Miðlun frá vistheimilanefnd til tengiliðar vistheimila
Á fundi sínum þann 9. nóvember sl. tók Persónuvernd afstöðu til spurningar vistheimilanefndar um hvort henni bæri að verða við beiðni tengiliðs vistheimila um aðgang að gögnum nefndarinnar. Var niðurstaða hennar sú að vistheimilanefnd hefði ekki lagaheimild til að veita tengiliðnum umræddar upplýsingar án samþykkis hlutaðeigandi einstaklinga.
Persónuvernd vísar til erindis nefndar um vist- og meðferðarheimili, dags. 20. október 2010, varðandi miðlun upplýsinga til tengiliðar vegna vistmanna samkvæmt 10. gr. laga nr. 47/2010, en það ákvæði hljóðar svo:
„Ráðherra skipar sérstakan tengilið sem koma skal með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum. Hann skal m.a. leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Þá skal hann aðstoða fyrrverandi vistmenn sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun. Eftir 1. janúar 2013 getur ráðherra lagt niður starf tengiliðs að fenginni tillögu úrskurðarnefndar.“
Í erindi yðar segir m.a.:
„Með vísan til 6. tl. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 er þess óskað að Persónuvernd láti í ljós álit á því hvort vistheimilanefnd sé heimilt á grundvelli ákvæði 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 og/eða ákvæðis 10. gr. laga nr. 47/2010 að verða við beiðni tengiliðs vistheimila um aðgang að þeim gögnum sem vistheimilanefnd hefur í vörslu sinni.“
Vinnsla persónuupplýsinga er heimil ef uppfyllt eru skilyrði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau skilyrði sem uppfylla þarf ráðast af eðli viðkomandi upplýsinga, þ.e. hvort þær teljist vera viðkvæmar í skilningi 8. tölul. 2. gr. laganna. Við mat á þessu hefur Persónuvernd litið til þeirrar lýsingar á upplýsingunum sem er í bréfi yðar. Þar segir m.a.:
„[...] hefur vistheimilanefnd m.a. útbúið nafnalista yfir vistmenn þar sem fram koma upplýsingar um nafn, kennitölu, dvalardaga á viðkomandi stofnun og í mörgum tilvikum er skráð stutt athugasemd um hver tildrög vistunar hafi verið. Þá hefur vistheimilanefnd einnig útbúið málsmöppu fyrir hvern fyrrverandi vistmann og nú hefur nefndin í vörslu sinni málsmöppur um eitt þúsund einstaklinga. Innihalda málsmöppurnar m.a. afrit úr fundargerðabókum barnaverndarnefnda, afrit af heimiliseftirlitsskýrslum starfsmanna barnaverndarnefnda, afrit af margvíslegum gögnum er innihalda m.a. upplýsingar um heilsufar viðkomandi einstaklinga, foreldra, systkini og annað er lýtur að félagslegum og fjárhagslegum högum viðkomandi fjölskyldu.“
Af framangreindu má ráða að erindið lýtur að viðkvæmum persónuupplýsingum í skilningi 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2000. Af því leiðir að miðlun þeirra er óheimil nema uppfylltur sé einhver af töluliðum 1. mgr. 9. gr. laganna. Í 2. tölulið hennar kemur fram að miðlun er heimil þegar til hennar stendur lagaheimild. Í ljósi þess hve hér er um viðkvæmar upplýsingar að ræða er rétt að taka fram að slík lagaheimild þarf að vera skýr í þeim skilningi að ljóst sé að löggjafinn hafi litið til þeirra almennu persónuverndarsjónarmiða sem á reynir við meðferð þeirra viðkvæmu persónuupplýsinga sem um ræðir en engu að síður ákveðið að hún skuli fara fram. Það ræðst af túlkun viðkomandi lagaákvæðis hvort það veitir nægilega skýra heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Því meiri íhlutun í einkalíf einstaklingsins sem umrædd vinnsla hefur í för með sér þeim ótvíræðari þarf lagaheimildin að vera.
Hér hefur verið vísað til lagaákvæða 10. gr. laga nr. 47/2010. Þar er hlutverki tengiliðs vegna vistmanna lýst. Segir að hann skuli með virkum hætti koma á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum og að hann skuli m.a. leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Í framangreindu ákvæði er ekki vikið að öflun upplýsinga frá nefnd um vist- og meðferðarheimili og verður ekki séð að það hafi að geyma heimild til þess að sú nefnd miðli hinum umræddu viðkvæmu persónuuplýsingum til tengiliðsins. Bent er á að hins vegar segir í 2. mgr. 5. gr. laganna að sýslumaður geti óskað eftir gögnum í vörslu nefndarinnar enda hafi viðkomandi einstaklingur veitt skriflegt samþykki sitt. Einnig er í 3. mgr. 8. gr. sömu laga vikið að aðgangi úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur að skjallegum gögnum nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007.
Með vísan til framangreinds er það álit Persónuverndar að ákvæði 10. gr. laga nr. 47/2010 hafi ekki að geyma lagaheimild til vinnslu, í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ.e. heimild til þess að nefnd um vist- og meðferðarheimili miðli - án samþykkis hinna skráðu - hinum viðkvæmu persónuupplýsingum til tengiliðar vegna vistheimila.