Úrlausnir

Heimild IKEA til að skrá kennitölur

18.4.2011

Svarað hefur verið fyrirspurn Neytendasamtakanna um heimild verslunar til að skrá kennitölur þeirra sem skila gölluðum vörum. Persónuvernd telur að sé aðeins veitt sú skilaþjónusta sem lögskylt sé að veita eigi ekki að gera kröfu um kennitölu - nema sýnt sé fram á sérstakar aðstæður sem geri það nauðsynlegt.

Persónuvernd hefur gefið út álit af tilefni fyrirspurn Neytendasamtakanna um heimild IKEA til að skrá kennitölur þótt aðeins sé veitt lögskyld þjónusta við skil á gallaðri vöru. Var það álit stofnunarinnar að þegar viðskiptavini er aðeins veitt sú skilaþjónusta sem lögskylt er að veita honum, samkvæmt lögum um neytendakaup, sé ekki heimilt að skrá kennitölu hans, nema fyrirtæki geti sýnt fram sérstakar aðstæður sem geri því slíka skráningu nauðsynlega vegna samningsgerðar. Að öðrum kosti telst hún ekki vera nauðsynleg í skilningi 10. gr. laga nr. 77/2000.

Með vísan til þessa taldi Persónuvernd meginregluna vera þá að skráning fyrirtækja á kennitölum viðskiptavina, sem aðeins nýta lögvarinn rétt sinn samkvæmt lögum um neytendakaup, samrýmist ekki 10. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem geti réttlætt slíka skráningu.

Álit
Persónuverndar.



Var efnið hjálplegt? Nei