Úrlausnir

Frávísun kvörtunar varðandi framvísun vinnuskráa í þágu gjaldeyriseftirlits

8.4.2011

Vísað hefur verið frá kvörtun flugmanns hjá Icelandair yfir því að þurfa að sýna vaktaskipulag sitt við kaup á gjaldeyri í banka. Krafa bankans byggðist á fyrirmælum Seðlabanka Íslands. Þar sem ekki var tekið afrit af vaktaskipulaginu í bankanum, né unnið með það á annan hátt, þótti ekki vera um vinnslu persónuupplýsinga að ræða í skilningi laganna.

Ákvörðun


Hinn 3. mars 2011 tók stjórn Persónuverndar eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 2010/998:

I.
Grundvöllur máls
og bréfaskipti

Þann 8. nóvember 2010 barst Persónuvernd kvörtun frá A varðandi afhendingu vaktaskipulags síns til fjármálastofnunar við kaup á gjaldeyri í tilefni af vinnuferðum hans erlendis, en hann er flugmaður hjá Icelandair. Þar segir m.a.:

„Í leiðbeiningum við reglur um gjaldeyrismál, er með breytingu dags. 20. sept. 2010 gerð sú breyting að „þegar um er að ræða áhafnarmeðlimi sem ekki hafa farseðil er þeim heimilt að kaupa gjaldeyri vegna ferðalaga sýni þeir fram á ferð með afhendingu vaktaskipulags“ (3.gr. bls 2 í leiðbeiningunum). Áður nægði að framvísa skilríkjum vinnuveitanda sem auðkenna viðkomandi sem áhafnarmeðlim til að nálgast gjaldeyri vegna vinnuferða. Undirritaður er flugmaður hjá Icelandair. Ég ásamt vinnuveitanda mínum og Félagi Íslenskra Atvinnuflugmanna erum þeirrar skoðunar að „vaktaskipulag“, sem við köllum vinnuskrá og er gefin út fyrir hvern mánuð sé innanhúsplagg og trúnaðarskjal bæði af flugöryggisástæðum og persónulegum ástæðum. Allir starfandi áhafnarmeðlimir Icelandair hafa skilríki frá félaginu sem ætti að nægja að framvísa.
Þess er krafist að Seðlabanka Íslands verði bannað að krefjast þess að viðskiptabankar út um allt land sé að heimta vinnuskrár einstaklinga í þessum tilgangi. [...]“


Með bréfi, dags. 19. janúar 2011, bar Persónuvernd málið undir Seðlabanka Íslands. Þann 7. febrúar barst svarbréf gjaldeyriseftirlits bankans. Þar segir m.a.:

„[...] Tilgangurinn með setningu bráðabirgðaákvæða I og II laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, var að heimila Seðlabanka Íslands að takmarka eða stöðva tímabundið m.a. fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti sem valdið geta að mati Seðlabankans alvarlegum  og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Reglur nr. 370/2010, um gjaldeyrismál, eru síðan settar á grunni þessara bráðabirgðaákvæða. Til að tryggja stöðugleika í gengis- og peningamálum hefur Seðlabanki Íslands þurft að þrengja heimildir til úttekta í reiðufé vegna ferðalaga frá því fyrstu reglur um gjaldeyrismál litu dagsins ljós þann 28. nóvember 2008. Ástæðan er fyrst og fremst umfangsmikil misnotkun á þeim heimildum til úttekta á gjaldeyri í reiðufé sem finna má í reglum um gjaldeyrismál. Af þeim sökum er aðilum gert að leggja fram afrit af flugseðli í sínum viðskiptabanka. Ástæða þess að aðilar verða að eiga þessi viðskipti í sínum viðskiptabanka eingöngu, er að ekki hefur reynst mögulegt að lágmarka misnotkun á annan hátt.

Í 4. mgr. 3. gr. reglna nr. 370/2010, um gjaldeyrismál, segir að einstaklingar, sem eru innlendir aðilar, hafi heimild til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, þar sem þeir eru með viðskipti sín, fyrir allt að jafnvirði 350.000 kr. í reiðufé í hverjum almanaksmánuði, ef sýnt sé fram á að notkun fjársins sé vegna ferðalaga erlendis. Í leiðbeiningum með reglum nr. 370/2010, um gjaldeyrismál, kemur fram, í skýringum við 3. gr. reglnanna að heimild innlendra einstaklinga til að kaupa erlendan gjaldeyri vegna ferðalaga sé miðuð við að gjaldeyririnn sé keyptur í eigin viðskiptabanka gegn framvísun farseðils í eigin nafni aðilans. Þá kemur fram að þegar um sé að ræða áhafnarmeðlimi sem ekki hafa farseðil sé þeim heimilt að kaupa gjaldeyri vegna ferðalaga sýni þeir fram á ferð með afhendingu vaktaskipulags.“

Með bréfi, dags. 7. febrúar sl., var svarbréf Seðlabanka Íslands borið undir kvartanda og honum boðið að koma á framfæri frekari sjónarmiðum. Í svarbréfi dags. 12. febrúar 2011 áréttaði hann fyrra erindi. Með því fylgdi afrit af svari Landsbankans, dags. 3. janúar sl. Þar kemur fram að einungis þarf að framvísa vaktaskipulagi og að bankinn hvorki afritar það né vinnur með öðrum hætti. Þar segir m.a.:

„Að gefnu tilefni vill Landsbankinn vekja athygli á breytingum sem Seðlabanki Íslands gerði þann 4. maí 2010 á leiðbeiningum við reglur nr. 370/2010 um gjaldeyrismál. Samkvæmt reglunum ber Landsbankanum nú að óska eftir því að áhafnarmeðlimir framvísi vaktskipulagi við kaup á gjaldeyri vegna ferðalaga ef farseðill er ekki sýndur við kaupin í útibúum bankans. Ekki er þörf á afriti.“

Með tölvubréfi, dags. 18. febrúar 2011, spurði Persónuvernd hvort skilja mætti erindi kvartanda svo að það beindist að Landsbankanum sem ábyrgðaraðila vinnslu. Hún benti á að það er ekki á hennar verksviði að skera úr um það hvort reglugerðir eða almenn stjórnvaldsfyrirmæli hliðsettra stjórnvalda hafi næga lagastoð. Svarbréf kvartanda barst með tölvubréfi þann 23. febrúar sl. Þar sagði:

„Nei kvörtun mín beinist enn að Seðlabanka sem hefur krafist framlagningar og afritunar vaktaskipulags.  Landsbankinn má þó eiga það að þeir hafa reynt að fara mildilegar í þetta en texti Seðlabankans hljóðar uppá. [...]“


II.
Forsendur og niðurstaða

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga. Vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn. Ábyrgðaraðili er sá aðili sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna.

Mál þetta lýtur ekki að vinnslu persónuupplýsinga af hálfu tiltekins ábyrgðaraðila. Það felst í kröfu um að Persónuvernd banni Seðlabanka Íslands að krefjast þess að viðskiptabankar sjái vinnuskrár einstaklinga. Erindið lýtur m.ö.o. að því að banna bankanum tiltekna aðferð sem hann hefur valið til að rækja lögbundið hlutverk sitt, m.a. það hlutverk að draga úr óstöðugleika í gengis- og peningamálum.

Það fellur ekki undir valdsvið Persónuverndar að ákveða með hvaða hætti önnur stjórnvöld ákveða að rækja hlutverk sem þeim hefur verið falið með lögum. Eftir atvikum kann að vera hægt að skjóta slíkum málum til æðra stjórnvalds. Þá er það hlutverk dómstóla að fjalla um mál, s.s. ef talið er að bótaábyrgð hafi skapast með broti gegn lögum. Loks er minnt á hlutverk umboðsmanns Alþingis, samkvæmt lögum nr. 85/1997. Hann á að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og gæta þess að jafnræði sé haft í heiðri í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.

N i ð u r s t ö ð u o r ð:

Vísað er frá kröfu A um að Persónuvernd banni Seðlabanka Íslands að krefjast þess að viðskiptabankar sjái vinnuskrár einstaklinga í tilgangi gjaldeyriseftirlits.



Var efnið hjálplegt? Nei