Úrlausnir

Kvörtun yfir vinnslu persónuupplýsinga af hálfu starfsmanna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

Mál nr. 2021061342

20.9.2024

Kvartað var yfir vinnslu persónuupplýsinga af hálfu starfsmanna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Kvartandi málsins hélt því fram að starfsmaður lögreglunnar, sem fór með ábyrgð vöktunar og eftirlits að [...] á þeim tíma, hefði tekið upp efni úr eftirlitsmyndavél á símtæki sitt og dreift þeim upplýsingum til óviðkomandi, t.d. [...] Persónuvernd taldi ósannað að farið hefði fram vinnsla persónuupplýsinga með sjálfvirkum hætti eða vinnsla upplýsinga sem voru eða áttu að verða hluti af skrá og þá jafnframt ósannað að farið hefði fram vinnsla persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi og þar með valdsvið stofnunarinnar. 

Úrskurður


um kvörtun yfir vinnslu persónuupplýsinga af hálfu starfsmanna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í máli nr. 2021061342:

Málsmeðferð

  1. Hinn 16. júní 2021 barst Persónuvernd kvörtun frá [...] (hér eftir kvartandi) yfir upptöku lögreglumanns á símtæki sitt af myndefni úr eftirlitsmyndavélum [...] og miðlun efnisins til óviðkomandi. Kvörtunin lýtur nánar tiltekið að því að starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir einnig LRH) hafi dreift upplýsingum um kvartanda, þ. á m. um [...] til óviðkomandi, meðal annars til [...]. Þá hafi hann tekið upp efni úr eftirlitsmyndavél á símtæki sitt og sýnt [...].
  2. Persónuvernd bauð ríkislögreglustjóra og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að tjá sig um kvörtunina með bréfum, annars vegar 13. juní 2022 og hins vegar 21. september sama ár, og bárust svör þeirra með bréfum 30. júní 2022 og 23. nóvember 2022. Þá veitti Persónuvernd kvartanda kost á að koma á framfæri athugasemdum við svör ríkislögreglustjóra og LRH með bréfi 24. nóvember 2022. Að virtum framkomnum skýringum var í síðastgreindu bréfi Persónuverndar tilgreint að ef svör bærust ekki innan frests, yrði litið svo á að kvartandi hefði fallið frá kvörtuninni og yrði málið þá fellt niður og því lokað í málskrá Persónuverndar. Engin svör bárust frá kvartanda innan uppgefins frests og var málið því fellt niður og því lokað. Þegar kvartanda var tilkynnt um lokun málsins útskýrði kvartandi að [...] og hefði því ekki getað aðhafst innan frests og óskaði hann eftir að málið yrði opnað að nýju. Persónuvernd varð við beiðni kvartanda og opnaði málið að nýju og tilkynnti málsaðilum um það. Var kvartanda jafnframt veittur frestur til að skila athugasemdum sínum og bárust þær með tölvupósti 22. febrúar 2023. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.
  3. Meðferð málsins hefur tafist af ofangreindum ástæðum og vegna mikilla anna hjá Persónuvernd og mannabreytinga hjá stofnuninni.

    Ágreiningsefni

  4. Ágreiningur er um hvort starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem fór með ábyrgð vöktunar og eftirlits að [...] á þeim tíma, tók upp efni úr eftirlitsmyndavél á símtæki sitt og sendi það [vinnuveitanda kvartanda] og hvort honum var heimilt að miðla upplýsingum um athafnir og ferðir kvartanda til [...].

    Sjónarmið aðila

    Helstu sjónarmið kvartanda

  5. Kvartandi var starfsmaður hjá [...]. Hann telur að á þeim tíma hafi lögreglumaður, sem hafi haft aðgang að myndavéla- og öryggiskerfi [...] vegna vinnu sinnar, nýtt efni úr umræddum kerfum og dreift upplýsingum um kvartanda til óviðkomandi, t.d. [samstarfsmanna kvartanda].
  6. Kvartandi segist hafa upplifað að starfsmenn [...] og aðrir lögreglumenn en sá sem að ofan greinir hafi haft upplýsingar um ferðir hans um [...]. Kvartandi vísar sérstaklega í því sambandi til [...]. [...] hafi það síðan almennt verið vitað hvar [...] kvartandi hafði haldið sig og hvað hann hefði tekið sér fyrir hendur. Það hafi verið á allra vitorði [...]. Þá hafi kvartandi vitneskju um að myndefni hafi verið tekið upp á síma þessa tiltekna lögreglumanns og það hafi verið sýnt samstarfsfólki kvartanda.

    Helstu sjónarmið ríkislögreglustjóra

  7. Samkvæmt skýringum ríkislögreglustjóra var vöktun og öryggisgæsla á [...] á forræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á þeim tíma sem meint atvik áttu sér stað á [...].
  8. [...] Ábyrgð á notkun og umgengni starfsmanna LRH við kerfið hafi því verið á ábyrgð LRH á þeim tíma er atvik máls þessa áttu sér stað.

    Helstu sjónarmið Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
  9. [...]
  10. [...]
  11. Kvartandi hafi verið starfsmaður [...]. LRH hafi haft afskipti af honum í allnokkur skipti þar sem talið væri að hann væri ekki að fara að lögum [og reglum]. Þau atvik sem um ræði hafi verið þess eðlis að nauðsynlegt hafi verið talið að [...] væru upplýstir um ferðir hans og athafnir á svæðinu. Starfsmenn LRH hafi veitt [vinnuveitanda kvartanda] umræddar upplýsingar munnlega. Ekkert liggi fyrir hjá LRH um að miðlun upplýsinganna hafi farið fram með þeim hætti að starfsmaður LRH hafi tekið upp myndskeið á símtæki sitt og sýnt það öðrum.

    Forsendur og niðurstaða

  12. Persónuvernd úrskurðar í ágreiningsmálum er varða lög nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Um gildissvið laganna er fjallað í 3. gr. þeirra, en þar segir að lögin gildi um vinnslu persónuupplýsinga hjá lögbærum yfirvöldum sem fram fer í löggæslutilgangi. Þá segir að lögin gildi um vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og um vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.
  13. Samkvæmt því sem rannsókn Persónuverndar hefur leitt í ljós, sbr. það sem að framan er rakið, stendur orð gegn orði um hvort starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tók myndskeið upp á símtæki sitt af upptöku úr eftirlitsmyndavél [...] og miðlaði á stafrænu formi til annarra. Að virtum valdheimildum Persónuverndar telur stofnunin ekki tilefni til frekari rannsóknar hvað það varðar. Telst því ósannað að farið hafi fram vinnsla persónuupplýsinga sem telst sjálfvirk að hluta eða í heild eða vinnsla persónuupplýsinga sem voru eða áttu að verða hluti af skrá. Telst þá jafnframt ósannað að farið hafi fram vinnsla persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 75/2019, sbr. 3. gr. laganna. Í þessu sambandi er til þess að líta að gildissvið laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga er skilgreint á sambærilegan hátt í 4. gr. þeirra laga og munnleg miðlun persónuupplýsinga, ein og sér, fellur almennt ekki undir gildissvið persónuverndarlaga, sbr. fyrri ákvarðanir Persónuverndar, t.d. í máli nr. 2018010086.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ósannað er að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið persónuupplýsingar kvartanda með þeim hætti sem fellur undir gildissvið laga nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

Persónuvernd, 4. september 2024

Valborg Steingrímsdóttir                                  Emma Adolfsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei