Úrlausnir

Viðkvæmar persónuuppýsingar á heimasíðu ríkissaksóknara

24.6.2010

Persónuvernd hefur úrskurðað um birtingu ríkissaksóknara á viðkvæmum persónuupplýsingum, sem koma fram í ákvörðun hans. Hann birti upplýsingarnar á heimasíðu embættisins.

Persónuvernd taldi birtingu ríkissaksóknara á þeim viðkvæmu persónuupplýsingum, sem fram komu í ákvörðun hans frá 4. desember 2009, á heimasíðu embættis, ekki hafa verið í samræmi við persónuverndarlög. Persónuvernd lagði fyrir ríkissaksóknara að afmá hinar viðkvæmu persónuupplýsingar, úr hinni birtu gerð ákvörðunarinnar, af heimasíðu embættisins.

Úrskurður

Hinn 22. júní 2010 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2010/360:

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Hinn 7. apríl 2010 barst Persónuvernd kvörtun R (hér eftir nefndur kvartandi) yfir því ríkissaksóknari hafi þann 6. janúar 2010 birt á heimasíðu sinni viðkvæmar persónuupplýsingar um andlát tveggja manna sem létust voveiflega þann 1. mars 1985. Upplýsingarnar koma fram í skjali um lokaniðurstöðu ríkissaksóknara á könnun hans á atvikinu. Sú niðurstaða er dags. 4. desember 2009. Í bréfi kvartanda er fundið að þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að birta niðurstöður sínar í heild á heimasíðu sinni, en síðar hafi umrædd skýrsla einnig ratað til fjölmiðla.

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 12. apríl 2010, var ríkissaksóknara tilkynnt um kvörtunina og skýringa óskað. Var þess óskað að ríkissaksóknari skýrði hvaða ástæður lágu að baki þeirri ákvörðun embættisins að birta forsendur og niðurstöður ákvörðunar málsins á heimasíðu þess þann 6. janúar 2010. Skýringar ríkissaksóknara bárust Persónuvernd hinn 21. apríl 2010. Í bréfi ríkissaksóknara kemur fram að í athugun hans frá 4. desember 2009 komi fram ýmsar viðkvæmar persónuupplýsingar um hina látnu [...] Við mat á því hvort afmá skyldi slíkar upplýsingar hafi verið litið til þess að í grein kvartanda frá 6. janúar 2010 voru nákvæmar lýsingar á málsatvikum og á því sem fram kom í krufningarskýrslum, þar sem greint var frá [...]

Enn fremur segir í bréfi ríkissaksóknara að þær rangfærslur og ásakanir sem kvartandi hafi sett fram opinberlega hafi verið alvarlegar enda ríkissaksóknari og lögregla þar sökuð um slæleg vinnubrögð og nánast samsæri til að koma í veg fyrir rannsókn á alvarlegum glæp. Fullyrðingarnar hafi gengið þvert á staðreyndir málsins og það sem fram kemur í niðurstöðu ríkissaksóknara en þar megi sjá að allir hafi lagt sig fram um að koma til móts við óskir aðstandenda piltanna. Ríkissaksóknari taldi að ásakanir sem þessar væru til þess fallnar að auka vantrú og valda tortryggni í garð umræddra yfirvalda. Slíkt hefði ekki síður verið alvarlegt eftir hrun bankakerfisins þar sem reiði almennings gat brotist út af minnsta tilefni með alvarlegum afleiðingum. Ríkissaksóknari hafi því talið það skyldu sína að upplýsa almenning um staðreyndir málsins eins og hann og gerði. Það að fella út kafla úr niðurstöðunni yrði aðeins til að sá tortryggni eins og komið var.

Í kjölfarið var kvartanda sent afrit af skýringum ríkissaksóknara og honum veitt færi á að gera athugasemdir. Athugasemdir kvartanda bárust Persónuvernd hinn 3. maí 2010 þar sem hann hafnar þeim fullyrðingum ríkissaksóknara að um rangfærslur hafi verið að ræða. Að öðru leyti tekur kvartandi ekki afstöðu til bréfs ríkissaksóknara.

Hinn 29. apríl s.l. bárust Persónuvernd frekari skýringar ríkissaksóknara. Þar segir að áður en umrædd athugun hans var birt hafi verið metið hvort rétt væri að afmá einhverjar viðkvæmar persónuupplýsingar. Það hafi hins vegar ekki verið gert þar sem í grein kvartanda frá 6. janúar 2010 hafi verið að finna nákvæmar lýsingar s.s. úr krufningarskýrslu auk annarra persónulegra upplýsinga. Þá hafi ríkissaksóknari talið að öll atriði sem fram komu í athuguninni, s.s. að [...] væri nauðsynleg til að svara rangfærslum sem m.a. höfðu komið fram í sjónvarpsþættinum Kompás árið 2008 og síðar í umræddri blaðagrein kvartanda. Allar eyður væru eins og á stóð aðeins til þess fallnar að ýta undir tortryggni. Í bréfi ríkissaksóknara kemur að lokum fram að við mat ríkisaksóknara hafi einkum verið litið annars vegar til c-liðar 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og hins vegar 4. og 6. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna.

Kvartanda var sent afrit af seinna bréfi ríkissaksóknara og honum veitt færi á að gera frekari athugasemdir.

Með bréfi, dags. 14. maí 2010, óskaði Persónuvernd eftir skýringum ríkisaksóknara á tilvísunum til lagaákvæða þar sem ekki þótti skýrt við hvað væri átt. Ef átt væri við 4. tölul. 1. mgr. 9. gr., um nauðsynlega vinnslu til að verja hagsmuni hins skráða, og 6. tölul. 1. mgr. 9. gr., um upplýsingar sem hinn skráði hefur gert opinberar, var þess óskað að slíkt kæmi skýrt fram. Væri þessi skilningur réttur var þess sömuleiðis óskað að nánar kæmi fram með hvaða hætti birtingin hafi þjónað verulegum hagsmunum hins skráða (hins látna). Þá var óskað nánari skýringa á hvaða tölulið 1. mgr. 8. gr. embættið teldi eiga við, s.s. hvort þar væri sömuleiðs átt við nauðsyn til að vernda brýna hagsmuni hins skráða í skilningi 4. töluliðar og þá með hvaða hætti.

Skýringar ríkissaksóknara bárust Persónuvernd þann 27. maí 2010. Þar kemur fram að hann telji að um viðkvæmar persónuupplýsingar hafi verið að ræða, sbr. c-lið 8. töluliðar 2. gr. Segir að við mat ríkissóknara hafi einkum verið litið til 4. og 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Í skýringum sínum segir ríkissaksóknari að hvað varði 4. tölul. hafi hann talið að nauðsynlegt hafi verið að leiðrétta rangfærslur sem birtar höfðu verið í fjölmiðlum landsins varðandi andlát drengjanna tveggja. Niðurstöður og forsendur hafi verið birtar til að eyða þeirri tortryggni sem upp hafði komið við áðurnefndar rangfærslur. Má ráða að ríkissóknari hafi talið hagsmuni hinna skráðu vera af því að hið rétta kæmi fram varðandi andlát þeirra. Gögn sýni að [...]. Ríkissaksóknari vísar einnig til 6. tölul. 1. mgr. 9. gr laganna um vinnslu sem er heimil ef um er að ræða upplýsingar sem hinn skráði hefur sjálfur gert opinberar. Ítrekað hafi verið bent á að miklar upplýsingar varðandi málið höfðu þegar verið birtar í fjölmiðlum af nánum aðstandenda og því nauðsynlegt að afgreiðsla embættisins á erindinu birtist í heild sinni ef það mætti verða til þess að eyða tortryggni og til að leiðrétta rangfærslur.

Kvartanda var sent afrit af skýringum ríkissaksóknara og honum veitt færi á að gera athugasemdir. Með bréfi, dags. 4. júní 2010, ítrekaði kvartandi fyrri athugasemdir sínar.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og þar með valdsvið Persónuverndar, nær til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Af athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Af framangreindu er ljóst að birting ákvörðunar ríkissaksóknara frá 4. desember 2009 á heimasíðu embættisins telst vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laganna. Samkvæmt því fellur sú birting undir efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000.

2.

Aðild

Persónuvernd er úrskurðaraðili ágreiningsmála er varða við lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsingar, skv. 37. gr. laganna. Um aðild að slíku máli fer eftir almennum aðildarreglum stjórnsýsluréttarins en samkvæmt þeim getur eingöngu sá átt aðild að máli sem á beinna, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess. Enn fremur er lögum nr. 77/2000 ætlað að vernda réttindi, sem að meginstefnu til eru persónubundin, enda er persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga einn þáttur í friðhelgi einkalífs. Aðild að ágreiningsmálum er því fyrst og fremst bundin við hinn skráða og ábyrgðaraðila vinnslunnar í skilningi 4. tölul. 2. gr. laganna, en þó er ekki hægt að útiloka aðild annarra.

Í lögum nr. 77/2000 er ekki að finna sérákvæði um aðild og fer því um hana eftir almennum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Í því felst að til að eiga aðild að ágreiningsmáli fyrir Persónuvernd verður viðkomandi að hafa beina, einstaklega, verulega og lögvarða hagsmuni umfram aðra af úrlausn málsins. Í bréfi kvartanda kemur fram að hann sé bróðir hins skráða en ekki verður talið að sýnt hafi verið fram á það leiði til þess að kvartandi eigi beinna, einstaklegra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af því að skorið verði úr um hvort birting ákvörðunar ríkissaksóknara á heimasíðu embættisins hafi verið lögmæt samkvæmt lögum nr. 77/2000.

Þó að aðild af hálfu kvartanda sé ekki fyrir hendi ákvað stjórn Persónuverndar á fundi sínum þann 17. maí 2010 að taka málið upp að eigin frumkvæði, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna.

3.

Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt 4. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er ákærendum skylt að gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmæltra almanna- eða einkahagsmuna. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari.

Í máli þessu er óumdeilt að í ákvörðun ríkissaksóknara frá 4. desember 2009, sem birt var á heimasíðu embættis hans 6. janúar 2010 hafi komið fram viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi c-liðar 8. töluliðar 2. gr. laga nr. 77/2000. Í málinu er einnig óumdeilt að ríkissaksóknari hefur fullar heimildir til að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar við ákvarðanir sínar er lúta að meðferð ákæruvalds á grundvelli 7. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Í máli þessu er einvörðungu til úrlausnar hvort ríkissaksóknara hafi verið heimilt að miðla viðkvæmum persónuupplýsingum til almennings með því að birta á heimsíðu embættis síns ákvörðun í tilteknu máli. Ríkissaksóknara var án nokkurs vafa heimilt að birta ákvörðunina á heimasíðu sinni felldi hann áður út viðkvæmar persónuupplýsingar sem þar var að finna.

Samkvæmt svörum ríkissaksóknara mat hann það svo að nauðsynlegt væri að birta umrædda ákvörðun í heild í kjölfar blaðaskrifa um rannsókn hans á málinu og almennrar ólgu í samfélaginu í kjölfar bankahruns þótt ákvörðunin hefði að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar.

Eins og áður segir falla persónuupplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi undir ákvæði laga nr. 77/2000, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Við skýringu ákvæða um heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga um látna einstaklinga verður almennt að ganga út frá því að eftir því sem upplýsingarnar eru eldri hafi stjórnvöld jafnan meira svigrúm við umfjöllun um slíkar upplýsingar enda dofna yfirleitt verndarhagsmunir reglnanna eftir því sem upplýsingarnar verða eldri. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að 25 ár voru liðin frá andláti þeirra einstaklinga sem rannsókn ríkissaksóknara laut að. Þetta skýringarsjónarmið kemur eingöngu til álita að til staðar sé lagaheimild til að birta upplýsingar sem hægt er túlka í þessu ljósi.

Lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 hafa ekki að geyma sérstaka heimild til birtingar ákvarðana ríkissaksóknara sem hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar. Í lögunum er hins vegar mælt fyrir um þagnarskyldu um upplýsingar um einkahagi sem leynt eiga að fara eins og áður er vikið að. Þarf því að líta til þess hvort einhver af skilyrðum 9. gr. laga nr. 77/2000 voru uppfyllt. Í svörum sínum bendir ríkissaksóknari til 4. tölul. og 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna sem þá lagaheimild sem birting hinna viðkvæmu persónuupplýsinga hafi byggst á.

Í 4. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 kemur fram að vinnsla viðkvæmra persónupplýsinga sé heimil ef hún er nauðsynleg til að verja verulega hagsmuni hins skráða eða annars aðila sem ekki er sjálfur fær um að gefa samþykki sitt samkvæmt 1. tölul. laganna. Í því tilviki sem hér um ræðir eru hinir skráðu látnir. Þó svo að í ákveðnum tilfellum sé hægt að fallast á að nauðsynlegt geti verið að birta persónuupplýsingar um látinn mann til að verja verulega hagsmuni hans, t.d. vegna æru hans, verður ekki fallist á að slíkt eigi við í því tilviki sem hér um ræðir. Er þá m.a. litið til þess sem ríkissaksóknari segir í bréfum sínum að tilgangur birtingarinnar hafi fyrst og fremst verið að leiðrétta mögulegar rangfærslur og auka traust borgaranna á embættinu.

Enn fremur vísar ríkissaksóknari til 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Þar segir að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil ef hún tekur einungis til upplýsinga sem hinn skráði hefur sjálfur gert opinberar. Líkt og áður hefur komið fram eru hinir skráðu látnir og hafa sjálfir ekki gert umræddar upplýsingar opinberar. Hins vegar hefur kvartandi, bróðir annars hinna skráðu, skrifað margar blaðagreinar um umrætt mál. Þó svo að slíkt tengsl séu með hinum látna og kvartanda verður ekki séð að hægt sé að fella blaðaskrif kvartanda undir 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. þar sem hann er hvorki hinn skráði í skilningi laganna né lögmæltur fyrirsvarsmaður hans í þessu tilliti.

Af framansögðu verður ekki á það fallist að birting ríkissaksóknara á viðkvæmum persónuupplýsingum sem fram koma í ákvörðun hans frá 4. desember 2009, sem birt var á heimasíðu embættis hans 6. janúar 2010, hafi getað byggst á ákvæðum 4. og 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Skorti því að lögum heimild til birtingar hinna viðkvæmu persónuupplýsinga sem fram koma í nefndri ákvörðun á heimasíðu embættis ríkissaksóknara er upplýsingarnar voru birtar 6. janúar 2010. Með vísan til 40. gr. laga nr. 77/2000 er hér með lagt fyrir ríkissaksóknara að afmá hinar viðkvæmu persónuupplýsingar úr hinni birtu gerð ákvörðunar hans frá 4. desember 2009 sem er finna á heimasíðu embættis hans.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ríkissaksóknara var óheimilt að birta á heimasíðu embættisins síns 6. janúar 2010 viðkvæmar persónupplýsingar í ákvörðun hans frá 4. desember 2009.

Lagt er fyrir ríkissaksóknara að afmá strax hinar viðkvæmu persónuupplýsingar úr hinni birtu gerð ákvörðunar hans frá 4. desember 2009 sem er finna á heimasíðu embættis hans.





Var efnið hjálplegt? Nei