Úrlausnir

Kvörtun yfir birtingu persónuupplýsinga á samfélagsmiðli

Mál nr. 2020051558

20.4.2022

Persónuvernd hefur vísað frá kvörtun vegna færslu einstaklings á samfélagsmiðli sínum og birtingu á hluta af eineltisskýrslu sem varðaði bæði kvartanda og einstaklinginn sem birti færsluna. Persónuvernd taldi að umkvörtunarefnið í máli þessu varðaði tjáningu einstaklings (þ.e. ábyrgðaraðila) og að úrlausn þess lyti einkum að því hvort sú tjáning yrði talin fela í sér misnotkun á stjórnarskrárvörðum rétti kvartanda til friðhelgi einkalífs, sbr. jafnframt álit Persónuverndar um persónuvernd og tjáningu einstaklinga á Netinu, frá 25. janúar 2022. Vísaði Persónuvernd kvörtuninni frá á þeim forsendum að stofnunin væri ekki bær til þess að úrskurða um hvort einstaklingur hafi tjáð sig með slíkum hætti að í því felist misnotkun á stjórnarskrárvörðum rétti til friðhelgi einkalífs heldur heyri slíkur ágreiningur undir dómstóla. 

Ákvörðun


um kvörtun yfir birtingu persónuupplýsinga um kvartanda í færslu [B] á Facebook-síðu hennar í máli nr. 2020051558:

I.
Málsmeðferð

Hinn 28. apríl 2020 barst Persónuvernd kvörtun frá Sigurði Frey Sigurðssyni lögmanni, f.h. [A] (hér eftir kvartandi), yfir birtingu persónuupplýsinga um hana í færslu á Facebook-síðu [B]. Nánar tiltekið laut kvörtunin að því að í færslunni hefði hluti skýrslu eineltisteymis, sem væri trúnaðarmál, verið birtur orðréttur. Þá hefði kvartandi verið nafngreind í umræddri færslu.

 

Persónuvernd bauð [B] að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 22. febrúar 2021, og bárust svör hennar með tölvupósti 14. mars s.á. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi ákvörðun.

Meðferð málsins hefur tafist vegna mikilla anna hjá Persónuvernd.

II.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að birtingu persónuupplýsinga um kvartanda í færslu [B] á Facebook-síðu hennar. Telst birting þeirra vera vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679. [B] telst vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679.

Verkefnum Persónuverndar er lýst í 39. gr. laga nr. 90/2018 en þar segir meðal annars að stofnunin annist eftirlit með framkvæmd laganna, reglugerðar (ESB) 2016/679, sérákvæða í lögum sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga og annarra reglna um efnið. Þá segir að Persónuvernd úrskurði um hvort brot hafi átt sér stað, berist stofnuninni kvörtun frá skráðum einstaklingi eða fulltrúa hans.

Í framkvæmd hefur Persónuvernd litið svo á að í umræddum lagaákvæðum felist ekki að stofnunin hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um mörk réttinda samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, t.a.m. tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. hennar og friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr., heldur heyri slíkur ágreiningur undir dómstóla. Það skoðast í ljósi þess að samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar á hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Af ákvæðinu verður sú ályktun dregin að dómstólar, en ekki stjórnvöld, taki afstöðu til þess hvort tjáning sé í andstöðu við lög. Í þessu sambandi vísast enn fremur til orðalags 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994, um að sérhver maður eigi rétt til tjáningarfrelsis „án afskipta stjórnvalda“. Af því leiðir að Persónuvernd er ekki bær til þess að úrskurða um hvort í tjáningu felist misnotkun á stjórnarskrárvörðum rétti til friðhelgi einkalífs, sem enn fremur nýtur verndar 8. gr. mannréttindasáttmálans.

Í kafla 3.2 í áliti Persónuverndar um persónuvernd og tjáningu einstaklinga á Netinu, frá 25. janúar 2022, kemur fram að ef með skrifum einstaklinga á Netinu séu birt gögn af einhverju tagi, sem hafi að geyma persónuupplýsingar um aðra einstaklinga, kunni Persónuvernd að úrskurða um lögmæti þeirrar birtingar. Hið sama eigi við um upplýsingar í texta sjálfra skrifanna sem fengnar eru úr slíkum gögnum. Þannig sé hugsanlegt að kvörtun yfir færslu á samfélagsmiðli yrði vísað frá hvað snerti texta færslunnar á grundvelli þess að um tjáningu væri að ræða, en að fjallað yrði um lögmæti birtingar fylgiskjals með sömu færslu, sbr. til hliðsjónar úrskurð Persónuverndar, dags. 24. febrúar 2016, í máli nr. 2015/1326. Þá segir einnig í álitinu að það geti skipt máli hver tengsl þess einstaklings, sem birtir gögn eða upplýsingar úr þeim, séu við það mál sem upplýsingarnar varða. Þannig sé til að mynda líklegra að birting einstaklings á gögnum sem varða hann sjálfan yrði talin fela í sér tjáningu en ef hann hefur engin bein tengsl við efni gagnanna, enda verði að játa fólki ákveðið svigrúm til umfjöllunar um eigið líf án afskipta stjórnvalda.

Í máli þessu er kvartað yfir birtingu upplýsinga úr eineltisskýrslu sem varðar bæði kvartanda og þann einstakling sem birtir færsluna. Að öllum málsgögnum virtum og með vísan til framangreindra sjónarmiða er það niðurstaða Persónuverndar að umkvörtunarefnið í máli þessu varði tjáningu einstaklings (þ.e. ábyrgðaraðila) og að úrlausn þess lyti einkum að því hvort sú tjáning yrði talin fela í sér misnotkun á stjórnarskrárvörðum rétti kvartanda til friðhelgi einkalífs, sbr. framangreint.

Eins og að framan greinir hefur Persónuvernd litið svo á að stofnunin sé ekki bær til að taka ákvörðun um hvort einstaklingur hafi tjáð sig með slíkum hætti að í því felist misnotkun á stjórnarskrárvörðum rétti til friðhelgi einkalífs heldur heyri slíkur ágreiningur undir dómstóla. Er Persónuvernd því ekki bær til að úrskurða um lögmæti birtingarinnar.

Á k v ö r ð u n a r o r ð:


Kvörtun [A] yfir birtingu persónuupplýsinga um hana í færslu á Facebook-síðu [B] er vísað frá.

 

Persónuvernd, 20. apríl 2022

 

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                              Steinunn Birna Magnúsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei