Birting mynda af fósturbarni á samfélagsmiðlum
Mál nr. 2020010723
Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem kvartað var yfir birtingu fósturmóður á myndum af barni kvartanda. Komist var að þeirri niðurstöðu að birting þeirra mynda sem aðgengilegar voru almenningi félli undir gildissvið persónuverndarlaga, en aðrar myndbirtingar féllu utan gildissviðs laganna. Í úrskurðinum er jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að myndbirtingin hafi verið heimil á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018, en þar segir að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil ef hún sé nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili gætir nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra, einkum þegar hinn skráði er barn. Við mat á því hvort hagsmunir barnsins vegi þyngra í því tilviki sem hér var til skoðunar var meðal annars litið til þess að ekki var um að ræða upplýsingar sem teljast viðkvæmar eða að öðru leyti þess eðlis að birting þeirra væri til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á barnið. Þá verður jafnframt talið, með hliðsjón af aldri barnsins og þroska, að afstaða þess til álitaefnisins eigi að hafa vægi í málinu, en barnið er 13 ára gamalt og var það hlynnt myndatökunum.
Úrskurður
Hinn 28. maí 2020 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli
nr. 2020010723 (áður 2018111583):
I.
Málsmeðferð
1.
Kvörtun
Hinn 24. október 2018 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefnd kvartandi) f.h. hennar sjálfrar og [barns hennar], [B] (f. 2007), yfir birtingu [C], fósturmóður [barns] hennar, á myndum af [barni] kvartanda á samfélagsmiðlum á tímabilinu frá janúar 2018 til október s.á. Í kvörtuninni segir að í janúar 2018 hafi [barn] kvartanda farið í fóstur til [C], en kvartandi segist vera fíkill og hafa fallið eftir að hafa verið edrú í fjögur ár. Barnið hafi áður verið í fóstri hjá [C] og segist kvartandi hafa óskað eftir því að [C] myndi ekki birta myndir af [því] á samfélagsmiðlum þar sem það myndi opinbera veikindi hennar. Í kvörtuninni segir að [C] hafi engu að síður birt margar myndir af [barni] hennar og að birtingin virðist ekki hafa þjónað málefnalegum tilgangi.
2.
Bréfaskipti
Með tölvupósti til kvartanda 11. desember 2018 óskaði Persónuvernd upplýsinga um hvort hún færi með forsjá [barns síns]. Svar barst með tölvupósti þann 14. s.m. Póstinum fylgdi afrit af forsjárvottorði frá Þjóðskrá Íslands þar sem segir að kvartandi sé forsjáaðili [barns síns]. Auk þess segir í tölvupóstinum að [barn] kvartanda vilji ekki að það sé á allra vitorði að [það] sé fósturbarn.
Með bréfi, dags. 17. janúar 2019, var [C] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Svarað var með tölvupósti þann 5. febrúar s.á. Í svarinu segir að [barn] kvartanda hafi verið í fóstri hjá henni frá því í […] og að [það] verði það áfram um sinn. Einnig segir að [það] hafi til fjölda ára verið [vistað] hjá henni ítrekað, til lengri og skemmri tíma, og að [það] sé nú sem endranær hluti af fjölskyldu hennar.
Í svarinu segir að hún hafi áður birt myndir af [barninu] og að kvartanda hafi verið kunnugt um það og ekki gert athugasemdir við það. Einnig segir að þegar henni hafi orðið kunnugt um afstöðu kvartanda, sbr. framangreint, hafi hún reynt að virða hana en það hafi þó sett hana í erfiða stöðu. Sem dæmi nefnir hún að þurfa mögulega að útiloka [barn] kvartanda frá hópmyndum á jólum og öðrum sambærilegum fjölskyldumyndatökum. Þá segir að [barn] kvartanda hafi sagst vilja vera með á myndum af fjölskyldunni og að annað væri skrýtið með hliðsjón af því að [það] væri þátttakandi í fjölskyldulífi þeirra.
Einnig er því hafnað að með því að birta myndir af [barni] kvartanda séu veikindi kvartanda opinberuð. Í svarinu segir að [C] hafi birt fyrstu myndina af [barni] kvartanda á afmælisdegi [þess] og að hún hafi gert það öll árin frá því að [það] kom fyrst í fóstur til hennar. Þar sem [barnið] gangi í skóla og stundi íþróttir sem hún hafi fylgt [því] í telji [C] sig ekki hafa opinberað neitt með fyrrgreindum myndbirtingum. [Barnið] kynni sig sem fósturbarn þeirra og hafi aldrei farið í felur með það. Auk þess hafi hún sjálf kynnt [það] sem [fósturbarn] þeirra þegar þess hafi þurft en hún hafi hins vegar ekki talað um stöðu kvartanda eða veikindi hennar við aðra.
Svari [C] fylgdu afrit þeirra mynda sem birtar höfðu verið á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram á umræddu tímabili. Um er að ræða bæði hóp- og einstaklingsmyndir af [barni] kvartanda, en myndirnar eru 60 talsins. Meðal myndanna eru hópmyndir teknar á jólum og á nýársdag og einstaklings- og hópmyndir frá íþróttaviðburðum, auk annarra fjölskyldumynda. Engin myndanna sýnir [barnið] í aðstæðum sem telja mætti viðkvæms eðlis.
Með bréfi, dags. 14. júní 2019, var kvartanda veittur kostur á að tjá sig um framkomin svör [C]. Í svari kvartanda, sem barst með tölvupósti 26. s.m., segir að kvartandi sé greind með geð- og fíknisjúkdóm sem hafi gert aftur vart við sig í […]. Börn hennar hafi því farið í fóstur þann […]. [Barn] hennar hafi, í gegnum tíðina, farið í fóstur til [C] til lengri eða skemmri tíma þegar kvartandi hafi veikst. Yfirleitt hafi ekki liðið langur tími þar til [C] hafi farið að birta myndir af [barni] hennar á samfélagsmiðlum. Þá segir að reynsla kvartanda sé að fólk frétti af veikindum hennar á Facebook og fari í kjölfarið að spyrjast fyrir. [C] virðist leggja mikið upp úr því að hafa fósturbörn sín vel til höfð, sem sé vel, en hún virðist sækjast eftir einhvers konar viðurkenningu frá samfélaginu. Jafnframt segir í bréfi kvartanda að það eigi ekki að ráða ferðinni að [barn] hennar vilji láta birta myndir af sér, enda sé [það] 12 ára [gamalt] og ekki [fært] um að ákveða hvað megi birta á samfélagsmiðlum og hvað ekki. Þá stórefist kvartandi um að [því] hafi verið gerð grein fyrir því að myndbirtingar af þessu tagi fælu í sér upplýsingar um þeirra mestu erfiðleika og vanda. [Barn] hennar hafi einmitt sagt að [það] skildi ekki og þætti óþægilegt að allir vissu að [það] væri fósturbarn. Að lokum segir að kvartandi vilji undirstrika að kvörtunin sé tilkomin vegna þess að myndbirtingarnar hafi opinberað veikindi hennar og valdið henni andlegum skaða.
Með svari kvartanda fylgdi tölvupóstur frá henni til starfsmanns barnaverndarnefndar […] frá […] þar sem kvartandi kvartar m.a. yfir [C] og birtingum hennar á myndum af [barni] hennar á samfélagsmiðlum.
3.
Símtal Persónuverndar við [barn] kvartanda
Hinn 7. maí 2020 hringdi starfsmaður Persónuverndar í [barn] kvartanda, sem er nú 13 ára [gamalt], til að segja [því] frá kvörtuninni og bjóða [því] að segja sína skoðun á birtingu [C] á myndum af [því] á samfélagsmiðlum. Fór starfsmaður Persónuverndar stuttlega yfir hlutverk stofnunarinnar, efni kvörtunarinnar og það álitaefni sem greiða þyrfti úr. [Barn] kvartanda var [spurt] hvað [því] fyndist um birtingu mynda af [því] á samfélagsmiðlum og hver afstaða [þess] í málinu væri. Svaraði [barnið] á þá leið að [það] væri [ánægt] með að [það] væri með á myndunum, þá liði [því] eins og [það] væri hluti af fjölskyldunni. Þá kom fram í símtalinu að [barnið] og [C] hefðu rætt saman um birtingu myndanna á samfélagsmiðlum.
[Barn] kvartanda var jafnframt [spurt] hvort [því] þætti skipta máli hvort myndirnar væru birtar á þann hátt að þær væru einungis aðgengilegar vinum [C] á samfélagsmiðlum eða hvort þær væru birtar á opnum síðum og því aðgengilegar almenningi. [Barnið] sagði það ekki skipta [það] máli.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið – Afmörkun máls
Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hefur sérhver skráður einstaklingur eða fulltrúi hans rétt til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd ef hann telur að vinnsla persónuupplýsinga um hann brjóti í bága við reglugerðina eða ákvæði laganna.
Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling og telst einstaklingur persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, með tilvísun í auðkenni hans eða einn eða fleiri þætti sem einkennandi eru fyrir hann, sbr. 2. tölul. 3. gr. laganna og 1. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.
Í máli því sem hér um ræðir er annars vegar kvartað yfir vinnslu persónuupplýsinga um [barn] kvartanda sem fólst í því að birta myndir af [því] á samfélagsmiðlum, og hins vegar er kvartað yfir því að birting mynda af [barni] kvartanda hafi opinberað veikindi kvartanda sjálfrar. Í málinu liggur fyrir að birtar voru myndir af [barni] kvartanda á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram, en að mati Persónuverndar verður ekki fallist á að með þeirri birtingu hafi jafnframt verið unnið með persónuupplýsingar um kvartanda. Er þar meðal annars litið til þess að margvíslegar aðstæður geta orðið til þess að börn eru vistuð hjá fósturforeldrum og fela upplýsingar um þá tilhögun sem slíka þannig ekki í sér upplýsingar um veikindi kvartanda. Verður því ekki talið að unnið hafi verið með persónuupplýsingar um kvartanda og er þeim þætti kvörtunarinnar því vísað frá.
Með vinnslu er átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki, sbr. 4. tölul. 3. gr. laganna og 2. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna gilda þau og reglugerðin ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota. Í 18. gr. formálsorða reglugerðarinnar segir m.a. að vinnsla sem sé einungis í þágu einstaklings eða fjölskyldu hans geti t.d. tekið til bréfaskipta og þess að halda skrár yfir heimilisföng, notkunar samfélagsmiðla og Netnotkunar sem fram fer í tengslum við slíka vinnslu. Við mat á því hvort umrædd birting á myndum af [barni] kvartanda á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram er undanskilin gildissviði laganna þarf að meta hvort birtingin feli eingöngu í sér vinnslu persónuupplýsinga til persónulegra nota. Umrædd Instagram-síða er lokuð almenningi og er það mat Persónuverndar, með hliðsjón af áðurnefndum sjónarmiðum, að birting mynda af [barni] kvartanda á þeirri síðu falli undir undantekningu frá gildissviði laga nr. 90/2018 sem getið er í 2. mgr. 4. gr. þeirra Sú birting fellur því utan við gildissvið persónuverndarlaganna og þar með valdsviðs Persónuverndar og verður þeim þætti kvörtunar því einnig vísað frá.
Á Facebook-síðu [C] er hins vegar að finna persónugreinanlegar myndir af [barni] kvartanda sem eru birtar opinberlega og aðgengilegar almenningi. Eins og hér háttar til, og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í niðurlagi kafla 3.1.1 í áliti nr. 5/2009 um samfélagsmiðla, frá vinnuhópi forstjóra persónuverndarstofnana sem starfaði á grundvelli 29. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB, þykir ekki fært að líta svo á að vinnslan, sem sú birting felur í sér, taki aðeins til persónuupplýsinga sem ætlaðar eru til persónulegra nota. Er því um að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 90/2018 og þar með valdsvið Persónuverndar.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laganna er þar átt við einstakling, lögaðila, stjórnvald eða annan aðila sem ákveður einn eða í samvinnu við aðra tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 7. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Eins og hér háttar til telst [C] vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu, þ.e. birtingu á myndum af [barni] kvartanda sem eru aðgengilegar almenningi á samfélagsmiðlinum Facebook.
2.
Lögmæti vinnslu
Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að falla undir eitthvert af heimildarákvæðum 9. gr. laga nr. 90/2018. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. 3. tölul. 3. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 11. gr. laganna. Í því tilviki sem hér um ræðir verður ekki litið svo á að um sé að ræða persónuupplýsingar sem talist geti viðkvæmar eða viðkvæms eðlis.
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018 er vinnsla persónuupplýsinga heimil á grundvelli samþykkis hins skráða. Persónuvernd telur að vinnsla af því tagi, sem hér um ræðir, geti einkum stuðst við þetta heimildarákvæði. Samkvæmt 5. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 fer forsjárforeldri barns með lögformlegt fyrirsvar þess. Kvartandi fer með forsjá [barns síns] og kvartar í máli þessu yfir birtingu umræddra mynda. Samþykki forsjáraðila, þ.e. kvartanda, er því ekki til að dreifa í þessu tilviki. Hins vegar liggur fyrir að [hinn skráði einstaklingur], sem er [barn] kvartanda og myndirnar eru af, er fylgjandi birtingu myndanna.
Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018 er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili gætir nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra, einkum þegar hinn skráði er barn. Mál þetta lýtur að birtingu einstaklings á myndum af fjölskyldu sinni, þ. á m. [barni] kvartanda sem hefur verið í fóstri hjá viðkomandi einstaklingi til lengri tíma, en eins og framan greinir sýnir engin myndanna aðstæður sem telja mætti viðkvæms eðlis. Að því virtu verður talið að ábyrgðaraðili, sem og [barn] kvartanda [sjálft], geti átt lögmæta hagsmuni af myndbirtingunni. Þar sem [barn] kvartanda hefur lýst því yfir að [það] sé fylgjandi vinnslunni verður ekki talið að hagsmunir eða grundvallaréttindi og frelsi hins skráða, þ.e. [þess sjálfs], vegi þyngra en hinir lögmætu hagsmunir. Við mat á því er meðal annars litið til þess að ekki er um að ræða upplýsingar sem teljast viðkvæmar eða að öðru leyti þess eðlis að birting þeirra sé til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á [barnið]. Þá verður jafnframt talið, með hliðsjón af aldri [þess] og þroska, að afstaða [þess] til álitaefnisins eigi að hafa vægi í málinu, en [barnið] er 13 ára [gamalt]. Er því jafnframt uppfyllt skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018 þar sem ótvírætt samþykki [þess] liggur fyrir.
Með hliðsjón af framangreindu er það því mat Persónuverndar að birting ábyrgðaraðila á myndum af [barni] kvartanda á samfélagsmiðlinum Facebook hafi verið heimil á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Vísað er frá kvörtun um að [C] hafi unnið með persónuupplýsingar um kvartanda.
Vísað er frá kvörtun um að birting [C] á myndum af [barni] kvartanda á Instagram hafi brotið gegn lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Birting [C] á myndum af [barni] kvartanda á Facebook samrýmist lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Í Persónuvernd, 28. maí 2020
Björg Thorarensen
formaður
Aðalsteinn Jónasson Ólafur Garðarsson
Vilhelmína Haraldsdóttir Þorvarður Kári Ólafsson