er litið til þeirrar afstöðu af hálfu Lögmanna Lækjargötu fyrir hönd umbjóðenda lögmannstofunnar að [B] hafi ekki verið ein að verki við umrædda upptöku heldur megi vænta þess að hún hafi átt sér samverkamenn og vísar lögmannsstofan til tiltekinna atriða í fyrirliggjandi myndefni úr eftirlitsmyndavélum í því samhengi. Til að taka af allan vafa þar að lútandi telur Persónuvernd sýnt að vitnaleiðslna yrði þörf, en slík sönnunarfærsla er ekki á færi stofnunarinnar og getur aðeins farið fram fyrir dómstólum. Hvað varðar upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og smáskilaboð ber auk þess að líta til 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003, en ljóst er að um er að ræða upplýsingar um fjarskiptaumferð sem varðveittar eru á grundvelli þess ákvæðis. Kemur fram í niðurlagi þess að eingöngu megi afhenda þær lögreglu og ákæruvaldi. Ekki verður talið útilokað að í tengslum við eftirlit Persónuverndar með vinnslu persónuupplýsinga hjá fjarskiptafyrirtækjum og kvartanir vegna þeirra, að því marki sem slíkt fellur undir hana en ekki Póst- og fjarskiptastofnun, gæti talist þörf á að fá afrit af einhverju því sem finna má í upplýsingum um fjarskiptaumferð og myndi þá reyna á heimildir Persónuverndar samkvæmt 1. og 5. tölul. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 90/2018 til gagnaöflunar. Þau ákvæði verða hins vegar ekki talin veita Persónuvernd heimild til öflunar fjarskiptagagna vegna meðferðar kvörtunarmáls sem varðar ekki viðkomandi fjarskiptafyrirtæki heldur annan aðila, í þessu tilviki [B]. Þá telur Persónuvernd með sama hætti að þau geti ekki veitt stofnuninni heimildir til öflunar upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur til einstaklings þegar um ræðir mál sem ekki varðar vinnslu persónuupplýsinga á vegum þeirra heldur kvörtun yfir hlutaðeigandi einstaklingi, en í því felst að ekki verða þá taldar forsendur fyrir því að þagnarskylda samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki víki.

Í ljósi alls framangreinds er ekki fallist á kröfu um öflun frekari gagna, þ.e. viðbótarmyndefnis úr eftirlitsmyndavélum frá Klaustri, sem og vöktunarefnis frá Kvosinni Downtown Hotel, auk upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og smáskilaboð dagana 20. og 21. nóvember sl. til og frá [B] og upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning hennar á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember sl.

Í þessu sambandi skal tekið fram að ekki hefur borist myndefni úr tiltekinni eftirlitsmyndavél á hótelinu þrátt fyrir ósk Persónuverndar þar að lútandi í bréfi, dags. 22. mars 2019, til Þórsgarðs ehf. sem rekur Klaustur og hótelið. Þar sem atvik málsins verða talin nægilega upplýst til að Persónuvernd geti komist að efnislegri úrlausn, þ.e. að því gefnu að ekki verið fallist á kröfu um frávísun, verður hins vegar við nánari athugun talið að ekki sé þörf á því myndefni í ljósi fyrri umfjöllunar um möguleika á sönnunarfærslu fyrir stofnuninni.

Að lokum er leiðbeint um að samkvæmt 12. gr. reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, sbr. nú 5. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018, á sá sem sætt hefur rafrænni vöktun rétt á að skoða gögn sem til hafa orðið við hana. Þá er minnt á heimild til varðveislu vöktunarefnis umfram hinn almenna, heimila varðveislutíma slíks efnis í 90 daga sé varðveislan nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglnanna.



Var efnið hjálplegt? Nei