Úrlausnir

Svar Persónuverndar við erindi varðandi notkun ljósmyndar við auglýsingu á bók

29.3.2011

Persónuvernd hefur vísað frá erindi varðandi birtingu ljósmyndar í auglýsingum á bók. Var það niðurstaða Persónuverndar að úrlausn málsins falli undir dómstóla. Af þeim ástæðum var ekki tekin afstaða til þess hvort við notkun andlitsmyndar af kvartanda, í tengslum við kynningu á umræddri bók, hafi verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins.


Persónuvernd vísar til erindis yðar frá 22. desember 2010 varðandi birtingu myndar af yður í auglýsingum á bókinni A, en auglýsingarnar hafa birst á veggspjöldum, sem og í blöðum, á boðskortum og öðru kynningarefni. Bókin hefur að geyma ljósmyndir sem ljósmyndarinn J hefur tekið af listamönnum. Kemur fram í erindinu að þér voruð á meðal þess listafólks sem haft var samband við í aðdraganda útgáfu bókarinnar og samþykktuð að tekin væri af yður mynd sem þar yrði birt. Í erindi yðar kemur fram að í ljósi þess gerið þér ekki athugasemd við birtingu myndarinnar í bókinni sjálfri, þ. á m. á bókarkápu. Hins vegar spyrjið þér hvort notkun myndarinnar í áðurnefndum auglýsingum hafi verið heimil.

 

1.

Í 5. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er ákvæði sem hefur þann tilgang að samræma sjónarmið um einkalífsvernd og tjáningarfrelsi. Þar segir að víkja megi frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta að því marki sem það sé nauðsynlegt til að samræma þetta tvennt. Þá kemur fram að meðferð persónuupplýsinga, sem eingöngu er í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, fellur utan ramma flestra ákvæða laganna, þ. á m. 40. og 41. gr. sem veita Persónuvernd heimild til að stöðva vinnslu persónuupplýsinga og beita dagsektum ef ekki er farið að fyrirmælum hennar. Á meðal þeirra ákvæða, sem gilda um slíka meðferð persónuupplýsinga, er hins vegar 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. Þar segir að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga.

 

2.

Verkefnum Persónuverndar er lýst í 37. gr. laga nr. 77/2000. Þar segir m.a. að Persónuvernd skuli úrskurða í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi. Að mati Persónuverndar verður ekki litið svo á að í þessu felist að stofnunin hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um það hvort einhver hafi skapað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á stjórnarskrárbundnum rétti til tjáningarfrelsis. Er þá sérstaklega litið til fyrrnefndra ákvæða 5. gr. laga nr. 77/2000 sem hafa það m.a. í för með sér að valdheimildir Persónuverndar, s.s. til stöðva vinnslu persónuupplýsinga og beita dagsektum ef ekki er farið að fyrirmælum hennar, gilda ekki ef vinnsla fer eingöngu fram í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi. Þá verður ákvæðum 42. og 43. gr. laga nr. 77/2000, sem kveða á um refsiábyrgð og bótaábyrgð, einungis beitt af dómstólum.

Fyrrnefnt ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um sanngirni við vinnslu persónuupplýsinga getur falið í sér að áður en mynd af einstaklingi er notuð í auglýsingu sé sanngjarnt að afla samþykkis viðkomandi. Þá getur notkun persónuupplýsinga við gerð auglýsinga vakið spurningar tengdar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Úrlausn ágreiningsmála þar að lútandi heyrir hins vegar einnig undir dómstóla.

Varðandi dómaframkvæmd má nefna að hinn 30. apríl 1997 féll í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur í máli nr. E-5468/1996 sem snertir notkun myndar af einstaklingi í þágu markaðssetningar. Mynd af stefnanda í málinu hafði verið birt í sjónvarpsauglýsingu án hennar samþykkis og krafðist hún skaðabóta af því tilefni. Héraðsdómur taldi notkun myndarinnar hafa strítt gegn grunnreglu 71. gr. stjórnarskrárinnar um einkalífsvernd og voru henni dæmdar bætur. Í niðurstöðu dómsins segir:

„Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð og var þá sýnt myndband með umræddri auglýsingu. Á myndbandinu sést andlitsmynd stefnanda greinilega í stutta stund, en þó nægilega lengi til að vel megi þekkja hana af myndinni án þess að myndbandið sé stöðvað.

Því er ómótmælt, að myndin af stefnanda hafi verið fengin úr þættinum Dagsljósi, sem sýndur er í ríkissjónvarpinu, en þar starfaði stefnandi sem gagnrýnandi. Samkvæmt bréfi lögmanns ríkissjónvarpsins, sem er meðal gagna málsins, leyfði það ekki að nota myndina. Samkvæmt 5. mgr. 35. gr. útvarpslaga ber auglýsandi ábyrgð á auglýsingu. Stefndi var auglýsandinn í þessu tilviki og er því hafnað kröfu hans um sýknu vegna aðildarskorts.

Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, skulu allir njóta friðhelgi einkalífs og felst í því m.a. að menn ráða því að vissu marki hvar og hvernig myndir af þeim eru birtar. Í því tilviki, sem hér um ræðir, var myndbútur með andliti stefnanda tekinn úr sjónvarpsþætti þar sem hún var við vinnu sína og skeytt inn í auglýsingu. Verið var að auglýsa svonefnda margmiðlunartölvu, sem m.a. er hægt að nota sem sjónvarp og mun ætlunin með notkuninni á myndbútnum hafa verið að sýna fram á þennan möguleika. Í auglýsingunni voru og sýndir aðrir svipaðir myndbútar. Hér verður að líta til þess, að þegar einstaklingar koma fram í auglýsingum tengjast þeir viðkomandi varningi á ákveðinn hátt. Það varðar fólk miklu að ráða því hvaða varningi það tengist og hvar og hvernig auglýsingum er háttað, en svo var ekki í þessu tilviki.

Dómurinn lítur svo á samkvæmt framansögðu og með vísan til framangreindrar reglu stjórnarskrárinnar, að þessi notkun stefnda á andlitsmynd stefnanda hafi verið honum óheimil án leyfis hennar.“

 

3.

Þegar litið er til þess sem að framan greinir um valdmörk Persónuverndar, þegar reynir á skörun friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis, telur Persónuvernd úrlausn máls þess falla undir dómstóla. Hér verður því ekki tekin afstaða til þess hvort við notkun myndar af yður, í tengslum við kynningu á umræddri ljósmyndabók, hafi verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Er máli þessu því vísað frá.



Var efnið hjálplegt? Nei