Úrlausnir

Svar Persónuverndar við fyrirspurn um ráðstöfun á röntgenfilmum

22.3.2011

Persónuvernd hefur svarað fyrirspurn um grisjun og eyðingu röntgenfilma. Það var niðurstaða hennar að vinnslan, eins og henni var lýst, félli ekki undir eftirlit Persónuverndar heldur eftir atvikum Þjóðskjalasafn Íslands, Landlæknisembættið og velferðarráðuneytið. Engu að síður væri um sjúkraskrárupplýsingar að ræða og gera bæri ríkar kröfur til verndar þeirra.

Efni: Ráðstöfun á röntgenfilmum; flutningur persónuupplýsinga úr landi


I.
Persónuvernd hefur borist erindi um ráðstöfun notaðra röntgenfilma á Landspítala sem orðnar eru eldri en tíu ára. Er fyrirhugað að senda þær til fyrirtækisins Film Tech Corporation í Tamuning á landsvæði Bandaríkjanna í Guam. Með tölvubréfi hinn 7. desember 2010 spurði P , yfirlæknir röntgendeildar á Landspítala, hvaða kröfur gera þyrfti á hendur fyrirtækinu í tengslum við meðferð filmanna, en á þeim eru nöfn og kennitölur viðkomandi sjúklinga.

Persónuvernd svaraði með bréfi, dags. 17. janúar 2011, þar sem farið var almennt yfir þær reglur sem gilda um flutning persónuupplýsinga til landa utan EES. Hinn 20. s.m. mætti fyrrnefndur yfirlæknir ásamt fulltrúa fyrirtækisins, B, á fund í húsnæði Persónuverndar þar sem veittar voru nánari skýringar á því hvernig staðið yrði að flutningi umræddra upplýsinga. Kom fram að umræddum filmum yrði ekki raðað í gáminn með þeim hætti að til staðar yrðu viðmið, s.s. stafrófsröð, sem nota mætti til að leita að upplýsingum um einstaka menn.

Hinn 21. janúar 2011 kom B á fund Persónuverndar og afhenti drög að samningi milli Landspítala og fyrrnefnds fyrirtækis. Þar segir m.a. að umrædd gögn verði læst í innsigluðum gámi og að þau verði endurunnin eða þeim eytt þegar þeir þau komi á áfangastað.

Hinn 26. janúar sl. barst tölvubréf frá áðurnefndum yfirlækni þar sem verklagi er lýst nánar. Þar segir:

„Röntgenfilmurnar eru sjúkraskrárgögn Landspítala merktar nafni sjúklings og kennitölu. Rannsóknardagur er einnig skráður á filmuna. Filmur sjúklings saman eru í einu til tveim umslögum.

Þeim filmum sem á að eyða verður komið fyrir í læstum gám. Filmuumslögunum með filmunum í er hent handahófskennt og án skipulags í gáminn. Staðsetning þeirra verður því óskipulögð og tilviljunarkennd í hrúgu 10-12 tonna af filmum. Engin skrifleg gögn eða listar fylgja filmunum.

Gámurinn verður síðan innsiglaður og verður innsigli ekki rofið fyrr en við tollafgreiðslu í BNA. Við endurvinnslu eru filmurnar tættar niður en umslögum brennt.“


Með bréfi, dags. 2. febrúar 2011, óskaði Persónuvernd eftir afstöðu framkvæmdastjóra lækninga til lögmætis þess að röntgenfilmum væri eytt. Svarað með bréfi, dags. 7. febrúar 2011. Þar segir:

„Á Landspítala hefur röntgenmyndum verið eytt 10 árum eftir að þær voru teknar en lýsingar á röntgenrannsókn eru varðveittar eftir sömu reglum og um sjúkraskrár gilda. Byggir eyðing röntgenmyndanna á 11. gr. reglugerðar nr. 227/1991 um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál með áorðnum breytingum, þar sem segir:

„Sjúkraskrár hlíta almennum reglur Þjóðskjalasafns Íslands um afhendingu skjala, flokkun og frágang, sbr. lög nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands.
Röntgenmyndir skal geyma í 10 ár. Frumrit lýsingar á röntgenrannsókn telst hluti sjúkraskrár og skal varðveita eftir sömu reglum og um þær gilda.“

Fyrirkomulag eyðingarinnar hefur verið með sama hætti í fjöldamörg ár á Landspítala. Myndirnar hafa verið fluttar til fyrirtækisins Film Tech Corporation í Bandaríkjunum í læstum og innsigluðum gámum og endurunnar þar. Er þetta fyrirkomulag hagkvæmara fyrir Landspítala en ef gögnunum væri eytt hér á landi. Myndirnar eru óraðaðar meðan á flutningi stendur og ekki fylgir myndunum nein skrá yfir hvaða gögn er um að ræða. LSH telur að flutningur þessara röntgenmynda sé tryggur sem og fyrirkomulag eyðingarinnar.

Afstaða framkvæmdastjóra lækninga á LSH er sú að eðlilegt sé að fyrirkomulagi við eyðingu röntgenfilma verði haldið óbreyttu.“


II.
Fram kemur í 4. tölul. 3. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár að röntgenmyndir teljast til sjúkraskrárupplýsinga. Í 11. gr. laganna segir að sjúkraskrár skuli varðveittar í sjúkraskrárkerfi heilbrigðisstofnana og starfsstofa heilbrigðisstarfsmanna. Um skyldu til að afhenda sjúkraskrár til Þjóðskjalasafns Íslands, varðveislu þeirra og aðgang að þeim gilda ákvæði laga nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands. Samkvæmt 7. gr. þeirra laga er afhendingarskyldum aðilum óheimilt að ónýta nokkurt skjal í skjalasöfnum sínum nema heimild Þjóðskjalasafns komi til eða samkvæmt sérstökum reglum sem settar verða um ónýtingu skjala.

Af 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 227/1991 um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál leiðir að röntgenmyndir skal geyma í a.m.k. tíu ár. Reglugerðin var upphaflega sett með stoð í 16. og 18. gr. læknalaga nr. 53/1988 þar sem var að finna ákvæði um meðferð upplýsinga í sjúkraskrám. Slík ákvæði voru síðar sett í lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Í kjölfar þess var læknalögum breytt, þ.e. með lögum nr. 76/1997, þannig að þau vísuðu í ákvæði um sjúkraskrár í lögum um réttindi sjúklinga. Var þá lagastoð umræddrar reglugerðar að finna í 6. mgr. 14. gr. laga um réttindi sjúklinga. Með lögum um sjúkraskrár nr. 55/2009 var það ákvæði fellt brott. Í þeim er ekki að finna sérstaka undanþágu varðandi röntgenmyndir og verður reglugerð nr. 227/1991 ekki túlkuð á þann veg að ákvæði í henni sem ekki samrýmist lögum haldi gildi sínu. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2009 hefur landlæknir eftirlit með því að ákvæði laganna séu virt en um skilaskyldu til Þjóðskjalasafns Íslands fer að lögum nr. 66/1985.

Verði það niðurstaða framangreindra aðila - þ.e. Þjóðskjalasafns og landlæknis, og eftir atvikum ráðuneytis velferðarmála - að eyða megi umræddum röntgenmyndum mun standa til að koma þeim fyrir með óskipulögðum hætti í innsigluðum gámi. Sú aðferð felur í sér að Persónuvernd mun ekki hafa eftirlit með þeim eftir að þær koma í gáminn, enda hefur hún aðeins eftirlit með rafrænni vinnslu persónuupplýsinga og ekki handvirkri vinnslu persónuupplýsinga nema þær eigi að verða hluti af skrá sbr. 3. gr. laga nr. 77/2000.

Engu að síður er um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar og samkvæmt 2. gr. laga nr. 55/2009 eru sjúkraskrárupplýsingar trúnaðarmál. Þó svo að sending umræddra upplýsinga falli utan gildissviðs laga nr. 77/2000 – og þar með valdsviðs Persónuverndar – ber því engu að síður að gera ríkar kröfur til verndar þeirra í samræmi við ákvæði laga um sjúkraskrár. Hefur landlæknir eftirlit með framkvæmd þeirra laga, eins og áður segir.


Samandregin niðurstaða

Úrlausn um það hvort heimilt sé að eyða röntgenfilmum af röntgendeild Landspítala heyrir undir Þjóðskjalasafn Íslands, Landlæknisembættið og eftir atvikum velferðarráðuneytið. Eftirlit með öryggi röntgenfilma, eftir að þeim hefur verið komið fyrir með óskipulögðum hætti í gámi, fellur ekki undir eftirlit undir Persónuverndar. Engu að síður er um sjúkraskrárupplýsingar að ræða og ber að gera ríkar kröfur til verndar þeirra í samræmi við lög nr. 55/2009 um sjúkraskrár.


Var efnið hjálplegt? Nei