Myndir Bílastæðasjóðs af stöðubroti
Úrskurður
Hinn 14. september 2010 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2010/585:
I.
Kvörtun og bréfaskipti
1.
Persónuvernd barst kvörtun E (hér eftir nefndur „kvartandi“), dags. 28. júní 2010, vegna ljósmynda sem starfsmaður Bílastæðasjóðs Reykjavíkur tók af bifreið til að sanna stöðubrot. Þar er umkvörtunarefni svo lýst:
„Villandi og röngum upplýsingum. Starfsmaður Bílastæðasjóðs sýnir ekki þegar ég var inni í bílnum, ég tel þetta vera myndfölsun. Ath. var inni í bílnum þegar stöðumælavörður kom aftan að bílnum. Steig út til að mótmæla þessari aðferð og skil eftir hurðina opna.“
Með kvörtuninni fylgdu tvær ljósmyndir af kyrrstæðri bifreið. Hún er að nokkru uppi á gangstétt, en hurðin bílstjóramegin er opin.
2.
Með bréfi, dags. 8. júlí 2010, gaf Persónuvernd Bílastæðasjóði Reykjavíkur kost á að tjá sig um kvörtunina og hinn 22. s.m. barst Persónuvernd svar hans. Þar segir:
„Skv. 3. mgr. 108. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 annast lögreglan álagningu og innheimtu svokallaðra stöðvunarbrotagjalda skv. 1. mgr. sömu greinar. Ráðherra getur þó ákveðið að á tilteknum svæðum fari eftirlitið fram með aðstoð sérstakra stöðuvarða og var slík heimild veitt Reykjavíkurborg 1988. Hefur Bílastæðasjóður síðan þá haft eftirlit með bifreiðastæðum í borginni og lagt á stöðvunarbrotagjöld ásamt lögreglunni í Reykjavík.
Stöðvunarbrot eru erfið í álagningu enda ber ökumaður bifreiðar ábyrgð á gjaldinu skv. 1. mgr. 109. gr. umfl. Hvorki lögreglan né stöðuverðir Bílastæðasjóðs vita hver er ökumaður ökutækis sem leggur ólöglega, enda er ökumaður yfirleitt ekki viðstaddur þegar álagning á sér stað. Þetta leiðir af sér að nauðsynlegt er að skilja gjaldmiðann eftir á staðnum og þá yfirleitt undir rúðuþurrku viðkomandi ökutækis en það samrýmist reglum 2. mgr. 108. gr. umfl.
Sökum þessa kemur oft fyrir að miðar fjúki eða eru teknir af bílum og vita ökumenn þá oft ekki af gjaldinu auk þess sem þessi gjöld koma oft á tíðum mjög illa við fólk sem leiðir til þess að viðkomandi reynir allt til að losna við það, m.a. með því að ljúga til um staðsetningu bifreiðar o.fl. Það geta því verið mjög erfið mál í meðförum þegar ökumaður andmælir gjaldi og eina sönnunin í málinu eru orð stöðuvarðar varðandi brot sem geta jafnvel verið margra mánaðar gömul.
Til að auðvelda sönnunarbyrði í þessum málum hefur því undanfarið verið teknar myndir af öllum stöðvunarbrotum og hefur það orðið til þess að öll ágreiningsmál eru nánast úr sögunni enda sýna myndirnar greinilega afstöðu bílsins. Þessar myndir hjálpa því bæði Bílastæðasjóð við að sanna stöðvunarbrot auk þess sem myndirnar hjálpa ekki síður ökumönnum bifreiða sem hafa orðið fyrir óréttmætri álagningu, en auðvitað getur það komið fyrir að lögreglan eða stöðuverðir geri mistök.
Hér er um að ræða myndatöku af umferðarlagabroti líkt og hefur tíðkast í mörg ár með hraðakstur, brot gegn rauðu ljósi o.fl. og er myndin aðeins notuð til að auðvelda sönnun á broti eins og áður segir. Myndirnar eru geymdar í tölvukerfi Bílastæðasjóðs sem er opinbert fyrirtæki í 100% eigu Reykjavíkurborgar og aðeins sóttar þegar málum er andmælt eða ökumenn vilja fá nánari upplýsingar um brot sín. Auk þess má nefna að nánast undantekningarlaust er viðkomandi ökutæki mannlaust og því ekki um að ræða myndir af fólki, heldur aðeins myndir af umferðarlagabroti frá brotastað.
Bílastæðasjóður hefur fengið framselt að hluta það vald til að leggja á og innheimta stöðvunarbrotagjöld skv. umferðarlögum og er Bílastæðasjóður því í engu frábrugðinn lögreglunni og hennar hlutverki að því leyti er snýr að eftirliti með bifreiðastæðum. Þar með er Bílastæðasjóði bæði heimilt og skylt að sinna því hlutverki af sinni bestu getu og þ.á m. gæta þess að álagningar séu sem réttastar og réttlátastar gagnvart þeim sem brjóta af sér. Myndirnar hjálpa því til við það líkt og myndir hjálpa lögreglunni við að sanna hraðakstur, brot á rauðu ljósi o.fl.
Einnig má taka fram að eftirlit fer aðeins fram á svæðum þar sem almenn umferð má fara um en ekki á lokuðum einkasvæðum og því er ávallt um að ræða myndatökur á svæðum í eigu hins opinbera ætluðum almenningi. Það að keyra bíl gerir ökumanninn því að þáttakanda í almennri umferð (þar sem lengi hafa verið teknar myndir til að sanna umferðarlagabrot) og má ökumaður vita það að hann verður að fara eftir lögum og reglum og getur búist við því að hann sé myndaður geri hann það ekki.“
3.
Með bréfi, dags. 9. ágúst 2010, var kvartanda gefinn kostur á að tjá sig um framkomnar athugasemdir Bílastæðasjóðs. Hann mætti á skrifstofu Persónuverndar hinn 20. ágúst s.á. Þá áréttaði hann að erindi hans lýtur að því að umræddar myndir geymi villandi persónuupplýsingar sem eigi ekki rétt á sér. Hann gaf svofellda yfirlýsingu:
„Ég undirritaður óska eftir að erindi mínu verði haldið áfram, að bíl mínum var ekki lagt ólöglega vegna þess að ég var inn í bílnum þegar stöðumælavörðurinn kom aftan að bílnum! Og hann byrjaði ekki að taka mynd af honum fyrr en ég er kominn út úr bílnum! (Ég tel þetta vera myndfölsun)“
II.
Niðurstaða
1.
Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um alla rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu sé upplýsingunum ætlað að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að ljósmyndir af bifreiðum, þar sem skráningarmerki eða önnur auðkenni sjást, sem gera þær rekjanlegar til eigenda og eftir atvikum ökumanns, teljast til persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000.
Samkvæmt framangreindu þarf vinnsla með umræddar ljósmyndir að samrýmast ákvæðum laga nr. 77/2000. Það á þó ekki við sé um að ræða starfsemi sem fellur utan þeirra. Sú vinnsla sem hér um ræðir tengist starfsemi Bílastæðasjóðs, sbr. 3. mgr. 108. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en starfsemi ríkisins á sviði refsivörslu fellur ekki að öllu leyti undir lög nr. 77/2000. Um það segir í 2. mgr. 3. gr. þeirra laga að ákvæði 16., 18.–21., 24., 26., 31. og 32. gr. laganna gildi ekki um hana. Það kvörtunarmál sem hér er til úrlausnar lýtur hins vegar að leiðréttingu eða eyðingu rangra og villandi persónuupplýsinga sem fjallað er um í 25. gr. laganna. Sú grein tekur til starfsemi á sviði refsivörslu og því fellur efni þessa máls undir lög nr. 77/2000 og þar með undir valdsvið Persónuverndar.
2.
Í 25. gr. laga nr. 77/2000 segir að hafi verið skráðar rangar, villandi eða ófullkomnar persónuupplýsingar, og geti umræddur annmarki haft áhrif á hagsmuni hins skráða, skuli ábyrgðaraðili sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið.
Við mat á því hvort hér sé um að ræða rangar eða villandi upplýsingar í þessum skilningi verður að líta til ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987 um stöðubrot, en samkvæmt erindi kvartanda virðist hann telja skipta máli hvort hann hafi verið í bílnum eða ekki. Í 2. gr. umferðarlaga kemur fram að lagning ökutækis felur í sér stöðu ökutækis, með eða án ökumanns, lengur en þarf til að hleypa farþegum inn eða út, lesta það eða losa. Í 3. mgr. 27. gr. umerðarlaga nr. 50/1987 segir að óheimilt sé að stöðva ökutæki eða leggja því á gangstétt eða gangstíg, nema annað sé ákveðið, sbr. 2. mgr. 81. gr. Með vísan til þessa kann lagning kvartanda á gangstétt að hafa falið í sér brot á ákvæðum umferðarlaga óháð því hvort hann var inn í bílnum eða ekki.
Samkvæmt framangreindu verður ekki fullyrt að umræddar myndir beri með sér rangar eða villandi upplýsingar sem sjóðinum beri að eyða. Rétt er hins vegar að taka fram að kvartandi getur óskað þess við Bílastæðasjóð að aukið verði við þær upplýsingar sem fylgja myndunum, þannig að fram komi að kvartandi hafi verið inni í bílnum, þegar starfsmaður sjóðsins kom að honum, en farið úr honum til að ræða við starfsmanninn - enda geti það haft áhrif á hagsmuni kvartanda.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Bílastæðasjóði Reykjavíkur er ekki skylt að eyða myndum af meintu stöðvunarbroti E.