Úrlausnir

Kvörtun vegna dyrabjöllumyndavélar

Mál nr. 2023101631

25.7.2024

Kvartað var yfir notkun dyrabjöllumyndavélar í tvíbýlishúsi. Kvartandi málsins hélt því fram að á dyrabjöllunni væri hreyfiskynjari og að myndavél færi í gang í hvert sinn sem gengið væri framhjá. Að virtum gögnum málsins og andmælum eiganda dyrabjöllumyndavélarinnar taldi Persónuvernd á hinn bóginn ósannað að myndavélin færi í gang við skynjun hreyfingar. Þótti því jafnframt ósannað að um væri að ræða rafræna vöktun eins og hún er skilgreind í persónuverndarlögum. Að því virtu og með hliðsjón af því að myndefni úr myndavélinni virtist ekki vistað eða unnið frekar þótti enn fremur ósannað að vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við notkun vélarinnar væri til annars en einvörðungu einkanota og að hún heyrði þar með undir gildissvið persónuverndarlaga.

Úrskurður


um kvörtun yfir vinnslu persónuupplýsinga með notkun dyrabjöllumyndavélar, í máli nr. 2023101631:

Málsmeðferð

1 Hinn 13. október 2023 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) yfir myndavél við útidyr [B] í tvíbýlishúsi að [...]. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að því að [B] hafi sett dyrabjöllu á dyrakarminn hjá sér og á henni sé myndavél sem vísi að útidyrum kvartanda. Myndavélin skynji hreyfingu og fari í gang í hvert skipti sem kvartandi gangi um útidyr sínar.

2 Persónuvernd bauð [B] að tjá sig um kvörtunina með bréfi 14. febrúar 2024 og bárust svör hans með tölvupósti 27. s.m. Kvartanda var veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör [B] með bréfi 7. mars s.á. og bárust þær með bréfi 21. s.m. Að beiðni kvartanda óskaði Persónuvernd upplýsinga frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með tölvupósti s.d. og fékk af því tilefni afhent afrit af dagbókarfærslum lögreglunnar vegna erindis kvartanda. Þá óskaði Persónuvernd nánari upplýsinga frá [B] með bréfi 22. s.m. og bárust svör hans með tölvupósti 10. apríl s.á.

3 Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

Ágreiningsefni

4 Ágreiningur er um hvort [B] sé heimil notkun dyrabjöllumyndavélar sem staðsett er við útidyr hans í tvíbýlishúsi að [...], þar sem sjónsvið myndavélarinnar nái til sameiginlegs svæðis fyrir framan húsið.

Fyrirliggjandi gögn

5 Kvartandi sendi Persónuvernd myndir af umræddri dyrabjöllumyndavél með bréfi 25. febrúar 2024. Myndirnar eru teknar frá dyrakarmi íbúðar kvartanda og vísa yfir á útidyr [B] þar sem umrædd dyrabjöllumyndavél er uppsett. Blátt ljós sést loga á neðri hluta dyrabjöllunnar.

6 Persónuvernd fékk að auki sendar dagbókarfærslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna erindis kvartanda. Í færslunum kemur meðal annars fram að lögreglan hafi farið að [...] og skoðað umrædda dyrabjöllu. Nánar tiltekið segir að dyrabjalla með myndavél af tegundinni Hombli sé staðsett á dyrakarmi vinstra megin þegar gengið er að inngangi hússins. Blátt ljós hafi kviknað á myndavélinni þegar gengið var upp að húsinu og því megi gera ráð fyrir að skynjari sé á myndavélinni.

7 [B] sendi Persónuvernd skjáskot úr umræddri myndavél með tölvupósti 10. apríl 2024. Á skjáskotinu má sjá að myndavélin vísar út á veg/innkeyrslu fyrir framan útidyr tvíbýlishússins að [...]. Skjáskotið sýnir jafnframt að myndavélin hefur ekki verið tengd skýjaþjónustu Hombli.

8 Þá aflaði Persónuvernd upplýsinga um eiginleika Hombli Smart Doorbell af vefsíðu framleiðanda tækisins. Þar kemur meðal annars fram að dyrabjallan er búin hreyfiskynjara og er tengd við snjallforrit Hombli í gegnum síma notandans. Notandi tækisins fær senda tilkynningu og skjáskot úr myndavélinni þegar tækið skynjar hreyfingu. Þá er unnt er að stilla næmni hreyfiskynjunarinnar á þrjá vegu eða slökkva alfarið á virkninni. Að auki er unnt að varðveita myndir og myndskeið úr vélinni á minniskorti og í skýjaþjónustu.

Sjónarmið aðila

Sjónarmið kvartanda

9 Kvartandi telur að umrædd vöktun sé óheimil samkvæmt persónuverndarlögum og óskar þess að Persónuvernd aðstoði við að fá myndavélina fjarlægða. Kvartandi vísar til þess að myndavélin á dyrabjöllu [B] fari í gang um leið og útihurð hennar er opnuð. Myndavélin taki myndir og hljóð þegar kvartandi gangi eftir stéttinni fyrir framan húsið. Að auki séu myndir og upptökur úr myndavélinni varðveittar í skýinu.

Sjónarmið [B]

10 [B] tekur fram að engin eftirlitsmyndavél sé á hans vegum að [...]. Þar sé hins vegar dyrabjalla með myndavél, af tegundinni Hombli Smart Doorbell, sem unnt er að tengja við síma þegar bjöllunni er hringt. Hún virki því eins og þráðlaus dyrasími. Fram kemur að dyrabjallan sé staðsett á dyrakarmi og vísi 45 gráður út frá karmi. Allar stillingar séu á lægsta stigi og hvorki myndir né myndskeið séu varðveitt úr dyrabjöllunni. Dyrabjallan hafi að auki verið stillt með þeim hætti að engar tilkynningar berist í síma.

Forsendur og niðurstaða

Afmörkun máls og efnislegt gildissvið laga nr. 90/2018

11 Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

12 Mál þetta lýtur að notkun dyrabjöllu með myndavél sem búin er hreyfiskynjara og unnt er að tengja við snjallforrit í síma. Skjáskot úr myndavélinni sýnir að sjónsviðið nær yfir á veginn fyrir framan útidyr tvíbýlishússins að [...]. Sé unnt að persónugreina einstakling á mynd eða myndbandi sem miðlað er úr dyrabjöllunni yfir í snjallforrit í síma notandans telst það til sjálfvirkrar vinnslu persónuupplýsinga.

13 Til skoðunar kemur hvort 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018, sbr. c-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 eigi við um umrædda vinnslu. Þar er kveðið á um að lögin og reglugerðin gildi ekki um vinnslu persónuupplýsinga af hálfu einstaklings ef vinnslan er hluti af starfsemi sem er einungis í þágu hans sjálfs eða fjölskyldu hans. Í 18. lið formála reglugerðarinnar eru nánari skýringar á framangreindu ákvæði. Þar segir að reglugerðin eigi ekki við um vinnslu einstaklings á persónuupplýsingum ef hún er einungis í þágu hans sjálfs eða fjölskyldu hans og hefur þannig engin tengsl við atvinnu- eða viðskiptastarfsemi. Þá eru talin upp dæmi um athafnir sem falla undir umrætt ákvæði, en miðað við þá upptalningu skiptir máli hvort um sé að ræða venjulegar og lögmætar athafnir og hvort vinnslan varði aðeins hreina einkahagi eða ekki. Í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 90/2018 er einnig fjallað um 2. mgr. 4. gr. laganna og c-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar í tengslum við rafræna vöktun. Þar er áréttað að vöktun sem nær til sameignar fjöleignarhúss falli undir gildissvið laganna og reglugerðarinnar. Að mati Persónuverndar verður því að ganga út frá því að vinnsla persónuupplýsinga með myndavél á dyrabjöllu falli almennt innan gildissviðs laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679, sé um rafræna vöktun að ræða sem nær út fyrir einkayfirráðasvæði þess sem viðhefur vöktunina.

14 Rafræn vöktun er skilgreind í 9. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018, sem vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer að jafnaði um. Hugtakið tekur til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga og sjónvarpsvöktunar sem fram fer með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga. Ekki er skilyrði að vöktun sé stöðugt í gangi, en vöktun tengd hreyfiskynjara gæti fallið hér undir. Þá er ekki er skilyrði að yfirlýstur tilgangur með uppsetningu búnaðarins sé að fylgjast með fólki, heldur skiptir hér máli hvort hann geri það í raun.

Niðurstaða

15 Í því máli sem hér er til úrlausnar hefur að mati Persónuverndar þýðingu hvort hreyfiskynjun dyrabjöllumyndavélarinnar sé virk. Fari myndavél dyrabjöllunnar í gang í hvert skipti sem kvartandi gengur um veginn fyrir framan húsið, sem sjónsvið myndavélarinnar nær til, væri að mati Persónuverndar um rafræna vöktun að ræða sem félli innan gildissviðs persónuverndarlöggjafarinnar. Öðru máli gegnir hins vegar ef myndavélin fer eingöngu í gang þegar dyrabjöllunni er hringt. Við þær aðstæður fellur vinnslan ekki undir áðurgreinda skilgreiningu rafrænnar vöktunar, sbr. umfjöllun í efnisgrein 14, þar sem hún er hvorki viðvarandi né endurtekin reglulega. Það er jafnframt mat stofnunarinnar að slík notkun dyrabjöllu geti talist venjuleg og lögmæt athöfn sem fer eingöngu fram í þágu eiganda hennar og fjölskyldu hans. Er sú niðurstaða í samræmi við ákvörðun Persónuverndar í máli nr. 2021081553. Í tilvísuðu máli náði sjónsvið myndavélar á Ring-dyrabjöllu til sameignar í fjöleignarhúsi og fór upptaka aðeins í gang ef ýtt var á dyrabjölluna og varði í mjög skamman tíma. Vinnslan var hvorki talin viðvarandi né endurtekin reglulega og taldist því ekki vera rafræn vöktun. Niðurstaða Persónuverndar var að um venjulega og lögmæta athöfn væri að ræða sem færi eingöngu fram í þágu eiganda dyrabjöllunnar og fjölskyldu hans. Var vinnslan því talin falla utan efnislegs gildissviðs laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna og c-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.

16 Ljóst er að aðila greinir á um hvort hreyfiskynjun umræddrar myndavélar sé virk. Kvartandi telur að myndavélin fari í gang um leið og útihurð hennar er opnuð og þegar hún gengur eftir stéttinni framan við húsið. [B] heldur því hins vegar fram að að myndavélin fari eingöngu í gang þegar bjöllunni er hringt og engar tilkynningar berist í síma frá dyrabjöllunni. Um þetta atriði stendur því orð gegn orði. Með vísan til þess og umfjöllunar í efnisgreinum 13-15 liggur ekki fyrir að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga sem fellur innan gildissviðs laga nr. 90/2018, og reglugerðar (ESB) 2016/679. Þá telur Persónuvernd ekki tilefni til þess að stofnunin beiti frekari valdheimildum, sem henni eru fengnar í lögum nr. 90/2018, til þess að rannsaka það nánar.

17 Loks er vakin athygli á því að Persónuvernd tekur ekki afstöðu til þess hvort skilyrði annarra laga eru uppfyllt en um heimildir einstakra eigenda til uppsetningar búnaðar á sameign í fjöleignarhúsum, þar á meðal á ytra byrði þeirra, gilda lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Ágreining á grundvelli þeirra laga má bera undir kærunefnd húsamála.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ósannað er að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um [A], með myndavél á [B], sem fellur undir gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679.

Persónuvernd, 4. júlí 2024

Edda Þuríður Hauksdóttir                Harpa Halldórsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei