Úrlausnir

Hljóðupptaka á húsfélagsfundi og miðlun hennar

Mál nr. 2022061017

22.11.2022

Almennt mega einstaklingar ekki taka upp samtöl manna á milli nema með samþykki þeirra sem heyrast á upptökunni.

Í þessu tilfelli þótti ekki sannað að upptaka hefði farið fram.

-----

Persónuvernd úrskurðaði í máli þar sem kvartað var yfir hljóðritun á húsfélagsfundi, þar á meðal á viðkvæmum persónuupplýsingum um barn kvartanda, án samþykkis eða vitundar hennar. Einnig var kvartað yfir miðlun hljóðupptökunnar til þriðja aðila.

Niðurstaða Persónuverndar var að orð stæði gegn orði en engin gögn lágu fyrir í málinu sem studdu að hljóðritun hefði farið fram í reynd eða að henni hefði verið miðlað. Því lá ekki fyrir hvort brotið hefði verið á rétti kvartanda samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Úrskurður


um kvörtun [A] yfir hljóðritun húsfélagsfundar og miðlun hennar af hálfu [B] í máli nr. 2022061017:

I.
Málsmeðferð

Hinn 2. júní 2022 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) yfir hljóðritun [B] á húsfélagsfundi að [...], þar á meðal á viðkvæmum persónuupplýsingum um barn kvartanda, án samþykkis eða vitundar hennar. Einnig er kvartað yfir miðlun sama aðila á hljóðrituninni til þriðja aðila.

Persónuvernd bauð [B] að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 4. október 2022, og bárust svör hans með tölvupósti 6. s.m. Þá var kvartanda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör [B] með bréfi, dags. 7. s.m., og bárust þær með tölvupósti 19. s.m. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

1.
Sjónarmið kvartanda

Kvartandi telur að [B], sem hafi mætt í umboði eins húseigandans á fundinn, hafi eftir ósætti á fundinum spurt spurninga um ólögráða barn kvartanda, rétt síðan upp upptökutæki og sagst vera að hljóðrita fundinn og hefði í hyggju að senda hljóðritunina á lögfræðing sinn.

2.
Sjónarmið [B]

 

[B] hefur hins vegar hafnað því en upplýst að um misskilning hafi verið að ræða. Á húsfélagsfundinum hafi kvartandi verið búin að snúa eftirlitsmyndavélum sínum þannig að hún virtist vera að taka upp fundinn í hljóð og mynd. Því hafi hann grínast með að vera sjálfur að taka upp fundinn. Engin hljóðritun hafi hins vegar farið fram af hans hálfu og því miðlun hljóðritunar ekki heldur.

II.
Niðurstaða

Samkvæmt framangreindu stendur orð gegn orði um það hvort sú vinnsla persónuupplýsinga sem kvartað er yfir hafi farið fram. Þá liggja engin gögn fyrir í málinu sem styðja að hljóðritun hafi farið fram í reynd eða að henni hafi verið miðlað.

Með vísan til alls þessa hefur Persónuvernd ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort [B] hafi unnið með umræddar persónuupplýsingar kvartanda á þann hátt sem greinir í kvörtun. Ekki er því unnt að fullyrða að brotið hafi verið gegn rétti kvartanda samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá verður ekki séð að unnt sé að kanna það frekar með þeim úrræðum sem Persónuvernd hefur lögum samkvæmt, eða að tilefni sé til þess að stofnunin beiti þeim valdheimildum sem henni eru fengnar í lögum, til þess að rannsaka það nánar.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ekki liggur fyrir að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um [A] hjá [B] sem braut gegn rétti hennar samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Persónuvernd 22. nóvember 2022


Rebekka Rán Samper



Var efnið hjálplegt? Nei