Miðlun Landspítala til landlæknis vegna rannsóknar á læknamistökum
Mál nr. 2014/564
Persónuvernd hefur úrskurðað um að miðlun Landspítala til landlæknis á upplýsingum um einstakling vegna rannsóknar hans á tilteknum læknisaðgerðum hafi ekki farið í bága við persónuverndarlög.
Úrskurður
Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 27. september 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2014/564:
I.
Málavextir og bréfaskipti
1.
Persónuvernd hefur borist kvörtun frá A (hér eftir nefnd „kvartandi“), dags. 24. mars 2014, vegna Landspítalans, B [...], C [...]og D [...]. Í kvörtun er vísað til málshöfðunar kvartanda á hendur C, sem og E skurðlækni, vegna aðgerða þeirra á henni í september 2011 þar sem hún álítur mistök hafa verið gerð sem valdið hafi henni heilsutjóni, en mistökin hafi falist í því [...]. Þá er tekið fram að af þessu tilefni hafi umræddur yfirlæknir ritað greinargerð um umræddar aðgerðir, dags. [...], þar sem sjúkrasaga kvartanda sé rakin langt aftur, [...]. Þessi greinargerð hafi verið send aðstoðarlækningaforstjóra Landspítala, en hann hafi sent hana ríkislögmanni með bréfi, dags. 21. júní 2013, og síðar Embætti landlæknis með bréfi, dags. 27. febrúar 2014. Með þessu bréfi hafi meðal annars fylgt þrjú læknabréf varðandi kvartanda, dags. [...], en í þeim er fjallað um [...]. Telur kvartandi fyrrnefnda greinargerð og læknabréfin hafa að geyma frekari upplýsingar um heilsufar hennar en nauðsynlegar eru í þágu málsins og óskar úrlausnar Persónuverndar um það álitaefni hvort miðlun þessara gagna hafi verið heimil. Þá gerir hún athugasemdir við að læknabréfunum hafi verið miðlað án samráðs við hana, samþykkis hennar eða vitundar.
Fyrir liggur að með áðurnefndu bréfi Landspítala til Landlæknisembættisins, dags. 27. febrúar 2014, var svarað bréfi embættisins til spítalans, dags. 11. s.m., en það er meðal fylgigagna með áðurnefndri kvörtun. Í þessu bréfi Embættis landlæknis vísar það til erindis, dags. 29. janúar 2014, sem því hafði borist frá lögmanni kvartanda þar sem óskað er rannsóknar embættisins á umræddum aðgerðum, en í því sambandi vísar lögmaðurinn til skyldu þess samkvæmt 10. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu til að rannsaka óvænt atvik við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá óskar embættið eftir greinargerð Landspítalans, sem og afrita gagna sem kunni að hafa þýðingu við meðferð málsins. Í bréfinu er umfjöllunarefni þess afmarkað með tilvitnun í tiltekna efnisgrein í erindi lögmannsins, dags. 29. janúar 2014, þess efnis að gerð hafi verið mistök þegar [...].
Í símtali starfsmanns Persónuverndar við kvartanda hinn 8. apríl 2014 kom fram að við úrlausn um hvaða upplýsingar hefðu vægi í dómsmálum varðandi afleiðingar læknamistaka gæti reynt mjög á læknisfræðilegt mat, þ.e. hvort tiltekið heilsufarsástand væri afleiðing mistakanna. Stofnunin liti svo á að almennt þyrftu dómstólar að afmarka hvaða gögn hefðu þýðingu í því sambandi, en það gæti skipt máli í tengslum við umfjöllun Persónuverndar um miðlun upplýsinga frá Landspítalanum til ríkislögmanns af tilefni málshöfðunar. Nokkru síðar, þ.e. í símtali starfsmanns Persónuverndar og kvartanda hinn 26. maí 2014, kom fram af hálfu hennar að kvörtunin afmarkaðist við miðlun til landlæknis. Í samræmi við það afmarkast umfjöllun Persónuverndar við þá miðlun og mótast lýsing á bréfaskiptum hér á eftir af þeirri afmörkun.
2.
Með bréfi Persónuverndar, dags. 14. apríl 2014, var Landspítala og framangreindum yfirlækni veitt færi á að tjá sig um umrædda kvörtun. Svarað var með bréfi Landspítala, dags. 6. maí 2014. Þar segir varðandi fyrrnefnt bréf spítalans til Landlæknisembættisins, dags. 27. febrúar 2014:
„Landspítala barst beiðni dags. 11. febrúar 2014 frá embættinu þar sem óskað var eftir greinargerð spítalans vegna fyrirliggjandi kvörtunar um meinta vanrækslu og mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu. Jafnframt var óskað allra gagna sem kunnu að tengjast efni kvörtunarinnar og gætu haft þýðingu við meðferð málsins. Kvartandi sjálfur leitaði til landlæknis með mál sitt á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Eins og rakið er hér að ofan er nauðsynlegt að skoða alla sjúkrasögu sjúklings þegar sjúkdómur eða sjúkdómseinkenni eru metin þar sem vandamálin eru sjaldnast einangruð. Sjúkdómsferli sjúklings er þar af leiðandi metið í heild. Landlækni voru send öll þau gögn sem starfsmenn spítalans töldu að kynnu að tengjast efni kvörtunar og hafa þýðingu við úrlausn málsins eins og óskað var eftir af hálfu embættisins. Er afar mikilvægt að landlæknir fái öll þau gögn er máli geta skipt þar sem hann kemst að sjálfstæðri niðurstöðu um hvort vanræksla eða mistök hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu. Af þeim sökum á landlæknir samkvæmt 16. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 sama rétt til aðgangs að sjúkraskrá og sjúklingur sjálfur þegar hann hefur til umfjöllunar kvörtun eða kæru hans. Landspítalinn telur því að starfsmenn spítalans hafi ekki farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt persónuverndarlögum, lögum um sjúkraskrár eða öðrum lögum þegar gögnin voru afhent.“
Einnig segir meðal annars í bréfi Landspítalans að sjúkdómsferli kvartanda hafi verið metið í heild og hafi þá ekkert verið undanskilið, en [...] í tilviki eins og því sem hér um ræðir. Þá þurfi alltaf að skoða [...]. Við mat á því hvort mistök hafi átt sér stað á spítalanum þurfi að kanna framangreint, þ.e. til að komast að því hvort starfsmenn Landspítala hafi gert mistök við (a) mat á nauðsyn aðgerðar og (b) framkvæmd aðgerðar.
3.
Hinn 12. maí 2014 var kvartanda greint frá framangreindu svari í símtali við starfsmann Persónuverndar. Var henni senti svarið í tölvupósti samdægurs og veitt færi á athugasemdum. Þær bárust fyrir hennar hönd með bréfi X hrl., dags. 14. maí 2014. Kemur þar fram sú afstaða að þær upplýsingar um kvartanda, sem Landspítalinn miðlaði, séu málinu með öllu óviðkomandi.
4.
Með bréfi, dags. 4. september 2014, óskaði Persónuvernd umsagnar Embættis landlæknis. Nánar tiltekið segir í bréfinu:
„Í bréfaskiptum vegna kvörtunarinnar hefur komið fram af hálfu Landspítalans að allar þær heilsufarsupplýsingar, sem fram koma í gögnum sem send voru Landlæknisembættinu, hafi vægi vegna rannsóknar þess, þ.e. við mat á því hvort starfsmenn Landspítala hafi gert mistök við mat á nauðsyn aðgerða og framkvæmd þeirra. Af hálfu kvartanda hefur hins vegar komið fram að þar sem rannsóknin beinist að afmörkuðum atvikum, þ.e. umræddum aðgerðum í september 2011, séu upplýsingar um [...] málinu óviðkomandi.
Þegar litið er til þess að kvörtun varðar mál sem er til meðferðar hjá Landlæknisembættinu þykir rétt að veita því færi á umsögn áður en Persónuvernd tekur afstöðu til kvörtunarinnar, nánar tiltekið um það hvort allra þeirra heilsufarsupplýsinga, sem Landspítalinn sendi vegna umræddrar rannsóknar, sé þörf í þágu hennar eða hvort einhverjar þeirra séu umfram það sem nauðsyn krefur.“
Embætti landlæknis svaraði með bréfi, dags. 19. ágúst 2014. Þar segir meðal annars að umkvörtunarefni kvartanda til embættisins lúti í stuttu máli að [...]verkjum sem eigi sér langa sögu. Allar aðgengilegar upplýsingar um fyrri heilsufarssögu séu forsenda þess að gefið verði álit um málið á grundvelli bestu þekkingar og reynslu. Því sé ljóst að landlæknir geti ekki gefið fullnægjandi álit í málinu án þessu að upplýsingar liggi fyrir um sjúkrasögu, þ. á m. [...]. Slíkar upplýsingar leggi grunn að læknisfræðilegu mati og því sé ekki um meiri upplýsingar að ræða en nauðsynlegar séu til að komast að niðurstöðu í rannsókn málsins.
5.
Með bréfi, dags. 4. september 2014, var kvartanda veitt færi á að tjá sig um framangreint bréf Embættis landlæknis til Persónuverndar. Svarað var með tölvubréfi hinn 15. s.m. Þar segir meðal annars að umfjöllunarefni kvartanda til landlæknis hafi ekki verið [...], eins og segir í bréfi Embættis landlæknis, heldur umræddar læknisaðgerðir. Því hafi meðal annars upplýsingar um [...], verið málinu óviðkomandi. Þá vísar kvartandi til þess að samkvæmt bréfi lögmanns hennar til Embættis landlæknis, dags. 29. janúar 2014, var umkvörtunarefni til embættisins lýst svo að mistök hefðu verið gerð í umræddum aðgerðum sem hafi verið bein afleiðing gerða viðkomandi læknis og þegar svo háttar til sé sönnunarbyrðin á Landspítalanum um að óhappatilvik hafi verið á ferð.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að umrædd miðlun persónuupplýsinga um kvartanda frá Landspítalanum til Landlæknisembættisins fól í sér vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.
2.
Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar þarf að auki að vera fullnægt einhverju viðbótarskilyrðanna fyrir vinnslu slíkra upplýsinga sem mælt er fyrir um í 9. gr. sömu laga. Upplýsingar um heilsuhagi eru viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laganna.
Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg við beitingu opinbers valds sem sá fer með sem upplýsingum er miðlað til. Þá kemur fram í 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna að heimilt sé að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Eins og fram kemur í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, er ekki nauðsynlegt að mál sé lagt fyrir dómstóla til að ákvæðið eigi við heldur nægir að vinnsla sé nauðsynleg til að styðja kröfu fullnægjandi rökum.
Við mat á heimildum til vinnslu samkvæmt framangreindu ber að líta til ákvæða í öðrum lögum eftir því sem við á. Eins og hér háttar til eru það einkum ákvæði í heilbrigðislöggjöf, sbr. meðal annars 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu þar sem mælt fyrir um það hlutverk landlæknis að skera úr um kvartanir yfir veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 16. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár á hann rétt til aðgangs að sjúkraskrá viðkomandi sjúklings við meðferð slíkra mála með sama hætti og sjúklingur sjálfur. Þá er í 10. gr. laga nr. 41/2007 mælt fyrir um skyldu landlæknis til að rannsaka óvænt atvik í heilbrigðisþjónustu sem valdið hafa eða hefðu getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, en tekið er fram í 2. mgr. ákvæðisins að veita skuli landlækni þær upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg við rannsókn málsins.
Telja má ljóst að Landspítali hafi mátt miðla heilsufarsupplýsingum um kvartanda til Embættis landlæknis með stoð í framangreindum ákvæðum laga nr. 77/2000, sbr. og fyrrgreind ákvæði í heilbrigðislöggjöf, í tengslum við rannsókn þess á umræddum læknisaðgerðum. Við þá miðlun bar hins vegar að gæta að grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laganna, þ. á m. um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); og að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).
Við mat á því hvort farið hafi verið að framangreindum kröfum ber meðal annars að líta til þess hvernig Embætti landlæknis afmarkaði umfjöllunarefni sitt í bréfi til Landspítala, dags. 11. febrúar 2014, þ.e. með tilvitnun í tiltekna efnisgrein í erindi frá lögmanni kvartanda til embættisins, þess efnis að gerð hafi verið mistök þegar [...] við læknisaðgerðir á kvartanda. Samkvæmt því sem fram kemur í skýringum Landspítalans þarf meðal annars að kanna hvort rétt hafi verið staðið að mati á nauðsyn aðgerðar þegar kannað er hvort mistök hafi verið gerð, en þær upplýsingar um heilsuhagi kvartanda, sem hér um ræðir, telur spítalinn hafa skipt máli í því sambandi. Þessi afstaða Landspítalans byggist á læknisfræðilegu mati sem Persónuvernd hefur ekki forsendur til að endurskoða eins og hér háttar til. Telur stofnunin því ekki fram komið að umræddar upplýsingar hafi skort slíka tengingu við framangreint umfjöllunarefni Embættis landlæknis að brotið hafi verið gegn fyrrgreindum ákvæðum 7. gr. laga nr. 77/2000 við miðlun þeirra til embættisins.
Í kvörtun er gerð athugasemd við að læknabréf með heilsufarsupplýsingum um kvartanda hafi verið send Embætti landlæknis án samráðs við hana, samþykkis hennar eða vitundar. Á meðal heimildanna til vinnslu persónuupplýsinga er að samþykkis hins skráða sé aflað, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Eins og fyrr er rakið telst umrædd miðlun hafa verið heimil á grundvelli annarra ákvæða í 8. og 9. gr., en þau ákvæði áskilja ekki samþykki. Óháð því hvílir hins vegar fræðsluskylda á þeim sem ábyrgð bera á vinnslu persónuupplýsinga. Þegar slíkum upplýsingum er miðlað frá einum aðila til annars hvílir sú fræðsluskylda á viðtakanda upplýsinganna eins og fram kemur í 21. gr. laga nr. 77/2000 en ekki sendanda þeirra. Reynir því hér ekki á hvort á Landspítalanum hafi hvílt fræðsluskylda gagnvart kvartanda samkvæmt lögum nr. 77/2000. Á slíka skyldu gat hins vegar reynt hvað Embætti landlæknis sem viðtakanda upplýsinga varðaði. Þar sem kvörtun beinist ekki að embættinu er ekki tekin afstaða hér til álitaefna í því sambandi.
Þegar litið er til framangreinds telur Persónuvernd ekki fram komið að farið hafi verið í bága við lög nr. 77/2000 við umrædda miðlun.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Miðlun Landspítala til Embættis landlæknis á upplýsingum um A vegna rannsóknar þess á tilteknum læknisaðgerðum fór ekki í bága við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.