Úrlausnir

Vinnsla SLFÍ á upplýsingum um laun félagsmanna

Mál nr. 2011/201

13.4.2011

Persónuvernd hefur svarað fyrirspurn Sjúkraliðafélags Íslands um heimildir þess til að vinna upplýsingar um laun félagsmanna. Var niðurstaðan sú að vinna mætti upplýsingar um launaflokka og föst kjör. Hins vegar þyrfti að fá samþykki félagsmanns ef félagið hygðist fá upplýsingar um heildarlaun hans, þ. á m. greiðslur fyrir yfirvinnu og ökutækjastyrk.


1.
Fyrirspurn Sjúkraliðafélags Íslands


Persónuvernd hefur móttekið bréf yðar, dags. 8. febrúar sl., varðandi miðlun upplýsinga frá ríkisstofnunum um laun sjúkraliða til Sjúkraliðafélags Íslands (SLFÍ). Í bréfi yðar kemur fram að SLFÍ sé stéttarfélag sem vinnur að hagsmunamálum félagsmanna, verndar réttindi þeirra og beitir sér gegn misrétti í launagreiðslum og starfskjörum. Þá segir jafnframt í bréfinu:

„Svo hægt sé að sinna aðalmarkmiði félagsins þarf að fylgjast mjög náið með því hvort sjúkraliðar séu launaðir samkvæmt þeim kjarasamningum sem tekist hefur með ærinni fyrirhöfn að ná fram. Þetta er verkefni sem atvinnurekendur hafa torveldað okkur að vinna. Ástæðan er að félaginu er neitað um þær upplýsingar sem þurfa að liggja fyrir svo hægt sé með fullri vissu að staðsetja sjúkraliða í launum, miðað við persónubundna þætti og aðra kjaralega röðun. Félagið fær upplýsingar um meðallaun sjúkraliða bæði grunnlaun og eins heildarlaun. Þessi samantekt er yfir laun sjúkraliða hjá ríkinu í heild. Einnig er samþykkt að veita félaginu upplýsingar um einstaka stofnanir ríkisins ef sjúkraliðar sem þar vinna eru yfir 10 talsins, en ekki ef þeir eru færri. Allar upplýsingar án nafns og kennitölu.

Kjarasamningar félagsins við ríkið er þannig upp bygg[ð]ir að hver og ein stofnun gerir sértækan stofnanasamning við félagið en það er síðan undir hælinn lagt hvort hægt sé að skoða hvernig farið er með þann kjarasamning. Sjúkraliðafélagið heldur skrár yfir félagsmenn sína. Hins vegar hefur félagið enga möguleika á að vita á hvaða stofnun ríkisins einstaklingar starfa og því ómögulegt að senda á þá skoðanakönnun sem miðar að því að taka út einstaka stofnun hjá ríkinu. Félaginu er ekki gert kleift að hafa samband við viðkomandi félagsmann til þess að skoða með honum hvar hann stendur kjaralega. Þessi neitun ríkisins er sögð tilkomin vegna laga um persónuvernd. Þeim sé óheimilt að gefa upplýsingar til Sjúkraliðafélags Íslands um stöðu einstaklinga þrátt fyrir að einstaklingurinn hafi með undirskrift sinni skráð sig í Sjúkraliðafélag Íslands.

Hér með er þess óskað að Persónuvernd skoði málið og svari því hvort það brjóti í bága við lög um persónuvernd að stéttarfélag sjúkraliða fái þær upplýsingar sem það þarf til þess að geta fylgst með því að kjarasamningar félagsins séu ekki brotnir á félagsmönnum þess.“


2.
Leiðsögn Persónuverndar

2.1.
Um launaflokka og föst kjör

Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil þarf að vera uppfyllt eitthvert af skilyrðum 8. og eftir atvikum 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 9. gr. er heimil vinnsla sem er framkvæmd af samtökum sem hafa stéttarfélagsleg markmið eða af öðrum samtökum sem ekki starfa í hagnaðarskyni, svo sem menningar-, líknar-, félagsmála- eða hugsjónasamtökum, enda sé vinnslan liður í lögmætri starfsemi samtakanna og taki aðeins til félagsmanna þeirra eða einstaklinga sem samkvæmt markmiðum samtakanna eru, eða hafa verið, í reglubundnum tengslum við þau. Slíkum persónuupplýsingum má þó ekki miðla áfram án samþykkis hins skráða. Að mati Persónuverndar getur vinnsla félagsins á upplýsingum um launaflokkaröðun og föst kjör félagsmanna stuðst við þetta ákvæði.

Að því er varðar ákvæði 8. gr. koma helst til álita ákvæði 1., 3. eða 7. töluliðar. Mat á því hvert þeirra þykir eiga við ræðst af því hvort fyrir liggi samþykki félagsmanna samkv. 1. tölulið eða hvort lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur geri ráð fyrir slíkri vinnslu. Þá kunna að vera uppfyllt skilyrði 7. töluliðar.

2.2.
Um heildarlaun einstakra félagsmanna

Eins og áður segir þarf, svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil, að vera uppfyllt eitthvert af skilyrðum 8. og eftir atvikum 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Með hliðsjón af markmiði stéttarfélaga almennt verður ekki talið að skýra megi 5. tölulið 1. mgr. 9. gr. svo að hann beri uppi heimild stéttarfélags til að afla sundurliðaðra upplýsinga um heildarlaun einstakra félagsmanna, þ. á m. um greiðslur sem þeir fá fyrir tilfallandi yfirvinnu eða rekstur bifreiðar.

Slík vinnsla kann þó að verða félaginu heimil verði til þess aflað sérstaks, ótvíræðs og yfirlýsts samþykkis frá þeim sem upplýsingarnar varða. Myndi vinnslan þá styðjast við ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 8. gr. og. 1. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Bent er á að í 7. tölul. 2. gr. framangreindra laga er hugtakið samþykki skilgreint sem sé sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð og að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv. Í almennu umsóknareyðublaði um inngöngu í stéttarfélag SLFÍ, en afrit þess fylgdi bréfi yðar dags. 8. febrúar sl., segir  „Undirritaður staðfestir hér með undirskrift sinni umsókn um aðild að Stéttarfélagi Sjúkraliðafélags Íslands.“ Slík yfirlýsing uppfyllir ekki framangreind skilyrði 7. töluliðar 2. gr. laganna.



Var efnið hjálplegt? Nei