Miðlun myndbands af einkasamtali án vitneskju eða samþykkis
Mál nr. 2021010071
Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem kvartað var yfir því að einkasamtal á starfsmannaskemmtun hafi verið tekið upp og miðlað til óviðkomandi, án vitundar og samþykkis þeirra sem á myndbandinu voru. Persónuvernd hafði ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort persónuupplýsingarnar höfðu verið unnar á þann hátt sem kvartandi greindi frá enda standi þar orð gegn orði. Ekki er hægt að fullyrða um að brotið hefði verið á rétti kvartanda.
Úrskurður
Hinn 1. september 2021 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2021010071.
I.
Málsmeðferð
1.
Tildrög máls
Hinn 30. desember 2020 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) yfir upptöku og dreifingu myndbands án samþykkis þeirra aðila sem á myndbandinu eru.
Með bréfum, dags. 10. júní 2021, var [B] og [C] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Svarað var með bréfi, dags 1. júlí s.á.
Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.
2.
Sjónarmið kvartanda
Af hálfu kvartanda hefur komið fram að á skemmtun starfsmanna og eigenda Hótels [X] hafi [B] tekið upp á myndband viðkvæmt samtal kvartanda við þriðja aðila án hennar vitundar og samþykkis. Í kjölfarið hafi [B] miðlað myndbandinu til [C], sem jafnframt er hótelstjóri Hótels [X], sem hafi svo sýnt systkinum maka kvartanda og fleirum upptökuna án samþykkis kvartanda. Í kjölfarið hafi eiginmaður kvartanda, sem jafnframt er einn af eigendum hótelsins, verið sagt upp sem hótelstjóra. Telur kvartandi að upptakan sé enn á kreiki og valdi henni miklum sálrænum erfiðleikum sem og að ljóst sé að eiginmanni hennar hafi verið sagt upp störfum vegna myndbandsupptökunnar.
3.
Sjónarmið [B] og [C]
Af hálfu [B] og [C] hefur komið fram að kvartandi tengist þeim fjölskylduböndum og um árabil hafi verið stirt samband á milli tiltekinna aðila innan fjölskyldunnar sem megi að stórum hluta rekja til rekstrar fjölskyldufyrirtækisins Hótel [X]. Eiginmaður kvartanda hafi yfirgefið fyrirtækið í kjölfar erfiðleika í samskiptum við stjórnendur félagsins um margra ára bil. Ekkert myndskeið hafi átt þátt í starfslokum eiginmanns kvartanda. Á fjórða ár sé liðið síðan umrædd myndbandsupptaka átti sér stað og umrætt myndband sé því ekki lengur til. Þá hafi það eingöngu verið til einkanota. Myndbandinu hafi aldrei verið miðlað rafrænt til nokkurs aðila og því sé hafnað að það sé enn á kreiki.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Lagaskil
Atvik þessa máls gerðust fyrir gildistöku núgildandi laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, hinn 15. júlí 2018. Umfjöllun og efni þessa úrskurðar byggjast því á ákvæðum eldri laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en með gildistöku laga nr. 90/2018 voru ekki gerðar efnislegar breytingar á þeim reglum sem hér reynir á. Um valdheimildir Persónuverndar frá og með 15. júlí 2018 fer hins vegar eftir núgildandi lögum nr. 90/2018.
2.
Gildissvið – Ábyrgðaraðili
Lög nr. 77/2000 giltu um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem voru eða áttu að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Athugun Persónuverndar í máli þessu lýtur að því hvort [B] og [C] hafi, með miðlun myndbandsupptöku af samtali kvartanda við þriðja aðila, brotið í bága við þágildandi lög nr. 77/2000. Mál þetta fellur þar af leiðandi undir valdsvið Persónuverndar.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga hafi samrýmst lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna var þar átt við þann sem ákvað tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður var, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til teljast [B] og [C] vera ábyrgðaraðilar að umræddri vinnslu.
3.
Niðurstaða
Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir í máli þessu stendur orð gegn orði um það hvort sú vinnsla persónuupplýsinga sem kvartað er yfir hafið farið fram. Með vísan til þessa hefur Persónuvernd ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort [B] og [C] hafi unnið með umræddar persónuupplýsingar kvartanda á þann hátt sem greinir í kvörtuninni. Eins og hér háttar til telur Persónuvernd ekki tilefni til þess að stofnunin beiti frekari valdheimildum, sem henni eru fengnar í lögum nr. 90/2018, til þess að rannsaka það nánar. Ekki er því unnt að fullyrða að brotið hafi verið gegn rétti kvartanda samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ekki liggur fyrir að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um [A] hjá [B] og [C] sem braut gegn lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Persónuvernd, 1. september 2021
Helga Þórisdóttir Vigdís Eva Líndal