Úrlausnir

Kvörtun yfir færslu og myndbirtingu á samfélagsmiðli vísað frá

Mál nr. 2021071468

14.6.2023

Persónuvernd hefur litið svo á að stofnunin hafi ekki vald til að taka bindandi ákvörðun um mörk réttinda samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar, t.a.m. tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. og friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr., heldur heyri slíkur ágreiningur undir dómstóla.

Í þessu tilviki var textafærsla á Facebook-síðu talin fela í sér tjáningu. Beint samhengi hafi verið milli birtingar ljósmynda með færslunni og myndirnar því taldar standa í það nánum tengslum við þá tjáningu sem fólst í birtingu textafærslunnar sjálfrar að líta yrði á hvort tveggja sem órjúfanlega heild. Var kvörtuninni því vísað frá.

----

Persónuvernd vísaði frá kvörtun yfir birtingu ljósmynda af niðurstöðu og dómsorði héraðsdóms með færslu á Facebook-síðu foreldris barns. Ljósmyndirnar voru birtar með textafærslu á Facebook-síðu foreldris þar sem tilteknum viðhorfum var lýst. Taldi Persónuvernd birtingu ljósmyndanna hafa staðið í svo nánum tengslum við textafærslurnar sjálfar að líta yrði á hvort tveggja sem órjúfanlega heild. Vísaði Persónuvernd kvörtuninni frá á þeim forsendum að stofnunin væri ekki bær til þess að úrskurða um hvort viðkomandi aðilar hefðu farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns samkvæmt stjórnarskrá.

Ákvörðun


um kvörtun yfir færslu á Facebook-síðu í máli nr. 2021071468:

I.
Málsmeðferð

Hinn 6. júlí 2021 barst Persónuvernd kvörtun [A] (hér eftir kvartandi) yfir birtingu ljósmynda af niðurstöðu og dómsorði héraðsdóms með færslu á Facebook-síðu [B] þar sem nafn hennar og kennitala komi fram. Þá laut kvörtunin einnig að því að birtar hefðu verið upplýsingar um nafn og kennitölu [C], sem einnig kæmu fram í dómsorði héraðsdómsins.

Persónuvernd bauð [B] að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 4. október 2022, og bárust svör hans með tölvupósti þann 20. s.m.

Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi ákvörðun.

___________________

Kvartandi telur að óheimilt hafi verið að birta í opinni færslu á Facebook-síðu ljósmyndir af niðurstöðu dóms og dómsorði héraðsdóms þar sem nafn hennar komi fram, auk nafns og kennitölu [C]. Að mati kvartanda er færslan til þess fallin að skaða bæði mannorð hennar og starfsöryggi en auk þess séu upplýsingarnar meiðandi og óþarfar.

[B] vísar til þess að hann hafi birt niðurstöðu héraðsdómsins í þeim eina tilgangi að leyfa fjölskyldu, vinum og þeim sem hefðu stutt hann í gegnum erfitt dómsmál að fylgjast með niðurstöðu þess.

II.
Forsendur og Niðurstaða
1.
Gildissvið

Mál þetta lýtur að birtingu ljósmynda af niðurstöðu og dómsorði héraðsdóms með færslu á Facebook-síðu einstaklings. Óumdeilt er að í dómsorði héraðsdómsins koma fram upplýsingar um fullt nafn kvartanda og fullt nafn og kennitölu [C]. Telst birting ljósmyndanna því vinnsla persónuupplýsinga.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 gilda þau og reglugerð (ESB) 2016/679 ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota. Í þeim tilvikum þegar persónuupplýsingar, þ.m.t. ljósmyndir, eru birtar á lokuðum reikningum notenda samfélagsmiðla getur slík birting talist falla utan gildissviðs laganna og reglugerðarinnar. Er þar almennt átt við reikninga sem lokaðir eru almenningi og eru einungis sýnilegir þeim sem tengjast viðkomandi einstaklingi á miðlinum. Af gögnum málsins, sem og af athugun Persónuverndar, er ljóst að þær ljósmyndir og sú færsla á umræddri Facebook-síðu sem kvartað er yfir eru aðgengilegar öllum innskráðum notendum Facebook. Verður sú vinnsla persónuupplýsinga, sem felst í birtingu ljósmyndanna á Facebook-síðu [B], því ekki talin geta fallið undir undanþáguákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018.

Með vísan til framangreinds er ljóst að mál þetta varðar vinnslu persónuupplýsinga. Kemur þá til skoðunar hvort það falli undir valdsvið Persónuverndar að úrskurða um lögmæti umræddrar vinnsluaðgerðar.

2.
Tengsl persónuverndar við tjáningarfrelsi

Eins og hér háttar til kemur til álita að birting þeirra persónuupplýsinga sem kvörtunin lýtur að feli í sér tjáningu er nýtur verndar 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. einnig 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Réttur einstaklings til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er verndaður í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, er kveðið nánar á um réttinn til friðhelgi einkalífs að því er varðar meðferð persónuupplýsinga. Hafa lögin að geyma ákvæði sem tryggja eiga einkalífsrétt manna við meðferð persónuupplýsinga, meðal annars með því að kveða á um skyldur þeirra sem vinna með slíkar upplýsingar. Hins vegar verður að skýra lög nr. 90/2018 með þeim hætti að ekki sé brotið gegn tjáningarfrelsi manna.

Kveðið er á um vernd tjáningarfrelsis í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt þeim ákvæðum á hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en verður að ábyrgjast þær fyrir dómi. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Í athugasemdum við 73. gr. stjórnarskrárinnar, í frumvarpi er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995, segir að tjáningarfrelsið sé óumdeilanlega ein af undirstöðum lýðræðisþjóðfélags en engu að síður meðal vandmeðförnustu mannréttinda, sem ekki sé hægt að njóta án ábyrgðar. Því megi setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum, meðal annars vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu má ráða að tjáning njóti verndar óháð innihaldi, sbr. mál Murphy gegn Írlandi frá 10. júlí 2003 (RJD 2003-IX) og óháð því formi sem hún birtist í, sbr. mál Oberschlick (nr. 1) gegn Austurríki frá 23. maí 1991 (Series A. 204). Þá er ljóst að hvers konar aðgerðir þeirra sem fara með opinbert vald geta bakað ríki ábyrgð á grundvelli 10. gr. mannréttindasáttmálans. Undir íhlutun í skilningi ákvæðisins hafa meðal annars fallið bann við birtingu myndar af sakborningi, lögbann við útgáfu og bann við útsendingu viðtals við tiltekinn hóp manna.

3.
Niðurstaða
3.1.
Almennt

Verkefnum Persónuverndar er lýst í 39. gr. laga nr. 90/2018 en þar segir meðal annars að stofnunin annist eftirlit með framkvæmd laganna, reglugerðar (ESB) 2016/679, sérákvæða í lögum sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga og annarra reglna um efnið. Þá segir að Persónuvernd úrskurði um hvort brot hafi átt sér stað, berist stofnuninni kvörtun frá skráðum einstaklingi eða fulltrúa hans. Í framkvæmd hefur Persónuvernd litið svo á að í umræddum lagaákvæðum felist ekki að stofnunin hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um mörk réttinda samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar, t.a.m. tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. og friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr., heldur heyri slíkur ágreiningur undir dómstóla. Það skoðast í ljósi þess að samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar á hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Af ákvæðinu verður sú ályktun dregin að dómstólar, en ekki stjórnvöld, taki afstöðu til þess hvort tjáning sé í andstöðu við lög. Í þessu sambandi vísast enn fremur til orðalags 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans um að sérhver maður eigi rétt til tjáningarfrelsis „án afskipta stjórnvalda“. Af því leiðir að Persónuvernd er ekki bær til þess að úrskurða um hvort í tjáningu felist misnotkun á stjórnarskrárvörðum rétti til tjáningarfrelsis, sem enn fremur nýtur verndar síðastnefnds ákvæðis mannréttindasáttmálans.

Persónuvernd hefur gefið út álit á lagaumhverfi tjáningar einstaklinga á Netinu, dags. 25. janúar 2022, einkum með tilliti til valdheimilda stofnunarinnar. Í kafla 3.2 í álitinu kemur fram að ef með skrifum einstaklinga á Netinu séu birt gögn af einhverju tagi, sem hafi að geyma persónuupplýsingar um aðra einstaklinga, kunni Persónuvernd að úrskurða um lögmæti þeirrar birtingar. Hið sama eigi við um upplýsingar í texta sjálfra skrifanna sem fengnar eru úr slíkum gögnum. Þannig sé hugsanlegt að kvörtun yfir færslu á samfélagsmiðli yrði vísað frá hvað snerti texta færslunnar á grundvelli þess að um tjáningu væri að ræða, en að fjallað yrði um lögmæti birtingar fylgiskjals með sömu færslu. Hins vegar segir einnig í álitinu að það geti skipt máli hver tengsl þess einstaklings, sem birtir gögn eða upplýsingar úr þeim, séu við það mál sem upplýsingarnar varða. Þannig sé til að mynda líklegra að birting einstaklings á gögnum sem varða hann sjálfan yrði talin fela í sér tjáningu en ef hann hefur engin bein tengsl við efni gagnanna, enda verði að játa fólki ákveðið svigrúm til umfjöllunar um eigið líf án afskipta stjórnvalda.

3.2.
Birting niðurstöðu og dómsorðs héraðsdóms á Facebook-síðu [B]

Í kvörtun þeirri sem mál þetta lýtur að var kvartað yfir birtingu ljósmynda með færslu á Facebook-síðu af niðurstöðu og dómsorði héraðsdóms þar sem nafn og kennitala kvartanda komi fram. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu verður hins vegar ekki ráðið að birtar hafi verið ljósmyndir þar sem upplýsingar um kennitölu kvartanda komi fram. Þá lýtur kvörtunin einnig að því að birtar hafi verið upplýsingar um nafn og kennitölu [C]. Með vísan til dómsorðs þess héraðsdóms sem málið varðar verður hins vegar gert ráð fyrir að kvartandi fari ekki með forsjá barns síns og fari þar með ekki með lögformlegt fyrirsvar þess, sbr. 5. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003, þar á meðal gagnvart Persónuvernd.

Að mati Persónuverndar verður að leggja heildstætt mat á þær ljósmyndir af niðurstöðu og dómsorði héraðsdóms sem kvörtunin lýtur að og samhengi birtingarinnar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið hér að framan. Fyrir liggur að ljósmyndir af niðurstöðu og dómsorði héraðsdóms voru birtar ásamt textafærslu á Facebook-síðu [B] þar sem hann lýsti tilteknum viðhorfum sínum. Ljóst er að textafærslan sem slík felur í sér tjáningu og að það fellur utan valdsviðs Persónuverndar að taka afstöðu til þess hvort með henni hafi [B] farið út fyrir stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi sitt og þannig skapað sér ábyrgð að lögum.

Af gögnum málsins má einnig ráða að beint samhengi hafi verið milli birtingar ljósmynda af niðurstöðu og dómsorði héraðsdómsins og umræddrar textafærslu, auk þess sem niðurstaða héraðsdómsins varðaði þann einstakling sem birti færsluna. Í ljósi þessa er það mat Persónuverndar að birting ljósmyndanna hafi staðið í svo nánum tengslum við þá tjáningu sem fólst í birtingu textafærslunnar sjálfrar að líta verði á hvort tveggja sem órjúfanlega heild. Þar af leiðandi, og með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í kafla 3.1., er Persónuvernd ekki bær til að úrskurða um hvort [B] hafi með birtingu ljósmynda af niðurstöðu og dómsorði héraðsdómsins farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Er kvörtun þessari því vísað frá.

Að mati Persónuverndar er þó tilefni til þess að vekja athygli málsaðila á því að samkvæmt 38. gr. laga nr. 50/2016, um dómstóla, eru héraðsdómar í einkamálum er varða forsjá barna ekki gefnir út. Þá segir jafnframt í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að óheimilt sé að skýra frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara. Brot við því varðar sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Kvörtun [A] yfir birtingu ljósmynda af niðurstöðu og dómsorði héraðsdóms með færslu á Facebook-síðu [B] er vísað frá.

Persónuvernd, 14. júní 2023


Helga Sigríður Þórhallsdóttir             Edda Þuríður Hauksdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei