Ákvörðun um að fjarlægja skuli eftirlitsmyndavél í orlofshúsi
Persónuvernd barst kvörtun manns vegna eftirlitsmyndavélar í orlofshúsi. Húsið hafði hann leigt af Orlofssjóði Kennarasambands Íslands (KÍ). Var það ákvörðun Persónuverndar að eftirlitsmyndavélin skuli fjarlægð fyrir 1. apríl 2011.
Ákvörðun
Á fundi sínum hinn 3. mars 2011 komst stjórn Persónuverndar að eftirfarandi niðurstöðu í máli nr. 2010/1002:
I.
Grundvöllur máls og bréfaskipti
Þann 10. nóvember 2010 barst Persónuvernd kvörtun Ó yfir eftirlitsmyndavél í orlofshúsi að Hellnum á Snæfellsnesi. Húsið hafði hann leigt af Orlofssjóði Kennarasambands Íslands (KÍ).
Með bréfi, dags. 17. nóvember 2010, óskaði Persónuvernd eftir skýringum hjá Orlofssjóði KÍ. Sjóðurinn svaraði með bréfi, dags. 21. desember 2010. Þar segir:
„Orlofssjóður Kennarasambands Íslands hefur meðtekið fyrirspurn Persónuverndar varðandi rafræna myndavélavöktun í sumarhúsi á vegum Orlofssjóðs KÍ að Hellnum. Undirritaðri framkvæmdastjóra sjóðsins var með öllu ókunnugt um að búið væri að myndvæða umrætt orlofsshús fyrr en nú, enda er það gert án vilja eða vitundar mín eða stjórnar Orlofssjóðs.
Samkvæmt upplýsingum eiganda hússins [K], er það ákvörðun eigenda vegna innbrota í sumarhús á svæðinu, en jafnframt athugunarleysi þeirra að gera viðkomandi aðilum ekki grein fyrir vélinni. Að vísu fullyrðir hann að umrædd tækni hafi brugðist og því engar myndatökur verið framkvæmdar þrátt fyrir nokkrar tilraunir tæknimanna til að ráða á því bót.[...]
Að fengnu framangreindu svari um að myndavélin væri sjóðinum óviðkomandi og upplýsingum um eiganda hússins sendi Persónuvernd honum bréf, dags. 10. janúar 2011. Hann svaraði með bréfi, dags. 24. janúar 2011. Þar segir m.a.:
„Þar sem umrædd orlofshúsabyggð stendur sér og nokkuð utan alfaraleiðar, á svæði þar sem allra veðra er von, teljum við hjá Art Ísland nauðsynlegt að eiga kost á að fylgjast með húsunum.
Brugðið var á það ráð að setja upp eftirlitsmyndavélar í húsin og í ráði að þær yrðu fyrst og fremst í notkun yfir veturinn þegar mannaferðir eru strjálar. Vélarnar voru settar upp með það fyrir augum að fylgjast með ef eitthvað færi úrskeiðis eins og ef rafmagn færi af, gluggar fykju upp eða brotist væri inn í húsin. Myndavélarnar er á engan hátt til þess ætlaðar að fylgjast með fólki sem dvelur í húsunum.
Eftirlitsmyndavélum var komið fyrir nú í haust eftir að leigutímabil Kennarasambands Íslands á húsunum lauk þann 1. september sl. Umrædd leiga var því ekki á vegum KÍ þó svo að leigan hafi verið í gegnum orlofsvef KÍ.
Ekki hefur gefist tími til að ganga frá uppsetningu á eftirlitsvélunum eins og vera ber og umrædd vél því ekki virkað enda blikkaði rautt ljós sem gefur til kynna að eftirlitsmyndavélin sé í þessu tilfelli óvirk. Þetta kemur fram í leiðbeiningum sem eru í skúffu fyrir neðan myndavélina ásamt fjarstýringu til að slökkva/kveikja á myndavélinni.
Þar sem ekki var búið að koma umræddri vél í gagnið hafði heldur ekki verið sett upp viðvörun eða leiðbeiningar á áberandi stað þó leiðbeiningar væru aðgengilegar eins og áður getur.
Vélarnar eru mjög sýnilegar og á engan hátt faldar eins og kemur fram í athugasemdum [kvartanda].“
Með bréfi, dags. 26. janúar 2011, veitti Persónuvernd kvartanda færi á að tjá sig um framangreint svar. Engar athugasemdir bárust.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með „persónuupplýsingum“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Með „vinnslu“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, sbr. 2. tölul. 2. gr. Þar undir falla m.a. söfnun, geymsla, notkun, miðlun, dreifing og birting, sbr. það sem fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000, sem og b-lið 2. gr. tilskipunar nr. 95/46/EB.
Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði, og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 6. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Hugtakið tekur bæði til sjónvarpsvöktunar (vöktunar með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla o.þ.h.) og til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga. Notkun þeirrar stafrænu eftirlitsmyndavélar sem hér um ræðir getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000. Fellur mál þetta því undir gildissvið þeirra og þar með undir úrskurðarvald Persónuverndar.
2.
Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, sbr. einnig 2. tölul. 2. gr. reglna um rafræna vöktun nr. 837/2006, telst ábyrgðaraðili vera sá sem ákveður tilgang vinnslunnar, þann útbúnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000 segir að átt sé við þann sem hefur ákvörðunarvald um vinnslu persónuupplýsinga. Af bréfi K má ráða að húsið er í eigu Art Ísland ehf. Ætla verður að notkun eftirlitsmyndavélar í umræddu húsi sé liður í rekstri félagsins á húsinu og verður því litið svo á að það sé ábyrgðaraðili vinnslu, enda liggur ekkert fyrir er gefi tilefni til annars.
3.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2000 er vöktun sem fram fer á svæði þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Í 5. gr. reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun segir og að við alla rafræna vöktun skuli þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem stefnt er að. Skal þess gætt að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skal því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiði sem stefnt er að með slíkri vöktun megi ná með vægari úrræðum.
Ekkert liggur fyrir um að hér sé fullnægt sé því skilyrði að vöktunar sé sérstök þörf vegna eðlis starfsemi sem fram fer. Þá er í ljósi sjónarmiða um friðhelgi einkalífs sérstaklega mikilvægt að sýna varúð við vöktun í húsum sem fólk nýtir í frítíma sínum og eru nátengd einkalífi þess. Það á t.d. við um hótelherbergi, káetur og orlofshús sem menn fá leigð til að dvelja þar í frístundum sínum. Er mikilvægt að hafa í huga að ekki verður fullyrt að þeir sem þar dvelja sjái eftirlitsmyndavél tímanlega og kunni eða geti slökkt á henni. Bent er á að varðandi vöktun utandyra gilda um margt önnur sjónarmið. Að uppfylltum meðalhófsreglum getur mátt viðhafa vöktun þar í öryggis- og eignavörsluskyni; enda séu lagaskilyrði uppfyllt - þ. á m. um fræðslu til leigutaka og viðvaranir til vegfarenda.
Með vísan til framangreinds er það mat Persónuverndar að notkun eftirlitsmyndavélar í orlofshúsi Art Ísland ehf. að Hellnum á Snæfellsnesi, sem notað er til útleigu fyrir ótilgreinda einstaklinga, fari í bága við framangreind ákvæði laga nr. 77/2000 og reglna nr. 837/2006. Persónuvernd hefur því ákveðið, á grundvelli 1. mgr. 40. gr. sömu laga, að leggja fyrir Art Ísland ehf. að fjarlægja umrædda eftirlitsmyndavél úr húsinu - að því gefnu að fyrirhugað sé að halda útleigu þess áfram.
Ákvörðunarorð:
Art Ísland ehf. skal fyrir 1. apríl 2011 fjarlægja eftirlitsmyndavél úr orlofshúsi að Hellnum á Snæfellsnesi sem notað verður til útleigu fyrir fólk.