Úrlausnir

Aðgangur LÍÚ að upplýsingum Fiskistofu

20.4.2010

Fiskistofa óskaði eftir áliti Persónuverndar á því hvort heimilt væri að veita LÍÚ aðgang að upplýsingabrunni sínum, þ.e. fiskiskipaskrá og skrá um aflaheimildir, afla og ráðstöfun aflaheimilda einstakra fiskiskipa. Persónuvernd leit til þess að umrædd skrá hefur að geyma upplýsingar um aflahlutdeild einstakra skipa og úthlutun aflamarks til þeirra af auðlind sem telst sameign þjóðarinnar í skilningi laga um stjórnun fiskveiða. Persónuvernd gerði ekki athugasemdir við að Fiskistofa veitti LÍÚ aðgang að gögnunum.

Efni: Varðandi beiðni Landssambands íslenskra útvegsmanna um aðgang að upplýsingum hjá Fiskistofu

I.

Bréfaskipti

1.

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni erindis Fiskistofu, dags. 8. febrúar 2010. Þar segir:

„Fiskistofu hefur borist meðfylgjandi erindi frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, dagsett 14. október sl., þar sem óskað er eftir aðgangi að „upplýsingabrunni" Fiskistofu, þ.e. fiskiskipaskrá Fiskistofu og skrá Fiskistofu um aflaheimildir, afla og ráðstöfun aflaheimilda einstakra fiskiskipa.

Af erindinu má ráða að óskað er eftir aðgangi að þessum upplýsingum til nota við margvísleg verkefni landssambandsins, t.a.m. við kvótamiðlun og við verkefni sem stuðla eiga að sjálfbærri og hagkvæmri nýtingu fiskistofna. Fram kemur í fyrrgreindu erindi að framsetning upplýsinga á vef Fiskistofu feli í sér takmarkaða vinnslumöguleika og því sé aðgengi að þegar birtum upplýsingum á vef Fiskistofu á skráarformi nauðsynlegur þáttur til að tryggja gæði þeirra upplýsinga sem unnið er með í starfsemi landssambandsins."

Í erindinu er vísað til bréfs tölvunefndar, forvera Persónuverndar, til Fiskistofu, dags. 24. október 2000 (mál nr. 2000/565), álits Persónuverndar, dags. 23. júlí 2002 (mál nr. 2002/202), og álits Persónuverndar, dags. 29. nóvember 2004 (mál nr. 2004/465). Einnig er vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 30. nóvember 2005 í máli nr. A-222/2005. Í öllum þessum úrlausnum koma fram takmörk við veitingu upplýsinga frá Fiskistofu.

Eins og fram kom við meðferð framangreindra mála hjá tölvunefnd og Persónuvernd eru í fiskiskipaskrá skráðar upplýsingar um heiti skipa, einkennisstafi, útgerðarflokk, nöfn eiganda, kennitölur eigenda, nafn útgerðar og kennitölu útgerðar. Eins og lýst var í bréfaskiptum vegna þessara mála, sem og í bréfi Fiskistofu, dags. 8. febrúar 2010, er skrá stofunnar yfir aflahlutdeild einstakra skipa, úthlutun aflamarks til þeirra, afla einstakra skipa og ráðstöfun aflaheimilda haldin með vísan til 22. gr. laga nr. 57/1996 um nytjastofna sjávar.

Í niðurlagi erindis Fiskistofu segir:

„Í ljósi þess að breytingar hafa orðið á upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem og á stjórnsýslulögum nr. 37/1993, telur Fiskistofa rétt að afla álits Persónuverndar á því hvort og þá með hvaða skilyrðum Fiskistofu væri heimilt að veita Landssambandi útvegsmanna þann aðgang að gögnum Fiskistofu sem greinir í erindi þeirra."

Í framangreindu erindi Landssambands íslenskra útvegsmanna til Fiskistofu, dags. 14. október 2009, segir:

„Hér með sækir Landssamband íslenskra útvegsmanna um aðgang að upplýsingabrunni Fiskistofu. Sótt er um aðgang að Fiskiskipaskrá Fiskistofu og skrá Fiskistofu um aflaheimildir, afla og ráðstöfun aflaheimilda einstakra fiskiskipa.

Á heimasíðu Fiskistofu eru miklar upplýsingar veittar um ráðstöfun aflaheimilda, afla og aflaheimildir. Þar er líka að finna upplýsingar um skipanúmer, nafn skips, eigendur útgerðaraðila og kennitölur þeirra, útgerðarflokk, vinnsluleyfi auk ítarlegra upplýsinga um útflutning fisks og margt fleira.

Samtökin vinna að margvíslegum verkefnum sem snúa að hagsmunamálum útgerða og sjávarútvegs á Íslandi, þar á meðal er kvótamiðlun og verkefni sem stuðla að sjálfbærri og hagkvæmri nýtingu fiskistofna. Auk þessara verkefna vinna samtökin aðrar greiningar sem nauðsynlegar eru í starfsemi samtakanna. Þrátt fyrir gott aðgengi að upplýsingum á vef Fiskistofu, þá felur framsetning upplýsinganna á vefnum í sér takmarkaða vinnslumöguleika. Aðgengi að þegar birtum upplýsingum á vef Fiskistofu í skráarformi er því nauðsynlegur þáttur til að tryggja gæði þeirra upplýsinga sem unnið er með í starfsemi samtakanna."

2.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 2010, óskaði Persónuvernd tiltekinna, nánari skýringa frá Fiskistofu, þ. á m. hvaða aðrir aðilar en Landssamband íslenskra útvegsmanna kynnu að hafa tilefni til að koma afstöðu sinni á framfæri og ástæða gæti verið að veita kost á því. Fiskistofa svaraði með bréfi, dags. 9. mars 2010, þar sem segir að það gæti átt við um Landssamband smábátaeigenda. Með vísan til þess veitti Persónuvernd sambandinu, með bréfi, dags. 11. mars 2010, kost á að koma afstöðu sinni til þess að veittur sé slíkur aðgangur að skrám Fiskistofu sem að framan er lýst. Svars var óskað fyrir 23. mars nk. en hefur ekki borist.

Í bréfi Persónuverndar, dags. 24. febrúar 2010, var þess einnig óskað að Fiskistofa tilgreindi hvaða heimild í 8. gr. laga nr. 77/2000 hún teldi eiga við um umrædda miðlun. Í framangreindu svari Fiskistofu segir um það:

„Að mati Fiskistofu eru það einkum 5. og 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. sem gætu komið til greina sem heimild fyrir umræddri miðlun upplýsinga til LÍÚ, en í erindi landssambandsins kemur fram að óskað sé eftir aðgangi að þessum upplýsingum, þ.e. fiskiskipaskrá Fiskistofu og skrá Fiskistofu um aflaheimildir, afla og ráðstöfun aflaheimilda einstakra fiskiskipa, til nota við margvísleg verkefni landssambandsins, s.s. kvótamiðlun og við verkefni sem stuðla eiga að sjálfbærri og hagkvæmri nýtingu fiskistofna, en að mati Fiskistofu má telja að með hliðsjón af þessu geti vinnslan bæði verið nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna og einnig telur Fiskistofa að vinnslan geti verið landssambandinu og aðilum þess nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna sinna.

Að mati Fiskistofu verður að líta til þess að samkvæmt 1. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eru nytjastofnar á Íslandsmiðum sameign íslensku þjóðarinnar. Með hliðsjón af því sem og fleiri ákvæðum laga á sviði fiskveiðistjórnunar, s.s. 13. gr. laga nr. 116/2006, þar sem mælt er fyrir um tiltekið hámark á yfirráðum einstakra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, yfir aflahlutdeildum, telur Fiskistofa að lagaleg rök, málefnaleg sjónarmið og almannahagsmunir standi til þess að allar upplýsingar um aflaheimildir (aflahlutdeildir og aflamark) einstakra aðila, hvort heldur fyrirtækja eða einstaklinga, sem og upplýsingar um ráðstöfun aflaheimildanna, eigi að vera öllum, almenningi jafnt sem hagsmunaaðilum, opnar og aðgengilegar og sé einstaklingsbundnum hagsmunum til að dreifa sem kunni að stangast að einhverju leyti á við þá almannahagsmuni eigi þeir að víkja fyrir hagsmunum almennings.

Í ljósi fyrri álita Persónuverndar og áður tölvunefndar sem þýðingu geta haft í þessu sambandi er þess óskað að Persónuvernd taki afstöðu til þeirra álitamála varðandi aðgang að upplýsingum um aflaheimildir sem fela í sér eins og fyrr sagði heimild til nýtingar á nytjastofnum sem eru í sameign íslensku þjóðarinnar samkvæmt 1. gr. laga nr. 116/2006."

II.

Svar Persónuverndar

1.

Persónuvernd hefur það hlutverk að framfylgja lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau gilda um upplýsingar um einstaklinga, sbr. skilgreiningu 1. tölul. 2. gr. laganna á persónuupplýsingum. Alla jafna gilda þau ekki um lögaðila, sbr. þó 2. mgr. 45. gr. laganna sem ekki verður séð að eigi við í því tilviki sem hér um ræðir. Til þess ber hins vegar að líta að í ákveðnum tilvikum geta upplýsingar um lögaðila verið það nátengdar tilteknum einstaklingi að á það geti reynt hvort þær skuli teljast persónuupplýsingar, t.d. þegar um ræðir lítið fyrirtæki og upplýsingar um það eru því nátengdar eigandanum (sbr. álit nr. 4/2007 um hugtakið persónuupplýsingar frá vinnuhópi forstjóra persónuverndarstofnana samkvæmt 29. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB).

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd þau álitaefni, sem erindi Fiskistofu, dags. 8. febrúar 2010, lýtur að, falla undir gildissvið laga nr. 77/2000 og þar með starfssvið stofnunarinnar.

2.

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar eru upplýsingar um aflahlutdeild einstakra skipa, úthlutun aflamarks til þeirra, afla einstakra skipa og ráðstöfun aflaheimilda opinberar upplýsingar sem öllum er heimill aðgangur að. Í framangreindu bréfi tölvunefndar til Fiskistofu, dags. 24. október 2000, og fyrrnefndu áliti Persónuverndar, dags. 23. júlí 2002, kemur fram sú afstaða að þetta ákvæði beri ekki að túlka með rýmri hætti en felst í orðalagi þess, t.d. felist ekki í því að menn eigi rétt á að fá afhenta lista með nöfnum eða kennitölum allra eigenda fiskiskipa, lögaðila sem einstaklinga.

Með lögum nr. 161/2006 var aukið við upplýsingalög nr. 50/1996 kafla um endurnot opinberra upplýsinga, þ.e. VIII. kafla sem hefur að geyma 24.–28. gr. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga er markmið kaflans að auka endurnot opinberra upplýsinga til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Í 2. mgr. 24. gr. kemur fram að með endurnotum opinberra upplýsinga sé vísað til þess að einkaaðili noti slíkar upplýsingar í öðrum tilgangi en ætlunin var þegar þeirra var aflað af hálfu stjórnvalda. Samkvæmt 25. gr. er heimilt að endurnota opinberar upplýsingar, sem eru almenningi aðgengilegar lögum samkvæmt, enda sé fullnægt tilteknum skilyrðum, m.a. að endurnot upplýsinganna brjóti ekki í bága við lög, þ. á m. lög nr. 77/2000.

Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil verður að vera fullnægt einhverju skilyrða 8. gr. laga nr. 77/2000. Á meðal þeirra er að vinna megi með persónuupplýsingar sé vinnslan nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna nema réttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra, sbr. 7. tl. þeirrar greinar. Í ljósi þessa ákvæðis, sem og 22. gr. laga nr. 57/1996 og 1. gr. laga nr. 116/2006 um stjórnun fiskveiða, gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við að LÍÚ sé veittur aðgangur að umræddum upplýsingum. Er þá litið til þess að umrædd skrá hefur að geyma upplýsingar um aflahlutdeild einstakra skipa og úthlutun aflamarks til þeirra af auðlind sem telst „sameign" þjóðarinnar í skilningi laga um stjórnun fiskveiða. Er það mat Persónuverndar að umrædd vinnsla uppfylli skilyrði 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um að vera nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna, enda vegi grundvallarréttindi hinna skráðu ekki þyngra í skilningi ákvæðisins.

3.

Samandregin niðurstaða

Ekki eru gerðar athugasemdir við að Fiskistofa veiti Landssambandi íslenskra útvegsmanna aðgang að fiskiskipaskrá og skrá um aflaheimildir, afla og ráðstöfun aflaheimilda einstakra fiskiskipa.





Var efnið hjálplegt? Nei