Úrlausnir

Munnleg miðlun persónuupplýsinga um barn

Mál. 2021040973

24.1.2022

Foreldri kvartaði fyrir hönd barns síns yfir miðlun upplýsinga um barnið frá forstöðumanni sumarbúðanna í Reykjadal til forstöðumanns Þroskahjálpar. Þrátt fyrir að fyrir lægi að Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, sem er rekstraraðila sumarbúðanna, hefði viðurkennt að upplýsingamiðlunin hefði verið mistök, gerð í aðgæsluleysi og andstæð almennu verklagi, þá lá jafnframt fyrir að þeim upplýsingum sem miðlað var á milli félaganna tveggja var miðlað með munnlegum hætti. Komist var að þeirri niðurstöðu að munnleg miðlun upplýsinga ein og sér félli ekki undir gildissvið laga nr. 90/2018 heldur þyrftu upplýsingar með einhverjum hætti að vera á skráðu formi. Var því ekki talið sýnt fram á að álitaefnið félli undir gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og valdsvið Persónuverndar, eins og það er skilgreint í lögunum og reglugerð (ESB) 2016/679, og var því málinu vísað frá.

Ákvörðun

Hinn 24. janúar 2022 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2021040973:

I.
Málsmeðferð
1.
Tildrög máls

Hinn 27. apríl 2021 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefnd kvartandi), fyrir hönd barns hennar, [B], yfir miðlun upplýsinga um [B] frá forstöðumanni sumarbúðanna í Reykjadal til forstöðumanns Þroskahjálpar, sem síðar hafi haft samband við kvartanda.

Með bréfi, dags. 28. júlí 2021, var Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra (SLF), sem rekstraraðila sumarbúðanna í Reykjadal, boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Svarað var með bréfi, dags. 26. ágúst s.á. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2021, var kvartanda boðið að tjá sig um svör SLF. Svarað var með tölvupósti 21. desember s.á. Með símtali, sem fylgt var eftir með tölvupósti, þann 17. janúar 2022 óskaði Persónuvernd frekari upplýsinga frá SLF og var svarað með tölvupósti samdægurs.

Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi ákvörðun.

2.
Sjónarmið kvartanda

Kvörtun lýtur að því að kvartandi hafi fengið símtal frá forstöðumanni Þroskahjálpar varðandi lagafrumvarp um skipta búsetu barna. Forstöðumaðurinn hafi tjáð kvartanda að hún væri að leita að foreldrum fatlaðra barna sem […] og að hún hefði fengið upplýsingar frá forstöðumanni sumarbúðanna í Reykjadal um að barn [kvartanda uppfyllti framangreint skilyrði]. Kvartandi telur að um óheimila miðlun á persónuupplýsingum um fatlað barn hennar hafi verið að ræða.

3.
Sjónarmið Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra

Af hálfu SLF hefur komið fram að upplýsingamiðlun forstöðumanns Reykjadals til forstöðumanns Þroskahjálpar um barn kvartanda hafi verið einstök mistök gerð í aðgæsluleysi og hafi verið andstæð almennu verklagi SLF. Félagið og hlutaðeigandi starfsmaður harmi mistökin og hafi af þessu tilefni verið áréttað fyrir hlutaðeigandi aðila að gæta þess sérstaklega að mistök af þessu tagi endurtaki sig ekki. 

Persónuvernd óskaði frekari upplýsinga frá SLF um með hvaða hætti miðlunin fór fram. Í svari félagsins kom fram að engin skrifleg miðlun hefði átt sér stað heldur hefði verið um að ræða símtal á milli forstöðumannanna tveggja. Nánar tiltekið hefði formaður Þroskahjálpar leitað til forstöðumanns Reykjadals vegna umfjöllunar um börn sem [...], í því skyni að finna foreldra slíkra barna sem væru tilbúnir að koma í viðtal. Nafn kvartanda hafi komið upp í því samtali þar sem […]

II.
Gildissvið laga nr. 90/2018 og niðurstaða

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Þá er hugtakið vinnsla skilgreint í 4. tölul. 3. gr. laganna sem aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki, svo sem söfnun, skráning, flokkun, kerfisbinding, varðveisla, aðlögun eða breyting, heimt, skoðun, notkun, miðlun með framsendingu, dreifing eða aðrar aðferðir til að gera upplýsingarnar tiltækar, samtenging eða samkeyrsla, aðgangstakmörkun, eyðing eða eyðilegging.

Munnleg miðlun upplýsinga ein og sér fellur, samkvæmt framangreindu, ekki undir gildissvið laga nr. 90/2018 heldur þurfa upplýsingar með einhverjum hætti að vera á skráðu formi. 

Þrátt fyrir að SLF hafi viðurkennt að upplýsingamiðlunin hafi verið einstök mistök gerð í aðgæsluleysi og andstæð almennu verklagi SLF þá liggur jafnframt fyrir að þeim upplýsingum sem miðlað var á milli félaganna tveggja var miðlað með munnlegum hætti. 

Með vísan til framangreinds verður ekki talið sýnt fram á að það álitaefni sem kvörtunin lýtur að heyri undir gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og valdsvið Persónuverndar, eins og það er skilgreint í lögunum og reglugerð (ESB) 2016/679, og er henni því vísað frá.

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Kvörtun [A] fyrir hönd barns hennar, [B], yfir munnlegri miðlun upplýsinga um barnið frá starfsmanni sumarbúðanna í Reykjadal til forstöðumanns Þroskahjálpar er vísað frá.



Persónuvernd, 24. janúar 2022

 

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                           Steinunn Birna Magnúsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei