Úrlausnir

Ákvörðun vegna haldlagningu gagna í vinnupósthólfi

Mál nr. 2022050942

19.12.2022

Persónuvernd tók ákvörðun í máli þar sem kvartað var yfir haldlagningu gagna í vinnupósthólfi kvartanda hjá fyrirtæki í tengslum við sakamálarannsókn á málefnum fyrirtækisins.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að vinnsla persónuupplýsinganna ætti sér stoð í lögum og að ekki lægi fyrir að við vinnsluna hefði verið beitt ólögmætum aðferðum. Í ljósi þess taldi Persónuvernd að ekki hefði verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

Þar sem ákvörðunin inniheldur nákvæmar upplýsingar um kvartanda, jafnvel þó persónuauðkenni væru afmáð, hefur Persónuvernd ákveðið að birta ekki ákvörðunina í heild sinni. Hins vegar hefur Persónuvernd tekið saman útdrátt úr ákvörðuninni, sem fer hér á eftir. 

Kvartað var yfir haldlagningu gagna í vinnupósthólfi kvartanda hjá fyrirtæki í tengslum við sakamálarannsókn á málefnum fyrirtækisins en kvartandi taldi óheimilt að leggja hald á og rannsaka hluta gagnanna.

Persónuvernd taldi að við mat á því hvort vinnslan samrýmdist fyrirmælum laga nr. 75/2019 þyrfti í fyrsta lagi að kanna hvort sú vinnsla sem kvörtunin lyti að ætti sér lagastoð. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er lögbærum yfirvöldum skylt við rannsókn sakamáls að afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um er að ræða, og um öll nánari atvik sem ætla má að geti skipt máli, þar á meðal með því að hafa uppi á munum og sýnilegum sönnunargögnum sem hald skuli leggja á. Einnig ber að líta til 1. mgr. 68. gr. sömu laga þar sem segir að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla má að þeir, ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafi að geyma, hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir.

Í samræmi við framangreint taldi Persónuvernd umrædda vinnslu eiga sér stoð í lögum. Við mat á því hvort vinnslan gæti að öðru leyti samrýmst lögum nr. 75/2019 taldi Persónuvernd að líta yrði til samspils þeirra laga og réttarfarslöggjafar. Í ákvörðuninni var nánar tiltekið vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, má leggja fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda. Einnig var í ákvörðun Persónuverndar meðal annars vísað til 3. mgr. 181. gr., 193. gr., 194. gr. og 2. mgr. 195. gr. laganna, en í þeim ákvæðum er að finna málsmeðferðarreglur sem sérstaklega eru sniðnar að þörfum sakamála. Mætti því að mati Persónuverndar ljóst vera að með framangreindum ákvæðum væri leitast við að tryggja skilvirka rannsókn slíkra mála samhliða því að réttindi sakbornings væru tryggð. Að mati Persónuverndar myndi það stríða gegn þessu markmiði að einstök álitaefni, sem dómara er beinlínis ætlað að taka afstöðu til á grundvelli laga nr. 88/2008, geti einnig komið til úrlausnar með öðrum hætti.

Fram kemur í ákvörðun Persónuverndar að ekki liggi fyrir að við vinnslu persónuupplýsinga vegna umræddrar haldlagningar hafi verið beitt ólögmætum aðferðum. Einnig er tekið fram að í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og framkominna skýringa liggi heldur ekki fyrir að við vinnsluna hafi verið brotið gegn beinum lagafyrirmælum um framkvæmd haldlagningar og þar með um leið gegn ákvæðum laga nr. 75/2019, sbr. einkum meginreglur 4. gr. laganna.

Niðurstaða Persónuverndar varð því sú, með hliðsjón af því hvernig málið væri vaxið og að teknu tilliti til hagsmuna af fullnægjandi rannsókn sakamála, svo og þess hvernig valdsvið Persónuverndar afmarkast gagnvart úrlausnarvaldi dómstóla, að vinnslan samrýmdist lögum nr. 75/2019.



Var efnið hjálplegt? Nei