Úrlausnir

Kvörtun yfir þingmanni frávísað

20.1.2011

 

Ákvörðun

Hinn 18. janúar 2011 fjallaði stjórn Persónuverndar um mál nr. 2011/18 og ákvað að veita eftirfarandi svar:

 

 

1.

Persónuvernd barst kvörtun yðar þann 8. þ.m. yfir því að Þ, þingmaður, hafi sent afrit af bréfi sínu til yðar til S, lögreglustjóra. Í kvörtuninni segir m.a.:

„Einkapóstur, sendur á [Þ], var áframsendur vinnuveitanda mínum án sjáanlegs tilefnis eða leyfis af minni hálfu. Starfa ég sem lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu og fékk [S] lögreglustjóri afrit af tölvupóstsamskiptunum. Miðað við það svar sem ég hef fengið virðist ástæðan vera sú að honum líki ekki aðfinnslur mínar og tilgangurinn því líklegast sá að þagga niður í mér eða hefna sín á einhvern hátt. Tölvupósturinn var sendur utan vinnutíma úr einkapósthólfi en fram kom í tölvupóstinum hver vinnuveitandi minn væri“

Kvörtuninni fylgdu afrit bréfaskipta yðar og Þ, þingmanns. Af þeim má ráða að þér senduð honum upphaflega bréf þann 11. nóvember 2010. Þar lýstuð þér reynslu yðar af því að starfa sem lögreglumaður. Þar segir m.a.:

„Raunar hef ég verið í brennipunktinum síðan ósköpin dundu yfir en ég hef farið inn á brotin heimili til að aðstoða uppgefna heimilisfeður, einstæðar mæður og grátandi börnin sem ekki skilja ástandið í kringum sig. Hef ég hlustað á lífssögur þeirra, ásakanir og tekið við ofbeldi frá þeim, jafnt andlegu sem líkamlegu. Á sama tíma hef ég staðið vörð um merka byggingu, vinnustað ykkar, og reynt að passa upp á hana og það starfsfólk sem þar inni hefur verið. Skipti þar engu skoðun mín á stjórnmálum eða fjárhagsleg staða mín og voru slíkar hugsanir víðsfjarri er glerflöskur brotnuðu á hjálminum mínum. Hugsaði ég jafnvel um að vinna launalaust þegar maður var sendur heim til hvíldar eftir rúmlega sólarhringsvöku á meðan óp vinnufélaga og vina ómuðu í talstöðinni .

Reyndi ég að taka því með jafnaðargeði er hópur fólks réðst á vinnustað minn sem jafnframt er mér eins og annað heimili. Skemmdarverk voru framin og enn stóð ég úti í hlífðargallanum og tók því að yfir mig rigndi alls kyns ógeði, jafnt rusli sem orðum. Brást ég eins skjótt við en neyðarkall barst frá Alþingi einn daginn, er svipaður hópur hafði ráðist þar inn. Enginn var hlífðargallinn í það skiptið. Lítið sem ekkert hefur verið fjallað um það sem raunverulega átti sér stað í stigagangi Alþingis þennan dag og sökum þagnarskyldu er lítið hægt að segja, en heim fór ég blár, svartur, bitinn og blóðugurl Litlu hefði skipt þó Alþingi hefði skipt sér af því máli, því þarna var ráðist á lögreglumenn. Einnig var þarna ráðist inn í stofnun og mikilvæg störf þar trufluð.

Ríkissaksóknari tók við málinu, sem handhafi framkvæmdavalds og eftir rannsókn á málinu voru teknar til lagagreinar sem gætu komið til greina við sakfellingu. Samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála er það svo dómara að skera úr um hvort um brot á þeim lagagreinum sé að ræða eður ei. Er þar dómsvaldið að verki og er það þriðja valdið í þrískiptingu ríkisvaldsins eins og kveðið er á um í 2. gr. stjórnarskrár Íslands.

Nú hefur þú, kæri þingmaður, ákveðið að lýsa því yfir að ákveðin lagagrein eigi ekki við í tengslum við brot níumenningana. Þó tekið sé fram í fréttamiðlun að þú ekki sért að gagnrýna að ofbeldi og skemmdarverk séu kærð ert þú samt sem áður að lýsa yfir ákveðnum stuðningi við fólk sem beitti ofbeldi og skemmdi eigur. Hefur þú gengið svo langt að leggja fram tillögu til þingsályktunar þar um. Verð ég að benda þér á að sem handhafi löggjafarvalds er ekki ætlast til að þú skiptir þér af störfum dómsvalds, hvað þá að þú takir þér þau störf í hendur eins og þú hefur gert hér. Brýnni mál eru til umfjöllunar á Alþingi og mikilvægt að nýta tímann til starfa sem löggjafarvald og treysta öðrum völdum fyrir sínum störfum.

Bið ég þig að sinna störfum þínum af sannfæringu og samvisku eins og ég hef gert en jafnframt hafa í huga uppbyggingu lýðveldisins og ákvæði stjórnarskrár áður en þú tekur ákvarðanir. Annað er ekki aðeins vanvirðing við borgara landsins og okkur lögreglumenn heldur einnig við lýðveldið og þau gildi sem það byggist á.

Að lokum við ég biðja þig um að sleppa því að svara með því að segjast skilja erfið störf lögreglumanna og þá aðstöðu sem þeir glíma við. Það er öllum lögreglumönnum ljóst að þú veist ekki hvað við þurfum að ganga í gegnum og því móðgandi að segja slíkt, eins og vinsælt er orðið hjá ýmsum stjórnmálamönnum.“

Þingmaðurinn svaraði yður samdægurs. Í bréfi þingmannsins sagði m.a.:

„Takk fyrir bréfið. Ég skal reyna að taka til greina tilmæli þín um að hlífa þér við að lýsa því yfir við þig að ég skilji eitthvað sem öllum lögreglumönnum sé ljóst að ég skilji ekki - sem sé reynsluheim lögreglumanna. Hins vegar langar mig til að deila því með þér að rétt eins og þú hef ég ekki farið á mis við afleiðingar hinnar svokölluðu kreppu og ekki fengið neinar leiðréttingar á forsendubresti lána eða öðru.

Varðandi níumenningana hef ég sem alþingismaður ekki haft nein áhrif á störf dómstóla né heldur í öðrum málum. Sem alþingismaður hlýt ég að bera hluta ábyrgðar á þeirri kæru sem Alþingi lagði fram á hendur þeim (NB. kæru, ekki ákæru). Ég er ekki sammála þeirri kæru og um þá skoðun á við skynsemi mína, réttlætiskennd og samvisku, hvað svo sem þér líður eða óskiljanlegum reynsluheimi þínum.

Ég ber virðingu fyrir því starfi sem þú gegnir. Vona að þú berir virðingu fyrir störfum annarra.“

Þingmaðurinn sendi afrit af bréfinu til yfirmanns yðar, S, lögreglustjóra, og yfir því hafið þér kvartað.

2.

Erindi yðar lýtur að bréfaskrifum þar sem bréfritarar, í skjóli skoðana- og tjáningarfrelsis, sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar, hafa lýst skoðunum sínum í orði og verki. Við mat á því hvort sending umrædds bréfs teljist, eins og hér stendur á, falla undir gildissvið laga nr. 77/2000 - og þar með valdsvið Persónuverndar - ber að líta til þess hvernig efnislegt gildissvið laganna er afmarkað í 3. gr. laganna. Hún hljóðar svo:

3. gr. Efnislegt gildissvið.

Lögin gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga. Lögin gilda einnig um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.
Ákvæði 16., 18.–21., 24., 26., 31. og 32. gr. laganna gilda ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem varða almannaöryggi, landvarnir, öryggi ríkisins og starfsemi ríkisins á sviði refsivörslu. Lögin gilda ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota.

Við túlkun og skýringu á framangreindu ákvæði ber, eins og við skýringu á öðrum ákvæðum laganna, að taka mið af markmiði þeirra eins og það er afmarkað í 1. gr. þeirra. Þar segir að markmið þeirra sé að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga. Lögin hafa að þessu leyti sama markmið og eldri lög nr. 121/1989, þótt í þeim hafi ekki verið að finna sambærilegt markmiðsákvæði. Þess í stað var í framkvæmd jafnan vitnað til athugasemda með frumvarpi til þeirra laga þar sem sagði að meginmarkmið þeirra væri að tryggja mönnum vernd gegn hættu á misnotkun upplýsinga um einkamálefni þeirra sem varðveittar væru eða skráðar með kerfisbundnum hætti. Með því var átt við söfnun og skráningu ákveðinna og afmarkaðra upplýsinga í skipulagsbundna heild, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra laga.

Þrátt fyrir að í málinu sé að finna persónuupplýsingar lýtur kjarni úrlausnarefnis þess að því hvort Þ, þingmaður, hafi með tjáningu sinni í orði og verki, þegar hann miðlaði bréfi yðar til lögreglustjóra, farið út fyrir ramma 73. gr. stjórnarskrárinnar. Hlutverk Persónuverndar er að hafa eftirlit með framkvæmd laga nr. 77/2000 en þau eru hins vegar byggð á því meginviðhorfi, sbr. ákvæði 5. gr., að það sé hlutverk dómstóla en ekki Persónuverndar að skera úr slíkum vafatilvikum.

Verður málinu því vísað frá.



Var efnið hjálplegt? Nei