Úrlausnir

Birting lista Ferðamálastofu yfir þá sem ekki hafa tilskilin leyfi

26.4.2011

Svarað hefur verið fyrirspurn Ferðamálastofu um birtingu á lista yfir þá aðila sem veita leyfisskylda þjónustu án þess að hafa tilskilin leyfi. Persónuvernd telur slíka birtingu ekki æskilega í ljósi almennra sjónarmiða um vandaða stjórnsýslu. Hún telur að í stað þess að stjórnvald auglýsi meinta lögbrjóta á vefsvæði sínu sé eðlilegra að beina málum þeirra til lögreglu.

Efni: Listi yfir þá sem ekki hafa tilskilda skráningu eða leyfi Ferðamálastofu


1.
Erindi Ferðamálastofu

Persónuvernd vísar til tölvubréfs Ferðamálastofu frá 2. febrúar 2011. Í bréfinu kom fram að unnið væri að endurskoðun laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála. Við vinnu að endurskoðuninni hafi verið rætt hvort veita eigi Ferðamálastofu heimild til að birta á heimasíðu sinni lista yfir þá aðila sem veita leyfisskylda þjónustu samkvæmt lögunum án þess þó að hafa fengið tilskilin leyfi. Enn fremur segir í bréfinu að spurt sé hvort slíkt samrýmist persónuverndarsjónarmiðum.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2011, óskaði Persónuvernd eftir nánari skýringum Ferðamálastofu, einkum varðandi fyrirhugaðan aðdraganda þess að upplýsingar verði færðar á framangreindann lista og hvernig málsmeðferð yrði háttað. Svarbréf Ferðamálastofu, dags. 24. febrúar 2011, barst Persónuvernd þann 28. febrúar 2011. Þar segir meðal annars:

Eitt af hlutverkum Ferðamálastofu er að hafa eftirlit með skráningarskyldri og leyfisskyldri starfsemi. Ferðamálastofa fær á hverju ári fjölda ábendinga um aðila sem stunda skráningar- og leyfisskylda starfsemi án þess að hafa til þess tilskilin leyfi eða skráningu. Í vinnslu er frumvarp til breytinga á lögum um skipan ferðamála. Til að geta sinnt betur eftirlitsskyldu sinni hefur Ferðamálastofa hug á að sett verði í lögin heimild til handa Ferðamálastofu til að birta lista yfir þá aðila sem rökstuddur grunur er um að stundi leyfis- eða skráningarskylda starfsemi en án tilskilins leyfis. Á listanum kæmi fram rekstrarheiti, kennitala, heimilisfang og heimasíða, ef hún er til staðar.
Tilgangur birtingar skrárinnar er fyrst og fremst í þágu almennings og upplýsa um hverjir séu starfandi í atvinnugreininni án leyfis eða skráningar. Einnig er þess vænst að slík birting leiði til þess að sótt verði um leyfi eða skráningu svo komast megi hjá frekari aðgerðum skv. 26. gr. sem eru mjög íþyngjandi. Birtingin mun einnig auðvelda Ferðamálastofu að sinna lögbundnu hlutverki sínu.
[...]
Birting lista yfir þá sem stunda leyfis- eða skráningarskylda starfsemi án leyfis eða skráningar er fyrst og fremst í þágu þeirra sem kaupa þjónustu af leyfis- eða skráningarskyldum ferðaþjónustuaðilum, að þeir geti gengið úr skugga um hvort viðkomandi hafi leyfi eða ekki. Leyfisveiting felur í sér að viðkomandi hafi uppfyllt ákveðin lögbundin skilyrði, að eftirlit sé með starfseminni, að til sé öryggisáætlun, að tilskildar tryggingar séu fyrir hendi o.fl. Þeir sem kaupa þjónustu af aðila sem ekki er með leyfi geta ekki treyst því að þessi atriði séu fyrir hendi. Birting slíks lista er einnig liður í að stuðla að meiri fagmennsku, gæðum og öryggi í ferðaþjónustunni en sífellt meiri kröfur eru gerðar til ferðaþjónustuaðila hvað þessi atriði varðar.
Við birtingu upplýsinga á fyrirhuguðum lista verður málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga gætt í hvívetna. Upplýsingar verða ekki settar á heimasíðuna fyrr en afstaða hlutaðeigandi liggur fyrir skv. 13. gr. stjórnsýslu laga nr. 37/1993 og mál hefur verið nægjanlega upplýst skv. 10. gr. s.l. og rökstuddur grunur sé um að starfsemi sé án leyfis eða skráningar.


2.
Svar Persónuverndar

Persónuvernd hefur það hlutverk að framfylgja lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau gilda um upplýsingar um einstaklinga, sbr. skilgreiningu 1. tölul. 2. gr. laganna á persónuupplýsingum. Alla jafna gilda þau ekki um lögaðila, sbr. þó 2. mgr. 45. gr. laganna, sem ekki verður séð að eigi við í því tilviki sem hér um ræðir. Til þess ber hins vegar að líta að í ákveðnum tilvikum geta upplýsingar um lögaðila verið það nátengdar tilteknum einstaklingi að á það getur reynt hvort þær skuli teljast persónuupplýsingar, t.d. þegar um ræðir lítið fyrirtæki og upplýsingar um það eru því nátengdar eigandanum (sbr. álit nr. 4/2007 um hugtakið persónuupplýsingar frá vinnuhópi forstjóra persónuverndarstofnana samkvæmt 29. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB).

Að því marki sem ræðir vinnslu upplýsinga um einstaklinga er tekið fram að hún verður að samrýmast einhverju af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000 svo hún sé heimil. Ef vinna á með viðkvæmar persónuupplýsingar verður að auki að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 9. gr. sömu laga. Upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður um refsiverðan verknað eru viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Af 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála telur Persónuvernd, sbr. 5. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, leiða að um viðkvæmar persónuupplýsingar í þeim skilningi geti verið að ræða. Slíkar upplýsingar verða því almennt ekki birtar án skýrrar lagaheimildar.

Stjórn Persónuverndar hefur rætt mál þetta á fundum sínum þann 3. mars 2011 og í dag. Það er hennar niðurstaða að birting stjórnvalds á slíkum lista sem hér um ræðir sé ekki æskileg í ljósi almennra sjónarmiða um vandaða stjórnsýslu, jafnvel þótt lagaheimildar nyti við. Í stað þess að stjórnvald auglýsi meinta lögbrjóta á vefsvæði sínu er að hennar mati eðlilegra að það beini slíkum málum til lögreglu. Rétt er að taka fram að öðru máli gegnir um birtingu rökstuddra stjórnvaldsákvarðana á vefsíðum stjórnvalda enda sé meðalhófs gætt og nöfn einstaklinga afmáð að því marki sem þarf í ljósi sjónarmiða um þagnarskyldu og einkalífsrétt. Að öðru leyti þarf slík birting að byggjast á lagaheimild.

3. Samantekt
Samkvæmt framansögðu telur Persónuvernd ekki æskilegt að birta lista yfir þá aðila sem veita leyfisskylda þjónustu samkvæmt lögunum án þess þó að hafa fengið tilskilin leyfi.



Var efnið hjálplegt? Nei