Úrlausnir

Tilmæli FME nr. 1/2010 ekki skuldbindandi um vinnslu persónuupplýsinga

4.5.2011

Mál vegna kvörtunar manns yfir því að þurfa að afhenda vinnuveitanda sínum upplýsingar um hlutafjáreign barna sinna og foreldra var fellt niður í kjölfar svars FME um að tilmæli þess nr. 1/2010 séu ekki skuldbindandi.

Ákvörðun


Hinn 7. apríl 2011 tók stjórn Persónuverndar svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2010/1216:

I.
Bréfaskipti og málavextir

1.
Kvörtun
Þann 31. desember 2010 barst Persónuvernd kvörtun P, starfsmanns Borgunar hf. Þar segir m.a.:

Fjármálaeftirlitið [FME] gerir þá kröfu að fjármálafyrirtæki hafi á hverjum tíma upplýsingar um aðila sem skilgreindir eru sem „venslaðir aðilar“. Miðað er við að stjórn, stjórnendur og lykilstarfsmenn í fjármálafyrirtækjum gefi upp ítarlega upplýsingar um hagi nánustu fjölskyldu. Stjórnendur fjármálafyrirtækis skuli í þessum tilgangi gefa upp fyrir börn sín og foreldra, hver er vinnuveitandi þeirra, hvort viðkomandi sitji í stjórn félaga og lista yfir félög sem viðkomandi á hlutafé í að því gefnu að hlutur viðkomandi sé 10% eða meira af útgefnu hlutafé í viðkomandi félagi.

Samkvæmt leiðbeinandi tilmælum 1/2010 frá FME er mér sem stjórnanda hjá Borgun hf. gert að óska upplýsinga frá vensluðum aðilum þar með talið nánustu fjölskyldu sem telst maki, börn og foreldri.

Ekki er hér gerð athugasemd við þá kröfu FME að veittar séu upplýsingar um hverjir teljist venslaðir aðilar, þ.e. hverjir teljist til nánustu fjölskyldu minnar. Ekki er heldur hægt að mótmæla kröfu FME um að ég gefi upp fyrir mig og maka minn (né ef um væri að ræða ófjárráða börn á framfæri mínu) upplýsingar um stjórnarsetur, störf og hlutafjáreign okkar.

Hins vegar er FME að krefja mig um ítarlegar persónuupplýsingar annara aðila í nánustu fjölskyldu minni. Þar með talið aðila sem ekki eru mér fjárhagslega tengdir. Krafist er upplýsinga um hlutafjáreign (yfir 10%) foreldra minna og barna (í mínu tilviki uppkominna barna) í öðrum félögum, en ég tel þessar upplýsingar þeirra einkamál og mér óviðkomandi. Þá krefur FME mig um upplýsingar um hjá hvaða vinnuveitendum þessir fjölskyldumeðlimir starfa ásamt starfsheiti og í hvaða stjórnum þeir sitja.


Jafnframt segir í kvörtuninni:

Ekki er hægt að lesa úr [... 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sem leiðbeinandi tilmæli 1/2010 eru byggð á] heimild FME til að krefja stjórnendur um jafn ítarlegar upplýsingar um nánustu fjölskyldumeðlimi og raun ber vitni. Verður því að álykta sem svo að FME sé á þunnum lagalegum grunni að túlka löggjöf sér í hag og setja fram tilmæli sem ganga mun lengra.“


2.
Bréfaskipti Persónuverndar
og Fjármáleftirlitsins

Persónuvernd sendi bréf til Fjármálaeftirlitsins (FME), dags. 6. janúar 2011, og óskaði upplýsinga um umrædd tilmæli 1/2010, m.a. hvort þau hefðu að geyma stjórnvaldsfyrirmæli eða ekki. FME svaraði með bréfi, dags. 20. janúar 2011. Þar segir m.a.:

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 er Fjármálaeftirlitinu heimilt að gefa út og birta opinberlega almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, enda varði málefnið hóp eftirlitsskyldra aðila. Leiðbeinandi tilmæli eru ekki lagalega bindandi á sama hátt og ákvæði reglugerða og reglna sem settar eru með sérstakri heimild í lögum.

Leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2010 um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, endurskoðun á leiðbeinandi tilmælum nr. 4/2006, voru sett til að auðvelda stjórnun fjármálafyrirtækja að meta hvað kveða skuli á um í starfsreglum stjórnar sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 (fftl.) um fjármálafyrirtæki. Tekið er fram í tilmælunum að ekki sé um tæmandi lýsingu á efni reglnanna að ræða heldur sé fjallað um tiltekin atriði sem hafa verið til sérstakrar umræðu í samskiptum stofnunarinnar við fjármálafyrirtæki.

Í tilmælunum kemur fram að í starfsreglum stjórna fjármálafyrirtækja skuli kveða skýrt á um það að í þeim tilvikum þegar stjórnarmenn taka ekki þátt í meðferð máls vegna hagsmunatengsla skuli þeir víkja af fundi og fá ekki aðgang að gögnum er varða afgreiðslu viðkomandi máls. Um þátttöku stjórnarmanna í meðferð mála er kveðið á um í 55. gr. fftl. en í 2. mgr. segir:

Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis skuli ekki taka þátt í meðferð máls ef mál varðar
1. viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í; eða
2. viðskipti samkeppnisaðila þeirra aðila sem ræðir um í 1. tölul.
Hið sama skal gilda um viðskipti aðila sem eru tengdir stjórnarmönnum persónulega eða fjárhagslega

Eins og kemur fram í tilmælunum skulu stjórnarmenn sjá til þess að hjá félaginu liggi skriflegar upplýsingar um þá aðila sem tengjast þeim hagsmunatengslum. Tilgangur þessa er m.a. sá að við boðun stjórnarfunda sé litið til þessa lista þannig að tryggt sé að vanhæfum stjórnarmönnum berist ekki gögn, t.d. vegna afgreiðslu máls, sem þeir ættu annars ekki að eiga aðgang að. Í tilmælunum kemur einnig fram að fjármálafyrirtæki skuli í starfsreglum sínum skilgreina þá viðskiptamenn sem flokkast undir það að vera venslaðir aðilar. Segir að þeir aðilar sem teljast til venslaðra aðila séu þeir aðilar sem eru í tengslum við fjármálafyrirtæki með þeim hætti að með fyrirgreiðslu fjármálafyrirtækisins til þeirra eða fyrirtækja þeim tengdum kunni að vakna spurningar um hagsmunaárekstra. Við mat á því hverjir teljast til venslaðra aðila sé mikilvægt að líta til þess hvort viðkomandi aðilar geti notið aðstöðu sinnar á einhvern hátt umfram aðra viðskiptamenn fjármálafyrirtækisins. Þvínæst er talið upp í dæmaskyni, og tekið fram að ekki sé um tæmandi talningu að ræða, í 4 töluliðum þeir aðilar sem Fjármálaeftirlitið telur vera venslaða aðila. Það eru m.a. nánir fjölskyldumeðlimir stjórnarmanna, stjórnenda og lykilstarfsmanna. Fram kemur að með nánum fjölskyldumeðlimum sé einkum átt við maka, börn og foreldra. Sú nálgun byggir m.a. á því að í a-lið 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. a. fftl. kemur fram að samstarf, og þar af leiðandi náin tengsl, séu talin vera til staðar þegar um eftirfarandi tengsl sé að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða: Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í staðfestri samvist eða skráðri sambúð. Foreldrar og börn teljast enn fremur aðilar í samstarfi. Fjármálaeftirlitið bendir þó á að umrædd tilmæli eru eingöngu til leiðbeiningar og ber hver og einn stjórnarmaður ábyrgð á því að upplýsa um venslaða aðila og gæta að hæfi sínu við afgreiðslu mála. Í því sambandi er þó rétt að fram komi að brot gegn 2. mgr. 54. gr. um starfsreglur stjórnar og 2. mgr. 55. gr. um þátttöku stjórnarmanna í meðferð mála eru alvarleg brot á fftl. en brot gegn ákvæðunum geta varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum sbr. 14. og 15. tölul. 1. mgr. 112. gr. b. fftl.

Það er hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit. Fjármálaeftirlitið verður því að tryggja að fullnægjandi reglur skv. lögum um fjármálafyrirtæki séu til staðar hjá fjármálafyrirtæki til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og að hvorki stjórnarmenn né aðilar þeim tengdir geti misnotað aðstöðu sína og hagnast umfram aðra viðskiptavini fjármálafyrirtækisins.

Eins og komið hefur fram eru leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2010 ekki bindandi fyrir fjármálafyrirtækin heldur hugsuð sem leiðbeiningar fyrir þá við gerð starfsreglna og beitingu þeirra. Það er ljóst að lagaskylda hvílir á stjórnarmönnum að taka ekki þátt í meðferð máls sem varðar viðskipti aðila sem eru tengdir stjórnarmönnum persónulega eða fjárhagslega. Leiðbeinandi tilmælin telja ekki upp með tæmandi hætti hvaða aðilar þetta geta verið enda verða stjórnarmennirnir að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort þeir eru vanhæfir til meðferðar máls. Fjármálaeftirlitið bendir á að samkvæmt framansögðu er vinnsla fjármálafyrirtækja á persónuupplýsingum nauðsynleg til að fullnægja þeirri lagaskyldu sem hvílir á stjórnum fjármálafyrirtækja að gæta þess að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis taki ekki þátt í meðferð máls ef það varðar venslaðan aðila. Vinnsla fjármálafyrirtækjanna uppfyllir því skilyrði 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga um persónuupplýsinga nr. 77/2000.

Tekið skal fram að Fjármálaeftirlitið skal staðfesta reglurnar sem stjórn fjármálafyrirtækisins ber að setja sér, skv. 2. mgr. 54. gr. laganna, en Fjármálaeftirlitið fær hins vegar ekki hinar persónugreinanlegu upplýsingar. Þær eru vistaðar hjá fjármálafyrirtækjunum sjálfum en fyrirtækjunum ber hins vegar að senda Fjármálaeftirlitinu hálfsárlega upplýsingar um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila eins og kemur fram í tilmælunum. Fjármálaeftirlitið telur því að umrædd vinnsla sé nauðsynleg vegna beitingar opinbers valds sem Fjármálaeftirlitið fer með og uppfylli því einnig skilyrði 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 7/2000.

Tilgangur 2. mgr. 55. gr. fftl. um þátttöku stjórnarmanna í meðferð mála er að efla trúverðugleika fjármálamarkaðarins og vernda hagsmuni viðskiptavina þessara fyrirtækja. Þá telur Fjármálaeftirlitið að umrædd vinnsla teljist nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna í samræmi við 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður vinnslan að teljast nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, þ.e. fyrirtækin, geti gætt lögmætra hagsmuna í samræmi við 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Að öllu framantöldu sögðu telur Fjármálaeftirlitið að tilmæli Fjármálaeftirlitsins um vinnslu umræddra persónuupplýsinga séu lögmæt. Fjármálaeftirlitið tekur hins vegar fram að það eru fjármálafyrirtækin sjálf sem teljast ábyrgðaraðilar í skilningi laganna og Fjármálaeftirlitið hefur ekki haft afskipti af því hvernig fyrirtækin geyma og fara með upplýsingarnar að öðru leyti en því sem fram hefur komið
.“

Hinn 22. febrúar 2011 sendi Persónuvernd annað bréf til Fjármálaeftirlitsins. Þar segir m.a.:

Að hálfu ábyrgðaraðila [Borgunar hf.] hefur verið vísað til þess að vinnslan byggist á leiðbeiningum FME. [...] FME hefur hins vegar sagt í bréfi sínu, dags. 20. janúar sl., að um leiðsögn sé að ræða en ekki stjórnvaldsfyrirmæli.
Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 getur vinnsla talist heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Með lagaskyldu er ekki aðeins átt við skyldu samkvæmt settum lögum heldur einnig skyldu sem leiðir af þeirri lagasetningu og kemur fram í reglugerðum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.
Af tilefni framangreindra orða í bréfi FME, dags. 20. janúar sl. er þess óskað að skýrt komi fram hvort

- a) tilmælin hafi að geyma skyldu í framangreindum skilningi 8. gr.

Sé svo ekki er óskað afstöðu FME til þess hvort

- b) skýra skuli 54. gr. laga nr. 161/2002 svo að til að virða ákvæðið þurfi fyrirtæki að safna upplýsingum um hlutafjáreign (yfir 10%) foreldra starfsmanna sinna og barna þeirra.


Fjármálaeftirlitið svaraði með bréfi, dags. 18. mars 2011. Þar segir m.a.:

„Fjármálaeftirlitið [FME] óskar eftir að taka fram að fyrra svar [FME] var eftir á að hyggja ekki nægilega skýrt varðandi afstöðu stofnunarinnar til framangreindra atriða og hér er beðist velvirðingar á því.

Varðandi fyrri spurningu Persónuverndar þá ítrekar [FME] það sem fram kom í bréfi stofnunarinnar frá 20. janúar sl. að leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2010 hafa ekki að geyma lagaskyldu í skilningi 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 heldur eru slík tilmæli hugsuð sem leiðbeiningar fyrir eftirlitsskylda aðila um það hvernig þeim beri að uppfylla þær lagaskydur sem á þeim hvíla. Í slíkum tilmælum kemur fram túlkun stofnunarinnar á viðkomandi lagaákvæðum til að auðvelda fyrirtækjunum að fylgja ákvæðum laganna.

Varðandi seinni spurningu Persónuverndar þá lítur [FME] ekki svo á að 54. gr. laga nr. 161/2002 skyldi fyrirtæki til að safna upplýsingum um hlutafjáreign (yfir 10%) foreldra starfsmanna sinna og barna þeirra. Þessi krafa kemur heldur ekki fram í tilmælunum sjálfum. [FME] hefur því endurskoðað fyrri afstöðu sína sem birtist í tölvupóstsamskiptum við forstöðumann hjá Borgun.

Í tilmælunum kemur fram að ætlast er til þess að fjármálafyrirtæki haldi utan um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og að þau leggi fyrir innri endurskoðanda að fara með reglubundnum hætti yfir þær. Þá óskar FME jafnframt eftir því að fjármálafyrirtæki leggi fyrir ytri endurskoðanda að fara yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og geta um það í skýrslu sinni sem send skal [FME] með reglulegum hætti. Eins og segir í tilmælunum er tilgangur þess m.a. að efla trúverðugleika með því að staðreyna að eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir séu viðhafðir í starfsemi fjármálafyrirtækja en skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi skal [FME] fylgjast með að starfsemi eftirlitsskylda aðila sé í samræmi við þá. Í tilmælum [FME] felst hins vegar ekki að fyrirtækin þurfi að safna upplýsingum um hlutafjáreign foreldra starfsmanna sinna og barna þeirra. Fyrirtækin þurfa hins vegar vissulega að vera upplýst um það, þegar fyrirgreiðsla er veitt, hvort hún er til venslaðs aðila eða ekki sbr. framangreint. Benda má að í tilmælunum er ekki tæmandi talið hverjir teljast vera venslaðir aðilar og því þurfa fyrirtækin að taka sjálfstætt afstöðu til þess hvort til þeirra teljist vera fleiri aðilar en fram koma í tilmælunum.“

3.
Bréfaskipti Persónuverndar og ábyrgðaraðila vinnslu,
Borgunar hf.

Með bréfi dags. 3 febrúar 2011 kynnti Persónuvernd umrædda kvörtun fyrir ábyrgðaraðila, Borgun hf., og gaf honum kost á andmælum. Í bréfinu var óskað svara frá Borgun hf. um hvaða heimild (sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000) félagið teldi standa til þeirrar vinnslu sem kvartað væri yfir - þ.e. til vinnslu upplýsinga um hlutafjáreign (yfir 10%) foreldra og barna kvartanda. Tekið var fram að ekki lægi fyrir að hann teldist til stjórnarmanna. Borgun hf. svaraði með bréfi, dags. 21. febrúar 2011. Þar segir m.a.:

„Borgun hf. byggir umrædda vinnslu á tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2010. Í b) lið III. kafla áðurnefndra tilmæla er kveðið á um skyldu fjármálafyrirtækis til að leggja fyrir ytri endurskoðanda að fara reglulega yfir fyrirgreiðslu til venslaðra aðila. Skýrslu ytri endurskoðanda skal senda Fjármálaeftirliti eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Úttekt ytri endurskoðanda byggir á skrá félagsins yfir venslaða aðila, umfang skráar byggir á neðangreindum skilgreiningum Fjármálaeftirlits.

Í III. kafla b) liðar tilmæla nr. 1/2010 kemur fram að Fjármálaeftirlitið telji venslaða aðila m.a. vera:

1) Aðal- og varamenn í stjórn, stjórnendur, lykilstarfsmenn og nánir fjölskyldumeðlimir þessara aðila.
2) Fyrirtæki sem aðilar í 1) eiga a.m.k. 10% hlut í, starfa hjá eða gegna stjórnunarstöðum fyrir.

Í kaflanum kemur einnig fram að með nánum fjölskyldumeðlimum sé einkum átt við maka, börn og foreldra.

Borgun hf. hefur um nokkurra ára skeið óskað upplýsinga frá stjórnarmönnum og stjórnendum (forstjóra og forstöðumönnum) um hverjir væru makar, foreldrar og börn þeirra. Félagið hefur notað upplýsingar sem hluta af skrá um venslaða aðila þ.e. geymt upplýsingar um nöfn aðila og kennitölur.

Í úttekt innri endurskoðanda haustið 2010 var gerð athugasemd við að skrá félagsins um venslaða aðila væri ekki í samræmi við kröfur Fjármálaeftirlitsins. Í skránna vantaði upplýsingar um störf, stjórnarsetu og hlutafjáreign stjórnarmanna, stjórnenda og náinna fjölskyldumeðlima þeirra. Borgun hf. þótti rétt að fá staðfestingu á skyldum félagsins áður en skrá um venslaða aðila væri breytt með svo umfangsmiklum hætti. Að því tilefni sendi félagið fyrirspurn á Fjármálaeftirlitið um skyldu til upplýsingaöflunar, sjá meðfylgjandi afrit tölvupóstsamskipta. Af svari Fjármálaeftirlitsins getur Borgun hf. ekki skilið skyldur sínar með öðrum hætti en svo að félaginu beri að halda skrá um hlutafjáreign nánustu fjölskyldumeðlima stjórnenda félagsins, þar með talið skv. skilgreiningu Fjármálaeftirlitsins, maka og barna.“

Með framangreindu bréfi Borgunar hf. fylgdu tölvupóstsamskipti Borgunar hf. og FME varðandi framangreint álitaefni. Í tölvubréfi Borgunar hf., dags. 18. október 2010 segir m.a.:

„Þannig er mál með vexti að við erum að endurskoða starfsreglur stjórnar m.a. með tilliti til leiðbeinandi tilmæla nr. 1/2010. Í tengslum við það er ég örlítið að velta fyrir mér hversu miklar upplýsingar við þurfum að eiga um fjölskyldur stjórnarmanna, stjórnenda og lykilstarfsmanna.

[...] hvort einnig er nauðsynlegt að safna upplýsingum um:

a) Félög sem nánustu fjölskyldumeðlimir stjórnarmanna, stjórnenda og lykilstarfsmanna eiga yfir 10% hlut í
b) Félög sem nánustu fjölskyldumeðlimir stjórnarmanna, stjórnenda, lykilstarfsmanna starfa hjá eða gegna stjórnarmennsku fyrir.

Og ef svo er hversu langt slík upplýsingaöflun á að ná?:

a) Við höfum skilgreint maka, börn og foreldra sem nánustu fjölskyldu. Köllum við eftir upplýsingum um hlutabréfaeign og störf allra þessara aðila eða e.t.v. einungis þeirra sem geta talist vera með tengdan fjárhag eða á forræði þeirra?
b) Köllum við eftir upplýsingum um vinnuveitendur allra þeirra aðila sem við teljum til nánustu fjölskyldu?
c) Hefur það áhrif á vensl hvaða stöðu er gegnt innan félags, þ.e. eru gerðar einhverjar lágmarkskröfur um að viðkomandi hafi áhrif á daglegan rekstur eða verða allir vinnuveitendur sjálfkrafa venslaðir aðilar?
.“

Í tölvubréfi FME, dags. 26. nóvember 2010 er framangreindum spurningum Borgunar svarað. Þar segir m.a.:

„Hvað varðar lið a og b er svarið já. Á grundvelli 4. tl. í b. hluta III. kafla í leiðbeinandi tilmælum nr. 1/2010 skal m.a. afla upplýsinga um fyrirtæki sem nánustu fjölskyldumeðlimir (maki, börn og foreldrar) stjórnarmanna, stjórnenda og lykilstarfsmanna eiga a.mk. 10% hlut í, starfa hjá eða gegna stjórnunarstöðum fyrir.
Varðandi a lið um upplýsingaöflun um hlutabréfaeign skal afla viðeigandi upplýsinga um alla þessa aðila, ekki einungis þá sem talist geta verið með tengdan fjárhag eða á forræði þeirra. Kallað skal eftir upplýsingum um vinnuveitendur allra þeirra aðila sem teljast til nánustu fjölskyldu.

Hvað varðar c. lið um lágmarkskröfur þá er það háð mati fjármálafyrirtækisins hverju sinni. Almennt séð skal tilgreina alla venslaða aðila en þegar litlar líkur eru á að störf viðkomandi geti vakið upp spurningar um hagsmunaárekstra þá blasir við að ekki þurfi að tilgreina slíka vinnuveitendur.“


Hinn 24. mars 2011 sendi Persónuvernd Borgun hf. afrit af framangreindu bréfi FME, dags. 22. sama mánaðar. Þar vakti Persónuvernd athygli á þeirri afstöðu FME að leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2010 hafi ekki að geyma lagaskyldu í skilningi 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 og að 54. gr. laga nr. 161/2002 legði ekki þá skyldu á fyrirtæki að safna upplýsingum um hlutafjáreign (yfir 10%) foreldra starfsmanna sinna og barna þeirra. Var viðbragða óskað.

Borgun hf. svaraði með bréfi dags. 30. mars. 2011. Þar segir m.a.:

„Í ljósi staðfestingar Fjármálaeftirlits á því að félaginu beri ekki skylda til að vinna upplýsingar um hlutafjáreign (yfir 10%) barna og foreldra stjórnenda og lykilstarfsmanna hjá Borgun hf. verður fallið frá frekari upplýsingaöflun um þessi atriði. Upplýsingum sem þegar hafa verið veittar verður eytt með tryggilegum hætti. Aðilar sem kallað hefur verið eftir upplýsingum frá verða upplýstir um afturköllun beiðni.“

Kvartanda var kynnt framangreint með bréfi 30. mars 2011 og tekið fram að ekki lægi fyrir hvort hann liti svo á að enn væri til staðar ágreiningur um framangreinda vinnslu. Tekið var fram að bærust engin svör frá honum fyrir 7. apríl mætti vænta þess að málið yrði látið niður falla. Engin svör bárust.

II.
Ákvörðun

Efni tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2010 lúta m.a. annars að því að greina hverjir teljist venslaðir aðilar og hvar upp geti komið hagsmunaárekstrar sem taka þarf á með starfsreglum fjármálafyrirtækis sem setja skal á grundvelli 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002. Ekki verður annað séð en að tilmælin samrýmist þeim málefnalegu markmiðum sem stefnt er að með því lagaákvæði. Álitaefnið í máli þessu lýtur hins vegar að því að hvorki eru til staðar skýrar heimildir í lögum nr. 161/2002 eða öðrum lögum til þess að knýja foreldra og fjárráða börn starfsmanns fjármálafyrirtækis gegn vilja þeirra til að veita upplýsingar um fjármál sín til fjármálafyrirtækis. Með vísun til bréfs Borgunar hf., dags. 30. mars 2011, þar sem fram kemur að ekki er lengur krafist hinna umdeildu upplýsinga hefur Persónuvernd ákveðið að láta mál þetta niður falla.


Var efnið hjálplegt? Nei