Úrskurðir og álit - SPRON - mál nr. 2012/306
Úrskurður
Persónuvernd barst erindi frá SPRON sem krafðist þess að stofnunin stöðvaði þegar í stað vinnslu Búnaðarbanka Íslands með skrá yfir stofnfjáreigendur í SPRON, en einn stofnfjáreigenda hafði mætt með diktafón, lesið skrána á band og afhent Búnaðarbankanum.
Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að viðkomandi aðila hefði verið heimilt, sem stofnfjáreiganda, að lesa inn á segulband nöfn og heimilisföng stofnfjáreigenda í stofnfjáreigendaskrá SPRON með það að markmiði að hafa samband við aðra stofnfjáreigendur til þess að freista þess að boða til fundar í samræmi við 3. mgr. 32. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði og til þess að gera öðrum grein fyrir viðhorfum hans og fimm annarra stofnfjáreigenda um kaup og kjör á stofnfjárhlutum.
Þá var talið heimilt að fá Búnaðarbanka Íslands sem vinnsluaðila til að aðstoða þá við þessa framkvæmd.
Hinn 21. ágúst 2002 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2002/306:
Með bréfi, dags. 3. júlí sl., barst Persónuvernd erindi frá A. þar sem þess er krafist, fyrir hönd Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON), að Persónuvernd stöðvi þegar í stað vinnslu Búnaðarbanka Íslands hf. (BÍ) með skrá yfir stofnfjáreigendur í SPRON og neyti til þess sérhverra úrræða sem henni eru búin. Í bréfinu segir meðal annars:
Einn stofnfjáreigandi, B, mætti í skjóli þessara ákvæða með diktafón, las skrána á band, sem hann afhenti síðan Búnaðarbanka Íslands hf. sem ekki hefur látið stofnfjáreigendur í SPRON í friði síðan. Hafa margir þeirra haft samband við skrifstofur SPRON og lýst furðu og megnri vanþóknun á því ónæði sem þeir hafa mátt þola af hálfu Búnaðarbankans. Bankinn er að þessum upplýsingum kominn fyrir brýnt brot á ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 7. gr. tilvitnaðra laga, sbr. einnig 25. gr.
Með bréfum, dags. 4. júlí sl., gaf Persónuvernd B og BÍ færi á að koma afstöðu sinni til efnis framangreinds bréfs á framfæri. Frá C. barst Persónuvernd síðan bréf, dags. 8. júlí sl., þar sem sjónarmiðum umbjóðanda hans, B, er lýst. Þá barst Persónuvernd bréf frá D, dags. 8. júlí sl., þar sem lýst er sjónarmiðum BÍ.
Með bréfi, dags. 9. júlí sl., gaf Persónuvernd SPRON færi á að koma afstöðu sinni til efnis bréfanna frá C og D á framfæri. Barst Persónuvernd bréf frá A, dags. 12. júlí sl., þar sem afstöðu SPRON í málinu er lýst nánar og röksemdum gagnaðila í málinu svarað. Er þar ítrekuð krafan í erindinu frá 3. júlí sl. og þess krafist að auki að BÍ eyði öllum skrám og gögnum um stofnfjáreigendur SPRON sem hann hefur komist yfir.
Með bréfum, dags. 12. ágúst sl., gaf Persónuvernd E, F, G, H og I, stofnfjáreigendum í SPRON, færi á að koma afstöðu sinni til málsins á framfæri, en vinnsla BÍ með skrá yfir stofnfjáreigendur sparisjóðsins fer fram samkvæmt samkomulagi við þá. Barst Persónuvernd bréf frá K, dags. 20. ágúst sl., þar sem afstöðu þeirra í málinu er lýst.
Með símbréfi, dags. 20. ágúst sl., gaf Persónuvernd SPRON færi á að lýsa afstöðu sinni til bréfs K. Tjáði stofnunin þá afstöðu sína að þeim málsrökum, sem þar koma fram, hefði þegar verið svarað af hálfu sparisjóðsins. Barst Persónuvernd símbréf frá L, dags. 21. ágúst, þar sem fram kemur að sparisjóðurinn telur þeim efnisatriðum, sem fram koma í bréfi K, hafa verið svarað með bréfum A til Persónuverndar, dags. 3. og 12. júlí sl.
Tildrög þessa máls voru óánægja fimm stofnfjáreigenda í SPRON – E, F, G, H og I (í úrskurði þessum kallaðir "fimmmenningarnir") – með fyrirætlanir stjórnar sparisjóðsins um að hlutafjárvæða hann, en fimmmenningarnir töldu þessar fyrirætlanir þjóna hagsmunum stofnfjáreigenda miður vel þar sem fá mætti meira fyrir stofnfjárhluti en það verð sem stjórnin hugðist selja þá á, nafnverð. Vildu fimmmenningarnir að gengið yrði að tilboði sem BÍ hafði gert um að kaupa stofnfjárhlutina á fjórföldu nafnverði, en þegar þeir kynntu þá hugmynd sína taldi stjórnin það ólöglegt að stofnfjárhlutir væru seldir hærra verði en nafnverði. Fimmmenningarnir vildu kanna hug annarra stofnfjáreigenda til málsins og óskuðu því eftir aðgangi að skrá SPRON yfir stofnfjáreigendur í sparisjóðnum. Þá vildu þeir afla stuðnings meðal stofnfjáreigenda við kröfu sína um að boðað yrði til stofnfjáreigendafundar, en stjórn SPRON afboðaði fund sem boðað hafði verið til. Þurftu fimmmenningarnir að fá stuðning hjá einum þriðja hluta stofnfjáreigenda svo að stjórninni yrði skylt að boða til fundar, sbr. 19. gr. samþykkta SPRON. Fimmmenningarnir komust ekki yfir alla skrána – sem hefur að geyma upplýsingar um nöfn stofnfjáreigenda, heimilisföng þeirra, kennitölur og stofnfjáreign – heldur einungis nöfn og heimilisföng hinna skráðu.
Þessar upplýsingar voru birtar á tölvuskjá á skrifstofu SPRON og ekki leyft að tekið væri af þeim afrit. Sá sem sendur var til að afla skrárinnar, stofnfjáreigandinn B – G, eins fimmmenninganna – las þá upplýsingarnar inn á segulband og voru þær síðan skráðar niður. Með þessar upplýsingar í höndunum hófust B og áðurnefndir fimmmenningar handa við að afla stuðnings annarra stofnfjáreigenda við skoðanir sínar á málefnum SPRON. Þetta gerðu þeir með bréfasendingum og símhringingum þar sem málstað þeirra var lýst. Eitt bréfið var sent til allra stofnfjáreigenda og var þar skorað á þá að krefjast fundar. Nutu fimmmenningarnir og B aðstoðar BÍ. Var samið svo um að fimmmenningarnir keyptu stofnfjárhluti í sparisjóðnum og endurseldu þá síðan BÍ. Til þess að bankinn gæti aðstoðað þá og B við að finna símanúmer stofnfjáreigenda og ná í þá afhentu þeir honum eintök af þeim hluta skrárinnar sem þeir komust yfir. Ekki voru allir stofnfjáreigendur sáttir við þennan framgang fimmmenningana, B og BÍ og bárust SPRON kvartanir vegna hans að sögn A.
Samkvæmt samkomulagi fimmmenningana, B og BÍ munu öll bréf hafa verið send í nafni fimmmenningana. Þá mun bankinn hafa lagt fyrir starfsfólk að þegar það hringdi fyrir fimmmenningana skyldi það ætíð geta þess að símtalið færi fram fyrir þeirra hönd en ekki bankans. Sá hluti skrárinnar, sem fimmmenningarnir og B komust yfir, mun ekki hafa verið geymdur í tölvukerfi bankans heldur að Túngötu 6, húsi sem fimmmenningarnir og B hafa yfir að ráða. Þá mun hafa verið samkomulag um að bankinn afhenti þeim öll eintök af listanum þegar notkun hans væri lokið og að hann skyldi ekki notaður í neinum öðrum tilgangi en þeim sem samkomulagið gerði ráð fyrir.
Mál þetta hefur ekki aðeins verið lagt fyrir Persónuvernd heldur einnig Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið. Þá hefur B með aðfararbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 8. júlí sl., krafist innsetningar í skrá SPRON yfir stofnfjáreigendur, en hann og fimmmenningarnir hafa mjög sóst eftir því að fá afrit af henni allri. Hinn 24. júlí sl. úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að stofnfjáreiganda í SPRON væri heimilt að fá fullan og ótakmarkaðan aðgang að skrá yfir nöfn allra stofnfjáreigenda og jafnframt að skrifa hjá sér upplýsingar úr skránni. Dómurinn féllst á hinn bóginn á þá kröfu SPRON að kæra til Hæstaréttar frestaði aðfarargerðinni. Hefur SPRON nú kært aðfarargerðina til Hæstaréttar.
1.
Í bréfi A, dags. 3. júlí sl., segir að vinnsla BÍ með upplýsingar í skrá yfir stofnfjáreigendur í sparisjóðnum brjóti gegn 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. einnig 25. gr.
Röksemdir SPRON eru raktar nánar í bréfi A, dags. 12. júlí sl. Segir þar að í bréfum B og BÍ til Persónuverndar sé ekki að finna gildan rökstuðning fyrir því að þeir hafi lagaheimild samkvæmt 8. gr. laga nr. 77/2000 til þeirrar vinnslu sem þeir hafa ráðist í. Ekki sé heimild til vinnslunnar í 4. og 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., en til þeirra ákvæða vísa B og BÍ. Vinnslan sé þannig hvorki nauðsynleg til að vernda brýna hagsmuni hins skráða, sbr. 4. tölul., né til að ábyrgðaraðili geti gætt lögmætra hagsmuna sem vegi þyngra en grundvallarréttindi og frelsi hins skráða, sbr. 7. tölul.
Því er andmælt að stofnfjáreigendur eigi að geta tekið afrit af skrá sparisjóðsins yfir stofnfjáreigendur og unnið með hana til að ná sambandi við aðra stofnfjáreigendur. Skrá yfir stofnfjáreigendur sé lokuð skrá. Eingöngu stofnfjáreigendur hafi aðgang að henni, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Skráin hafi þann tilgang að vera skrá yfir stofnfjáreigendur og eignarhlut hvers þeirra og gera stjórninni kleift að boða þá á fundi um málefni sparisjóðsins. Skráin þjóni ekki þeim tilgangi að stofnfjáreigendur hafi aðgang að henni og geti unnið með hana í öðrum tilgangi en hér var nefndur enda dytti þá botninn úr reglu 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996 og 8. gr. samþykkta SPRON um að einungis tilteknir aðilar hafi aðgang að skránni. Fjölföldun skrárinnar geri þessa reglu að engu. Þetta sé í samræmi við reglur hlutafélagalaga um hlutaskrár og fráleitt að ætla að rýmri reglur gildi um aðgang að stofnfjáreigendaskrá í sparisjóði í þessu tilliti.
Þessu næst segir að eiginlegur vettvangur stofnfjáreigenda til að bera upp tillögur, skiptast á skoðunum og beita atkvæðisrétti sínum sé á fundum stofnfjáreigenda sem stjórn SPRON sé skylt, lögum samkvæmt, að boða til. Í samþykktum sparisjóðsins séu stofnfjáreigendum tryggð öll þau réttindi sem þeim beri, þ.á m. tillöguréttur og atkvæðisréttur á fundum sparisjóðsins. Þeir séu hinn eini rétti vettvangur til að bera undir aðra stofnfjáreigendur málefni er varði sparisjóðinn. Fimmmenningarnir hafi ekki sýnt fram á að þeir hafi beðið tjón sökum þess að einum fundi var frestað. Þeim sé í lófa lagið að bera erindi sitt upp á fundi í sparisjóðnum sem boða eigi til þegar réttaróvissu um grundvallaratriði um eðli sparisjóða hafi verið eytt, þ.e. þegar Fjármálaeftirlitið hefur komist að niðurstöðu um það erindi sem SPRON hefur sent til þess. Skilja megi á fimmmenningunum og BÍ að ætlunin sé að slá öllum fundum á frest ótiltekið og að af þeim sökum geti fimmmenningarnir ekki notið þeirra réttinda að bera tillögur og hugmyndir sínar undir aðra stofnfjáreigendur. Slíkur málflutningur sé fjarstæða og tilhæfulaus með öllu enda þekkt hvaða álitaefni Fjármálaeftirlitið hafi nú til úrlausnar að frumkvæði fimmmenninganna og BÍ.
Bent er á að unnið er með persónuupplýsingar úr stofnfjáreigendaskrá SPRON samkvæmt samningi fimmmenningana og BÍ. Fimmmenningarnir séu ekki ábyrgðaraðilar í skilningi laga nr. 77/2000, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 8. gr., né heldur lögformlegir umráðamenn skrárinnar eins og ábyrgðaraðilar væru samkvæmt lögunum. Hafi þeir því enga heimild til að að vinna með skrána eða ráðstafa henni í heild eða að hluta til vinnsluaðila, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. Skýrt sé í lögum nr. 77/2000 að einstaklingur, sem skráður sé í skrá er falli undir gildissvið laganna, öðlist ekki með því einu að vera skráður í skrána rétt til að fá skrána afhenta og ráðstafa henni að eigin vild og þvert á tilgang hennar. Slíkt sé brot á lögum og trúnaðarbrot við aðra sem skráðir eru í skrána.
Þá segir að ef tekið væri undir sjónarmið fimmmenningana og BÍ væri verið að færa ákvörðunarvald um umræðu um málefni sparisjóðsins út af eiginlegum fundum stofnfjáreigenda yfir á vettvang þar sem einstakir stofnfjáreigendur hefðu sjálfdæmi um að ákveða hver yrði og hverjir tækju þátt í slíkri umræðu. Slíkt gangi þvert á skipulag sparisjóða og samþykktir þeirra.
Einnig segir að fimmmenningarnir hafi ekki á neinn hátt rökstutt að vinnsla þeirra styðjist við brýna hagsmuni. Þeir brýnu hagsmunir, sem svo hafi verið nefndir, snúist um ranghugmyndir fimmmenningana um viðskiptagildi stofnfjáreignar í sparisjóði og það að þeir í sjálfsauðgunarskyni hyggjist koma SPRON í hendur BÍ. Ljóst sé að í málatilbúnaði þeirra sé ekkert tillit tekið til þeirrar samfélagseignar, sem í sparisjóðnum sé, né þeirra hugmynda sem aðrir stofnfjáreigendur kunni að hafa um tilgang og stefnu sparisjóðsins. Ágirnd til peninga réttlæti alls ekki og á engan hátt þá ólögmætu vinnslu persónuupplýsinga sem þeir hafi ráðist í.
Í tengslum við að þar til fyrir sjö árum var stofnfjáreigendaskráin birt í ársskýrslu SPRON – en þetta hafa B og BÍ bent á – segir að löggjöf um persónuvernd hafi styrkst til muna. Hætt hafi verið að birta skrána með þessum hætti vegna athugasemda frá stofnfjáreigendum. BÍ geti því ekki réttlætt gjörðir sínar með vísan til þessa.
2.
Í bréfi C, dags. 8. júlí sl., eru raktar röksemdir umbjóðanda hans, B, stofnfjáreiganda í SPRON. Er þar bent á að samkvæmt 8. gr. samþykkta SPRON skuli stofnfjáreigendur hafa aðgang að stofnfjáreigendaskrá sparisjóðsins, sbr. einnig 16. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Í skránni skuli tilgreina nöfn stofnfjáreigenda, heimilisföng og kennitölur auk stofnfjárhluta. Hins vegar hafi aðgangur einungis verið veittur á þann hátt að nöfn og heimilisföng stofnfjáreigenda hafi verið sýnd á tölvuskjá á skrifstofu sparisjóðsins. Hafi B lesið þessar upplýsingar inn á segulband til að hægt yrði að hafa samband við aðra stofnfjáreigendur, en þeir ættu sameiginlegra hagsmuna að gæta.
Þá segir að þegar stjórn SPRON hafi sent stofnfjáreigendum upplýsingar um hina fyrirhuguðu hlutafjárvæðingu hafi í engu verið greint frá samningi fimmmenningana og BÍ. Fimmmenningarnir og B hafi því talið að upplýsingagjöf SPRON til stofnfjáreigenda væri verulega ábótavant og að þeir gætu ekki tekið upplýsta ákvörðun á fyrirhuguðum stofnfjáreigendafundi. Til að vernda brýna hagsmuni og til að stofnfjáreigendum yrði unnt að gæta lögmætra hagsmuna sinna á fundinum hafi verið nauðsynlegt að senda þeim öllum fyllri upplýsingar um málið.
Þessu næst segir að eina leiðin fyrir stofnfjáreiganda til að nálgast aðra stofnfjáreigendur, hvort sem er til að kynna þeim einstök mál eða til að skora á stjórn að halda fund, sé að fá stofnfjáreigendaskrána afhenta hjá SPRON lögum samkvæmt. Þar sem ljóst hafi verið að villur væru í þeim lista, sem lesinn var inn á segulband, hafi ítrekað verið óskað eftir að fá stofnfjáreigendaskrána í hendur. Hafi þá meðal annars verið vísað til þess að tilgangur ákvæðisins um rétt stofnfjáreigenda til aðgangs að skránni hljóti að vera að auðvelda þeim að ná hver til annars vegna málefna sparisjóðsins, ekki síst til að undirbúa sig fyrir fundi stofnfjáreigenda. Í þessu sambandi er sérstaklega bent á 19. gr. samþykkta SPRON þar sem segir meðal annars: "Sparisjóðsstjórn er skylt að boða til fundar stofnfjáreigenda, ef þeir sem fara með minnst 1/3 hluta stofnfjár krefjast þess skriflega og greina fundarefni." Þurfi því óvenju stóran hluta heildaratkvæða til að knýja fram fund en til samanburðar þurfi einungis einn tíunda hluta í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Með því að takmarka aðgang að skránni og afhenda ekki afrit af henni til þeirra sem þann rétt eiga sé stjórn sparisjóðsins í raun að gera þá kröfu að einum þriðja hluta stofnfjáreigenda detti samtímis í hug að skora á stjórnina að halda fund, en útilokað eigi að vera fyrir þá að tala saman og ráða ráðum sínum.
Tekið er fram að samkomulag sé um að BÍ noti ekki listann, sem B las inn á segulband, í neinum öðrum tilgangi en að aðstoða fimmmenningana og B við að finna símanúmer stofnfjáreigenda og ná í þá. Listinn sé ekki vistaður í tölvukerfi bankans heldur að Túngötu 6, en því húsi hafa fimmmenningarnir og B yfir að ráða.
Einnig segir að eftir að stjórn SPRON hafi afboðað fyrirhugaðan stofnfjáreigendafund án þess að til staðar væru nokkur þau atriði, sem hömluðu því að unnt væri að fjalla um mál er voru á dagskrá fundarins, hafi verið mjög áríðandi fyrir þá stofnfjáreigendur, er töldu rétt að fundur væri haldinn, að ná saman nægilegum fjölda stofnfjáreigenda til að krefjast slíks fundar, sbr. áðurnefnda 19. gr. samþykkta SPRON.
Bent er á að fimmmenningarnir og B hafi áfram krafist þess að stjórn SPRON afhenti þeim stofnfjáreigendaskrána í lögmætu formi. Þessu hafi stjórnin alfarið hafnað, síðast með bréfi til B, dags. 4. júlí sl., þar sem segi meðal annars: "Það stendur ekki til að verðlauna þennan umbjóðanda yðar fyrir þau trúnaðarbrot, sem hann hefur þegar framið, með því að koma honum í aðstöðu til að fremja ný trúnaðarbrot gagnvart sparisjóðnum og stofnfjáreigendum í honum. Meginreglan um aðgang að skránni hlýtur að víkja þegar tilgangurinn er óheiðarlegur." Af framangreindum orðum er það talið vera ljóst að stjórnin misbeiti gróflega því valdi sem henni sé falið og að hún brjóti jafnframt gegn skýrum ákvæðum laga um aðgang stofnfjáreigenda að skránni.
Einnig er bent á að listi yfir alla stofnfjáreigendur í SPRON var birtur í ársskýrslu sparisjóðsins allt til 1. mars 1995, en þá var birt ársskýrsla vegna ársins 1994. Fram hafi komið í skýrslunni nöfn og heimilisföng allra stofnfjáreigenda í SPRON hverju sinni. Hafi þessi venja verið eðlileg og sýni að sparisjóðurinn hafi ekki talið stofnfjáreigendalista sinn til upplýsinga er fara þyrfti með sem leyndarmál að því er varðar aðra stofnfjáreigendur eða aðra.
Tekið er fram að vinna við að ná í stofnfjáreigendur hafi öll verið í nafni fimmmenninganna og að beiðni þeirra. Vinnslan hafi þannig öll verið á vegum þeirra og bréf, sem send hafi verið út, hafi verið í þeirra nafni.
Að lokum segir að B telji SPRON brjóta freklega á rétti sínum með því að afhenda honum ekki gögn sem hann eigi rétt á þannig að hann verði að leita sér aðstoðar til að vinna sjálfur slíkan lista. Telja verði, með vísan til 4. og 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að B, fimmmenningunum, og reyndar öllum öðrum stofnfjáreigendum SPRON, sé öll vinnslan heimil, með aðstoð BÍ, til að vernda brýna hagsmuni sína og svo að þeim sé unnt að gæta lögmætra hagsmuna sinna sem ella verði fyrir borð bornir. Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að verulegar hömlur væru lagðar við því að einstaklingar gætu með nokkru móti gætt mikilvægra, lögvarinna hagsmuna sinna og myndi skapa möguleika á valdníðslu og átroðslu sem ekki væri ásættanlegur.
3.
Í bréfi D, dags. 8. júlí sl., eru röksemdir BÍ í málinu raktar. Segir þar að er stjórn SPRON hafi sent stofnfjáreigendum í sparisjóðnum upplýsingar um fyrirhugaða hlutafjárvæðingu hafi í engu verið greint frá samningi fimmmenningana og BÍ. Hafi því legið fyrir að upplýsingagjöf til stofnfjáreigenda hafi verið verulega ábótavant og að þeir gætu ekki tekið upplýsta ákvörðun á fyrirhuguðum stofnfjáreigendafundi. Til að vernda brýna hagsmuni og svo að stofnfjáreigendum væri unnt að gæta lögmætra hagsmuna sinna á fundinum hafi verið nauðsynlegt að senda þeim öllum fyllri upplýsingar um málið. Í þessu sambandi er sérstaklega bent á 8. gr. samþykkta SPRON, en þar segir meðal annars: "Færð skal skrá yfir stofnfjáreigendur sparisjóðsins. Í skránni skal tilgreina nafn stofnfjáreiganda, heimilisfang og kennitölu, ásamt stofnfjáreign hans. Skrána skal ætíð geyma í skrifstofu sparisjóðsins og eiga allir stofnfjáreigendur aðgang að henni."
Þessu næst segir að eina leiðin fyrir fimmmenningana til að nálgast aðra stofnfjáreigendur til þess að kynna þeim málið hafi verið að fá stofnfjáreigendaskrána afhenta hjá SPRON. Því hafi þeir óskað eftir að fá skrána í hendur, m.a. með vísan til þess að tilgangur ákvæðisins um rétt þeirra til aðgangs að skránni hljóti að vera sá að auðvelda stofnfjáreigendum að ná hver til annars vegna málefna sparisjóðsins, ekki síst til að undirbúa sig fyrir fundi stofnfjáreigenda. Í þessu sambandi er bent á 19. gr. samþykkta SPRON þar sem segir: "Sparisjóðsstjórn er skylt að boða til fundar stofnfjáreigenda, ef þeir sem fara með minnst 1/3 hluta stofnfjár krefjast þess skriflega og greina fundarefni." Í fyrstu hafi stjórn SPRON meinað fimmmenningunum að sjá skrána en loks hafi syni eins þeirra, B – sem eins og fyrr hefur komið fram er einn af stofnfjáreigendum SPRON – verið heimilað að sjá skrána á tölvuskjá, en í ólögmætu formi þar sem skráin hafi einungis innihaldið nöfn og heimillisföng stofnfjáreigenda.
Einnig segir að stjórn SPRON hafi einhliða ákveðið að afboða fyrirhugaðan stofnfjáreigendafund án þess að til staðar væru nokkur þau atriði sem hömluðu því að unnt væri að fjalla um þau mál sem voru á dagskrá fundarins. Vegna þessarar ólögmætu valdbeitingar SPRON hafi verið ljóst að fimmmenningarnir þyrftu að ná saman tilskildum fjölda stofnfjáreigenda svo að unnt væri að krefjast fundar sem tæki afstöðu til fyrirliggjandi dagskrártillagna, sbr. áðurnefnda 19. gr. samþykkta SPRON.
Bent er á að fimmmenningarnir hafi áfram krafist þess að stjórn SPRON afhenti þeim stofnfjáreigendaskrána í lögmætu formi. Þessu hafi stjórnin alfarið hafnað, síðast með bréfi, dags. 4. júlí sl., þar sem segi meðal annars: "Það stendur ekki til að verðlauna þennan umbjóðanda yðar fyrir þau trúnaðarbrot, sem hann hefur þegar framið, með því að koma honum í aðstöðu til að fremja ný trúnaðarbrot gagnvart sparisjóðnum og stofnfjáreigendum í honum. Meginreglan um aðgang að skránni hlýtur að víkja þegar tilgangurinn er óheiðarlegur." Af framangreindum orðum stjórnar SPRON verði ekki annað ráðið en að stjórnin misbeiti gróflega því valdi sem henni sé falið og að hún brjóti jafnframt gegn skýrum ákvæðum laga um aðgang stofnfjáreigenda að skránni.
Þá er bent á að listi yfir alla stofnfjáreigendur SPRON hafi verið birtur í ársskýrslu sparisjóðsins allt til 1. mars 1995, en þá var birt ársskýrsla vegna ársins 1994. Fram hafi komið í skýrslunni nöfn og heimilisföng allra stofnfjáreigenda SPRON hverju sinni. Þessi venja sé eðlileg og í samræmi við skýr ákvæði laga þar um. Horfið hafi verið frá birtingu skrárinnar þegar núverandi sparisjóðsstjóri SPRON hóf störf í sparisjóðnum.
Tekið er fram að öll vinnsla með listann, sem B las inn á segulband, hafi verið í nafni fimmmenninganna. Hún hafi þannig verið á þeirra vegum og öll bréf, sem send hafi verið til stofnfjáreigenda, hafi verið í þeirra nafni. Þá hafi jafnframt verið lagt fyrir það starfsfólk bankans, sem aðstoði þá við vinnsluna, að taka það fram í símtölum til stofnfjáreigenda að símtalið fari fram fyrir hönd fimmmenningana en ekki bankans. Telja verði, með vísan til 4. og 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, að fimmmenningunum sé vinnslan heimil, með aðstoð BÍ, til að vernda brýna hagsmuni sína og svo að þeim, og öðrum stofnfjáreigendum, sé unnt að gæta lögmætra hagsmuna sinna sem ella verði fyrir borð bornir.
Í bréfi K, dags. 20. ágúst sl., eru röksemdir fimmmenninganna í málinu raktar. Segir þar að samkvæmt 8. gr. samþykkta SPRON skuli fimmmenningarnir, sem allir séu stofnfjáreigendur í sparisjóðnum, hafa aðgang að skrá yfir stofnfjáreigendur í sjóðnum. Um það er einnig vísað til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Bent er á að það sé eindregin afstaða fimmmenninganna að þeir eigi kröfu um afhendingu á ljósriti stofnfjáreigendaskrár SPRON til að þeim sé unnt að gæta hagsmuna sinna og réttinda sem stofnfjáreigenda. Raunar geti tilgangurinn með því að kveða á um aðgang stofnfjáreigenda að skránni ekki verið annar en sá að þeir eigi þess raunhæfan kost að ná hver til annars vegna málefna sparisjóðsins. Samkvæmt 19. gr. samþykkta SPRON þurfi til dæmis minnst sá fjöldi stofnfjáreigenda, sem fer með einn þriðja hluta stofnfjár, að krefjast fundar stofnfjáreigenda svo að skylt sé að halda slíkan fund. Sé það vandséð hvernig unnt eigi að vera að koma fram slíkri kröfu sé eigendum stofnfjár ekki heimilt að vinna með skrána utan húsakynna sparisjóðsins.
Þessu næst segir að stjórn SPRON hafi sjálf ekki hikað við að nýta skrána til að ná til stofnfjáreigenda vegna þeirra deilna sem uppi hafa verið. Hafi meðal annars verið hringt í þá og þeim verið send bréfleg erindi. Það væri hrein mismunun milli stofnfjáreigenda ef aðrir hefðu ekki sama möguleika á nýtingu skrárinnar eins og aðstæður hafi verið að undanförnu.
Tekið er fram að allt starf við að ná sambandi við stofnfjáreigendur með bréfasendingum og símtölum hafi farið fram á vegum fimmmenninganna og í umboði þeirra. Listinn, sem B las inn á segulband, hafi ekki verið hafður til annarra nota.
Forsendur
1.
Í máli þessu er deilt um lögmæti vinnslu upplýsinga sem fengnar voru úr stofnfjáreigendaskrá SPRON. Er deilt um hvort B, stofnfjáreiganda í SPRON, hafi verið heimilt að lesa upplýsingar úr stofnfjáreigendaskrá sparisjóðsins inn á segulband. Einnig er deilt um hvort B og fimmmenningunum, sem einnig eru stofnfjáreigendur, hafi síðan verið heimilt að afhenda BÍ upplýsingarnar og fá aðstoð bankans við vinnslu þeirra.
Við úrlausn þess hvort B hafi verið heimilt að lesa upplýsingar úr stofnfjáreigendaskrá SPRON inn á segulband verður að líta til þess að í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði er kveðið á um að færð skuli skrá yfir stofnfjáreigendur og að þeir allir skuli eiga aðgang að henni. Ljóst er því að skylt var að veita B aðgang að stofnfjáreigendaskránni sem stofnfjáreiganda. Í þessu lagaákvæði er á hinn bóginn ekki tekin nein afstaða til þess hvernig vinna megi með þær upplýsingar sem fram koma í skránni. Heimild til þess að lesa persónuupplýsingar úr skránni inn á segulband og vinna að öðru leyti með upplýsingarnar verður því að byggjast á annarri lagaheimild.
Í máli þessu er óumdeilt að stofnfjáreigendaskrá er haldin á tölvutæku formi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með síðari breytingum, gilda lögin um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga. Til að vinnsla teljist rafræn er nóg að einhver þáttur vinnslunnar sé rafrænn. Hugtakið "vinnsla" er í lögunum skilgreint svo: "Sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn", sbr. 2. tölul. 1. gr. laganna. Óumdeilt er einnig að í stofnfjáreigendaskrá SPRON koma fram nöfn þeirra einstaklinga sem eiga stofnfé í sparisjóðnum. Þessar upplýsingar teljast persónuupplýsingar í skilningi 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, en þar segir að persónuupplýsingar séu sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Samkvæmt framansögðu virðist ljóst að vinnsla með persónuupplýsingar, sem fram koma í stofnfjáreigendaskrá, fellur undir lög nr. 77/2000, enda tilgreini önnur lög ekki annað sérstaklega, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 77/2000.
Við mat á því hvort B hafi verið heimilt að lesa upplýsingar um stofnfjáreigendur úr stofnfjáreigendaskrá SPRON inn á segulband verður annars vegar að kanna hvort þessi vinnsla hafi verið í samræmi við ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000, er hefur að geyma meginreglur um gæði gagna og vinnslu, og hins vegar hvort hún hafi átt sér stoð í einhverju ákvæði 8. gr. laganna, er hefur að geyma almennar reglur um heimildir til vinnslu persónuupplýsinga. Í lögum nr. 77/2000 er byggt á því að vinnsla persónuupplýsinga verði að byggjast á lagaheimild, annað hvort ákvæðum 8. gr., og eftir atvikum 9. gr., eða ákvæðum annarra laga, enda sé ekki um að ræða meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagsmuni hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000.
Í 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 er kveðið á um að persónuupplýsinga skuli aflað í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og að þær skuli ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. Af hálfu B er því borið við að tilgangur hans með því að lesa umræddar upplýsingar úr stofnfjáreigendaskrá SPRON inn á segulband hafi annars vegar verið að afla stuðnings við sjónarmið sín og fimmmenninganna í málefnum sparisjóðsins, m.a. um hvernig fjárhagslegir hagsmunir af kaupum og sölu á stofnfjárhlutum yrðu best tryggðir, og hins vegar að afla stuðnings við þá kröfu að haldinn yrði fundur stofnfjáreigenda. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði skal halda aukafund ef stofnfjáreigendur, sem fara með minnst einn þriðja hluta stofnfjár, krefjast þess skriflega og greina fundarefni. Ekki þarf að velkjast í vafa um að í stórum sparisjóði getur það reynst afar erfitt fyrir þá stofnfjáreigendur, sem halda vilja slíkan fund, að afla stuðnings hjá einum þriðja hluta stofnfjáreigenda hafi þeir engin úrræði til að taka með sér upplýsingar úr stofnfjáreigendaskránni. Þegar framangreint er virt verður að telja að tilgangur B með því að lesa umræddar upplýsingar inn á segulband hafi verið málefnalegur í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.
Kemur þá næst til athugunar hvort framangreind vinnsla hafi átt sér stoð í einhverju ákvæði 8. gr. laganna, en sú grein hefur að geyma almennar reglur um heimildir til vinnslu persónuupplýsinga. Af hálfu B hefur meðal annars verið vísað til þess að umrædd vinnsla persónuupplýsinga hafi verið heimil þar sem hún hafi byggst á 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þar er tekið fram að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé vinnslan nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, kemur fram að ákvæðið eigi ekki við nema ábyrgðaraðili hafi viðhaft ákveðið mat, þ.e. mat á því hvort hagsmunir hins skráða af því að vinnslan fari ekki fram vegi þyngra en þeir hagsmunir sem mæla með vinnslunni. Tekið er fram að ekki sé nauðsynlegt að um sé að ræða hagsmuni ábyrgðaraðila eða þess þriðja manns sem tekur við upplýsingunum og því geti ákvæðið átt við þótt um hagsmuni annarra sé að ræða. Ávallt sé þó skilyrði að hagsmunir séu lögvarðir (Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 2725). Telja verður að B og fimmmenningarnir eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af því að geta náð sambandi við aðra stofnfjáreigendur til þess að freista þess að boða til fundar í samræmi við 3. mgr. 32. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði og til þess að gera öðrum grein fyrir viðhorfum sínum um kaup og kjör á stofnfjárhlutum. Verður því að telja að það skilyrði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, að vinnslan hafi verið nauðsynleg svo að B og fimmenningarnir gætu gætt lögmætra hagsmuna sinna, hafi verið uppfyllt. Einvörðungu var um að ræða upplýsingar um nöfn og heimilisföng manna sem eru félagar í sama sparisjóði. Þegar litið er til eðlis þessara upplýsinga, tengslanna sem eru á milli hinna skráðu, sem félagsmanna í sama félagi, og síðast en ekki síst þess tilgangs sem unnið var með upplýsingarnar í, verður að telja að grundvallarréttindi og frelsi annarra stofnfjáreigenda hafi ekki vegið þyngra en hagsmunir B og fimmmenninganna. Verður því að telja að B hafi verið heimilt að fá upplýsingar úr stofnfjáreigendaskrá og að vinna með þær í þeim tilgangi sem hér að framan greinir.
Tekið skal fram að í þessum úrskurði er engin afstaða tekin til þess hvort B og fimmmenningunum sé heimilt að vinna með upplýsingarnar í öðrum tilgangi en hér að framan hefur verið fjallað um. Í þessum úrskurði Persónuverndar hefur heldur engin afstaða verið tekin til þess máls sem úrskurðað var í af Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 24. júlí sl.
Í málinu er einnig deilt um hvort B og fimmmenningunum hafi verið heimilt að afhenda BÍ þær upplýsingar, sem B aflaði úr stofnfjáreigendaskrá SPRON, og fá aðstoð bankans við vinnslu þeirra.
Af hálfu B er bent á að samkomulag sé um að BÍ noti ekki listann, sem hann las inn á segulband, í neinum öðrum tilgangi en að aðstoða fimmmenningana og B við að finna símanúmer stofnfjáreigenda og ná í þá. Listinn sé ekki vistaður í tölvukerfi bankans heldur að Túngötu 6, en því húsi hafa fimmmenningarnir og B yfir að ráða.
Það efni sem BÍ hefur dreift til stofnfjárfesta um málið hefur verið í nafni fimmmenninganna. Þegar litið er til þeirra yfirlýsinga, sem fram hafa komið af hálfu aðila, verður að telja að B og fimmmenningarnir séu ábyrgðaraðilar þeirrar vinnslu, er hófst með lestri nafna og heimilisfanga stofnfjárfesta í stofnfjáreigendaskrá SPRON inn á segulband, og síðan fólst í notkun þeirra upplýsinga í því markmiði að hafa samband við aðra stofnfjáreigendur til þess að freista þess að boða til fundar í samræmi við 3. mgr. 32. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði og til þess að gera þeim grein fyrir viðhorfum sínum um kaup og kjör á stofnfjárhlutum, enda er óumdeilt að B og fimmmenningarnir hafi ákveðið tilgang vinnslu upplýsinganna og hvaða aðferð skyldi viðhöfð við vinnsluna, sbr. 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 77/2000, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2001, er ábyrgðaraðila heimilt að semja við tiltekinn aðila um að annast í heild eða að hluta þá vinnslu persónuupplýsinga sem hann ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum laganna. Slíkur aðili nefnist vinnsluaðili, sbr. 5. tölul. 2. gr. sömu laga. Eins og áður segir er því haldið fram af hálfu B að samkomulag sé á milli hans og fimmmenninganna annars vegar og BÍ hins vegar um að bankinn taki að sér að finna símanúmer stofnfjáreigenda og ná í þá og sé bankanum óheimilt að vinna á annan hátt með upplýsingarnar.
Að framansögðu athuguðu verður að telja að B og fimmmenningunum hafi verið heimilt að fá BÍ til þess að annast þá vinnslu persónuupplýsinga, sem hér að framan hefur verið fjallað um, á grundvelli 1. mgr. 13. gr. laga nr. 77/2000, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2001, að fullnægðum öðrum ákvæðum laganna. Af því tilefni var B og fimmmenningunum heimilt að afhenda BÍ upplýsingar um stofnfjárfesta svo að vinna mætti með upplýsingarnar í þeim tilgangi sem hér að framan hefur verið tilgreindur. Hafði BÍ þá réttarstöðu sem vinnsluaðili.
Af ofangreindu er ljóst að B var heimilt að lesa upplýsingar úr stofnfjáreigendaskrá SPRON inn á segulband. Þá er einnig ljóst að B og fimmmenningunum var heimilt að fá aðstoð BÍ við vinnslu upplýsinganna og að afhenda þær bankanum. Vinnsla BÍ með upplýsingar úr stofnfjáreigendaskrá SPRON er því lögmæt að því tilskildu að farið hafi verið að öllum ákvæðum laga nr. 77/2000 og öðrum réttarreglum, skráðum sem óskráðum, er um meðferð og vinnslu upplýsinganna gilda. Er því ekki fallist á kröfu SPRON um að vinnsla BÍ á upplýsingunum verði þegar í stað stöðvuð. Er ekki heldur fallist á þá kröfu SPRON að BÍ eyði öllum skrám og gögnum um stofnfjáreigendur sparisjóðsins sem hann hefur komist yfir.
B var heimilt sem stofnfjáreiganda að lesa inn á segulband nöfn og heimilisföng stofnfjáreigenda í stofnfjáreigendaskrá SPRON með það að markmiði að hafa samband við aðra stofnfjáreigendur til þess að freista þess að boða til fundar í samræmi við 3. mgr. 32. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði og til þess að gera öðrum grein fyrir viðhorfum hans og fimm annarra stofnfjáreigenda um kaup og kjör á stofnfjárhlutum.
Framangreindum mönnum var heimilt, sem ábyrgðaraðilum þessarar vinnslu, að fá Búnaðarbanka Íslands sem vinnsluaðila til að aðstoða þá við þessa framkvæmd.
Eins og mál þetta hefur verið lagt fyrir gefur það ekki tilefni til sérstakra viðbragða af hálfu Persónuverndar.