Úrlausnir

Kennitöluskráning við kaup á vöru með afslætti

Mál nr. 2009/661

1.7.2010

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli vegna kvörtunar manns yfir skráningu Intersports á kennitölu hans þegar hann keypti þar vöru með afslætti. Afslátturinn stóð öllum til boða og skráning á kennitölu fór ekki fram vegna viðskipta við kvartanda heldur í þágu eftirlits með starfsmönnum Intersports. Niðurstaðan var sú að skráningin hafi ekki verið nauðsynleg vegna viðskiptanna og þar með ekki heimil.

Úrskurður

Hinn 22. júní 2010 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2009/661:

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Þann 19. ágúst 2009 barst Persónuvernd kvörtun G (hér eftir nefndur kvartandi) sem beinist að fyrirtækinu Norvik hf. sem rekur Intersport. Hann kvartar yfir því að hafa verið krafinn um kennitölu í verslun Intersports í Lindum í Kópavogi til þess að fá að kaupa þar vöru sem boðin var með afslætti. Í kvörtun segir:

„Krafist er kennitölu af viðskiptavini þegar keypt er vara með afslætti hjá Intersport í Lindum. Þetta gerðist mánudaginn 17. ágúst þegar ég keypti peysu á afslætti og gerðist einnig hjá konu minni nokkrum dögum áður þegar hún keypti föt með afslætti.“

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 25. september, var Intersporti tilkynnt um kvörtunina og fyrirtækinu gefin kostur á að koma að andmælum sínum. Andmæli bárust Persónuvernd þann 13. október og eru þau svohljóðandi:

„Þær reglur gilda í Intersport að sé veittur aukaafsláttur við kassaafgreiðslu ber að skrá kennitölu viðskiptavinar. Þessar reglur eru hluti af innra eftirlitskerfi fyrir Intersport“

Með bréfi, dags. 19. nóvermber 2009, var nánari skýringa óskað frá Intersporti um það hvernig ofangreindar reglur samræmdust skilyrðum 10. gr. laga nr. 77/2000. Var beiðni um skýringar ítrekuð með bréfi, dags. 8. janúar 2010. Þann 27. s.m. barst Persónuvernd eftirfarandi bréf Intersport:

„Vísa til fyrra svarbréfs vegna þessa.“

Í kjölfarið voru kvartanda send afrit andmæla Intersports og honum veitt færi á að gera athugasemdir.

Með bréfi, dag. 3. maí sl., tilkynnti Persónuvernd aðilum málsins að til stæði að taka það til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og var málsaðilum gefinn frestur til 10. maí að kom að frekari skýringum.

Þann 12. maí óskaði Persónuvernd eftir frekari skýringum frá Intersporti um það með hvaða hætti skráning á kennitölum viðskiptavina færi fram í þeim tilgangi að minnka veitta afslætti. Hinn 17. maí bárust viðbótarskýringar Intersports með tölvubréfi. Þar segir:

„Þegar einstaklingar og fyrirtæki sem ekki eru í reikningsviðskiptum eða með skilgreindan staðgreiðsluafslátt versla, þá er sölunótan ekki á kennitölu. Kassakerfið leyfir aukaafslætti á kassa vegna ýmissa mála svo sem auka tilboða, galla o.s.frv. Næsta dag eru aukaafslættir skoðaðir með hliðsjón af því hvort um óeðlilega afslætti sé að ræða. Sést hafði en erfitt að færa sönnur á að starfsfólk lét skyldfólk njóta ákveðinna kjara sem allra jafna hefði ekki átt að vera í boði. Því var brugðið til þess ráðs að ekki væri hægt að veita aukaafslætti á kassa nema með því að skrá kennitölu viðkomandi viðskiptamanns.“

Voru viðbótarskýringar Intersports sendar kvartanda til athugasemda með bréfi, dags. 18. maí. Athugasemdir hans bárust Persónuvernd þann 29. maí 2010. Þar segir meðal annars:

„Haustið 2009 sá ég auglýsingu þar sem boðinn var afsláttur af völdum vörum í Intersport við Lindir. Ég valdi mér vöru sem var með afslætti og þegar ég ætlaði að greiða var ég beðin um kennitölu sem mér þótti undarlegt. Ég hafnaði að gefa upp kennitöluna enda sá ég ekkert samhengi í því og kaupum mínum á vörum í búðinni. Þá var mér tjáð að ég fengi ekki vöruna á auglýstum afslætti. Ég endaði með því að gefa afgreiðslustúlkunni kennitölu mína og fékk ég þá vöruna með auglýstum afslætti.

Engin skýring var gefin á þessu af afgreiðslustúlkunni í Intersport. Hún sagðist einungis hafa skipun um að krefja viðskiptavini um kennitölu að öðrum kosti ættu þeir ekki að fá vöruna á auglýstum afslætti. Í framhaldi sendi ég erindi til ykkar þar sem ekki var um að ræða leigu á t.d. tækjum s.s. bíl eða verkfærum. Eina ástæða skráningar kennitölu virtist mér vera að skrá kaupahegðun mína sem ég var mjög ósáttur við.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og þar með valdsvið Persónuverndar, nær til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna.

Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Af athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að kerfisbundin skráning persónuupplýsinga falli undir vinnsluhugtakið.

Af framangreindu er ljóst að skráning kennitölu kvartanda hjá Intersporti fól í sér vinnslu persónuupplýsinga í framangreindum skilningi. Samkvæmt því fellur mál þetta undir efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000.

2.

Lögmæti vinnslunnar

Í máli þessu er til úrlausnar lögmæti þess að skrá og varðveita kennitölu kvartanda hjá Intersporti vegna staðgreiðslukaupa hans á vöru sem auglýst var á afslætti. Við mat á því þarf að líta til ákvæðis 10. gr. laga nr. 77/2000 um að notkun kennitölu er háð því skilyrði að hún eigi sér málefnalegan tilgang og sé nauðsynleg til að tryggja örugga persónugreiningu.

Skilyrði að því er varðar skráningu upplýsinga um viðskiptavini er að vinnslan eigi sér stoð í einhverju af skilyrðum til vinnslu almennra persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Í 2. tölul. þeirrar greinar er ákvæði um vinnslu sem er nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði er aðili að. Hefur vinnsla verið talin heimil sé hún nauðsynleg til þess að viðskipti geti átt sér stað með lögmætum hætti. Ekki liggur fyrir að svo hafi verið í því máli sem hér um ræðir enda stóð umræddur afsláttur öllum til boða og skráning á kennitölu kvartanda fór ekki fram svo mögulegt væri að eiga umrædd viðskipti við hann heldur í þágu eftirlits með starfsmönnum Intersports. Er því ekki fullnægt skilyrði 10. gr. laga nr. 77/2000 um að skráning kennitölu hafi verið nauðsynleg til að tryggja örugga persónugreiningu.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Skráning og varðveisla Intersports á kennitölu Gí vegna kaupa hans á vöru sem auglýst var á almennum afslætti var óheimil.





Var efnið hjálplegt? Nei