Úrlausnir

Kvörtun yfir vinnslu persónuupplýsinga af hálfu Fiskistofu

Mál nr. 2023030630

27.9.2024

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem kvartað var yfir myndbandsupptökum Fiskistofu með dróna. Nánar tiltekið var kvartað yfir að Fiskistofa hafi fylgst með veiðum fiskiskips og notað við það dróna með myndavél. Jafnframt var gerð krafa um að Persónuvernd legði fyrir Fiskistofu að eyða umræddum myndbandsupptökum.

Niðurstaða Persónuverndar var að vinnsla Fiskistofu á persónuupplýsingum kvartanda hafi ekki grundvallast á vinnsluheimild. Þá samrýmdist hún hvorki meginreglu persónuverndarlaganna um gagnsæi né reglum um fræðsluskyldu. Með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á gildandi rétti og heimildum Fiskistofu til vinnslu persónuupplýsinga þótti ekki tilefni til að beina fyrirmælum til Fiskistofu í úrskurðinum. Það var einnig niðurstaða Persónuverndar að Fiskistofu væri óheimilt að eyða myndbandsupptökunum úr málaskrá sinni samkvæmt reglum um opinber skjalasöfn. Persónuvernd taldi Fiskistofu því heimilt að varðveita gögnin nema Þjóðskjalasafn Íslands veitti heimild fyrir eyðingu þeirra. 

Úrskurður


um kvörtun yfir vinnslu Fiskistofu á persónuupplýsingum í máli nr. 2023030630:

Málsmeðferð

  1. Hinn 28. mars 2023 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] og [B] (hér eftir kvartendur) yfir myndbandsupptökum Fiskistofu með dróna af fiskiskipinu [C]. Í kvörtun er jafnframt gerð krafa um að Persónuvernd leggi fyrir Fiskistofu að eyða umræddum myndbandsupptökum.
  2. Persónuvernd bauð Fiskistofu að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 9. apríl 2024, og bárust svör 29. maí s.á. Kvartendum var veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör Fiskistofu með bréfi 3. júní s.á. og bárust þær með tölvupósti 10. s.m. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna.

    Ágreiningsefni

  3. Ágreiningur er um það hvort eftirlit Fiskistofu með tveimur veiðiferðum fiskiskipsins [C], dagana [dags.] og [dags.], með dróna hafi verið í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Einnig er ágreiningur um það hvort Fiskistofu beri að eyða umræddum myndbandsupptökum.

    Sjónarmið aðila

    Helstu sjónarmið kvartanda

  4. Í kvörtun segir að eiganda og útgerðaraðila fiskiskipsins [C] hafi verið tilkynnt um það með erindi Fiskistofu, dags. [dags.], að stofnunin hefði tekið upp myndefni af tveimur veiðiferðum skipsins, dagana [dags.] og [dags.], með drónum sem sendir voru frá landi. Kvartendur eru sjómenn sem voru við störf á skipinu umrædd skipti.
  5. Kvartendur byggja á því að Fiskistofa og eftirlitsmenn stofnunarinnar hafi ekki haft neinar lagaheimildir til þess að framkvæma lögbundið eftirlit sitt með þeim hætti að vera staðsettir á landi og senda fjarstýrð loftför á haf út til þess að taka upp starfsemi á skipum og nýta gögn sem þannig var aflað til málsmeðferðar í stjórnsýslumáli. Vísað er til þess að umrædd vinnsla persónuupplýsinga hafi farið fram fyrir gildistöku breytingarlaga nr. 85/2022 og því geti vinnslan ekki byggt á heimild samkvæmt 3. eða 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018.
  6. Þar sem Fiskistofa hafi farið út fyrir lagaheimildir sínar með umræddum myndbandsupptökum gera kvartendur einnig kröfu um að Persónuvernd leggi fyrir Fiskistofu að eyða myndbandsupptökum sem liggja fyrir í málum nr. [....] og [....] hjá Fiskistofu, sbr. 7. tölul. 42. gr. laga nr. 90/2018.

    Helstu sjónarmið Fiskistofu

  7. Í skýringum sínum vísar Fiskistofa til ákvörðunar stofnunarinnar, [dags.], í málum nr. [....] og [....] er vörðuðu meint brot áhafnar, og eftir atvikum útgerðar, fiskiskipsins [C] um lögmætar ástæður fyrir umræddri vinnslu persónuupplýsinga. Ákvörðun Fiskistofu er birt á vefsíðu stofnunarinnar og er meðal gagna málsins hjá Persónuvernd. Í ákvörðuninni segir að á þeim tíma sem umrædd eftirlitsaðferð í máli þessu var viðhöfð taldi Fiskistofa vinnsluna falla undir lögbundið hlutverk stofnunarinnar, í skilningi 3. og 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. c- og e-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Þá er vinnslan einnig talin samrýmast 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna, um gagnsæi og fræðslu.
  8. Fiskistofa vísar einnig til þess að markmið laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sé að bæta umgengni um nytjastofna sjávar og stuðla að því að þeir verði nýttir með sjálfbærum hætti er tryggi til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina, sbr. 1. gr. laganna. Komi til þess að Fiskistofa beiti stjórnsýsluviðurlögum vegna brota á ákvæðum laga nr. 57/1996, sé Fiskistofu t.a.m. skylt að birta opinberlega upplýsingar um sviptingu veiðiheimilda og sé þá skylt að tilgreina heiti skips, skipaskrárnúmer, útgerð skips, tilefni sviptingar og til hvaða tímabils hún nái. Þá var Fiskistofu, með breytingarlögum nr. 85/2022, veitt skýr lagaheimild til að nota fjarstýrð loftför sem búin eru eftirlitsmyndavélum við eftirlitsstörf.
  9. Samkvæmt skýringum Fiskistofu voru tvö stjórnsýslumál stofnuð í skjalakerfi stofnunarinnar, í kjölfar umrædds eftirlits með fiskiskipinu [C], þ.e. framangreind mál nr. [....] og [....]. Málsmeðferð þeirra var sameinuð og ein stjórnvaldsákvörðun tekin, [dags.]. Gögnunum, þ. á m. þeim myndbandsupptökum sem kvörtun þessi lýtur að, hafi verið safnað í þágu réttaröryggis málsaðila við beitingu stjórnsýsluvalds og fyrirséð að eyðing þeirra muni hamla því verulega að markmið vinnslunnar náist þar sem Fiskistofa lauk málinu með stjórnsýsluviðurlögum og myndbandsupptökurnar hafi meðal annars verið lagðar til grundvallar. Stjórnvöldum beri að halda til haga helstu upplýsingum um meðferð mála, svo sem um það hvaða gagna eða upplýsinga hefur verið aflað, hjá hverjum og með hvaða hætti, og helstu forsendum sem stjórnvöld ákveða að byggja athafnir sínar á. Stjórnvöldum beri jafnframt að skila gögnum til Þjóðskjalasafns Íslands samkvæmt lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Að mati Fiskistofu þurfi að afla heimildar frá Þjóðskjalasafni Íslands ef eyða eigi gögnum.
  10. Þá bendir Fiskistofa á að málsmeðferð hjá stofnuninni á stjórnsýslustigi er óháð málsmeðferð lögreglu, eða eftir atvikum ákæruvaldsins, og málalok hjá Fiskistofu bindur ekki enda á málsmeðferð lögreglunnar komi til hennar. Taka verði mið af fyrningarfresti 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á meðan brotið er ekki fyrnt geti komið til þess að lögreglan óski eftir umræddum gögnum í þágu rannsóknar máls. Einnig hafi málsaðilar getað kært ákvörðunina til æðra stjórnvalds, samkvæmt 18. gr. laga nr. 57/1996, innan tiltekins tíma og getur hið æðra stjórnvald óskað eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umræddum myndbandsupptökum.
  11. Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi Fiskistofa ekki eytt myndbandsupptökum af fiskiskipinu [C], sem tengist málum nr. [....] og [....] hjá stofnuninni.

    Forsendur og niðurstaða

  12. Mál þetta lýtur að því hvort hvort eftirlit Fiskistofu með dróna í tveimur veiðiferðum fiskiskipsins [C], dagana [dags.] og [dags.], hafi verið í samræmi við lög nr. 90/2018 og hvort Fiskistofu beri að eyða myndbandsupptökum sem teknar voru í umræddum veiðiferðum.
  13. Persónuvernd hefur áður úrskurðað í málum þar sem kvartað var yfir eftirliti Fiskistofu með dróna. Með úrskurði Persónuverndar 28. mars 2023, í máli nr. 2021030579 hjá stofnuninni, var komist að þeirri niðurstöðu að engin heimild hafi staðið til vinnslunnar, samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Þá var vinnslan ekki talin samrýmast 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna um gagnsæi, sbr. a-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, eða 1.-2. mgr. 17. gr. laganna og 12.-13. gr. reglugerðarinnar um fræðsluskyldu. Var það jafnframt niðurstaða Persónuverndar með úrskurði 4. september 2023, í máli nr. 2021020374 hjá stofnuninni. Í báðum tilvikum átti sú vinnsla persónuupplýsinga sem kvörtun laut að sér stað fyrir 15. júní 2022, þ.e. áður en breytingarlög nr. 85/2022, til breytinga á lögum nr. 36/1992 um Fiskistofu, tóku gildi. Var niðurstaða Persónuverndar jafnframt sú að samkvæmt þeim lagaákvæðum sem voru í gildi fyrir 15. júní 2022 skyldi eftirlit Fiskistofu vera sinnt af eftirlitsmönnum í eigin persónu sem veittur yrði aðgangur að nauðsynlegum stöðum, s.s. skipum, flutningstækjum, geymslum eða öðru húsnæði.
  14. Fyrir liggur að sú vinnsla persónuupplýsinga sem kvörtun þessa máls lýtur að fór fram fyrir gildistöku breytingarlaga nr. 85/2022. Að virtu framangreindu og í samræmi við fyrri úrskurði Persónuverndar í málum nr. 2021030579 og 2021020374 er það niðurstaða Persónuverndar að á þeim tíma sem vinnsla Fiskistofu á persónuupplýsingum um kvartendur fór fram hafi ekki staðið heimild til vinnslunnar samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Þá hafi vinnslan ekki samrýmst 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna um gagnsæi, sbr. a-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, eða 1.-2. mgr. 17. gr. laganna og 12.-13. gr. reglugerðarinnar um fræðsluskyldu.
  15. Líkt og að framan greinir voru með lögum nr. 85/2022 gerðar breytingar á lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992. Á grundvelli nýrra lagaákvæða, sem nú má finna í 2. gr. síðarnefndu laganna, verður að mati Persónuverndar talið að notkun Fiskistofu á upptökubúnaði, sem er fastur við sjónauka, við eftirlitsstörf geti nú byggst á heimildarákvæði 3. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. Jafnframt verður talið að einstaklingum megi nú vera ljóst að eftirlit með fjarstýrðum loftförum eða öðrum fjarstýrðum búnaði geti farið fram af hálfu Fiskistofu við eftirlitsstörf og að unnið getið verið með persónuupplýsingar þeirra af því tilefni. Með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á gildandi rétti og heimildum Fiskistofu til vinnslu persónuupplýsinga þykir ekki tilefni til að beina fyrirmælum til Fiskistofu í úrskurði þessum.
  16. Kemur þá til skoðunar hvort Fiskistofu beri að eyða umræddum myndbandsupptökum.
  17. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 16. og 17. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, á einstaklingur rétt á því að fá óáreiðanlegar upplýsingar um sig leiðréttar; láta fullgera ófullkomnar persónuupplýsingar, þ.m.t. með því að leggja fram yfirlýsingu til viðbótar, svo og rétt til að ábyrgðaraðilinn eyði persónuupplýsingum um hann án ótilhlýðilegar tafar að uppfylltum vissum skilyrðum. Samkvæmt d-lið 3. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar eiga hins vegar ákvæði 1. og 2. mgr. sömu greinar, sem kveða á um rétt hins skráða til að fá persónuupplýsingum um sig eytt, ekki við að því marki sem vinnsla er nauðsynleg vegna skjalavistunar í þágu almannahagsmuna.
  18. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn, eru stjórnvöld og stofnanir sem heyra undir stjórnvöld afhendingarskyld í samræmi við ákvæði laganna. Fiskistofa telst afhendingarskyldur aðili í skilningi ákvæðisins. Í því felst að stofnuninni ber að afhenda opinberu skjalasafni skjöl sín, að meginreglu þegar þau hafa náð 30 ára aldri, sbr. 4. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 15. gr. laganna. Hugtakið skjal er skilgreint í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna sem hvers konar gögn, jafnt rituð sem í öðru formi, er hafa að geyma upplýsingar og hafa orðið til, borist eða verið viðhaldið í starfsemi á vegum stofnunar eða einstaklings. Tekið er fram í 1. mgr. 24. gr. laganna að afhendingarskyldum aðilum sé óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali í skjalasöfnum sínum nema að fengnu samþykki þjóðskjalavarðar, reglna sem hann setur eða sérstaks lagaákvæðis.
  19. Fiskistofa byggir á því að umræddar myndbandsupptökur hafi verið hluti málsgagna vegna mála nr. [....] og [....] hjá stofnuninni en málunum lauk með stjórnvaldsákvörðun [dags.].
  20. Til þess er einnig að líta að samkvæmt skýringum Fiskistofu getur komið til þess að lögreglan taki málið til rannsóknar og er slík rannsókn óháð málalokum hjá Fiskistofu. Lögreglan geti óskað eftir gögnum í þágu rannsóknar máls, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 36/1992. Einnig hafi málsaðilar getað kært ákvörðunina til æðra stjórnvalds innan eins mánaðar frá því að þeim var tilkynnt um ákvörðunina, samkvæmt 18. gr. laga nr. 57/1996, og geti þá hið æðra stjórnvald óskað eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umræddum myndbandsupptökum, sbr. nánari umfjöllun í efnisgrein 10.
  21. Þegar litið er til alls framangreinds telur Persónuvernd ekki unnt að verða við beiðni kvartenda um að umræddum myndbandsupptökum verði eytt úr málaskrá Fiskistofu, sbr. fyrrgreind ákvæði laga nr. 77/2014 og d-lið 3. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Vinnsla Fiskistofu á persónuupplýsingum um [A] og [B] samrýmdist ekki lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Fiskistofu er heimilt að varðveita þau gögn sem mál þetta varðar, nema Þjóðskjalasafn Íslands veiti heimild fyrir eyðingu þeirra.

Persónuvernd, 19. september 2024

Edda Þuríður Hauksdóttir                              Emma Adolfsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei