Úrlausnir

Meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu

Mál nr. 2024020251

8.11.2024

Stjórn Persónuverndar úrskurðaði, 22. október 2024, í máli þar sem kvartað var yfir meðferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir einnig LRH) á persónuupplýsingum um kvartanda. Í ljósi þess að úrskurðurinn inniheldur viðkvæmar upplýsingar um kvartanda, jafnvel þó persónuauðkenni væru afmáð, hefur Persónuvernd ákveðið að birta ekki úrskurðinn í heild sinni. Hins vegar hefur Persónuvernd tekið saman útdrátt úr úrskurðinum, sem fer hér á eftir.

Útdráttur úr úrskurði

Kvartandi taldi að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefði verið óheimilt að umbreyta rafrænum áverkaljósmyndum í skjalleg gögn, þegar þær voru gerðar hluti af sönnunargögnum máls, og miðla þeim til réttargæslumanns, verjanda sakbornings og sakbornings. Að mati kvartanda bar lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að nýta sér heimild 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, við rannsókn málsins. Samkvæmt lagaákvæðinu getur lögreglan synjað verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum meðan á rannsókn máls stendur ef brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings hans standa því í vegi. Kvartandi taldi einnig að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefði borið að afmá persónugreinanlegar upplýsingar af áverkaljósmyndunum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu byggði á því að tilgangurinn að baki því að gera áverkaljósmyndir af kvartanda hluta af rannsóknarskýrslu sakamáls, sem var til rannsóknar hjá embættinu, og miðla þeim þannig til héraðssaksóknara, var að ljóstra upp um brot og fylgja því eftir í samræmi við lög um meðferð sakamála, sbr. c-lið 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 53., 56., 57. og 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Nauðsynlegt hefði verið að setja tilgreindar áverkaljósmyndir af kvartanda í rannsóknarskýrslu sem gerð var vegna málsins svo hægt væri að leggja skýrsluna fyrir ákæruvald og síðar dómstól en vinnsla sönnunargagna hjá lögreglu verði að bera með sér að hægt sé að sannreyna ákveðna þætti eins og að á myndum séu þeir einstaklingar sem séu aðilar máls. Því samrýmist ekki alltaf meðferð sönnunargagna í sakamáli að persónueinkenni séu afmáð að öllu leyti. Hvað varðar aðgang sakbornings að málsgögnum vísaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu til þess að jafnræði málsaðila væri ein af meginreglum sakamálaréttarfarsins og afar mikilvægur þáttur í réttindum sakborninga til að hljóta réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Réttur sakbornings til aðgangs að gögnum máls hafi verið talinn þýðingarmikill þáttur í því að hljóta réttláta málsmeðferð fyrir dómi og litið svo á að réttur sakbornings þar að lútandi sé til jafns við ákæruvaldið. Reglan um jafnræði málsaðila birtist í 37. gr. laga nr. 88/2008, þar sem segi að verjanda sé heimilt að fá afrit af öllum skjölum máls er varða skjólstæðing hans svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Undanþága frá meginreglunni birtist í 3. mgr. ákvæðisins en að mati LRH beri að túlka undanþáguna þröngt. Á grundvelli meginreglunnar og að teknu tilliti til 3. mgr. lagaákvæðisins, sem og af 4. gr. laga nr. 75/2019, hafi verjanda sakbornings í málinu verið afhent þau gögn sem umbjóðandi hans hafi átt rétt á. Fram kom í svörum LRH að lögreglan sé meðvituð um að gögn í slíkum málum geta verið persónugreinanleg og viðkvæm en ekki hafi verið talið rétt að synja verjanda sakbornings um aðgang að einstökum skjölum og gögnum umrætt sinn.

Með vísan til þeirra skýringa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um að tilgangur þess að gera áverkaljósmyndir af kvartanda hluta af rannsóknarskýrslu sakamáls hafi verið að ljóstra upp um brot og fylgja því eftir í samræmi við lög um meðferð sakamála, var það niðurstaða Persónuverndar að LRH hefði sýnt með fullnægjandi hætti fram á nauðsyn framangreindrar vinnslu persónuupplýsinga og að persónuupplýsingar um kvartanda hefðu verið nægilegar, viðeigandi og ekki langt umfram það sem nauðsynlegt var miðað við framangreindan tilgang, sbr. a- og c-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/2019.

Að virtri framangreindri niðurstöðu og með hliðsjón af þeim ríkum hagsmunum sem búa að baki þeirri lagaskyldu að afhenda verjanda, jafnskjótt og unnt er, afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var það einnig niðurstaða Persónuverndar að miðlun áverkaljósmynda af kvartanda til verjanda sakbornings hefði uppfyllt skilyrði um nauðsyn samkvæmt a-lið 1. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/2019. Var það jafnframt niðurstaða Persónuverndar að brýna nauðsyn hafi borið til miðlunar áverkaljósmyndanna til réttargæslumanns kvartanda, sem hafi farið saman við hagsmuni kvartanda, sbr. a-lið 1. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/2019, sbr. 1. mgr. 47. gr. laga nr. 88/2008. Við þessa niðurstöðu var einnig litið til þess að verjandi og réttargæslumaður eru bundnir þagnarskyldu, á grundvelli 3. mgr. 35. gr. og 3. mgr. 45. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og má ætla að lögreglan líti til þess við mat á því hvort synja beri um aðgang að einstökum skjölum og gögnum á meðan rannsókn máls stendur.

Samkvæmt svörum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu afhenti embættið sakborningi ekki umrædd gögn en verjanda er þó heimilt að láta skjólstæðingi sínum í té eintak af málsgögnum eða kynna þau honum með öðrum hætti, samkvæmt 4. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Var því niðurstaða Persónuverndar að ósannað væri að LRH hefði afhent sakborningi umrædd gögn.



Var efnið hjálplegt? Nei