Creditinfo synjað um leyfi
Persónuvernd hefur synjað beiðni Creditinfo Lánstrausti hf. um leyfi til vinnslu persónuupplýsinga um einstaklinga í greiðsluaðlögun. Litið var til þeirra forsendna sem bjuggu að baki lagasetningu um þetta úrræði og þess hve skrásetning umræddra upplýsinga gæti orðið íþyngjandi fyrir hina skráðu.
Ákvörðun
Hinn 18. janúar 2011 tók stjórn Persónuverndar svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2009/680:
I.
Bréfaskipti
1.
Persónuvernd hefur átt bréfaskipti við Creditinfo Lánstrausts hf. vegna óskar þess um að skrá og selja upplýsingar um einstaklinga sem fengið hafa greiðsluaðlögun. Með bréfi félagsins, dags. 22. nóvember 2010, voru lagðar til breytingar á gildandi starfsleyfi. Mál þetta varðar því ósk um breytingu á því starfsleyfi sem Persónuvernd hefur veitt Creditinfo Lánstrausti hf. til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, sbr. nú starfsleyfi, dags. 3. ágúst 2010 (mál nr. 2010/566). Nánar tiltekið er farið fram á að í starfsleyfið verði færð ákvæði um heimild til skráningar upplýsinga um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga og X. kafla a í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 24/2009 og áðurnefnd lög nr. 101/2010.
Persónuvernd hefur ítrekað óskað umsagnar félags- og tryggingamálaráðherra og síðar dómsmála- og mannréttindaráðherra og innanríkisráðherra um hvort það samrýmist markmiðum lagaákvæða um greiðsluaðlögun einstaklinga að upplýsingar um þessa einstaklinga verði unnar hjá Creditinfo Lánstrausti hf. Engin svör hafa borist.
2.
Í bréfi Creditinfo Lánstrausts hf. segir:
„Creditinfo Lánstraust hf. rekur ýmsar skrár, þ.m.t. vanskilaskrá sem hefur að geyma upplýsingar um vanskil hins skráða líkt og nafnið gefur til kynna. Félagið heldur einnig utanum ýmsar aðrar upplýsingar, t.d. kaupmála og fjárræðissviptingar, sem eru ekki á vanskilaskránni enda annars eðlis. Telur félagið rétt að gera greinarmun á slíkum upplýsingum (þ.m.t. greiðsluaðlögun og nauðasamningi til greiðsluaðlögunar) og vanskilaupplýsingum.
Félagið hefur óskað eftir því að fá að halda utanum upplýsingar um nauðasamninga. Ákveðins misskilnings virðist gæta varðandi þetta, sbr. m.a. bréf Persónuverndar til Dómsmálaráðuneytisins. Þar vísar Persónuvernd til 3. mgr. 32. gr. dönsku persónuverndarlaganna nr. 429/2000, en sú grein er í kaflanum um s.k. credit bureau. Virðist Persónuvernd ganga út frá því að upplýsingar um nauðasamninga verði virtar eins og upplýsingar um vanskil. Nauðsynlegt er að ítreka það sem fram kom á fundi fulltrúa Creditinfo Lánstrausts hf. með fulltrúum stofnunarinnar þann 3. nóvember s.l., um að ekki sé fyrirhugað að birta upplýsingar um nauðasamninga í vanskilaskrá, heldur halda sérstaklega utanum nauðasamninga sem ákveðnar opinberlega birtar staðreyndir. Yrði það gert með sambærilegum hætti og nú er haldið utan um kaupmála og sviptingar á lögræði, en þessar upplýsingar eru ekki hluti vanskilaskrár.
Félagið óskar jafnframt eftir því að fá að halda utanum innkallanir vegna greiðsluaðlögunar sem birtar eru í Lögbirtingi og að um slíkar innkallanir gildi sömu reglur og um innköllun vegna nauðasamninga til greiðsluaðlögunar.
Brýn nauðsyn er til að haldið sé miðlægt og með ábyrgum hætti utanum innkallanir vegna greiðsluaðlögunar og innkallanir vegna nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Ástæðan er sú að þörfin fyrir þessar upplýsingar verður ella leyst með öðrum hætti og hefur það verið svo í auknum mæli undanfarna mánuði. Á það bæði við um miðlun á slíkum upplýsingum og söfnun til eigin nota. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að miklir hagsmunir kunna að vera tengdir því að hægt sé að leita upplýsinga um nauðasamninga og innkallanir til greiðsluaðlögunar. Jafnvel getur það verið skylda að kanna slíkar upplýsingar við greiðslumat.
Misskilningurinn stafar hugsanlega af því að ekki er greint skýrlega á milli upplýsinga úr opinberum skrám sem birtar eru sem vísbending um vanskil, sbr. 2. gr. b.1.-7., starfsleyfis Creditinfo Lánstrausts hf. og þeirra opinberu upplýsinga sem birtar eru sérstaklega og sem ákveðnar staðreyndir, frekar en upplýsingar um vanskil, sbr. 2. gr. b.8, sbr. einnig 1. mgr. 5. gr. i.f. Lagt er til við Persónuvernd að gerður verði skýrari greinarmunur á þessu í starfsleyfi félagsins, um leið og ákvæðum varðandi innkallanir vegna greiðsluaðlögunar verði bætt við. Starfsleyfið mæli þá fyrir um heimild til að halda utanum sérstaka skrá með ákveðnum opinberum upplýsingum án þess að í því felist nein vísbending um gjaldfallna kröfu. Í slíkri skrá yrðu einnig upplýsingar um kaupmála og fjárræðissviptingar sem nú eru í 8. tl. b-liðar 2. gr. Lagt er til að fjallað verði um slíka skrá í nýrri grein, 4. gr.“
Í framhaldi af þessu eru raktar tillögur að breytingum á umræddu starfsleyfi. Eins og fram kemur í tilvitnun í bréf Creditinfo Lánstrausts hf. fela tillögurnar í sér að skilið verði á milli skráningar og miðlunar annars vegar opinberra vanskilaupplýsinga og hins vegar annarra, opinberra upplýsinga. Megintillagan lýtur að því að bætt verði nýrri 4. gr. við leyfið þar sem mælt verði fyrir um heimild til skráningar upplýsinga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Auk þess verði ákvæði um skráningu á upplýsingum um gerða kaupmála og fjárræðissviptingar, sem verið hefur í 8. tölul. b-liðar 2. gr. leyfisins, fært þaðan yfir í hina nýju 4. gr. Yfirskrift hinnar nýju greinar yrði „Opinberar upplýsingar“ og hún yrði svohljóðandi:
„Starfsleyfishafa er heimilt að safna og miðla eftirfarandi upplýsingum:
Upplýsingum um gerða kaupmála og fjárræðissviptingar sem birtar hafa verið í Lögbirtingablaðinu, skv. 2. mgr. 86. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 3. tl. 14. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Upplýsingum um innköllun vegna greiðsluaðlögunar og innköllunar vegna nauðasamninga til greiðsluaðlögunar skv. ákvæðum laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 og gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991.“
Einnig er lagt til að yfirskrift 2. gr. starfsleyfisins verði breytt, en hún hljóðar nú svo: „Söfnun og skráning upplýsinga um vanskil o.fl.“ Lýtur tillagan að því að skammstöfunin „o.fl.“ falli brott.
Að auki er lögð til smávægileg breyting á 4. mgr. 1. gr. svo að tilvísanir milli ákvæða í leyfinu verði réttar eftir að hinni nýju 4. gr. hafi verið bætt við. Þá er lagt til að ákvæði 1. mgr. 5. gr. starfsleyfisins verði breytt og það fært yfir í nýja 6. gr. Í ákvæðinu er nú að finna bann við miðlun upplýsinga um nafn skuldara ef starfsleyfishafa, þ.e. Credinfo Lánstrausti hf., er kunnugt um að viðkomandi skuld sé fallin brott, s.s. vegna greiðslu, niðurfellingar eða skuldajöfnunar. Þá er þar mælt fyrir um að eyða skuli upplýsingum um skráðan kaupmála ef fyrir liggi að gengið hafi verið frá lögskilnaði þeirra sem hann gerðu. Leggur Creditinfo Lánstraust hf. til að þetta ákvæði um eyðingu upplýsinga um kaupmála falli brott úr leyfinu. Einnig leggur félagið til að við ákvæðið verði bætt tilvísun þannig að ljóst verði að það gildi aðeins um upplýsingar samkvæmt 2. gr. starfsleyfisins en ekki samkvæmt hinni nýju 4. gr. sem að framan er lýst.
3.
Áður hafa átt sér stað bréfaskipti varðandi það hvort skrá megi upplýsingar um greiðsluaðlögun á skrá Creditinfo Lánstrausts hf. um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga. Hófust þau í kjölfar þess að við lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskiptalög var bætt nýjum kafla, þ.e. X. kafla a, með ákvæðum um umrætt úrræði, sbr. lög nr. 24/2009. Síðar var mælt nánar fyrir um úrræðið og breytingar á málsmeðferð með lögum nr. 101/2010.
Með tölvubréfi Creditinfo Lánstrausts, sem Persónuvernd barst hinn 16. desember 2009, óskaði félagið eftir því að fá að skrá upplýsingar um greiðsluaðlögun á grundvelli hins nýja X. kafla a í gjalþrotaskiptalögum.
Persónuvernd óskaði afstöðu félags- og tryggingamálaráðherra til þess hvort skráning fyrirtækisins á upplýsingum um einstaklingana samrýmdist markmiði lagaákvæða um greiðsluaðlögun, þ.e. með bréfi, dags. 7. janúar 2010. Erindið var ítrekað með bréfum, dags. 23. febrúar, 4. maí og 14. september s.á., en ekki barst svar. Með bréfi, dags. 9. nóvember s.á., var óskað umsagnar dómsmála- og mannréttindaráðherra um sama álitaefni. Var það erindi ítrekað með bréfi, dags. 29. s.m. Ekki barst svar. Einnig var beðið um svar með bréfi til innanríkisráðuneytisins, dags. 4. janúar 2011. Svar barst ekki.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.
2.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, settrar með stoð í 45. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, er slík söfnun og miðlun upplýsinga í því skyni að miðla þeim til annarra óheimil án starfsleyfis Persónuverndar. Þá segir í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að handhafa slíks leyfis, svonefndri fjárhagsupplýsingastofu, sé einungis heimilt að vinna með upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt hafa afgerandi þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða.
Í 8. gr. laga nr. 77/2000 er mælt fyrir um skilyrði þess að unnið sé með persónuupplýsingar. Það ákvæði 8. gr., sem helst getur átt við um vinnslu á vegum fjárhagsupplýsingastofa, er 7. tölul. 1. mgr. Þar segir að vinna megi með persónuupplýsingar sé vinnslan nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.
Einnig getur 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. átt við um heimild til vinnslu þegar hún er nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna. Í athugasemdum við það ákvæði kemur fram að vinnsla þarf að hafa þýðingu fyrir breiðan hóp manna, sem og að undir ákvæðið geti m.a. fallið vinnsla sem á sér stað í upplýsingakerfi réttarkerfisins sem ætlað er að veita almenningi upplýsingar um löggjöf, dómaframkvæmd o.s.frv. Það að vinnsla þjóni fjárhagslegum tilgangi útiloki það ekki að hún geti verið í þágu almannahagsmuna.
3.
Við mat á beitingu framangreindra heimilda varðandi greiðsluaðlögun einstaklinga er rétt að líta til þeirra forsendna sem bjuggu að baki lagasetningu um það úrræði. Fyrst voru ákvæði um greiðsluaðlögun einstaklinga færð inn í lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipi o.fl., þ.e. með lögum nr. 24/2009 sem bættu X. kafla a við lögin. Síðar voru sett heildarlög um úrræðið, þ.e. lög nr. 101/2010. Í greinargerðum með þeim frumvörpum, sem urðu að lögum nr. 24/2009 og 101/2010, kemur fram að með þeim er verið að bregðist við sérstökum aðstæðum. Í II. kafla almennra athugasemda í greinargerð með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 24/2009, segir að í kjölfar bankahrunsins og þeirrar miklu efnahagslegu lægðar, sem því hefur fylgt með tilheyrandi greiðsluvanda fyrir stóran hóp fólks, þyki nauðsynlegt að tryggja einstaklingum virkara úrræði – þ.e. í samanburði við nauðasamninga samkvæmt VI.–X. kafla laga nr. 21/1991 – til að gera þeim eftir fremsta megni kleift að endurskipuleggja fjármál sín. Í II. kafla almennra athugasemda með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 101/2010, er og vísað til þess að þar sem stærstur hluti fjárskuldbindinga sé verðtryggður eða gengistryggður hafi skuldir lántakenda aukist mjög við hrunið. Eftir þær hamfarir, sem dunið hafi á íslensku efnahagslífi, sé nauðsynlegt að aðlaga virði eigna og krafna að veruleikanum og eðlilegri greiðslugetu skuldara.
Skrásetning umræddra upplýsinga í skrá Creditinfo Lánstrausts hf. um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, sem haldin er í því skyni að miðla þeim til annarra, yrði að teljast íþyngjandi. Það að upplýsingarnar yrðu sérgreindar ásamt upplýsingum um gerða kaupmála og fjárræðissviptingar myndi ekki breyta hinu íþyngjandi eðli skráningarinnar. Af framangreindu verður ráðið að með lagasetningu um greiðsluaðlögun sé m.a. verið að bregðast við greiðsluvanda einstaklinga sem er til kominn vegna atvika sem þeir gátu ekki ráðið við.
Litið hefur verið til þess að umrætt úrræði til handa einstaklingum er reist á m.a. danskri fyrirmynd. Þetta kemur m.a. fram í niðurlagi II. kafla almennra athugasemda með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 101/2010. Ólíkt því sem er hér á landi er þar að finna ákvæði í settum lögum sem hafa að geyma efnislegar reglur um skráningu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra. Meðal þess sem mælt er fyrir um í þarlendum lögum í því sambandi er að óheimilt sé að miðla upplýsingum um greiðsluaðlögun einstaklinga (d. gældssanering) sem hefur endanlega verið staðfest, sbr. 3. mgr. 23. gr. dönsku persónuupplýsingalaganna nr. 429 frá 31. maí 2000 (d. lov om behandling af personoplysninger).
Í 71. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um grunnregluna um friðhelgi einkalífs. Þá segir í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 77/2000 að markmið laganna sé m.a. að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Þegar litið er til þessara ákvæða og alls framangreinds telur Persónuvernd áðurnefnd ákvæði 8. gr. laga nr. 77/2000 ekki geta rennt stoðum undir umrædda skráningu. Þá verður ekki talið að skráningin geti átt stoð í öðrum ákvæðum 8. gr. Telur Persónuvernd að óski félagið nýmæla sem ganga lengra en gildandi lög og reglur gera ráð fyrir sé það hlutverk löggjafans að taka afstöðu til þeirra nýmæla sem um er beðið. Er þá sérstaklega litið til ákvæðis 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Hefur Persónuvernd því ákveðið að verða ekki við beiðni Creditinfo Lánstrausts hf. um að gefa út leyfi til vinnslu upplýsinga um einstaklinga sem fengið hafa greiðsluaðlögun samkvæmt X. kafla a í lögum nr. 21/1991 og lögum nr. 101/2010.
4.
Creditinfo Lánstraust hf. fer einnig fram á að afnumið verði ákvæði í starfsleyfi varðandi einstaklinga þess efnis að eyða skuli upplýsingum um skráðan kaupmála ef fyrir liggi að gengið hafi verið frá lögskilnaði þeirra sem hann gerðu. Ekki eru færð rök fyrir því hvers vegna fella ætti brott þetta ákvæði og er því ekki tímabært að taka afstöðu til þessarar beiðni. Aðrar þær breytingar á starfsleyfinu, sem Creditinfo Lánstraust hf. leggur til í bréfi sínu, dags. 22. nóvember 2010, lúta ekki að efnislegum atriðum heldur uppröðun ákvæða leyfisins. Tekin verður afstaða til þessara atriða við útgáfu næsta starfsleyfis.
Á k v ö r ð u n a r o r ð:
Synjað er beiðni Creditinfo Lánstrausts hf. um leyfi til að skrá persónuupplýsingar um einstaklinga sem fengið hafa greiðsluaðlögun samkvæmt X. kafla a í lögum nr. 21/1991 og lögum nr. 101/2010.