Úrlausnir

Úrskurður varðandi vöktun hjá MS

7.10.2003

Stéttarfélag óskaði eftir því að Persónuvernd kannaði lögmæti rafrænnar vöktunar á tilteknum vinnusvæðum í Mjólkursamsölu Reykjavíkur

Hinn 7. október 2003 kvað stjórn Persónuverndar um svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2002/436:

I.
Úrlausnarefni
Bréfaskipti

Persónuvernd barst þann 6. júní 2002 tilkynning frá Mjólkursamsölu Reykjavíkur ( hér eftir nefnd MS) um fyrirhugaða vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 31. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga [pul] og reglur nr. 90/2001 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónupplýsinga. Segir þar að tilgangur vinnslunnar sé öryggiseftirlit og að unnið verði með myndir teknar utanhúss og innan.

Rafiðnaðarsamband Íslands óskaði með tölvubréfum, dags. 23. júlí og 30. júlí 2002, eftir því að Persónuvernd kannaði lögmæti vinnslunnar. Voru erindin kynnt MS með bréfi, dags. 9. ágúst s.á., og tiltekinna upplýsinga óskað. Í framhaldi af því, eða þann 22. ágúst 2002, barst Persónuvernd tilkynning frá MS um breytingu á vinnslu persónuupplýsinga.

Með bréfi, dags. 24. september 2002, upplýsti Karl Ó. Karlsson, lögmaður Eflingar-stéttarfélags að til félagsins hefðu leitað nokkrir starfsmenn MS vegna óánægju með myndavélaeftirlit á vinnustaðnum. Segir að Efling-stéttarfélag viti að til meðferðar sé hjá Persónuvernd erindi Rafiðnaðarsambands Íslands vegna umræddrar vöktunar. Segir og að þar sem erindið varði einnig brýna hagsmuni félagsmanna Eflingar-stéttarfélags sé þess farið á leit við Persónuvernd að Efling-stéttarfélag verði upplýst um framvindu málsins og niðurstaða Persónuverndar kynnt félaginu þegar hún liggi fyrir.

Persónuvernd sendi, með bréfi dags. 4. desember s.á., bæði Rafiðnaðarsambandinu og Eflingu-stéttarfélagi afrit af framangreindum tilkynningum MS og öðrum gögnum frá fyrirtækinu. Var tekið fram að ef Rafiðnaðarsambandið eða Efling-stéttarfélag óskaði frekari afskipta af hálfu Persónuverndar, eða hefði sérstakar athugasemdir við framkomnar upplýsingar Mjólkursamsölunnar, þyrfti að gera það með rökstuddum og afmörkuðum hætti.

Engin slík ósk kom frá Rafiðnaðarsambandingu. Frá Eflingu-stéttarfélagi barst hins vegar erindi þann 17. janúar 2003. Segir þar að af tilkynningum, fylgigögnum og samtölum við fulltrúa starfsmanna MS megi ráða að myndavélum sé í nokkrum mæli beint að vinnusvæðum starfsmanna innanhúss, svæðum þar sem aðgangur sé takmarkaður við starfsmenn MS eingöngu og sem varin séu með sérstökum merkingum og talnalásum. Þá segir:

"Efling-stéttarfélag telur brýnt að MS veiti nánari upplýsingar og rökstuðning um vöktun á þeim svæðum sem ætluð eru starfsmönnum eingöngu. Ennfremur sé brýnt að myndavélum á vinnusvæðum starfsmanna, sem óviðkomandi er bannaður aðgangur að, verði stillt þannig upp að áhersla sé lögð á að vakta aðkomuleiðir. Nauðsynlegt sé einnig, með vísan til þeirra sjónarmiða sem fram komi í úrskurði Persónuverndar, dags. 21. desember 2001, í máli Ölgerðar Egils Skallagrímssnar ehf., að Persónuvernd geri MS skylt að setja sér vinnureglur um meðferð þess myndefnis sem safnað er, um upplýsingagjöf til starfsmanna og um önnur atriði sem máli skipta, sbr. nánar niðurlag tilvitnaðs úrskurðar Persónuverndar."


 

Persónuvernd kynnti framangreint erindi fyrir forsvarsmönnum MS með bréfi, dags. 31. mars s.á. og gaf þeim kost á að tjá sig um það. Var óskað skýringa sem af mætti ráða hvort unnið væri í samræmi við innsenda tilkynningu um vinnslu persónuupplýsinga. Þá var þess óskað að kannað yrði hvort öll rafræn vöktun hjá MS færi fram í málefnalegum tilgangi og aðeins að því marki sem sérstök þröf krefði vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar færi fram - og hvort að öðru leyti uppfyllt væru skilyrði 7. gr. laga nr. 77/2000. Að lokum var spurt hvort fyrirtækið hefði sett sér sérstakar reglur um vöktunina til að tryggja að nýir starfsmenn fengju fræðslu um hana, og ef ekki hvort þá væri fyrirhugað að setja slíkar reglur.

Svarbréf Þórunnar Guðmundsdóttur, hrl., f.h. MS, er dags. 22. apríl 2003. Persónuvernd taldi þó enn vera þörf frekari upplýsinga og óskaði þeirra með bréfi dags. 25. apríl s.á. Er svarbréf lögmanns MS dags. 20. maí s.á. Því fylgdi bæði eintak af fréttabréfi MS frá ágúst 2002, þar sem nýtt og endurbætt eftirlits- og öryggiskerfi MS er kynnt, og gögn frá kynningarfundum með starfsmönnum sem haldnir voru í desember 2002. Framangreind svarbréf og fylgigögn var kynnt lögmanni Eflingar-stéttarfélags, með bréfi dags. 30 maí 2003, og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau. Svarbréf hans er dagsett 20. júní s.á.

  II.
Sjónarmið málsaðila

Að loknum framangreindum bréfaskiptum stendur eftir að fyrir hendi er ágreiningur um vöktun eftirtalinna 5 vinnusvæða: móttöku á vögnum frá verslun, pökkunarsal, umbúðalager og mjólkurkæli - en á síðastnefnda svæðinu er ekki búið að tengja vélarnar upptökubúnaði.

Lögmaður Eflingar-stéttarfélags vísar til þess í bréfum sínu, dags. 9. janúar og 20. júní 2003, að samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, sé rafræn vöktun staðar þar sem takmarkaður hópur fólks fer að jafnaði um heimil sé hennar sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fari fram. Að mati Eflingar-stéttarfélags hafi MS hins vegar ekki rökstutt þörf á myndavélaeftirliti á umræddum vinnusvæðum, en aðgangur að þeim takmarkist við starfsmenn og þau séu varin með sérstökum merkingum og talnalásum. Svo virðist sem tilgangur myndavélaeftirlits á þessum svæðum sé sá einn að fylgjast með daglegum athöfnum starfsmanna. Vísar lögmaðurinn því til stuðnings til umfjöllunar MS um hagræðingu í verkstjórn. Með því sé að mati Eflingar-stéttarfélags og starfsmanna MS vegið að persónufrelsi þeirra en persónufrelsi starfsmanna vegi þyngra heldur en hagsmunir MS af því að hafa myndavélaeftirlit á þessum stöðum. Starfsmenn MS geri hins vegar ekki athugasemd við að myndavélar séu notaðar sem hjálpartæki við verkstjórn á svæðum sem útilokað sé að hafa yfirsýn yfir með öðrum hætti. Þá segir í bréfi lögmanns Eflingar, dags. 20. júní sl.:

"Hagræðing í verkstjórn getur hins vegar að mati Eflingar-stéttarfélags aldrei réttlætt myndavélaeftirlit með upptökubúnaði á vinnusvæði starfsmanna, enda fer slíkt í bága við ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Efling-stéttarfélag getur að virtum skýringum lögmanns MS ekki fallist á að nauðsynlegt sé að beina myndavélum sem tengdar eru við upptökubúnað að vinnusvæðum starfsmanna. Telur félagið að unnt sé að tryggja öryggi framleiðslu MS með öðrum hætti s.s. með aðgangsstýringu að vinnusvæðum og vöktun aðkomuleiða með eftirlitsmyndavélum, enda um að ræða svæði sem eru ætluð starfsmönnum eingöngu. Í þessu sambandi vill Efling-stéttarfélag benda á ummæli í greinargerð með frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga (l. nr. 81/2002) þar sem kemur fram í athugasemdum um 1. gr. frumvarpsins að túlka beri heimildir til vöktunar á vinnustað þröngt og að gæta verði þess að einkalífsréttur starfsmanna sé virtur. Samkvæmt framangreindu telur Efling-stéttarfélag rétt að sjónarhorn vélar í pökkun [...] verði þrengt þannig að vélinni verði beint að aðkomuleið svæðisins. Sömuleiðis telur félagið að myndavél sem beint er að vinnusvæði starfsmanna á umbúðalager óþarfa [...]."

 

Lögmaður Mjólkursamsölunnar vísar í bréfi sínu, dags. 22. apríl sl., til þess að markmið vöktunar hjá MS sé annars vegar að tryggja öryggi og hins vegar að minnka líkur á rýrnun. MS annist vinnslu og pökkun mjólkurafurða, sem sé viðkvæm matvara. Þá segir:

"Starfsemi MS, eins og annarra fyrirtækja í matvælaiðnaði, er háð ströngum reglum. Má hér nefna lög nr. 7/1998 um hollustuvernd og mengunareftirlit og lög nr. 93/1995 um matvæli og ýmsar reglugerðir settar á grundvelli þeirra laga. Til dæmis segir í 10. gr. laga um matvæli að þeir sem framleiða matvæli eða dreifa þeim skulu haga starfsemi sinni í samræmi við almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli valdi ekki heilsutjóni. Þá á að gæta þess að matvælin óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt. Þá verður starfsemi MS að taka mið af reglugerð nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Þar segir í 4. gr. að matvælafyrirtæki skuli starfrækja innra eftirlit til að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla, ákvarða mikilvæga eftirlitsstaði, sbr. b) lið 1. tl. 4. gr. reglugerðarinnar, koma á fót virku eftirliti á mikilvægum eftirlitsstöðum, sbr. d) lið 1. tl. 4. gr., svo nokkur dæmi séu nefnd. Þá segir í Viðauka 2 við reglugerðina að athafnasvæði matvælafyrirtækja skuli vera þannig að eiturefni og aðskotahlutir berist ekki í matvæli, og að útiloka megi hættu á krosssmiti m.a. vegna utanaðkomandi mengunar. Út frá öryggissjónarmiðum og hollustuverndarsjónarmiðum er því nauðsynlegt að tryggja að óviðkomandi hafi ekki óheftan aðgang að MS. Staðsetning allra myndavéla hjá MS tekur mið af þessari staðreynd."

 

Í bréfum lögmannsins, dags. 22. apríl og 20. maí sl., eru síðan í máli og myndum raktar ástæður vöktunar á þeim vinnusvæðum sem ágreiningur er um. Að því er varðar móttöku vagna frá verslunum segir að um sé að ræða tvennar stórar dyr sem flutningabílar komi að, einar dyr sem séu út í ruslagáma, einar sem varðar séu með talnalási og einar sem séu frá þessu vinnusvæði yfir í tengiálmu Emmessís hf. og séu þær varðar með aðgangskortalesara. Nauðsynlegt sé að vakta inn- og útgöngudyr í fyrirtækið til að minnka líkur á umgengni óviðkomandi. Fram kemur að vegna athugasemda frá trúnaðarmanni starfsfólks hafi verið ákveðið að setja upp tvær myndavélar í stað einnar - í því skyni að þrengja sjónarhorn vélanna og gera það eins þröngt og mögulegt sé. Það sé langt því frá að vera með þeim hætti sem æskilegast væri fyrir fyrirtækið.

Þá segir að einungis lítill hluti pökkunarsalar sé vaktaður og að hið vaktaða svæði sé sjaldan notað. Um nauðsyn vöktunar þessa svæðis segir svo í bréfi lögmannsins frá 22. apríl sl.:

"Á umræddu svæði eru stórar dyr sem tiltölulega auðvelt er að komast inn um og þær eru um leið einnig mögulegar útgöngudyr. Á þessu svæði er almennt ekki verið að vinna nema ef svæðið er notað sem skammtímageymsla fyrir vagna eða lagfæra þarf eitthvað upp á færibandinu hægra megin í myndinni. Augljóst er að vakta þarf dyrnar og umgengni inn í umbúðalagerinn.

Þriðja svæðið sem trúnaðarmaður Eflingar hefur gert athugasemd við er á umbúðalager. Umbúðalagerinn er mjög viðkvæmt svæði því þar er hægt að komast í snertingu við umbúðirnar að innanverðu áður en vörum er pakkað í þær. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli ber MS að gæta þess að umbúðir geti ekki spillt vörunni og svo sem rakið var hér á undan ber MS ábyrgð á því að aðskotahlutir eða mengun berist ekki í framleiðsluvöruna og/eða umbúðir um þær. Því er mikilvægt að geta fylgst með því sem fram fer á umbúðalager öryggisins vegna þannig að enginn geti komist í umbúðirnar sem síðan eru notaðar utan um framleiðsluvörur fyrirtækisins. [...] Myndin til vinstri er af þremur inngöngum inn á umbúðalagerinn og sú til hægri sýnir umbúðirnar sem verið er að nota á hverjum tíma til pökkunar. Ekki hefur verið deilt um vélina til vinstri en sú hægra megin sýnir að mati trúnaðarmannsins vinnusvæði einstaklings sem þar með feli í sér brot á persónufrelsi hans. MS hefur ítrekað skýrt honum frá því að fyrirtækið er á grundvelli þeirra reglna sem því ber að starfa eftir að vakta umbúðirnar en ekki vinnu starfsmannsins."

 

Um þá athugasemd lögmanns Eflingar-stéttarfélags, að fram hafi komið í bréfi hjá MS að uppsetning vélanna hafi verið liður í hagræðingu í verkstjórn, segir svo í framangreindu bréfi:

"Vegna þessa skal tekið fram að þar er átt við að tvö vinnusvæði eru það stór að útilokað er að hafa yfirsýn yfir þau nema með myndavélakerfi. Afgreiðslukælir er t.d. rúmlega 1.600m2 að stærð en þar starfa liðlega 20 manns. Myndavélakerfi gefur verkstjóra möguleika á verkstjórn sem hann hafði ekki áður. Engar kvartanir hafa borist frá starfsmönnum kælis vegna myndavélakerfisins. Meginmarkmið þeirra myndavéla er hins vegar að vakta inn- og útgönguleiðir að kælinum."

 

Þetta sjónarmið er áréttað í bréfi lögmanns MS frá 20. maí sl. Þar segir:

"Allar söluvörur MS fara inn eða út úr kælinum. Öryggismyndavélunum verður beint að útgöngudyrum en það er óhjákvæmilegt að nánasta umhverfi inn- og útgöngudyra sjáist á myndavélum. Kælirinn er 30 metra breiður og 78 metra langur og á honum eru 11 stórar dyr fyrir flutningabíla, auk dyra sem snúa að pökkunarsal, starfsmannaaðstöði og vagnamóttöku. Hér er því mesta hættan á því að óviðeigandi aðilar komist að framleiðsluvörum MS. Þegar rætt er um hagræði fyrir verkstjóra þá felst það í því að þeir munu sjá á myndavélunum hvað er að gerast við dyrnar sem eru lengst í burtu frá þeirra starfsstöð. Þeir geta því fylgst með ferðum óviðkomandi, án þess að þurfa að yfirgefa sína starfsstöð."

 

Þá segir að starfsmönnum hafi verið rækilega kynnt uppsetning og staðsetning myndavélanna, markmið vöktunarinnar og hverjir hefðu aðgang að myndefninu. Þetta hafi verið gert bæði á sérstökum kynningarfundi og í fréttabréfi fyrirtækisins. Nýir starfsmenn fái kynningu við ráðningu. Séu því uppfyllt skilyrði 20. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

III.
Niðurstaða

Markmið laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með áorðnum breytingum, er m.a. að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Undir lögin fellur vinnsla persónuupplýsinga. Með "persónuupplýsingum" er þá, sbr. 1. tl. 1. mgr. 2. gr., átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Þá er "vinnsla" slíkra upplýsinga skilgreind sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 1. mgr. sömu greinar. Þá taka lögin til "rafrænnar vöktunar" en með því er átt við vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði, sbr. 6. tl. 2. gr. laganna. Notkun eftirlitsmyndavéla er ein tegund rafrænnar vöktunar, en við slíka vöktun getur átt sér stað vinnsla persónuupplýsinga s.s. ef vöktunarbúnaður leiðir eða getur leitt til söfnunar eða annars konar vinnslu persónuupplýsinga. Tekið skal fram að með lögum nr. 46/2003, sem samþykkt voru á Alþingi þann 14. mars 2003, var að nokkru breytt ákvæðum laganna um vöktun en í úrskurði þessum er byggt á lögunum eins og þau voru á þeim tíma þegar umrætt erindi barst Persónuvernd. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. pul, eins og hún var fyrir setningu framangreindra laga nr. 46/2003, sagði að viðhafa mætti rafræna vöktun á svæði þar sem takmarkaður hópur fólks færi um að jafnaði, væri hennar sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar færi fram.

Í máli þessu er til úrlausnar lögmæti rafrænnar vöktunar / vinnslu persónuupplýsinga á tilteknum vinnusvæðum í MS, þ.e. við móttöku á vögnum frá verslun, í pökkunarsal, á umbúðalager og í afgreiðslukæli. Á síðastnefnda svæðinu er ekki búið að tengja vélarnar upptökubúnaði og því telst sú rafræna vöktun sem þar fer fram, eðli sínu samkvæmt, ekki jafngilda vinnslu persónuupplýsinga. Hún þarf engu að síður að uppfylla ákvæði 7. gr. um meðferð upplýsinga og önnur ákvæði, þ. á m. um viðvaranir, um rafræna vöktun. Önnur vöktun, þ.e. sú sem fer fram við móttöku á vögnum frá verslun, í pökkunarsal og á umbúðalager, felur í sér vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000. Þarf hún þá jafnframt að eiga sér stoð í einhverju þeirra skilyrða sem kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr. og eftir atvikum einhverju þeirra skilyrða sem kveðið er á um í 9. gr., ef um viðkvæmar persónuupplýsinga er að ræða. Samkvæmt b-lið 8. tl. 2. gr. pul. teljast upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað til viðkvæmra persónuupplýsinga. Í tilkynningu MS segir að ef í ljós komi grunur um refsiverðan verknað sem snerti eigur eða starfsemi fyrirtækisins, og ákveðið verði að kæra slíkan verknað til lögreglu, sé líklegt að gögn úr eftirlitsmyndavélum verði afhent lögreglunni. Verður því við það að miðað að uppfylla þurfi eitthvert að skilyrðum 1. mgr. 9. gr. til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi laganna.

  1.
Lögmæti vöktunar

Hjá MS eru ýmis svæði vöktuð, þ. á m. móttaka á vögnum frá verslun, pökkunarsalur, umbúðalager og afgreiðslukælir. Þá er aðgangsstýring við útidyr og ýmsar dyr innanhúss, en ekki er ágreiningur með aðilum um að nauðsynlegt sé "vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram" að vakta þessar aðkomuleiðir til að koma í veg fyrir aðgang óviðkomandi aðila. Þá er hvorki ágreiningur um nauðsyn þess að vakta aðgengi milli hinna ýmsu vinnslusvæða innan fyrirtækisins né þau vinnslusvæði þar sem útilokað er fyrir verkstjórn að hafa yfirsýn með öðrum hætti.

Varðandi vöktun á þeim svæðum sem deilt er um, þ.e. í móttöku á vögnum frá verslun, pökkunarsal, umbúðalager og afgreiðslukæli, ber að hafa í huga að öll rafræn vöktun verður, óháð því hvort hún felur í sér vinnslu persónuupplýsinga eða ekki, að uppfylla gæðareglur 7. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í því felst m.a. að þess skal gætt að vöktun fari fram með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 7. gr. pul og að hún eigi sér yfirlýstan, skýran og málefnalegan tilgang, sbr. 2. tl. 1. mgr. sömu greinar.

Rafrænt eftirlit með starfsmönnum við störf sín verður almennt að telja meira íþyngjandi en annars konar hefðbundið eftirlit. Ákvæði laga nr. 77/2000 taka mið af þessu og áskilja að sérstök þörf þurfi að standa til vöktunarinnar vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna. Þeim meira íþyngjandi sem vöktunin er fyrir starfsmenn því brýnni þörf þarf að vera til nauðsynjar vöktunarinnar. Þetta á ekki síst við fari fram söfnun persónuupplýsinga, t.d. upptaka, samhliða vöktuninni. Upplýst er að markmið vöktunar hjá MS er tvíþætt. Annars vegar að uppfylla öryggissjónarmið. Eru svæði vöktuð til að koma í veg fyrir eða til að gera fyrirtækinu kleift að fyrirbyggja skemmdarverk. Hins vegar til að fyrirbyggja rýrnun.

Af hálfu MS hefur því verið haldið fram að staðsetning allra myndavéla taki mið af nauðsyn þess, vegna öryggis- og hollustuverndarsjónarmiða, að hindra óheftan aðgang óviðkomandi að MS, því þar sé framleidd viðkvæm matvara, en um slíkt gildi strangar reglur á sviði hollustuverndar og mengunareftirlits.

Þegar litið er til þess hve starfsemi fyrirtækja í matvælaiðnaði er háð ströngum reglum, m.a. lögum nr. 7/1998, um hollustuvernd og mengunareftirlit, og lögum nr. 93/1995, um matvæli, og reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga, telur Persónuvernd uppfyllt skilyrði 2. mgr. 8. gr. pul., eins og hún var fyrir setningu framangreindra laga nr. 46/2003, um að sérstök nauðsyn standi til vöktunarinnar vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fari fram. Þá hefur, að mati Persónuverndar, ekkert komið fram er staðfesti að umrædd vöktun fari í bága við framangreind ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000, né að brotið hafi verið gegn öðrum ákvæðum er gilda um slíka vöktun vinnusvæða.

  2.
Lögmæti vinnslu.

Öll vinnsla persónuupplýsinga, þ. á m. sú sem fram fer í tengslum við rafræna vöktun, þarf að eiga sér stoð í einhverju þeirra skilyrða sem kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr., og eftir atvikum einhverju þeirra skilyrða sem kveðið er á um í 9. gr., ef um viðkvæmar persónuupplýsinga er að ræða.

Þau ákvæði 1. mgr. 8. gr. pul. sem helst koma til skoðunar, að mati Persónuverndar, eru ákvæði 7. tl. þeirrar greinar, um að vinnsla geti verið heimil sé hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna sinna, enda leiði grundvallarréttindi og frelsi hins skráða, sem vernda ber samkvæmt lögum, ekki þyngra.

Um starfsemi MS fer m.a. samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuvernd og mengunareftirlit og lögum nr. 93/1995 um matvæli og reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Markmið þessara laga og reglugerða er einkum að tryggja neytendavernd. Til þess þurfa fyrirtæki í matvælaiðnaði að viðhafa allar nauðsynlegar aðgerðir að því marki sem eðlilegt og sanngjarnt er til að tryggja hreinleika og gæði framleiðslunnar. Er t.d. í IV. og V. kafla laga nr. 93/1995, ítarlega kveðið á um skyldur framleiðenda í þessu skyni, og um eftirlitsskyldu stjórnvalda. Þessi skylda er síðan nánar útfærð í reglugerð nr. 522/1994, um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, sbr. t.d. 4. gr. hennar um öryggisaðgerðir og innra eftirlit með þeim. Þá ber að líta til þess að það getur varðað refsiábyrgð fyrirtækis og/eða stjórnenda þess ef brotið er gegn framangreindum lögum og reglugerðum, sbr. 31. gr. laga nr. 93/1995 og 33. og 34. gr. laga nr. 7/1998.

Það hvort 7. tl. 1. mgr. 8. gr. eigi við ræðst af mati á því hvort hagsmunir hinna skráðu (hér starfsmanna MS) af því að vinnslan fari ekki fram vegi þyngra en þeir hagsmunir sem mæla með vinnslunni. Við mat á þessum hagsmunum ber að líta til ríkra almannahagsmuna í ljósi fjölda neytenda umræddrar vöru. Þá ber að hafa í huga framangreinda löggjöf og hvernig tryggja megi að unnið sé í samræmi við fyrirmæli hennar. Þá ber að hafa í huga að tvö vinnusvæði af þeim þremur sem um er deilt, þ. á m. afgreiðslukælir, eru það stór að örðugt er vegna eðlilegrar verkstjórnar að hafa yfirsýn yfir þau nema með myndavélakerfi. Þá hefur ekkert komið fram um að starfsmenn njóti ekki skjóls frá slíkri vöktun á svæðum þar sem þeir mega ætla að njóta einkalífsverndar, s.s. á kaffistofum og í búningsherbergjum. Því er það niðurstaða Persónuverndar að að baki vinnslu persónuupplýsinganna, í tengslum við vöktun umræddra vinnusvæða, standi lögmætir hagmunir sem telja verður ríkari þeim rétti starfsmanna að vinnsla fari ekki fram á þessum svæðum. Því eigi vinnslan sér stoð í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. l. nr. 77/2000.

Fyrir liggur, sbr. það sem fram kemur í tilkynningu MS, að ef í ljós komi grunur um refsiverðan verknað, sem snerti eigur eða starfsemi fyrirtækisins, kunni gögn úr eftirlitsmyndavélum að verða afhent lögreglunni. Þar af leiðandi þarf vinnslan að uppfylla eitthvert þeirra skilyrða sem greinir í 9. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 77/2000 segir m.a. um þetta ákvæði: "Ákvæðið byggist á e-lið, i.f., 8. gr. tilskipunar ESB. Vinnuveitanda getur t.d. verið nauðsynlegt að vinna upplýsingar um heilsufar starfsmanns til að geta sýnt fram á lögmætar forsendur fyrir uppsögn. Það er ekki skilyrði að málið verði lagt fyrir dómstóla heldur nægir að vinnslan sé nauðsynleg til að styðja kröfu fullnægjandi rökum. Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga í þessum tilgangi telst hins vegar því aðeins vera lögleg að krafan verði hvorki afmörkuð né staðreynd með öðrum hætti." Að mati Persónuverndar má, með vísun til framangreinds, við það miða að umrædd vinnslan eigi sér stoð í 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. l. nr. 77/2000.

Loks þarf, svo um lögmæta vinnslu teljist vera að ræða, að liggja fyrir að hún uppfylli skilyrði 7. gr. laganna. Vinnsla persónuupplýsinga skal eiga sér málefnalegan tilgang í skilningi 1. og 2. tl. 7. gr. pul. Þá er, í 3. tl. 1. mgr. 7. gr., áskilið að ábyrgðaraðili gæti ákveðinna hlutfallssjónarmiða milli magns upplýsinga og tilgangs vinnslunnar. Í því felst að vinnsla persónuupplýsinga má aldrei verða meiri að umfangi en nauðsyn krefur hverju sinni. Verði tilgreindu markmiði náð með beitingu annarra viðurhlutaminni ráðstafana, skal þeim beitt. Ljóst er að viðvarandi taka mynda af fólki við störf sín getur verið afar íþyngjandi og getur jafnvel falið í sér ógn við friðhelgi einkalífs þess. Við mat á því hvort vinnsla slíkra mynda af starfsmönnum sé heimil samkvæmt lögum nr. 77/2000, vegast á annars vegar sjónarmiðið um friðhelgi einkalífs og hins vegar hagsmunir ábyrgðaraðila, hér MS og viðskiptavina hennar, af því að vinnslan fari fram. Segir í greinargerð með ákvæðinu að vinnsla ábyrgðaraðila megi ekki ganga lengra en þörf krefur til að ná því markmiði sem ábyrgðaraðila er heimilt að ná. Þegar tekið er mið af eðli þeirrar matvælaframleiðslu sem fram fer hjá MS og þeim ströngu reglum sem um hana gilda, m.a. vegna neytendaverndar, og að virtum öðrum gögnum sem lögð hafa verið fram í máli þessu, þ.m.t. myndum af umræddum vinnusvæðum, telst vinnsla hvorki fara fram í ómálefnalegum tilgangi né að umfang vinnslunnar sé svo umfangsmikið að í bága fari við framangreind ákvæði.

Þá er það forsenda lögmæti vinnslu að hinn skráði hafi fengið þá fræðslu sem kveðið er á um í 20. gr. pul. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru starfsmenn MS upplýstir um tilgang rafrænnar vöktunar hjá fyrirtækinu og um önnur þau atriði sem kveðið er á um í 20. gr. laganna, áður en rafræn vöktun hófst á umræddum vinnusvæðum. Hefur m.a. komið fram, og því ekki verið mótmælt, að starfsmönnum var rækilega kynnt uppsetning og staðsetning myndavélanna, markmið vöktunarinnar og hverjir myndu hafa aðgang að myndefninu. Þetta var gert bæði á sérstökum kynningarfundi og með útsendingu fréttabréfs fyrirtækisins. Auk þess hefur komið fram að nýir starfsmenn fá vitneskju um vinnsluna við ráðningu. Þá liggur fyrir að komið hafi verið til móts við ýmsar ábendingar og óskir starfsmanna. Þegar mið er tekið af þessu er það mat Persónuverndar að ábyrgðaraðili hafi uppfyllt skyldu sína samkvæmt 20. gr. laga nr. 77/2000.

  3.
Krafa um að MS setji vinnureglur

Lögmaður Eflingar-stéttarfélags hefur óskað eftir að Persónuvernd leggi fyrir forsvarsmenn Mjólkursamsölunnar að setja vinnureglur um meðferð þess myndefnis sem safnað er, um upplýsingagjöf til starfsmanna og önnur atriði sem máli skipta. Er í því sambandi vísað til leyfis Ölgerðarinnar Egils Skallagímssonar ehf., útgefins 21. desember 2001. Vegna þessa skal tekið fram að framangreint leyfi var veitt á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. nú 3. mgr. sömu greinar. Var áskilnaðurinn um setningu vinnureglna hluti af leyfisskilmálum. Með vísun til þeirrar breytingar sem gerð var á 9. gr. pul., með lögum nr. 81 /2002, er hins vegar nú ekki litið svo á að umrædd vöktun hjá MS sé háð leyfi Persónuverndar. Hún er einungis tilkynningarskyld í samræmi við 31. gr. laganna og reglur nr. 90/2001 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga.

Fræðsla til starfsmanna er forsenda lögmæti vinnslu persónuupplýsinga. Setning sérstakra vinnureglna er ein leið til að tryggja að lögbundin fræðsla fari fram. Markmiðinu má einnig ná með öðrum hætti, s.s. með kynningu á heimasíðu fyrirtækis eða með umfjöllun í handbók starfsmanna. Ákvörðun um hvernig að fræðslu er staðið er alfarið ábyrgðaraðila vinnslunnar, hér MS, en ekki Persónuverndar. Eru þegar af þeirri ástæðu ekki efni til að Persónuverrnd verði við framangreindri beiðni lögmanns Eflingar-stéttarfélags.

  Úrskurðarorð

Rafræn vöktun á þeim vinnusvæðum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, sem um er deilt í máli þessu, og vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við hana, er lögmæt.



Var efnið hjálplegt? Nei