Úrskurður
Hinn 11. janúar 2002 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 398/2001:
I.
Með bréfi, dags. 23. apríl 2001, óskaði A eftir afstöðu Persónuverndar til þess hvort Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna og Landsbanki Íslands hefðu brotið á rétti hennar til einkalífs varðandi fjárhagsmálefni hennar.
II.
1.
Málavextir eru þeir að í mars 1999 leitaði A til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna vegna húsaleiguskulda. Hún bjó þá í íbúð á vegum Félagsbústaða hf., fyrirtækis í eigu Reykjavíkurborgar. Var henni, að eigin sögn, vísað til Ráðgjafarstofunnar af formanni félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar og það sett sem skilyrði fyrir mögulegri niðurfellingu húsaleiguskuldarinnar. Í bréfi formanns félagsmálaráðs til hennar, dags. 5. mars 2001, kemur fram að ástæða þess að henni og öðrum, sem leita eftir fjárhagsaðstoð hjá borginni, er bent á að leita til Ráðgjafarstofunnar sé mikilvægi þess að fyrir liggi greinargott yfirlit um fjárhagstöðu og tillögur að heildarlausnum þegar tekin er afstaða til þess hvort veita eigi styrk eða ekki. Á fundi hennar með ráðgjafa hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna þann 8. mars 1999, undirritaði A umsóknareyðublað Ráðgjafarstofu um ráðgjöf. Tilgreint er á eyðublaðinu að með undirritun þess sé "Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna veitt heimild til að afla upplýsinga um skuldir umsækjenda" og að með undirrituninni "staðfestist að viðlögðum drengskap að skýrsla þessi (sé) gefin út eftir bestu vitund." Á eyðublaðinu er jafnframt tilgreint að tiltekin gögn þurfi að fylgja umsókn um ráðgjöf. Þessi gögn eru m.a. afrit af tveimur síðustu skattaskýrslum, staðfestum af viðkomandi skattayfirvöldum eða löggiltum endurskoðanda, síðasti álagningarseðill skattstjóra, afrit af launaseðlum síðustu þriggja mánaða og afrit af síðasta greiðsluseðli allra lána umsækjenda. Fyrir liggur að hvorki þessi gögn né önnur fylgdu umsókn A.
Í framhaldi af fundi hennar með ráðgjafa á Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, aflaði ráðgjafinn upplýsinga um eignir og skuldir A m.a. hjá Landsbanka Íslands þar sem hún er í viðskiptum. Upplýsti Landsbankinn um heildarstöðu hennar gagnvart bankanum, þ.m.t. að A ætti tiltekna fjárhæð inni á bankabók. Þar sem A mætti ekki í seinna viðtalið var henni, með bréfi dags. 16. mars 1999, sent fjárhagsyfirlit Ráðgjafarstofu miðað við stöðu hennar á komudegi. Tilgreint er í bréfinu að fjárhagsyfirlitið sé ekki byggt á gögnum frá henni sjálfri um tekjur og skuldir, heldur eingöngu þeim upplýsingum sem Ráðgjafarstofa hafi aflað sér frá bönkum og Félagsbústöðum h.f. Þá segir í bréfinu:
"Félagsbústaðir eru tilbúnir að fella niður dráttarvexti að fjárhæð 75.000 kr. ef að þú greiðir upp skuldina við þá innan viku frá dagsetningu þessa bréfs.
Til þess að það sé mögulegt þá þarft þú að nota þá fjárhæð sem þú átt í banka en jafnframt þarftu líklega að fá yfirdrátt fyrir því sem á vantar sbr. fjárhagsyfirlit. Ennfremur ættir þú að leggja inn umsókn um húsaleigubætur auk þess að ganga í greiðsluþjónustu bankanna og láta bankann annast greiðslur á öllum föstum reikningum vegna reksturs heimilis."
Fyrir liggur að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna fékk sent frá Landsbanka Íslands afrit af útprentun úr viðskiptamannaskrá Landsbankans, dags. 5. mars 1999, þar sem upplýst er m.a. um "bankainneign" A, veltu hennar við bankann árið á undan og útlán. Umrædd bankainneign er hins vegar, að sögn A, eign barna hennar þótt bankabókin sé hennar á nafni. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna sendi í símbréfi til Félagsþjónustunnar í Reykjavík, þann 16. apríl 1999, afrit af því fjárhagsyfirliti sem A hafði verið sent, ásamt útskýringum á þeim forsendum sem það byggðist á. Þá liggur fyrir í málinu afrit af símbréfi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna til Landsbanka Íslands, dags. 3. maí 1999, þar sem tiltekið er að símbréfið sé sent samkvæmt símtali og að því fylgi afrit af undirskrift A þar sem hún veitir Ráðgjafarstofu heimild til að afla upplýsinga um skuldir hennar.
A féllst ekki á tillögur Ráðgjafarstofunnar um lausn á fjárhagsvanda hennar og var því að hennar sögn sagt upp leiguhúsnæðinu. Með bréfi, dags. 26. nóvember 1999, til bankastjóra Landsbanka Íslands kvartaði hún yfir þeim "mistökum bankans" að upplýsa Ráðgjafarstofuna um annað en skuldastöðu hennar við bankann og krafðist þess að bankinn bætti henni þann skaða sem hún hefði orðið fyrir. Í svarbréfi forstöðumanns lögfræðisviðs Landsbanka Íslands, dags. 30. nóvember 1999, kemur fram að bankinn telji sig hafa svarað með lögmætum hætti beiðni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna frá 3. maí 1999, um upplýsingar sem lýsa skuldastöðu hennar þar sem beiðnin byggði á umsókn um ráðgjöf undirritaðri af henni. Var því alfarið hafnað að bankinn kynni að bera bótaábyrgð á því að henni var sagt upp leiguhúsnæði á vegum Félagsbústaða hf. og sú afstaða skýrð. Í bréfinu segir síðan:
"Með framangreint í huga, verður ekki annað séð en að þér hafið gefið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna fulla heimild til þess að kanna hjá lánastofnunum og Félagsbústöðum hf. nettó skuldastöðu yðar. Yður var í lófa lagið að leggja sjálf fram nákvæmar upplýsingar um skuldastöðu yðar, s.s. með því að leggja fram nauðsynleg gögn skv. yfirlitslista á umsögn um ráðgjöf. Þér kusuð að láta Ráðgjafarstofunni eftir að afla þeirra gagna sem nauðsynlegt var til þess að hægt væri að veita þér nytsama ráðgjöf. Í samræmi við beiðni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna bar okkur að veita fullnægjandi upplýsingar um fjármál yðar svo að hægt væri að sjá hverjar nettó skuldir yðar væru."
2.
Samhengisins vegna er rétt að geta þess að í maí 1997 barst Tölvunefnd erindi frá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna þar sem spurt var um heimildir Ráðgjafarstofunnar til að fá upplýsingar frá bönkum um greiðslustöðu þeirra einstaklinga sem til hennar höfðu leitað. Var ætlunin að kanna árangur af starfi stofunnar með því að velja 100 manna úrtak til frekari skoðunar. Var í bréfinu vísað til samþykkistexta á eyðublaði Ráðgjafarstofunnar fyrir umsókn um ráðgjöf og spurt hvort sá texti nægði sem grundvöllur slíkar upplýsingasöfnunar. Í svarbréfi Tölvunefndar, dags. 5. júní 1997, kom fram að nefndin teldi staðlaða yfirlýsingu á umsókn einstaklings um ráðgjöf hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna ekki nægan grundvöll fyrir síðari aðgangi stofunnar með því sniði sem hér um ræddi. Þá var jafnframt tekið fram að nefndin teldi Ráðgjafarstofunni ekki heimilt að krefja banka, sparisjóði eða aðrar lánastofnanir um upplýsingar um bankayfirlit þessara einstaklinga nema fyrir því lægi ótvírætt skriflegt samþykki viðkomandi, þar sem nákvæmlega væri tilgreint hvaða upplýsinga hann samþykkti að aflað yrði, frá hverjum og fyrir hvaða tímabil.
III.
1.
Í bréfi Persónuverndar, dags. 18. maí 2001, var Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna kynnt erindi A og framangreint álit tölvunefndar frá 5. júní 1997 rakið. Í bréfinu fór Persónuvernd þess síðan á leit við Ráðgjafarstofuna, í því skyni að staðreyna heimildir hennar til framangreindar upplýsingaöflunar, að lögð yrði fram skrifleg samþykkisyfirlýsing A þess efnis að Ráðgjafarstofan mætti afla upplýsinga um stöðu bankareikninga hennar og miðla þeim upplýsingum áfram til Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Væri slík samþykkisyfirlýsing ekki fyrir hendi, var óskað upplýsinga um á grundvelli hvaða heimildar Ráðgjafarstofan aflaði framangreindra upplýsinga og miðlaði þeim áfram til Félagsþjónustunnar. Afrit bréfsins var sent bankastjóra Landsbanka Íslands.
Í svarbréfi Ráðgjafarstofunnar, dags. 25. maí 2001, er rakið vinnuferli stofunnar við fjárhagsráðgjöf. Tekið er fram að viðskiptayfirlit þeirra sem leita til stofunnar fáist send í gegnum tengilið í höfuðstöðvum hverrar bankastofnunar fyrir sig. Á yfirlitinu sjáist skuldir við bankastofnun jafnt sem inneignir, ef einhverjar eru, miðað við þá dagsetningu sem yfirlitið er prentað út. Síðan segir:
"Í tilfelli A, sem leitaði til Ráðgjafarstofu 8. mars 1999, fylgdu umsókninni engin gögn, en viðskiptayfirlit barst frá bönkum. Þar sem A mun ekki hafa mætt í seinna viðtalið, var henni sent bréf 16. mars 1999 ásamt fjárhagsyfirlitum. Ráðgjafa barst síðan símtal frá Félagsþjónustunni í Reykjavík þann 16. apríl 1999, þar sem óskað var eftir fjárhagsyfirlitum og fékk ráðgjafi þau svör að A hefði veitt félagsráðgjafa sem heitir (.......) skriflegt leyfi til að biðja um að þessi fjárhagsyfirlit yrðu send á faxi til Félagsþjónustunnar. Í því faxi útskýrir ráðgjafi hvaða forsendur voru notaðar við uppsetningu fjárhagsyfirlits.
Á umsóknareyðublaði því sem A undirritaði þann 8. mars 1999 stendur:
Með undirskrift þessari er Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna veitt heimild til að afla upplýsinga um skuldir umsækjenda.
Frá miðju ári 1999 hefur þessari setningu verið breytt, þannig að hún nái jafnt yfir eignir og skuldir. Eins og áður sagði fylgja á viðskiptayfirlitum ævinlega upplýsingar um inneignir ef einhverjar eru. Óhjákvæmilegt er að taka tillit bæði til eigna og skulda þegar fjárhagsstaða er sett fram."
Í bréfi Persónuverndar, dags. 19. júní 2001, til bankastjóra Landsbanka Íslands var ofangreint svarbréf Ráðgjafarstofu rakið. Vísað var til bréfs tölvunefndar til stofunnar, dags. 5. júní 1997, þess efnis að tölvunefnd teldi Ráðgjafarstofunni óheimilt að krefja banka, sparisjóði eða aðrar lánastofnanir um upplýsingar um bankayfirlit einstaklinga sem til stofunnar leituðu, nema fyrir því lægi ótvírætt skriflegt samþykki þeirra, þar sem nákvæmlega væri tilgreint hvaða upplýsingar þeir samþykktu að Ráðgjafarstofan fengi, hjá hverjum og fyrir hvaða tímabil. Því væri viðtakendum slíkrar beiðni, þ.e. bönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum óheimilt að láta Ráðgjafarstofunni í té aðrar upplýsingar en þær sem ótvírætt skriflegt samþykki viðkomandi viðskiptamanns þeirra lægi fyrir um. Einnig var óskað afstöðu bankans til þessa og að sérstaklega yrði útskýrt hvaða heimild bankinn teldi sig hafa til að láta af hendi upplýsingar um stöðu reikninga A við bankann.
Svör Landsbanka Íslands bárust með bréfi, dags. 9. október 2001. Þar er vísað til bréfs bankans til A frá 30. nóvember 1999, sem rakið er hér að framan. Síðan segir:
"Til þess að gefa upp stöðu skulda viðskiptavinar við bankann er ekki hægt að komast hjá því að draga frá inneignir í bankanum. Viðskiptastaða er alltaf mismunur þessa.
Bankanum var kunnugt um efni umsóknareyðublaðs Ráðgjafarstofunnar þar sem fram kom vilji A til þess að skuldastaða hennar kæmi fram. Á 2. síðu eyðublaðsins er gert ráð fyrir nákvæmri skýrslu um eignir umsækjanda. Tekur þessi skýrsla yfir hálfa síðuna og þar stendur efst "Banka og sparisjóðsinnistæður, ríkisskuldabréf o.fl." A hafði ekki fyrir því að gefa upplýsingar um eignir sínar og fól þar með Ráðgjafarstofunni að afla þeirra til að fá rétta skuldastöðu umsækjandans.
Undirritun A undir umsókn um ráðgjöf er gerð að viðlögðum drengskap um að upplýsingar séu gefnar eftir bestu vitund. Þær upplýsingar eiga ekki aðeins við skuldastöðu hennar, heldur öll þau atriði sem fram eiga að koma í umsókninni, svo hægt sé að meta nettó skuldastöðu hennar og þá fjárþörf sem hún er í.
Hugtakið "skuldir umsækjanda", sem umsækjandi ritar undir, verður ekki skýrt án samhengis við aðrar upplýsingar sem kallað er eftir á umsóknareyðublaðinu. Það eru þær upplýsingar sem umsækjandi á að veita að viðlögðum drengskap eftir bestu vitund.
Þegar Landsbanki Íslands hf., afgreiddi beiðni Ráðgjafarstofunnar um viðskiptaupplýsingar A, taldi bankinn sér skylt að senda viðskiptayfirlit á afgreiðsludeginum með upplýsingum um eignir og skuldir viðkomandi. Með öðrum hætti kæmi ekki fram hver fjárþörf umsækjanda væri."
IV.
1.
Samkvæmt 31. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, er í gildi voru fram til 1. janúar 2001, féll það í hlut tölvunefndar að úrskurða um hvort farið hefði verið með persónuupplýsingar hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og hjá Landsbanka Íslands í samræmi við fyrrgreind lög. Hinn 1. janúar 2001, tók Persónuvernd við hlutverki tölvunefndar þegar lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga tóku gildi. Persónuvernd úrskurðar því í máli þessu, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000. Atvik máls þessa gerðust að öllu leyti í gildistíð laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Fer því um efnisúrlausn málsins eftir þeim lögum.
2.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga var kerfisbundin skráning persónuupplýsinga því aðeins heimil að skráningin væri eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi aðila og tæki einungis til þeirra er tengdust starfi hans eða verksviði, svo sem viðskiptamanna, starfsmanna eða félagsmanna. Lögin byggja á meginreglunni um samþykki hins skráða fyrir söfnun og miðlun persónuupplýsinga er hann varðar.
Upplýsingar um fjárhag teljast persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 121/1989, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 121/1989 var skráning tiltekinna persónuupplýsinga óheimil nema til hennar stæði heimild samkvæmt öðrum lögum eða tölvunefnd hefði heimilað hana sérstaklega. Um miðlun slíkra upplýsinga giltu ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna. Upplýsingar um fjárhag féllu ekki undir ákvæði 4. gr. laga nr. 121/1989. Fór því um miðlun þeirra upplýsinga samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði var því aðeins heimilt að skýra frá slíkum persónuupplýsingum án samþykkis hins skráða að upplýsingamiðlun væri eðlilegur þáttur í venjubundinni starfsemi skráningaraðilans.
Framangreind ákvæði voru byggð á því grundvallarviðhorfi um persónuvernd að nota bæri persónuupplýsingar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, afla þeirra í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og ekki nota þær í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, sbr. samning Evrópuráðsins nr. 108/1981, um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga, sem Ísland er aðili að, sbr. auglýsingu utanríkisráðuneytisins nr. 5 27. mars 1991, er birtist í Stj.tíð. C, 1991, en lög nr. 121/1989 voru m.a. byggð á þeim samningi, sbr. Alþt. 1988-1989, A-deild, bls. 17.
Samkvæmt framansögðu er bæði Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og Landsbanka Íslands heimilt samkvæmt lögum nr. 121/1989 að halda skrá yfir viðskiptamenn sína. Þar sem upplýsingamiðlun er ekki eðlilegur þáttur í venjubundinni starfsemi hvorki Ráðgjafarstofu né Landsbanka, var þeim ekki heimilt að miðla upplýsingum um fjárhag viðskiptamanna án samþykkis hins skráða, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.
Í 43. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði er kveðið á um þagnarskyldu bankaráðsmanna, stjórnarmanna sparisjóðs, bankastjóra, sparisjóðsstjóra, endurskoðenda og annarra starfsmanna viðskiptabanka og sparisjóða um allt það er varðar hagi viðskiptamanna hlutaðeigandi stofnunar og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt eiga að fara lögum samkvæmt eða eðli máls. Ber viðskiptabönkum og sparisjóðum því að afla samþykkis viðskiptamanns fyrir miðlun upplýsinga um hagi þeirra eða öðru því sem leynt skal fara samkvæmt ofangreindu ákvæði.
Kemur þá til skoðunar hvort fyrir liggi samþykki A fyrir þeirri miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni hennar sem um er deilt í máli þessu.
3.
Í fræðslubæklingi Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna sem ber heitið "Átt þú í fjárhagsvanda" kemur fram að hlutverk Ráðgjafarstofu er fyrst og fremst að veita skuldsettum einstaklingum endurgjaldslausa fjárhagsráðgjöf. Markmið ráðgjafarinnar er að veita fólki yfirsýn yfir stöðu fjármála sinna og aðstoð við að gera greiðsluáætlanir, velja úrræði og semja við lánardrottna. Að Ráðgjafarstofunni standa félagsmálaráðuneytið, Íbúðalánasjóður, Reykjavíkurborg, Landsbanki Íslands, Búnaðarbanki Íslands hf., Íslandsbanki hf., Samband íslenskra sveitarfélaga, Samband íslenskra sparisjóða, Neytendasamtökin, Þjóðkirkjan, Landsamtök lífeyrisjóða, Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.
Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna var beðin um að leggja fram afrit af skriflegu samþykki A fyrir því að Ráðgjafarstofan aflaði framangreindra upplýsinga um fjárhagsmálefni hennar. Ef slík yfirlýsing væri ekki til staðar, þá var hún beðin um að útskýra á grundvelli hvaða heimildar stofan hefði talið sér vera heimilt að afla upplýsinga um stöðu bankareikninga hennar og miðla þeim upplýsingum áfram. Af hálfu Ráðgjafarstofunnar er vísað til hefðbundins vinnuferils hjá stofunni og þess að á umsóknareyðublaði, sem allir sem óska ráðgjafar undirrita, sé veitt heimild til að afla upplýsinga um skuldir viðkomandi. Við mat á fjárhagsstöðu einstaklings sé óhjákvæmilegt annað en að taka tillit til bæði eigna og skulda. Til að draga úr öllum vafa, hafi eyðiblaðinu verið breytt og nú sé tilgreint að veitt sé "heimild til að afla upplýsinga um eignir og skuldir umsækjanda."
Þótt fallast megi á það með Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna að almennt sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um bæði eignir og skuldir þess einstaklings, sem veitt er ráðgjöf, tók sú heimild, sem aflað var frá A til að fá aðgang að fjárhagsupplýsingum, einvörðungu til skulda. Þar fyrir utan hafði samþykki A hvorki að geyma upplýsingar um nöfn þeirra aðila, sem veita máttu þessar upplýsingar, né afmörkun á því tímabili, sem heimildin tók til. Samþykkisyfirlýsing sú, sem Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna lét A undirrita, var því ónothæf til að afla viðhlítandi heimildar að lögum til að fá aðgang að fjárhagsupplýsingum um hana frá aðilum sem bundnir voru lögboðinni þagnarskyldu um efni þeirra. Þessi niðurstaða ætti ekki að koma fyrirsvarsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna á óvart því þegar á árinu 1997 lýsti tölvunefnd þeirri skoðun sinni að Ráðgjafarstofunni væri ekki heimilt að krefja banka, sparisjóði eða aðrar lánastofnanir um upplýsingar um bankayfirlit viðskiptamanna sinna nema fyrir því lægi ótvírætt, skriflegt samþykki viðkomandi, þar sem nákvæmlega væri tilgreint hvaða upplýsingar afla mætti, frá hverjum og fyrir hvaða tímabil.
Í erindi A, dags. 23. apríl 2001, var þess ekki óskað að Persónuvernd tæki afstöðu til þess hvort Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna hefði verið heimilt að veita starfsmanni Félagsþjónustunnar í Reykjavík aðgang að upplýsingum um fjárhagsstöðu hennar. Af þessum sökum tekur Persónuvernd ekki afstöðu til þessa álitaefnis.
Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 11. janúar 2002 var samþykkt að taka til athugunar í sérstöku máli eyðublöð Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna miðað við þau skilyrði sem sett eru um vinnslu persónuupplýsinga og ábyrgð ábyrgðaraðila í núgildandi lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með síðari breytingum.
4.
Í málinu liggur fyrir afrit af símbréfi frá Ráðgjafarstofu til Landsbanka Íslands, dags. 3. maí 1999, þar sem tiltekið er að símbréfið sé sent samkvæmt símtali og að því fylgi afrit af undirskrift A þar sem hún veiti Ráðgjafarstofu heimild til að afla upplýsinga um skuldir hennar. Símbréfið er dagsett rúmum 6 vikum eftir að Ráðgjafarstofa sendi A ofangreindar tillögur sínar, byggðar á "upplýsingum sem Ráðgjafarstofa hefur aflað sér hjá bönkum og Félagsbústöðum h.f." eins og þar segir. Af gögnum málsins verður því ekki annað ráðið en að beiðni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna til Landsbanka Íslands um upplýsingar um "skuldir" A hafi verið sett fram símleiðis, sbr. einnig bréf bankans, dags. 30. nóvember 1999, til A þar sem vísað er til beiðni Ráðgjafarstofu, dagsett 3. maí 1999. Þá liggur ekki fyrir afrit af skriflegu svari bankans, einungis afrit af útprentun úr viðskiptamannaskrá Landsbankans, dags. 5. mars 1999, þar sem upplýst er m.a. um bankainneign, veltu við bankann árið á undan og útlán. Verður því ekki annað ráðið en að svar bankans til Ráðgjafarstofu hafi einnig verið með óformlegum hætti. Af framansögðu athuguðu virðast samskipti Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og Landsbankans hafi verið með óformlegum hætti.
Samkvæmt 43. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði hvílir þagnarskylda á starfsmönnum viðskiptabanka og sparisjóða um allt það er varðar hagi viðskiptamanna hlutaðeigandi stofnunar og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt eiga að fara lögum samkvæmt eða eðli máls. Skrárhaldara, í þessu tilviki Landsbanka Íslands, bar að tryggja öryggi þeirra upplýsinga sem unnar voru á hans vegum. Honum bar að beita virkum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir að upplýsingar væru misnotaðar eða kæmust til óviðkomandi manna, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 121/1989. Ráðgjafarstofan er óviðkomandi aðili í skilningi laga nr. 121/1989 og 43. gr. laga nr. 113/1996 þó svo bankinn standi að Ráðgjafarstofunni. Þagnarskyldunni verður því einungis aflétt með samþykki þess er upplýsingarnar varða og verður samþykkið að uppfylla skilyrði laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónupplýsinga, sem í gildi voru er atvik máls þessa gerðust.
Þótt fallast megi á það með Landsbanka Íslands að ekki liggi skýrlega fyrir sé hver fjárþörf umsækjanda sem leitar til Ráðgjafarstofunnar, nema lagðar séu fram upplýsingar um eignir og skuldir hlutaðeigandi, haggar það ekki þeirri staðreynd að starfsmönnum Landsbankans var með öllu óheimilt vegna þagnarskyldu sinnar að veita Ráðgjafarstofunni fjárhagsupplýsingar nema fyrir lægi ótvírætt samþykki hlutaðeigandi til þess. Reyndist framlagt samþykki ekki nægilega skýrt eða efnislega settar of þröngar skorður, bar að bæta úr því fyrst, með því að afla nýs samþykkis frá hinum skráða, áður en fjárhagsupplýsingar voru látnar af hendi. Í þessu sambandi skal áréttað, að haldi þagnarskyldur bankastarfsmaður því fram, að honum hafi verið heimilt að miðla fjárhagsupplýsingum til þriðja manns á grundvelli samþykkis hins skráða, hvílir sönnunarbyrðin almennt á bankastarfsmanninum um tilvist og efni samþykkisins.
Sú skriflega yfirlýsing, sem Landsbanki Íslands byggir heimild sína á til að láta Ráðgjafarstofunni í té fjárhagsupplýsingar um A kveður svo á, að með undirritun eyðublaðsins sé "Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna veitt heimild til að afla upplýsinga um skuldir umsækjanda". Í samþykkinu er ekki tiltekið frá hvaða tímabili umræddar upplýsingar megi vera. Þar eru hvorki Landsbanki Íslands né aðrir þeir aðilar, sem þessari yfirlýsingu er ætlað að aflétta þagnarskyldu af, tilgreindir. Yfirlýsingin er síðan efnislega afmörkuð við skuldir. Óumdeilt er í málinu að Landsbanki Íslands veitti Ráðgjafarstofunni bæði upplýsingar um eignir og skuldir A.
Af framansögðu athuguðu og í ljósi þeirrar þagnarskyldu sem á bankastarfsmönnum hvílir skv. 43. gr. laga nr. 113/1996 verður ekki séð að umrætt skriflegt samþykki A hafi efni sínu samkvæmt veitt Landsbanka Íslands heimild til að afhenda Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna upplýsingar um eignir og skuldir A, sbr. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989. Gegn eindregnum andmælum A hefur Landsbanka Íslands heldur ekki tekist að færa sönnur á, að þrátt fyrir annmarka á hinni skriflegu yfirlýsingu, hafi engu að síður legið fyrir samþykki frá A fyrir miðlun umræddra upplýsinga.
Þar sem Landsbanka Íslands hefur ekki tekist að færa sönnur á að hann hafi haft heimild frá A til þess að miðla upplýsingum um fjárhagsstöðu hennar til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, verður að telja að honum hafi verið það óheimilt að lögum.
Úrskurðarorð
Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna var óheimilt að krefja banka, sparisjóði eða aðrar lánastofnanir um upplýsingar um bankayfirlit þessara einstaklinga nema fyrir lægi ótvírætt skriflegt samþykki viðkomandi, þar sem tilgreint væri hvaða upplýsingar hann samþykki að aflað verði, frá hverjum og fyrir hvaða tímabil.
Landsbanka Íslands var óheimilt að miðla upplýsingum um fjárhagsstöðu A til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.