Úrlausnir

Birting leitarniðurstaðna í leitarvél Google

Mál nr. 2021101926

18.10.2022

Almennt geta einstaklingar í vissum tilfellum átt rétt á því að upplýsingar sem birtast í leitarvélum, t.d. Google, verði fjarlægðar. Þó niðurstöður fáist fjarlægðar af leitarvélum verður efnið enn á netinu en hægt er að fá það fjarlægt í sumum tilfellum.

Í þessu tilfelli var talið að hagsmunir almennings vægju þyngra en einkalífshagsmunir kvartanda vegna atvinnu og hlutverks hans í þjóðlífinu.

------

Persónuvernd úrskurðaði í máli þar sem fjallað var um rétt einstaklings til að fá eytt upplýsingum um sig sem birtar voru í leitarniðurstöðum í leitarvél Google, þegar leitað var eftir nafni viðkomandi.

Niðurstaða Persónuverndar var sú, með hliðsjón af atvinnu kvartanda og hlutverki hans í þjóðlífinu, að hagsmunir almennings af því að hafa aðgang að umræddum upplýsingum vægju þyngra en einkalífshagsmunir kvartanda. Réttur almennings til upplýsingafrelsis var því talinn víkja til hliðar rétti kvartanda til að gleymast.

Í ljósi þess að úrskurðurinn inniheldur nákvæmar upplýsingar um kvartanda, jafnvel þó persónuauðkenni væru afmáð, hefur Persónuvernd ákveðið að birta ekki úrskurðinn í heild sinni. Hins vegar hefur Persónuvernd tekið saman útdrátt úr úrskurðinum, sem fer hér á eftir. 

Útdráttur úr úrskurði

 

Kvartað var yfir birtingu leitarniðurstaðna í leitarvél Google er vísuðu á greinar þar sem fjallað var um kvartanda. Í greinunum var fjallað um meint einelti sem kvartandi átti að hafa viðhaft á vinnustað sínum. Google LLC hafnaði beiðni kvartanda um að fjarlægja fyrrnefndar leitarniðurstöður á grundvelli þess að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki til kynna að þær ásakanir sem fram kæmu í fréttaumfjölluninni væru rangar, auk þess sem sem fréttaumfjöllunin var ennþá talin þjóna almannahagsmunum þar sem stutt væri síðan fréttaumfjöllunin var birt og þar sem umfjöllunin tengdist störfum kvartanda.

Persónuvernd taldi að við mat á því hvort kvartandi ætti rétt á því að fá eytt tilteknum leitarniðurstöðum, sem birtast þegar nafn kvartanda er slegið inn í leitarvél Google, þyrfti í fyrsta lagi að kanna hvort sú vinnsla persónuupplýsinga, sem fram færi við notkun leitarvélarinnar, styddist við heimild samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Í öðru lagi þyrfti að meta hvort kvartandi ætti rétt á því að fá persónuupplýsingunum, þ.e. þeim tenglum og þeim upplýsingum sem birtar væru með leitarniðurstöðunum, eytt á grundvelli 20. gr. sömu laga, sbr. einnig 17. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Í niðurstöðu Persónuverndar kemur fram að ekki verði séð að umrædd vinnsla persónuupplýsinga geti stuðst við aðrar heimildir í 9. gr. laga nr. 90/2018 en 6. tölul. ákvæðisins. Þar er mælt fyrir um að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður gætir nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra, einkum þegar hinn skráði er barn. Í málinu reyndi því annars vegar á fjárhagslega hagsmuni Google LLC. tengda leitarvélinni, sem og hagsmuni almennings af því að geta nálgast upplýsingar á Netinu. Hins vegar reyndi á einkalífsverndarhagsmuni kvartanda, en Persónuvernd taldi verða að líta til þess markmiðs laga nr. 90/2018 að stuðla að því að með persónuupplýsingar væri farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.

Í úrskurði Persónuverndar er tekið fram að við mat á því, hvort rétturinn til að gleymast samkvæmt 20. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 17. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sé fyrir hendi, geti ráðið úrslitum hvort vinnsla sé nauðsynleg til að neyta réttarins til tjáningar- og upplýsingafrelsis samkvæmt a-lið 3. mgr. 17. gr., sbr. einnig 6. gr. laga nr. 90/2018 þar sem kveðið er á um að víkja megi frá ákvæðum laganna og reglugerðarinnar í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta að því marki sem það sé nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningar- og upplýsingarfrelsis hins vegar. Þyrfti því einnig að koma til skoðunar hvort umrædd vinnsla Google LLC væri nauðsynleg til að almenningur gæti neytt réttarins til upplýsingafrelsis og það gæti þannig vikið til hliðar rétti kvartanda til að gleymast samkvæmt 20. gr. laga nr. 90/2018 og 17. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. a-lið 3. mgr. greinarinnar.

Fram kemur í úrskurði Persónuverndar að niðurstaða um það, hvort vinnsla Google LLC styðjist við heimild í lögum nr. 90/2018 annars vegar og hins vegar um hvort víkja skuli til hliðar rétti kvartanda til að gleymast, hverfist um mat á þeim ólíku hagsmunum sem vegist á í málinu. Í báðum tilvikum þurfi að meta hagsmuni almennings af því að geta nálgast upplýsingar um kvartanda á Netinu, og þar með af því að geta neytt réttar síns til upplýsingafrelsis, andspænis einkalífsverndarhagsmunum kvartanda. Við slíkt hagsmunamat hafi einkum þýðingu hvort hinn skráði sé opinber persóna, t.d. stjórnmálamaður, eða hafi gegnt opinberu hlutverki. Slíkt geti leitt til þess að hinn skráði njóti, stöðu sinnar vegna, ekki sömu einkalífsverndar og óþekktir einstaklingar vegna mikilvægis umræðu um málefni sem kunni að eiga erindi til almennings. Einnig kemur fram í úrskurðinum að það hafi þýðingu við slíkt hagsmunamat að fréttaumfjöllunin snúi að aðalstarfi kvartanda og aðstæðum á vinnustað hans en ekki persónulegum högum kvartanda í einkalífi.

Niðurstaða Persónuverndar varð því sú, með hliðsjón af atvinnu kvartanda og hlutverki í þjóðlífinu, að hagsmunir almennings af því að hafa aðgang að hlutaðeigandi upplýsingum yrðu taldir vega þyngra en einkalífshagsmunir kvartanda. Var sú vinnsla Google LLC á persónuupplýsingum um kvartanda sem var til skoðunar því talin styðjast við heimild í 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. Þá var réttur almennings til upplýsingafrelsis talinn víkja til hliðar rétti kvartanda til að gleymast samkvæmt 20. gr. laga nr. 90/2018, sbr. a-lið 3. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Sú vinnsla persónuupplýsinga um kvartanda, sem fólst í því að birta umræddar leitarniðurstöður í leitarvél Google, var því ekki talin fara í bága við lög nr. 90/2018.



Var efnið hjálplegt? Nei