Úrlausnir

Álit á takmörkun við afhendingu matsgerða vegna fasteignatjóna

Mál nr. 2020061898

1.12.2020

Persónuvernd veitti álit annars vegar um að það félli utan valdsviðs stofnunarinnar að túlka takmörkun aðgangsréttar samkvæmt upplýsinga- og stjórnsýslulögum. Hins vegar veitti Persónuvernd álit um að upplýsingar um fjárhæð bóta sem eigandi eignar hefur þegið frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands vegna tjóns af völdum jarðskjálfta eða annarra tjónsatburða teljist ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga. Einnig kemur fram að ljósmyndir sem eingöngu sýna skemmdir á húseignum (innan- sem utanhúss) teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi sömu laga svo fremi sem þær endurspegli ekki upplýsingar um íbúa er varða trúarskoðanir, þjóðerni, kynhneigð eða aðrar viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. 

Álit

Efni: Beiðni Náttúruhamfaratryggingar Íslands um álit á takmörkun upplýsingaréttar við afhendingu matsgerða vegna fasteignatjóna.

1.

Erindi Náttúruhamfaratryggingar Íslands

Persónuvernd vísar til erindis Náttúruhamfaratryggingar Íslands (hér eftir nefnd NTÍ), dags. 15. júní 2020, þar sem óskað er eftir áliti Persónuverndar á takmörkun upplýsingaréttar NTÍ við afhendingu matsgerða vegna fasteignatjóna.

Í erindinu kemur fram að nokkuð algengt sé að upplýsingabeiðnir berist stofnuninni vegna viðskipta með eignir sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum jarðskjálfta eða annarra tjónsatburða. Af því tilefni óskar NTÍ í erindi sínu álits Persónuverndar á annars vegar aðgangsrétti og takmörkunum á honum samkvæmt upplýsinga- og stjórnsýslulögum en hins vegar á aðgangsrétti og takmörkunum á honum á grundvelli persónuverndarlaga ásamt áliti á því hvaða upplýsingar teljist viðkvæmar persónuupplýsingar.

2.

Svar Persónuverndar

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling og telst einstaklingur persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, með tilvísun í auðkenni hans eða einn eða fleiri þætti sem einkennandi eru fyrir hann, sbr. 2. tölul. 3. gr. laganna og 1. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.

Með vinnslu er átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort heldur vinnslan er sjálfvirk eða ekki, sbr. 4. tölul. 3. gr. laganna og 2. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 6. tölulið 3. gr. laganna er þar átt við einstakling, lögaðila, stjórnvald eða annan aðila sem ákveður einn eða í samvinnu við aðra tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 7. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Eins og hér háttar til telst Náttúruhamfaratrygging Íslands vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu og takmörkunum á aðgangi upplýsinga.

2.1

Aðgangsréttur samkvæmt upplýsinga- og stjórnsýslulögum

Persónuvernd er eftirlitsstjórnvald skv. IV. kafla reglugerðar (ESB)2016/679 og annast eftirlit með framkvæmd hennar, laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sérákvæða í lögum sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga og annarra reglna um efnið, sbr. 1. mgr. 39. gr. fyrrgreindra laga.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 90/2018, sem fjallar um tengsl laganna við önnur lög, kemur fram að sérákvæði annarra laga um vinnslu persónuupplýsinga sem sett eru innan ramma reglugerðarinnar ganga framar ákvæðum laga þessara. Enn fremur kemur fram í 2. mgr. sömu greinar að persónuverndarlögin takmarki ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í upplýsinga- og stjórnsýslulögum.

Reglur upplýsingalaga nr. 140/2012 sem fjalla um takmörkun upplýsingaréttar eru matskenndar. Þær ber stjórnvaldi að túlka og meta í hverju einstöku tilviki fyrir sig með tilliti til fordæma og venja og draga fram þau sjónarmið sem ákvörðun skal byggð á. Þá skulu sjónarmiðin sem notuð eru við ákvörðunina einnig vegin og metin.

Persónuvernd áréttar að það heyrir undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Ákvörðun stjórnvalds um að synja málsaðila um aðgang að gögnum samkvæmt stjórnsýslulögum má kæra til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, hér úrskurðarnefndar náttúruhamfaratryggingar, skv. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Í ljósi framangreinds er það mat Persónuverndar að túlkun á takmörkun aðgangsréttar samkvæmt upplýsinga- og stjórnsýslulögum falli því utan valdsviðs stofnunarinnar og takmarkast svar við erindi NTÍ því við lög nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679.

2.2

Viðkvæmar persónuupplýsingar

Fyrirspurn NTÍ lýtur m.a. að því hvort tjónsfjárhæðir í matsgerðum eða ljósmyndir af skemmdum sem teknar eru af húseignum, að innan eða utan, teljist til viðkvæmra persónuupplýsinga.

Viðkvæmar persónuupplýsingar eru skilgreindar í 3. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018, þar sem talið er upp í fimm stafliðum hvað teljast viðkvæmar persónuupplýsingar. Er þar m.a. eftirfarandi upptalningu að finna: upplýsingar um kynþátt, þjóðernislegan uppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun eða aðild að stéttarfélagi (a-liður); heilsufarsupplýsingar, þ.e. persónuupplýsingar sem varða líkamlegt eða andlegt heilbrigði einstaklings, þ.m.t. heilbrigðisþjónustu sem hann hefur fengið, og upplýsingar um lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun (b-liður); upplýsingar um kynlíf manna og kynhneigð (c-liður).

Með vísan til framangreindrar skilgreiningar á hugtakinu viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018 teljast upplýsingar um fjárhæð bóta sem eigandi eignar hefur þegið frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands vegna tjóns af völdum jarðskjálfta eða annarra tjónsatburða ekki til slíkra upplýsinga. Þá teljast ljósmyndir sem eingöngu sýna skemmdir á húseignum (innan- sem utanhúss) ekki viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi sömu laga svo fremi sem þær endurspegli ekki upplýsingar um íbúa er varða trúarskoðanir, þjóðerni, kynhneigð eða aðrar viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Að lokum telur Persónuvernd rétt að árétta, í ljósi fyrirspurnar NTÍ, að ákvæði 17. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 15. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 um aðgangsrétt, eiga ekki við nema þegar hinn skráði óskar eftir aðgangi að gögnum sem varða hann sjálfan.


Í Persónuvernd, 10. september 2020


Helga Þórisdóttir                               Vigdís Eva Líndal



Var efnið hjálplegt? Nei